Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Af hverju fá leikarar í Ameríku hærri laun en hér?

Gylfi Magnússon

Það er rétt að kvikmyndastjörnur í Hollywood fá margfalt hærri laun en starfsystkin þeirra á Íslandi, jafnvel meira fyrir eina kvikmynd en bílfarmur af íslenskum leikurum fær fyrir alla starfsævina. Hins vegar er ekki þar með sagt að leikarar í Ameríku fái almennt hærri laun en hérlendis. Það eru ekki allir stjörnur í Ameríku, ekki einu sinni í Hollywood. Langflestir bandarískir leikarar hafa ekki nema rétt mannsæmandi laun og stór hluti þeirra starfar að mestu við annað meðan þeir reyna ítrekað að fá einstaka verkefni sem leikarar.

Það er hins vegar áhugaverð spurning, hvers vegna einstakir leikarar, það er kvikmyndastjörnurnar í Ameríku, fá svona himinhá laun meðan flest starfsystkin þeirra þarlendis eru lítt öfundsverð af kjörum sínum. Svo ójöfn tekjuskipting einkennir raunar fleiri svipaðar stéttir í Ameríku.

Til dæmis hafa stjörnur í tónlistarheiminum himinháar tekjur en langflestir tónlistarmenn hafa ekkert sérstaklega háar tekjur; margir þeirra eiga meira að segja erfitt með að framfleyta sér.

Sama má segja um íþróttamenn. Stjörnurnar í körfuboltanum vestanhafs, leikmenn NBA-deildarinnar, eru allir hátekjumenn. Sá frægasti, Michael Jordan, fékk að sögn á sínum tíma meira fyrir að auglýsa Nike-skó en allir starfsmenn í skóverksmiðjum fyrirtækisins í Suðaustur-Asíu fengu samanlagt í laun. Flestir sem stunda íþróttir vestanhafs hafa hins vegar litlar sem engar tekjur af því og þurfa að framfleyta sér með öðrum hætti.

Stjarnan Keanu Reeves „fjölfölduð“ í myndinni Matrix Reloaded.

Skýringin á þessu virðist einkum vera tæknileg. Það er hægt að fjölfalda hverja stjörnu, ef svo má að orði komast, þannig að hver sem er getur horft (eða eftir atvikum hlustað) á hana. Þessi fjölföldun á stjörnum kostar ekkert meira en fjölföldun á þeim sem eru minni afreksmenn.

Það kostar ekkert meira að bæta við einum áhorfanda á stjörnu en það kostar að bæta við áhorfanda á einhvern sem er óþekktur. Þegar annars vegar er búið að gera kvikmynd með stórstjörnu og hins vegar kvikmynd með óþekktum leikurum þá kostar ekkert meira að sýna fyrri myndina en þá síðari. Sömuleiðis kostar ekkert meira að fjölfalda geisladiska með þekktri hljómsveit en óþekktri. Á sínum tíma kostaði litlu meira að vera með sjónvarpsútsendingu frá körfuboltaleik með Michael Jordan en að senda út leik með miðlungs háskólaliðum - og ef sent var út á annað borð frá leik með Jordan kostaði lítið að gera það um allan heim.

Fáir vilja sætta sig við það næstbesta ef það kostar jafnmikið að njóta þess besta sem völ er á. Þannig vilja fáir horfa á meðalmenn leika körfubolta ef þeir eiga þess kost að horfa á þá bestu í heimi fyrir sama verð. Á sama hátt virðast fáir sjá ástæðu til að horfa á kvikmynd með óþekktum leikurum ef hægt er á sama tíma og fyrir sama verð að horfa á kvikmynd með stórstjörnum.

Við skulum láta það liggja á milli hluta hvort stjörnurnar eru eitthvað betri leikarar; það getur hver haft sína skoðun á því. Margir stjörnur á sínu sviði teljast ekki hæfileikaríkar á mælikvarða þeirra sem best þekkja til. Stjörnustimpillinn fæst ekkert endilega út á hæfileika, eða að minnsta kosti ekki listræna hæfileika því að vitaskuld getur það verið hæfileiki að vera svalur, limafagur eða reiðubúinn að koma fram nakinn (eða því sem næst). Til dæmis eru ýmsar stórstjörnur í popptónlist ekkert sérstakir tónlistarmenn ef hefðbundnir mælikvarðar eru notaðir. Stjarna í popptónlist er sá sem selur marga geisladiska, hvort sem ástæðan er tónlistarhæfileikar eða eitthvað annað.

