Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er uppruni fermingarinnar?

Pétur Pétursson

Fermingin er eins konar ungmennavígsla og sem slík er hún sennilega jafn gömul mannlegu samfélagi. Félagshópar, fjölskyldur og þjóðfélög aðgreina stöðu og hlutverk einstaklinga á margvíslegan hátt með siðum og venjum til þess að tryggja félagslega reglu og samhæfða verkaskiptingu. Unglingavígslan tengist kynþroskatímabilinu og táknar það að einstaklingurinn er ekki lengur barn heldur ungmenni sem mætir í alvöru viðfangsefnum hinna fullorðnu og öðlast bæði réttindi og skyldur. Það er eins og það sé innbyggt í samfélög manna að þessi tímamót verði eftirminnileg. Alvaran sem fylgir vígslunum undirstrikar félagslegt mikilvægi þeirra en þeim fylgir einnig hátíð og samfagnaður sem fjölskyldan og samfélagið sem slíkt á aðild að. Í samfélögum þar sem einhæf verkaskipting ríkir er vígsluatferlið (fr. rites de passage) auðþekkt og vel skilgreint og í samfélögum þar sem miklar breytingar eiga sér stað getur það þróast og fengið nýtt hlutverk.

Upphaflega var fermingin ekki aðgreind frá skírninni sem vígsla inn í söfnuð Krists enda fól hún í sér bæði andlega hreinsun í vígðu vatni og gjöf heilags anda sem biskupum einum var treyst fyrir að miðla. Þegar ferming er aðgreind frá skírn er vitnað til þess sem segir í Postulasögunni (8.14-17) þegar postularnir Pétur og Jóhannes fóru frá Jerúsalem til Samaríu að biðjast fyrir og leggja hendur yfir trúaða svo þeir fengju heilagan anda. Áður höfðu þeir þó verið skírðir en heilagur andi hafði ekki komið yfir þá. Biskupinn blessar barnið og smyr það vígðri olíu eða ilmsmyrslum sem tákn um velþóknan heilags anda. Þar sem kristinn siður festi rætur varð ungabarnaskírn algengust og oft meginreglan og var hún framkvæmd á fyrstu dögum eftir fæðingu barnsins. Handayfirlagning biskups varð því oft að bíða af praktískum ástæðum, þó ekki lengur en þangað til barnið var 12 ára.

Við skírnarathöfnina (eða ferminguna) fær barnið nafn og fjölskyldan og samfélagið tekur á móti því með opinberum hætti. Minnt er á skyldur varðandi uppeldi barnsins og hlutverk foreldra og safnaðar í því sambandi. Smám saman tengdist fermingin altarissakramentinu og prófun þekkingar í kristnum fræðum sem foreldrar og guðfeðgin gengust í ábyrgð fyrir. Á 12. öld varð ferming (staðfesting, styrking) aðgreind frá skírninni sem sérstakt sakramenti.

Þegar Marteinn Lúther og aðrir siðbótarmenn á 16. öld endurskipulögðu kirkjuna afnumu þeir ferminguna sem sérstakt sakramenti því þeir töldu hana skyggja á skírnina sem fullkomna leið til samfélagsins við Guð. Hins vegar vildu þeir efla trúrækni og helgihald barna og unglinga og notuðu tækifærið til að tengja uppfræðslu í kristinni trú við undirbúning undir fermingarathöfn og meðtöku heilags kvöldmáltíðarsakramentis við guðsþjónustu í söfnuðinum. Marteinn Lúther samdi Fræðin minni til þess að auðvelda fræðslu í grundvallaratriðum kristinnar trúar. Áður höfðu prestar kannað kunnáttu sóknarbarna sinna með samtölum um synd og fyrirgefningu áður en gengið var til altaris. Í lútherskum sið varð það að venju að unglingar gengju ekki til altaris fyrr en við fermingarathöfnina eða strax að henni lokinni og er svo enn hér á landi. Þó eru undantekningar þar á.

