
Ef við skoðum fjölburafæðingar á þessu sama tímabili (mynd 2) kemur í ljós að fram til ársins 1990 voru tvíburafæðingar alltaf undir 50 á ári. Á tímabilinu 1977-1990 var hlutfall tvíburafæðinga 0,7-1,2 % allra fæðinga á Íslandi. Þríburafæðingar voru mjög sjaldgæfar á þessum árum, flestar urðu þær 3 árið 1985 en mörg árin fæddust engir þríburar á Íslandi. Frá árinu 1991 hefur tíðni fjölburafæðinga aukist nokkuð. Tvíburafæðingar á þessu tímabili hafa verið frá 62 til 87 á ári, eða 1,4-2% allra fæðinga. Að minnsta kosti ein og allt upp í 6 þríburafæðingar hafa verið á ári á þessu sama tímabili.

Skýringin á auknum fjölda fjölburafæðinga tengist án efa tæknifrjóvgunum. Undir lok 9. áratugar síðustu aldar fóru fyrstu íslensku pörin í glasafrjóvgun til Englands og árið 1991 hóf tæknifrjóvgunardeild Landspítalans starfsemi sína. Deildin var síðan stækkuð árið 1996 og í kjölfarið var hægt að sinna fleiri pörum. Ástæða þess að tíðni fjölburafæðinga er meiri þegar um er að ræða tæknifrjóvganir er sú að oft eru frjóvguð fleiri en eitt egg í hvert sinn. Sem dæmi má nefna að árið 1997 voru 27,8% fæðinga í kjölfar glasafrjóvgunar tvíburafæðingar og 4,8% þríburafæðingar. Á Íslandi eins og á hinum Norðurlöndunum hefur þó verið vaxandi tilhneiging til að koma fyrir færri fósturvísum til þess að fækka fjölburafæðingum. Hugsanlega skýrir það færri fjölburafæðingar allra síðustu ár. Heimildir:
- Hagstofa Íslands - Landshagir
- Þórður Óskarsson (2001). Tæknifrjóvganir á Íslandi. Læknablaðið, 87: 509-510.