Allt önnur lögmál giltu um þessa hluti fyrir daga sjónvarps, kvikmyndahúsa, ódýrra hljómflutningstækja og annars búnaðar sem gerir það kleift að fjölfalda afurðir stjarnanna og dreifa þeim til fjöldans. Þá voru sumir leikarar vissulega vinsælli en aðrir og fleiri komu til að sjá þá á sviði. En á leiksýningar var og er enn aðeins hægt að selja takmarkað magn af miðum. Þá var ekki hægt að fjölfalda leikinn og selja almenningi, líkt og nú er hægt með kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Sama gilti um tónlist. Til að heyra hana þurfti viðkomandi að vera nálægt flytjandanum og þar með voru því takmörk sett hve margir gátu notið hvers flytjanda.

Við slík skilyrði stóðu „meðalmenn“, hvort sem það voru leikarar eða tónlistarmenn, vel að vígi. Stjörnurnar gátu ekki annað nema litlum hluta þeirra sem vildu njóta afurða þeirra en aðrir áhorfendur eða áheyrendur urðu að láta sér flutning meðalmenna nægja. Nú er staða stjarnanna miklu betri og það skýrir hvers vegna þær geta haft svona miklar tekjur.

Til þess að upp komi stétt stjarna með afar háar tekjur þarf einkum þrennt. Í fyrsta lagi að hægt sé með litlum tilkostnaði að fjölfalda afurðir þeirra bestu eða frægustu á tilteknu sviði. Í öðru lagi að smekkur manna sé það líkur að nógu margir séu sammála um það hverjir séu þeir bestu á hverju sviði (það er hverjir eru stjörnur og hverjir ekki) og í þriðja lagi að markaðurinn sé nógu stór.

Sennilega er það einkum þriðja skilyrðið sem kemur í veg fyrir að á Íslandi séu til kvikmyndastjörnur með himinháar tekjur. Íslendingar eru einfaldlega ekki nógu margir til að mikið sé upp úr því að hafa að selja þeim bíómiða, jafnvel þótt einhver væri svo mikil stjarna að allir Íslendingar vildu sjá mynd með honum og það jafnvel oft hver og einn. Þannig að eina von þeirra Íslendinga sem vilja verða forríkar kvikmynda- eða poppstjörnur virðist vera að slá í gegn í útlöndum.

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

3.6.2003

Spyrjandi

Aldís Hulda Zoega, f. 1990

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Af hverju fá leikarar í Ameríku hærri laun en hér?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2003. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3471.

Gylfi Magnússon. (2003, 3. júní). Af hverju fá leikarar í Ameríku hærri laun en hér? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3471

Gylfi Magnússon. „Af hverju fá leikarar í Ameríku hærri laun en hér?“ Vísindavefurinn. 3. jún. 2003. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3471>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju fá leikarar í Ameríku hærri laun en hér?
Það er rétt að kvikmyndastjörnur í Hollywood fá margfalt hærri laun en starfsystkin þeirra á Íslandi, jafnvel meira fyrir eina kvikmynd en bílfarmur af íslenskum leikurum fær fyrir alla starfsævina. Hins vegar er ekki þar með sagt að leikarar í Ameríku fái almennt hærri laun en hérlendis. Það eru ekki allir stjörnur í Ameríku, ekki einu sinni í Hollywood. Langflestir bandarískir leikarar hafa ekki nema rétt mannsæmandi laun og stór hluti þeirra starfar að mestu við annað meðan þeir reyna ítrekað að fá einstaka verkefni sem leikarar.

Það er hins vegar áhugaverð spurning, hvers vegna einstakir leikarar, það er kvikmyndastjörnurnar í Ameríku, fá svona himinhá laun meðan flest starfsystkin þeirra þarlendis eru lítt öfundsverð af kjörum sínum. Svo ójöfn tekjuskipting einkennir raunar fleiri svipaðar stéttir í Ameríku.

Til dæmis hafa stjörnur í tónlistarheiminum himinháar tekjur en langflestir tónlistarmenn hafa ekkert sérstaklega háar tekjur; margir þeirra eiga meira að segja erfitt með að framfleyta sér.

Sama má segja um íþróttamenn. Stjörnurnar í körfuboltanum vestanhafs, leikmenn NBA-deildarinnar, eru allir hátekjumenn. Sá frægasti, Michael Jordan, fékk að sögn á sínum tíma meira fyrir að auglýsa Nike-skó en allir starfsmenn í skóverksmiðjum fyrirtækisins í Suðaustur-Asíu fengu samanlagt í laun. Flestir sem stunda íþróttir vestanhafs hafa hins vegar litlar sem engar tekjur af því og þurfa að framfleyta sér með öðrum hætti.

Stjarnan Keanu Reeves „fjölfölduð“ í myndinni Matrix Reloaded.

