Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 18:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:24 • Sest 09:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:32 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:29 • Síðdegis: 14:44 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hver var fyrsti prentarinn á Íslandi?

Einar G. Pétursson

Elsta kunna heimildin um prentun á íslensku er í „Rechnungsbuch der Sunte Annen Broderschop der Islandsfahrer in Hamburg“ fyrir árið 1530. Ekki er upphæðin há og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, sem rak augun í klausuna sagði:
Af því að ekkert er getið um efni textans, þykir mér sennilegast, að hér sé um að ræða eins konar tilraun til prentunar á íslenzku og sé hún gerð að undirlagi Íslendinga, sem hafa haft í hyggju að stofna prentverk á Íslandi.1
Hvort sem hér er vísun til prentunar bókar á íslensku eða á Íslandi, er heimildin eldri en nokkur önnur sem enn er kunn. Hugsanlegt er að tengja þetta við prentarann Jón Matthíasson, sem yrði þá til að styrkja, að prentun hafi hafist hér um 1530 eða fyrr.

Jón Matthíasson sænski.

Allar heimildir eru samsaga um, að Jón biskup Arason hafi fyrstur manna flutt prentsmiðju til Íslands, en ekki er ljóst hvaða ár það var. Einnig segja allir, að prentarinn hafi heitið Jón Matthíasson eða Mattheusson og verið kallaður hinn sænski. Elsta heimild um prentsmiðju Jóns Arasonar er í íslensku handriti frá seinni hluta 16. aldar í Uppsölum í Svíþjóð, DG. 9, bl. 11v:
Þá biskup Jón Arason hafði ríkt á stóli sínum, Hólum, 5 eða 6 ár, þá lét hann fyrstur allra manna innkoma prentverk á Ísland ...

Ekki hafa menn orðið á eitt sáttir um hvernig þetta beri að skilja. Jón Arason fékk umráð yfir Hólastól 1520, var kjörinn biskup 1522, vígður 1524 og kom til stóls 1525. Klemens Jónsson skildi þetta svo, að prentsmiðjan hefði komið fimm eða sex árum eftir að Jón biskup kom til stóls „(þ. e. 1530–1531)“ og við fyrra ártalið miðaðist bók hans2, sem gefin var út í tilefni af 400 ára afmæli prentlistar hérlendis og kom út á afmælisárinu, 1930. Þorkell Jóhannesson taldi aftur á móti og vísaði þar til samtíma kvæða, að prentsmiðjan hefði komið 1525 eða 1526.3 Áður en fyrrnefnd klausa í Uppsalahandritinu kom í leitirnar hafði Páll Eggert Ólason fjallað um upphaf prentverks á Íslandi og komist að þeirri niðurstöðu, að það hefði komið 1534, en fyrsta bók prentuð 1535 eða 6.4 Á grundvelli klausunnar skipti Páll síðar um skoðun og taldi líklegast, að prentverk hefði komið hingað 1529–30.5 Er það í samræmi við ártal Klemensar, sem hefur verið talið afmælisár í íslenskri prentsögu og virðist nálægt lagi.

Þar sem ekki er full vissa fyrir því hvenær prentsmiðjan kom til landsins er ekki heldur vitað hvenær prentarinn Jón Matthíasson kom. Ungar sagnir herma, að Jón sænski hafi flúið úr Svíþjóð af því að hann vildi ekki aðhyllast kenningar Lúthers, sem þar komust á um 1527. Heldur þykir það ólíklegt, því að hann varð hér síðar lútherskur prestur. Ekki er vitað um aldur hans, en Páll Eggert Ólason giskaði á, að hann hefði verið „fæddur nálægt 1500“.6 Öruggt er að Jón kemur fyrst við bréf, og er þá titlaður prestur, 17. okt. 1535 og aftur 6. maí 1536 (DI. IX. nr. 619, nr. 634). Ekki er ástæða til, eins og Páll Eggert gerði, að telja að hann sé þá nýlega kominn til landsins.


Guðbrandsbiblía.

Jón Matthíasson hefur upphaflega stundað prentverk sitt á Hólum, en um 1535 fær hann Breiðabólstað í Vesturhópi, vildarbrauð sem erkibiskup veitti. Jón lét af embætti 1566 og dó árið eftir. Hann kvæntist Helgu Jónsdóttur, sem enn var á lífi 30. júní 1594. Sonur þeirra Jón var lengi prentari á Hólum. Við prestsembættinu á Breiðabólstað eftir Jón Matthíasson sænska tók Guðbrandur Þorláksson, síðar Hólabiskup, ein skærasta stjarnan í íslenskri prentsögu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Aftanmálsgreinar:
 1. Björn Þorsteinsson. ‘Elzta heimild um prentun á íslenzku.’ Saga. 3 (1960). s. 96–97.
 2. Klemens Jónsson. Fjögur hundruð ára saga prentlistarinnar á Íslandi. Rv. 1930. s. 4.
 3. Þorkell Jóhannesson. ‘Prentlistin kemur til Íslands.’ Lýðir og landshagir. I. Rv. 1965. s. 96–98. Greinin var áður prentuð í Prentlistin fimm hundruð ára. Rv. 1941.
 4. Páll Eggert Ólason. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I. Rv. 1919. s. 394–414, einkum s. 402.
 5. Páll Eggert Ólason. Sextánda öld. Rv. 1944. s. 283 og 328. (Saga Íslendinga, IV.)
 6. Páll Eggert Ólason. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I. Rv. 1919. s. 396 og tilvísanir þar.

Myndir:

Höfundur

rannsóknarprófessor á Árnastofnun

Útgáfudagur

16.5.2003

Spyrjandi

Hrefna Rós Helgadóttir, f. 1991

Tilvísun

Einar G. Pétursson. „Hver var fyrsti prentarinn á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 16. maí 2003. Sótt 28. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3423.

