Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson

Spurningin hljóðar svona í fullri lengd:
Ef sunnudagur er fyrsti dagur vikunnar og Guð hvíldi sig á 7. degi, hlýtur laugardagur að vera sá dagur sem hann hvíldi sig á. Er það ekki?
Eins og spyrjandi bendir á stendur í Biblíunni að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum og hvílt sig þann sjöunda, og að auki stendur þar á fjölmörgum stöðum að Guð boði að mannfólkið skuli hafa í heiðri hvíldardag sjöunda dag vikunnar. Í árþúsundir hafa Gyðingar fylgt þessari reglu og haldið hvíldardaginn á laugardegi, og gera enn.

Þar sem kristnin á rætur sínar í gyðingdómi og kristnir deila Gamla testamentinu með gyðingum hefði mátt ætla að kristnir héldu sig við sama hvíldardag og gyðingar, laugardag. Hvíldardagurinn var hins vegar færður yfir á sunnudag nokkuð snemma í sögu kristninnar.

Á fyrstu öldum kristninnar voru kristnir menn minnihlutahópur í samfélaginu þar sem þeir lifðu og hrærðust. Í Rómaveldi voru flestir heiðnir og auk þess var útbreidd trú á guðinn Míþra. Báðir þessir trúarhópar héldu sunnudaginn heilagan og því kannski við því að búast að hinir kristnu löguðu sig að því.

Einnig kann að vera að kristnir hafi lagt á það áherslu að aðgreina sig frá gyðingum með öllum ráðum, bæði vegna ósamkomulags milli kristinna og gyðinga og vegna þess að gyðingar bjuggu við ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Rómaveldi.

Svipuð sjónarmið eru talin hafa ráðið því að kristnir menn tóku um svipað leyti upp aðra reglu um tímasetningu páska en Gyðingar hafa um samsvarandi hátíð (e. Passover). Þessi hátíðahöld ber því yfirleitt ekki upp á sama tíma hjá þessum trúfélögum. Þetta stangast líka á við bókstaf biblíunnar á svipaðan hátt og sunnudagshaldið, því að píslarsagan er þar tengd páskahátíð Gyðinga.

Árið 321 lýsti Konstantínus keisari því yfir að sunnudagur ætti að vera almennur hvíldardagur. Kirkjuþingið í Laódíkeu, um 364, lýsti því svo yfir að guðsþjónustur skyldu fara fram á sunnudögum og lagði bann við að kristnir héldu hvíldardag á laugardögum.

Þess má hins vegar geta að sumir kristnir söfnuðir halda hvíldardag á laugardögum. Sá þeirra sem er þekktastur á Íslandi er líklega sjöunda dags aðventistar.

Heimild:

Höfundar

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

11.6.2003

Spyrjandi

Elín Ingvarsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2003. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3491.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 11. júní). Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3491

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2003. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3491>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum?
Spurningin hljóðar svona í fullri lengd:

Ef sunnudagur er fyrsti dagur vikunnar og Guð hvíldi sig á 7. degi, hlýtur laugardagur að vera sá dagur sem hann hvíldi sig á. Er það ekki?
Eins og spyrjandi bendir á stendur í Biblíunni að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum og hvílt sig þann sjöunda, og að auki stendur þar á fjölmörgum stöðum að Guð boði að mannfólkið skuli hafa í heiðri hvíldardag sjöunda dag vikunnar. Í árþúsundir hafa Gyðingar fylgt þessari reglu og haldið hvíldardaginn á laugardegi, og gera enn.

Þar sem kristnin á rætur sínar í gyðingdómi og kristnir deila Gamla testamentinu með gyðingum hefði mátt ætla að kristnir héldu sig við sama hvíldardag og gyðingar, laugardag. Hvíldardagurinn var hins vegar færður yfir á sunnudag nokkuð snemma í sögu kristninnar.

Á fyrstu öldum kristninnar voru kristnir menn minnihlutahópur í samfélaginu þar sem þeir lifðu og hrærðust. Í Rómaveldi voru flestir heiðnir og auk þess var útbreidd trú á guðinn Míþra. Báðir þessir trúarhópar héldu sunnudaginn heilagan og því kannski við því að búast að hinir kristnu löguðu sig að því.

Einnig kann að vera að kristnir hafi lagt á það áherslu að aðgreina sig frá gyðingum með öllum ráðum, bæði vegna ósamkomulags milli kristinna og gyðinga og vegna þess að gyðingar bjuggu við ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Rómaveldi.

Svipuð sjónarmið eru talin hafa ráðið því að kristnir menn tóku um svipað leyti upp aðra reglu um tímasetningu páska en Gyðingar hafa um samsvarandi hátíð (e. Passover). Þessi hátíðahöld ber því yfirleitt ekki upp á sama tíma hjá þessum trúfélögum. Þetta stangast líka á við bókstaf biblíunnar á svipaðan hátt og sunnudagshaldið, því að píslarsagan er þar tengd páskahátíð Gyðinga.

Árið 321 lýsti Konstantínus keisari því yfir að sunnudagur ætti að vera almennur hvíldardagur. Kirkjuþingið í Laódíkeu, um 364, lýsti því svo yfir að guðsþjónustur skyldu fara fram á sunnudögum og lagði bann við að kristnir héldu hvíldardag á laugardögum.

Þess má hins vegar geta að sumir kristnir söfnuðir halda hvíldardag á laugardögum. Sá þeirra sem er þekktastur á Íslandi er líklega sjöunda dags aðventistar.

Heimild:

...