Þegar heittrúarstefnan náði undirtökum í lútherskum söfnuðum í upphafi 18. aldar vaknaði áhugi á því að allir ættu þess kost að tileinka sér sannindi trúarinnar með lestri Biblíunnar og annarra trúarrita. Menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að hver og einn tileinkuðu sér trúna á persónulegan hátt. Til viðbótar Fræðunum minni voru samin aðgengileg trúfræðileg skýringarit, kver. Áhugi yfirvalda á því að setja ákveðnar og strangar reglur um uppeldi og aga tengdist viðleitni þeirri til að þjappa sem mestum völdum í hendur konungs og stjórnar hans. Nákvæmar reglur voru settar um fermingu og fræðslu sem urðu síðarmeir grunnurinn að alþýðufræðslu og almennu skyldunámi. Áður hafði Guðbrandur biskup Þorláksson innleitt fermingarathöfn að nýju í Hólabiskupsdæmi og lá þar að baki áhugi hans á eflingu trúfræðslu og trúarlegs uppeldis.

Börnin áttu að lesa fræði Lúthers og fermast 12-13 ára að aldri. Fræðslan var undir eftirliti presta en á ábyrgð foreldra og húsbænda. Næsta skref var að skylda presta til að sjá svo um að öll börn sem fermd væru gætu sjálf lesið heilagt Guðsorð. Til viðbótar við lestur komu ákvæði sem skylduðu presta til að sjá svo um að börnin lærðu að skrifa og reikna áður en þau fermdust. Ýmis borgaraleg réttindi, svo sem hjónavígsla, voru háð því að viðkomandi væri fermdur.

Á seinni hluta 19. aldar var farið að ráða svonefnda farkennara sem ferðuðust um og kenndu börnunum í sveitinni það sem krafist var til fermingar. Þessir kennarar störfuðu á ábyrgð og í umboði presta og sóknarnefnda. Á Íslandi voru fáir skólar þar til skólaskyldu var komið á árið 1907 og voru prestar jafnan í forystu þeirra sem frumkvæði höfðu og ábyrgð á skólafræðslu.

Árið 1946 var ákveðið með nýjum fræðslulögum að aðgreina trúfræðslu kirkjunnar, kverkennsluna, frá kristinfræði skólanna. Þar með voru prestar leystir undan þeirri formlegu skyldu að hafa eftirlit með alþýðufræðslu. Börnin héldu áfram að ganga til prestsins á 14 árinu og fá þar fræðslu um játningar og trúfræði kirkjunnar en barnaskólarnir kenndu aðallega biblíusögur. Kennsluaðferð presta var víðast hvar á gömlum merg sem var að spyrja börnin út úr atriðum kveralærdómsins og því var þetta kallað að ganga til spurninga. Á seinustu áratugum hefur fermingarfræðsla kirkjunnar leitast við að efla með unglingunum tilfinningu fyrir helgi mannlífsins og mikilvægi kristinnar lífskoðunar fyrir nútímamanninn.

Þrátt fyrir það að margir hafi farið að líta á unglingapróf og stúdentspróf sem eins konar unglingavígslur halda íslenskar fjölskyldur ferminguna enn í heiðri. Um 95% 14 ára unglinga eru fermd og margir foreldrar leggja mikið upp úr því að halda veglegar fjölskylduhátíðir í tilefni ferminga. Í nútíma þjóðfélagi eru verkefni borgaranna margbreytileg, flókin og sérhæfð og unglingar búa sig undir ævistarf með margra ára skólagöngu. Því má kannski segja að fermingin sé eins konar fyrrihlutapróf út í heim hinna fullorðnu. Seinni hlutinn getur verið með ýmsu móti. Oft er hann tekinn með því að mennta sig fyrir ákveðið starf og undirbúa stofnun heimilis.

Heimildir:

Bjarni Sigurðsson 1992: „Ferming í fjórar aldir“ Ritröð Guðfræðistofnunar. 6. Reykjavík. Háskóli Íslands.

Gunnar F. Guðmundsson 2000: Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík. Alþingi.

Hjalti Hugason 1988: „Kristnir trúarhættir.“ Íslensk þjóðmenning. V. Frosti F. Jóhannssson (ritstj.) Reykjavík. Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Pétur Pétursson 1988: Hann varðveiti þig. Könnun á fermingarstörfum þjóðkirkjunnar. Reykjavík. Fermingastarfanefnd þjóðkirkjunnar.

Höfundur

Pétur Pétursson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

26.5.2003

Spyrjandi

Brynjar Lúðvíksson, Andri Örn Víðisson

Tilvísun

Pétur Pétursson. „Hver er uppruni fermingarinnar?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2003, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3451.