Einar G. Pétursson. (2003, 16. maí). Hver var fyrsti prentarinn á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3423

Einar G. Pétursson. „Hver var fyrsti prentarinn á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 16. maí. 2003. Vefsíða. 28. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3423>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var fyrsti prentarinn á Íslandi?
Elsta kunna heimildin um prentun á íslensku er í „Rechnungsbuch der Sunte Annen Broderschop der Islandsfahrer in Hamburg“ fyrir árið 1530. Ekki er upphæðin há og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, sem rak augun í klausuna sagði:

Af því að ekkert er getið um efni textans, þykir mér sennilegast, að hér sé um að ræða eins konar tilraun til prentunar á íslenzku og sé hún gerð að undirlagi Íslendinga, sem hafa haft í hyggju að stofna prentverk á Íslandi.1
Hvort sem hér er vísun til prentunar bókar á íslensku eða á Íslandi, er heimildin eldri en nokkur önnur sem enn er kunn. Hugsanlegt er að tengja þetta við prentarann Jón Matthíasson, sem yrði þá til að styrkja, að prentun hafi hafist hér um 1530 eða fyrr.

Jón Matthíasson sænski.

Allar heimildir eru samsaga um, að Jón biskup Arason hafi fyrstur manna flutt prentsmiðju til Íslands, en ekki er ljóst hvaða ár það var. Einnig segja allir, að prentarinn hafi heitið Jón Matthíasson eða Mattheusson og verið kallaður hinn sænski. Elsta heimild um prentsmiðju Jóns Arasonar er í íslensku handriti frá seinni hluta 16. aldar í Uppsölum í Svíþjóð, DG. 9, bl. 11v:
Þá biskup Jón Arason hafði ríkt á stóli sínum, Hólum, 5 eða 6 ár, þá lét hann fyrstur allra manna innkoma prentverk á Ísland ...

Ekki hafa menn orðið á eitt sáttir um hvernig þetta beri að skilja. Jón Arason fékk umráð yfir Hólastól 1520, var kjörinn biskup 1522, vígður 1524 og kom til stóls 1525. Klemens Jónsson skildi þetta svo, að prentsmiðjan hefði komið fimm eða sex árum eftir að Jón biskup kom til stóls „(þ. e. 1530–1531)“ og við fyrra ártalið miðaðist bók hans2, sem gefin var út í tilefni af 400 ára afmæli prentlistar hérlendis og kom út á afmælisárinu, 1930. Þorkell Jóhannesson taldi aftur á móti og vísaði þar til samtíma kvæða, að prentsmiðjan hefði komið 1525 eða 1526.3 Áður en fyrrnefnd klausa í Uppsalahandritinu kom í leitirnar hafði Páll Eggert Ólason fjallað um upphaf prentverks á Íslandi og komist að þeirri niðurstöðu, að það hefði komið 1534, en fyrsta bók prentuð 1535 eða 6.4 Á grundvelli klausunnar skipti Páll síðar um skoðun og taldi líklegast, að prentverk hefði komið hingað 1529–30.5 Er það í samræmi við ártal Klemensar, sem hefur verið talið afmælisár í íslenskri prentsögu og virðist nálægt lagi.

Þar sem ekki er full vissa fyrir því hvenær prentsmiðjan kom til landsins er ekki heldur vitað hvenær prentarinn Jón Matthíasson kom. Ungar sagnir herma, að Jón sænski hafi flúið úr Svíþjóð af því að hann vildi ekki aðhyllast kenningar Lúthers, sem þar komust á um 1527. Heldur þykir það ólíklegt, því að hann varð hér síðar lútherskur prestur. Ekki er vitað um aldur hans, en Páll Eggert Ólason giskaði á, að hann hefði verið „fæddur nálægt 1500“.6 Öruggt er að Jón kemur fyrst við bréf, og er þá titlaður prestur, 17. okt. 1535 og aftur 6. maí 1536 (DI. IX. nr. 619, nr. 634). Ekki er ástæða til, eins og Páll Eggert gerði, að telja að hann sé þá nýlega kominn til landsins.


Guðbrandsbiblía.

Jón Matthíasson hefur upphaflega stundað prentverk sitt á Hólum, en um 1535 fær hann Breiðabólstað í Vesturhópi, vildarbrauð sem erkibiskup veitti. Jón lét af embætti 1566 og dó árið eftir. Hann kvæntist Helgu Jónsdóttur, sem enn var á lífi 30. júní 1594. Sonur þeirra Jón var lengi prentari á Hólum. Við prestsembættinu á Breiðabólstað eftir Jón Matthíasson sænska tók Guðbrandur Þorláksson, síðar Hólabiskup, ein skærasta stjarnan í íslenskri prentsögu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Aftanmálsgreinar:
 1. Björn Þorsteinsson. ‘Elzta heimild um prentun á íslenzku.’ Saga. 3 (1960). s. 96–97.
 2. Klemens Jónsson. Fjögur hundruð ára saga prentlistarinnar á Íslandi. Rv. 1930. s. 4.
 3. Þorkell Jóhannesson. ‘Prentlistin kemur til Íslands.’ Lýðir og landshagir. I. Rv. 1965. s. 96–98. Greinin var áður prentuð í Prentlistin fimm hundruð ára. Rv. 1941.
 4. Páll Eggert Ólason. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I. Rv. 1919. s. 394–414, einkum s. 402.
 5. Páll Eggert Ólason. Sextánda öld. Rv. 1944. s. 283 og 328. (Saga Íslendinga, IV.)
 6. Páll Eggert Ólason. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I. Rv. 1919. s. 396 og tilvísanir þar.

Myndir:...