Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er réttur barna til einkalífs, mega foreldrar til dæmis leita í herbergjum þeirra?

Þórhildur Líndal

Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu. Almennt er talið að börn skuli njóta mannréttinda til jafns við fullorðna. Tækifæri þeirra til að notfæra sér mannréttindi eru hins vegar misjöfn bæði eftir tegundum mannréttinda, aldri og þroska barnanna.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, í daglegu tali nefndur Barnasáttmálinn, er ákvæði um friðhelgi einkalífs í 16. gr., en þar segir:
Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
Í Barnasáttmálanum er litið á börn sem sjálfstæða einstaklinga, með sín eigin réttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu. Sáttmálinn er ekki lög hér á landi, en Ísland hefur fullgilt hann, þannig að lög og aðrar reglur skulu endurspegla það sem þar kemur fram.

Svar við spurningunni er því að börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs, og nýtur sá réttur verndar samkvæmt meðal annars stjórnarskránni og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi réttur er þó takmarkaður að nokkru leyti, þar sem forsjá barna er í höndum foreldra þeirra eða annarra forráðamanna.

Í forsjánni felst réttur foreldra og skylda til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Foreldrum ber að taka tillit til friðhelgi einkalífs barnsins og fær sú friðhelgi meira vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Réttur barna til friðhelgi einkalífs er þó alltaf háður þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem foreldrar hafa gagnvart börnunum, þar á meðal þeirri skyldu að vernda þau gegn óæskilegum áhrifum og/eða gerðum.

Hvort foreldrar megi leita í herbergi barna sinna verður að meta í hverju tilviki með hliðsjón af því sem segir hér að framan. Ef foreldri fer í gegnum persónulegar eigur barnsins síns, er það að brjóta á rétti barnsins til friðhelgi einkalífs. Hins vegar, ef foreldri grunar að barnið sé í vanda, ber því skylda til að gera allt sem í þess valdi stendur til að vernda barnið og koma því til aðstoðar. Við þær aðstæður er réttlætanlegt að leita í herbergi barnsins, til dæmis að fíkniefnum. Eins og að framan segir verður að meta hvert tilvik, en meginreglan er sú að barn nýtur friðhelgi einkalífs og mikilvægt fyrir foreldra að virða þau mörk.

Aðalatriðið er að barn á rétt á friðhelgi á heimili sínu og það á ekki að þurfa að sæta því að gengið sé um persónulega muni þess án leyfis.

Nánari upplýsingar um þessi mál má finna í skýrslunni Friðhelgi einkalífs - Réttur barna til friðhelgi einkalífs og til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna, bls. 37-38, sem unnin var fyrir embætti umboðsmanns barna og gefin út haustið 2003. Skýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu umboðsmanns barna sem pdf-skjal.

Höfundur

lögfræðingur, umboðsmaður barna

Útgáfudagur

23.1.2004

Spyrjandi

Leon Gunnarsson

Tilvísun

Þórhildur Líndal. „Hver er réttur barna til einkalífs, mega foreldrar til dæmis leita í herbergjum þeirra?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2004. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3967.

Þórhildur Líndal. (2004, 23. janúar). Hver er réttur barna til einkalífs, mega foreldrar til dæmis leita í herbergjum þeirra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3967

Þórhildur Líndal. „Hver er réttur barna til einkalífs, mega foreldrar til dæmis leita í herbergjum þeirra?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2004. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3967>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er réttur barna til einkalífs, mega foreldrar til dæmis leita í herbergjum þeirra?
Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu. Almennt er talið að börn skuli njóta mannréttinda til jafns við fullorðna. Tækifæri þeirra til að notfæra sér mannréttindi eru hins vegar misjöfn bæði eftir tegundum mannréttinda, aldri og þroska barnanna.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, í daglegu tali nefndur Barnasáttmálinn, er ákvæði um friðhelgi einkalífs í 16. gr., en þar segir:
Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
Í Barnasáttmálanum er litið á börn sem sjálfstæða einstaklinga, með sín eigin réttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu. Sáttmálinn er ekki lög hér á landi, en Ísland hefur fullgilt hann, þannig að lög og aðrar reglur skulu endurspegla það sem þar kemur fram.

Svar við spurningunni er því að börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs, og nýtur sá réttur verndar samkvæmt meðal annars stjórnarskránni og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi réttur er þó takmarkaður að nokkru leyti, þar sem forsjá barna er í höndum foreldra þeirra eða annarra forráðamanna.

Í forsjánni felst réttur foreldra og skylda til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Foreldrum ber að taka tillit til friðhelgi einkalífs barnsins og fær sú friðhelgi meira vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Réttur barna til friðhelgi einkalífs er þó alltaf háður þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem foreldrar hafa gagnvart börnunum, þar á meðal þeirri skyldu að vernda þau gegn óæskilegum áhrifum og/eða gerðum.

Hvort foreldrar megi leita í herbergi barna sinna verður að meta í hverju tilviki með hliðsjón af því sem segir hér að framan. Ef foreldri fer í gegnum persónulegar eigur barnsins síns, er það að brjóta á rétti barnsins til friðhelgi einkalífs. Hins vegar, ef foreldri grunar að barnið sé í vanda, ber því skylda til að gera allt sem í þess valdi stendur til að vernda barnið og koma því til aðstoðar. Við þær aðstæður er réttlætanlegt að leita í herbergi barnsins, til dæmis að fíkniefnum. Eins og að framan segir verður að meta hvert tilvik, en meginreglan er sú að barn nýtur friðhelgi einkalífs og mikilvægt fyrir foreldra að virða þau mörk.

Aðalatriðið er að barn á rétt á friðhelgi á heimili sínu og það á ekki að þurfa að sæta því að gengið sé um persónulega muni þess án leyfis.

Nánari upplýsingar um þessi mál má finna í skýrslunni Friðhelgi einkalífs - Réttur barna til friðhelgi einkalífs og til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna, bls. 37-38, sem unnin var fyrir embætti umboðsmanns barna og gefin út haustið 2003. Skýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu umboðsmanns barna sem pdf-skjal....