Pétur Pétursson. (2003, 26. maí). Hver er uppruni fermingarinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3451

Pétur Pétursson. „Hver er uppruni fermingarinnar?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2003. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3451>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni fermingarinnar?
Fermingin er eins konar ungmennavígsla og sem slík er hún sennilega jafn gömul mannlegu samfélagi. Félagshópar, fjölskyldur og þjóðfélög aðgreina stöðu og hlutverk einstaklinga á margvíslegan hátt með siðum og venjum til þess að tryggja félagslega reglu og samhæfða verkaskiptingu. Unglingavígslan tengist kynþroskatímabilinu og táknar það að einstaklingurinn er ekki lengur barn heldur ungmenni sem mætir í alvöru viðfangsefnum hinna fullorðnu og öðlast bæði réttindi og skyldur. Það er eins og það sé innbyggt í samfélög manna að þessi tímamót verði eftirminnileg. Alvaran sem fylgir vígslunum undirstrikar félagslegt mikilvægi þeirra en þeim fylgir einnig hátíð og samfagnaður sem fjölskyldan og samfélagið sem slíkt á aðild að. Í samfélögum þar sem einhæf verkaskipting ríkir er vígsluatferlið (fr. rites de passage) auðþekkt og vel skilgreint og í samfélögum þar sem miklar breytingar eiga sér stað getur það þróast og fengið nýtt hlutverk.

Upphaflega var fermingin ekki aðgreind frá skírninni sem vígsla inn í söfnuð Krists enda fól hún í sér bæði andlega hreinsun í vígðu vatni og gjöf heilags anda sem biskupum einum var treyst fyrir að miðla. Þegar ferming er aðgreind frá skírn er vitnað til þess sem segir í Postulasögunni (8.14-17) þegar postularnir Pétur og Jóhannes fóru frá Jerúsalem til Samaríu að biðjast fyrir og leggja hendur yfir trúaða svo þeir fengju heilagan anda. Áður höfðu þeir þó verið skírðir en heilagur andi hafði ekki komið yfir þá. Biskupinn blessar barnið og smyr það vígðri olíu eða ilmsmyrslum sem tákn um velþóknan heilags anda. Þar sem kristinn siður festi rætur varð ungabarnaskírn algengust og oft meginreglan og var hún framkvæmd á fyrstu dögum eftir fæðingu barnsins. Handayfirlagning biskups varð því oft að bíða af praktískum ástæðum, þó ekki lengur en þangað til barnið var 12 ára.

Við skírnarathöfnina (eða ferminguna) fær barnið nafn og fjölskyldan og samfélagið tekur á móti því með opinberum hætti. Minnt er á skyldur varðandi uppeldi barnsins og hlutverk foreldra og safnaðar í því sambandi. Smám saman tengdist fermingin altarissakramentinu og prófun þekkingar í kristnum fræðum sem foreldrar og guðfeðgin gengust í ábyrgð fyrir. Á 12. öld varð ferming (staðfesting, styrking) aðgreind frá skírninni sem sérstakt sakramenti.

Þegar Marteinn Lúther og aðrir siðbótarmenn á 16. öld endurskipulögðu kirkjuna afnumu þeir ferminguna sem sérstakt sakramenti því þeir töldu hana skyggja á skírnina sem fullkomna leið til samfélagsins við Guð. Hins vegar vildu þeir efla trúrækni og helgihald barna og unglinga og notuðu tækifærið til að tengja uppfræðslu í kristinni trú við undirbúning undir fermingarathöfn og meðtöku heilags kvöldmáltíðarsakramentis við guðsþjónustu í söfnuðinum. Marteinn Lúther samdi Fræðin minni til þess að auðvelda fræðslu í grundvallaratriðum kristinnar trúar. Áður höfðu prestar kannað kunnáttu sóknarbarna sinna með samtölum um synd og fyrirgefningu áður en gengið var til altaris. Í lútherskum sið varð það að venju að unglingar gengju ekki til altaris fyrr en við fermingarathöfnina eða strax að henni lokinni og er svo enn hér á landi. Þó eru undantekningar þar á.