Skýringin á þessu virðist einkum vera tæknileg. Það er hægt að fjölfalda hverja stjörnu, ef svo má að orði komast, þannig að hver sem er getur horft (eða eftir atvikum hlustað) á hana. Þessi fjölföldun á stjörnum kostar ekkert meira en fjölföldun á þeim sem eru minni afreksmenn.

Það kostar ekkert meira að bæta við einum áhorfanda á stjörnu en það kostar að bæta við áhorfanda á einhvern sem er óþekktur. Þegar annars vegar er búið að gera kvikmynd með stórstjörnu og hins vegar kvikmynd með óþekktum leikurum þá kostar ekkert meira að sýna fyrri myndina en þá síðari. Sömuleiðis kostar ekkert meira að fjölfalda geisladiska með þekktri hljómsveit en óþekktri. Á sínum tíma kostaði litlu meira að vera með sjónvarpsútsendingu frá körfuboltaleik með Michael Jordan en að senda út leik með miðlungs háskólaliðum - og ef sent var út á annað borð frá leik með Jordan kostaði lítið að gera það um allan heim.

Fáir vilja sætta sig við það næstbesta ef það kostar jafnmikið að njóta þess besta sem völ er á. Þannig vilja fáir horfa á meðalmenn leika körfubolta ef þeir eiga þess kost að horfa á þá bestu í heimi fyrir sama verð. Á sama hátt virðast fáir sjá ástæðu til að horfa á kvikmynd með óþekktum leikurum ef hægt er á sama tíma og fyrir sama verð að horfa á kvikmynd með stórstjörnum.

Við skulum láta það liggja á milli hluta hvort stjörnurnar eru eitthvað betri leikarar; það getur hver haft sína skoðun á því. Margir stjörnur á sínu sviði teljast ekki hæfileikaríkar á mælikvarða þeirra sem best þekkja til. Stjörnustimpillinn fæst ekkert endilega út á hæfileika, eða að minnsta kosti ekki listræna hæfileika því að vitaskuld getur það verið hæfileiki að vera svalur, limafagur eða reiðubúinn að koma fram nakinn (eða því sem næst). Til dæmis eru ýmsar stórstjörnur í popptónlist ekkert sérstakir tónlistarmenn ef hefðbundnir mælikvarðar eru notaðir. Stjarna í popptónlist er sá sem selur marga geisladiska, hvort sem ástæðan er tónlistarhæfileikar eða eitthvað annað.

Allt önnur lögmál giltu um þessa hluti fyrir daga sjónvarps, kvikmyndahúsa, ódýrra hljómflutningstækja og annars búnaðar sem gerir það kleift að fjölfalda afurðir stjarnanna og dreifa þeim til fjöldans. Þá voru sumir leikarar vissulega vinsælli en aðrir og fleiri komu til að sjá þá á sviði. En á leiksýningar var og er enn aðeins hægt að selja takmarkað magn af miðum. Þá var ekki hægt að fjölfalda leikinn og selja almenningi, líkt og nú er hægt með kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Sama gilti um tónlist. Til að heyra hana þurfti viðkomandi að vera nálægt flytjandanum og þar með voru því takmörk sett hve margir gátu notið hvers flytjanda.

Við slík skilyrði stóðu „meðalmenn“, hvort sem það voru leikarar eða tónlistarmenn, vel að vígi. Stjörnurnar gátu ekki annað nema litlum hluta þeirra sem vildu njóta afurða þeirra en aðrir áhorfendur eða áheyrendur urðu að láta sér flutning meðalmenna nægja. Nú er staða stjarnanna miklu betri og það skýrir hvers vegna þær geta haft svona miklar tekjur.

Til þess að upp komi stétt stjarna með afar háar tekjur þarf einkum þrennt. Í fyrsta lagi að hægt sé með litlum tilkostnaði að fjölfalda afurðir þeirra bestu eða frægustu á tilteknu sviði. Í öðru lagi að smekkur manna sé það líkur að nógu margir séu sammála um það hverjir séu þeir bestu á hverju sviði (það er hverjir eru stjörnur og hverjir ekki) og í þriðja lagi að markaðurinn sé nógu stór.

Sennilega er það einkum þriðja skilyrðið sem kemur í veg fyrir að á Íslandi séu til kvikmyndastjörnur með himinháar tekjur. Íslendingar eru einfaldlega ekki nógu margir til að mikið sé upp úr því að hafa að selja þeim bíómiða, jafnvel þótt einhver væri svo mikil stjarna að allir Íslendingar vildu sjá mynd með honum og það jafnvel oft hver og einn. Þannig að eina von þeirra Íslendinga sem vilja verða forríkar kvikmynda- eða poppstjörnur virðist vera að slá í gegn í útlöndum.

Mynd:...