Sprengidagur er þriðjudagurinn í sömu viku. Líklegt er að kjötátið sem tengist þessum degi eigi rætur að rekja til katólsku. Fasta katólskra byrjar einmitt daginn eftir og þá borða þeir ekki kjöt svo sem kunnugt er. Íslenska heitið, sprengidagur, er þekkt frá átjándu öld. Það tengist sjálfsagt kappsfullu áti í huga margra en líklegt er að sú hugmynd sé alþýðuskýring. Hitt er líklegra að nafnið beri að rekja til þeirrar katólsku venju að stökkva vatni á kirkjugesti þennan dag. Dagar sem slíkur siður fylgir heita á þýsku "Sprengtag" og hefði það heiti getað borist til Íslands með þýskum biskupum eða kaupmönnum á síðmiðöldum.
Öskudagur er miðvikudagurinn í sjöundu viku fyrir páska. Þá hefst langafasta í katólskum sið og stendur allt til páskadags. Heiti dagsins er dregið af því að þá var ösku dreift yfir höfuð iðrandi gesta í katólskum kirkjum. Nafnið er þekkt frá miðri fjórtándu öld en gæti verið nokkru eldra.
Spurninguna má einnig skilja á þann veg að átt sé við það hvenær hver dagur um sig fellur aftur á sama mánaðardag. Þar sem þessir þrír dagar ákvarðast einrætt af páskadegi er þetta sama og að spyrja hve oft páskar falla á sama dag. Því er til að svara að páskadag getur borið upp á hvaða mánaðardag sem er á bilinu frá 22. mars til 25. apríl, en hann færist óreglulega milli ára innan þessa tímabils sem tekur yfir 35 daga. En að meðaltali líða 35 ár frá því að páskadagur hefur verið á tilteknum degi þar til hann gerir það næst.
Um tímasetningu páska má lesa nánar á vefsíðu Almanaks Háskólans og á ýmsum erlendum vefsetrum sem koma fram til dæmis ef orðin "Easter Day date" eru sett inn í leitarvél.
Heimild:
Árni Björnsson, Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 1993, bls. 534-586.