Hvers vegna borða sumar grænmetisætur ekki venjulegt brauð og af hverju drekka þær ekki mjólk og borða ost?Eins og fram kemur í svari Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur við spurningunni Fá grænmetisætur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast? eru til nokkrar "tegundir" af grænmetisætum. Þær sem nefnast "vegan" á ensku neyta engra dýraafurða. Það þýðir auðvitað að viðkomandi fólk lætur hvorki ofan í sig mjólk, ost né aðrar mjólkurafurðir og ekki heldur egg. Stundum eru egg eða mjólkurafurðir í brauði og þar með er slíkt brauð útilokað. Nákvæmar ástæður fyrir því að fólk velur sér þetta mataræði geta verið misjafnar; meðal annars telur sumt fólk að dýraafurðir séu einfaldlega ekki hollar fyrir okkur mannfólkið. Einnig má benda á að margar grænmetisætur hafa valið mataræði sitt af hugsjónaástæðum vegna andúðar á dýradrápi. Þannig þekkist það að grænmetisætur sem þó neyta mjólkur og eggja hafna osti sem hefur verið hleyptur með efni sem unnið er úr nautgripamögum. Þetta fólk hafnar einnig fjöldaframleiddu brauði og ýmsu öðru sem inniheldur mysuduft, en mysa er það sem rennur af ostinum þegar hann er hleyptur og þannig geta kúamagarnir átt þátt í tilurð hennar. Með öðrum orðum má segja að þessar grænmetisætur hafni allri fæðu sem líklegt þykir að sé á einhvern hátt tilkomin vegna dýraslátrunar. Sama fólk reynir líka að sneiða hjá skóm og öðru sem búið er til úr leðri og einnig afurðum sem innihalda gelatín en það er oft unnið úr beinum dýra. Sumstaðar má raunar kaupa sérstakan ost sem hleyptur er með "dýrvænum" efnum. Enn má svo nefna að fólk getur hafnað mjólkur- og eggjaneyslu af hugsjónaástæðum vegna illrar meðferðar á mjólkurkúm og varphænsnum. Víða um heim eru rekin stór verksmiðjubú og mörgum blöskrar meðferðin sem skepnurnar hljóta þar. Af þeim ástæðum sneiðir fólk ef til vill hjá eggjum og mjólkurafurðum sem framleiddar eru við slíkar aðstæður. Jafnframt eru komnar á markaðinn vörur sem eru sérmerktar með tilliti til þess að dýrin sem koma við sögu hafi ekki sætt þessari meðferð. Að lokum má minna á að fjöldi fólks sneiðir hjá mjólkurafurðum án þess að grænmetisát komi þar sérstaklega við sögu, einfaldlega vegna þess að það þolir þær illa. Eins og kemur fram í svari Björns Sigurðar Gunnarssonar við spurningunni Eru mjólkurvörur nauðsynlegar fyrir mannfólkið, þegar önnur spendýr hætta að neyta þeirra um leið og þau hætta á spena? eru 70% mannkyns haldin mjólkursykuróþoli á fullorðinsaldri og geta því ekki (eða helst ekki) neytt mjólkurafurða.
Hvers vegna hafna sumar grænmetisætur mjólkurafurðum?
Útgáfudagur
25.5.2003
Spyrjandi
Guðríður Björk Guðlaugsdóttir, f. 1985
Tilvísun
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvers vegna hafna sumar grænmetisætur mjólkurafurðum?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2003, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3448.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 25. maí). Hvers vegna hafna sumar grænmetisætur mjólkurafurðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3448
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvers vegna hafna sumar grænmetisætur mjólkurafurðum?“ Vísindavefurinn. 25. maí. 2003. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3448>.