Þegar heittrúarstefnan náði undirtökum í lútherskum söfnuðum í upphafi 18. aldar vaknaði áhugi á því að allir ættu þess kost að tileinka sér sannindi trúarinnar með lestri Biblíunnar og annarra trúarrita. Menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að hver og einn tileinkuðu sér trúna á persónulegan hátt. Til viðbótar Fræðunum minni voru samin aðgengileg trúfræðileg skýringarit, kver. Áhugi yfirvalda á því að setja ákveðnar og strangar reglur um uppeldi og aga tengdist viðleitni þeirri til að þjappa sem mestum völdum í hendur konungs og stjórnar hans. Nákvæmar reglur voru settar um fermingu og fræðslu sem urðu síðarmeir grunnurinn að alþýðufræðslu og almennu skyldunámi. Áður hafði Guðbrandur biskup Þorláksson innleitt fermingarathöfn að nýju í Hólabiskupsdæmi og lá þar að baki áhugi hans á eflingu trúfræðslu og trúarlegs uppeldis.

Börnin áttu að lesa fræði Lúthers og fermast 12-13 ára að aldri. Fræðslan var undir eftirliti presta en á ábyrgð foreldra og húsbænda. Næsta skref var að skylda presta til að sjá svo um að öll börn sem fermd væru gætu sjálf lesið heilagt Guðsorð. Til viðbótar við lestur komu ákvæði sem skylduðu presta til að sjá svo um að börnin lærðu að skrifa og reikna áður en þau fermdust. Ýmis borgaraleg réttindi, svo sem hjónavígsla, voru háð því að viðkomandi væri fermdur.

Á seinni hluta 19. aldar var farið að ráða svonefnda farkennara sem ferðuðust um og kenndu börnunum í sveitinni það sem krafist var til fermingar. Þessir kennarar störfuðu á ábyrgð og í umboði presta og sóknarnefnda. Á Íslandi voru fáir skólar þar til skólaskyldu var komið á árið 1907 og voru prestar jafnan í forystu þeirra sem frumkvæði höfðu og ábyrgð á skólafræðslu.

Árið 1946 var ákveðið með nýjum fræðslulögum að aðgreina trúfræðslu kirkjunnar, kverkennsluna, frá kristinfræði skólanna. Þar með voru prestar leystir undan þeirri formlegu skyldu að hafa eftirlit með alþýðufræðslu. Börnin héldu áfram að ganga til prestsins á 14 árinu og fá þar fræðslu um játningar og trúfræði kirkjunnar en barnaskólarnir kenndu aðallega biblíusögur. Kennsluaðferð presta var víðast hvar á gömlum merg sem var að spyrja börnin út úr atriðum kveralærdómsins og því var þetta kallað að ganga til spurninga. Á seinustu áratugum hefur fermingarfræðsla kirkjunnar leitast við að efla með unglingunum tilfinningu fyrir helgi mannlífsins og mikilvægi kristinnar lífskoðunar fyrir nútímamanninn.

Þrátt fyrir það að margir hafi farið að líta á unglingapróf og stúdentspróf sem eins konar unglingavígslur halda íslenskar fjölskyldur ferminguna enn í heiðri. Um 95% 14 ára unglinga eru fermd og margir foreldrar leggja mikið upp úr því að halda veglegar fjölskylduhátíðir í tilefni ferminga. Í nútíma þjóðfélagi eru verkefni borgaranna margbreytileg, flókin og sérhæfð og unglingar búa sig undir ævistarf með margra ára skólagöngu. Því má kannski segja að fermingin sé eins konar fyrrihlutapróf út í heim hinna fullorðnu. Seinni hlutinn getur verið með ýmsu móti. Oft er hann tekinn með því að mennta sig fyrir ákveðið starf og undirbúa stofnun heimilis.

Heimildir:

Bjarni Sigurðsson 1992: „Ferming í fjórar aldir“ Ritröð Guðfræðistofnunar. 6. Reykjavík. Háskóli Íslands.

Gunnar F. Guðmundsson 2000: Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík. Alþingi.

Hjalti Hugason 1988: „Kristnir trúarhættir.“ Íslensk þjóðmenning. V. Frosti F. Jóhannssson (ritstj.) Reykjavík. Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Pétur Pétursson 1988: Hann varðveiti þig. Könnun á fermingarstörfum þjóðkirkjunnar. Reykjavík. Fermingastarfanefnd þjóðkirkjunnar.

...