Skammstöfunin GSM stendur fyrir ‘Global System for Mobile Communications’ sem mundi útleggjast á íslensku sem ‘heimskerfi fyrir farsímasamskipti’. Á íslensku hefur verið reynt að smíða mörg nýyrði yfir það sem á ensku kallast GSM eða Mobile phone, meðal annars hefur verið stungið upp á orðunum 'kortafarsími', 'hvutti', 'gripsími' og 'geimsími' en ekkert þeirra hefur náð að festa sig í sessi í íslenskri tungu.
Orðin gemsi og farsími hafa hins vegar náð talsverðri útbreiðslu, það fyrrnefnda sem hljóðlíking við ensku skammstöfunina. Gemsi merkir annars ‘gemlingur, eða veturgömul kind’ og í yfirfærðri merkingu er það haft um ‘ómerkilegan karlmann’.
Hér á Íslandi hóf GSM-kerfið göngu sína árið 1994 og síðan þá hafa farsímar orðið sífellt mikilvægari þáttur í daglegu lífi Íslendinga.
Hægt er að lesa meira um farsíma á Vísindavefnum í svari Hildar Jónsdóttur við spurningunni Hver fann upp á GSM-símum?Heimildir og mynd:
Þetta svar er eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.