Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Af hverju skilja sár eftir sig ör?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Af hverju koma ör á húðina, af hverju nær hún ekki að endurnýja sig og af hverju er sagt að ör komi ef maður kroppar í sár?

Myndun öra er eðlilegur þáttur í því líffræðilega ferli sem á sér stað þegar sár í húð og öðrum vefjum líkamans gróa. Allir áverkar eftir slys, sjúkdóma eða skurðaðgerðir, fyrir utan mjög lítil sár, skilja eftir sig stærri eða minni ör. Áverki breytist ekki í ör fyrr en sárið hefur gróið að fullu. Ef kroppað er í sár á meðan það er að gróa grær það hægar og getur örið sem myndast legið dýpra fyrir vikið.

Ör í húð myndast þegar skemmdir verða á leðurhúðinni (e. dermis) sem er þykk og liggur djúpt í húðinni. Nánar má lesa um gerð húðarinnar í svari Stefáns B. Sigurðssonar við spurningunni Er húðin líffæri?

Til þess að græða skemmd verður líkaminn að leggja til nýja kollagenþræði en kollagen er eitt algengasta prótín líkamans. Líkaminn getur ekki myndað nákvæma eftirmynd skemmda vefsins heldur verður nýi vefurinn (örvefurinn) með aðra áferð og eiginleika en óskemmda húðin í kring. Ör í húð hafa til dæmis minna viðnám gegn útfjólublárri geislun og svitakirtlar og hársekkir endurnýjast ekki í örvef. Hjartadrep skilur eftir sig ör í hjartavöðvanum og leiðir til missis vöðvakrafts (samdráttarkrafts) og jafnvel hjartabilunar. Aftur á móti gróa sumir vefir, þar með talinn beinvefur, án nokkurrar hrörnunar í gerð eða starfsemi.

Flest ör í húð eru flöt og föl á lit og skilja aðeins eftir örlítið brot af áverkanum sem olli myndun þeirra. Í sumum tilfellum myndar líkaminn þó of mikið af kollageni og verður afleiðingin svokölluð ofholdgun eða örbrigsli (e. hypertrophic scars, keloid scars). Slík ör (hypertrophic scars) eru upphleyptari og rauðleitari en húðin í kring en ná þó ekki út fyrir mörk upphaflega sársins. Þau lagast oft í útliti með tímanum. Ofholdgunarör eru alvarlegri en venjuleg ör því að þau geta tekið upp á því að vaxa stjórnlaust (keloid scars) en slík ör geta breyst í krabbamein. Þegar um ofholdgun er að ræða veit líkaminn ekki hvenær hann á að hætta myndun kollagens.

Ofholdgun er algengari hjá ungu fólki og einnig hjá einstaklingum með dökka húð. Hún getur þó komið fram hjá hverjum sem er en sumir virðast hafa arfgenga tilhneigingu til ofholdgunar. Hún getur komið fram í kjölfar skurðaðgerða, slysa eða unglingabólna.

Á hinn bóginn geta ör tekið á sig mynd dældar í húðinni. Slík ör myndast þegar stoðvefir undir húðinni hafa tapast, til dæmis fituvefur eða vöðvavefur. Þannig ör eru algeng í kjölfar unglingabólna en koma einnig í kjölfar hlaupabólu, skurðaðgerða eða slysa.

Ör í húð geta enn fremur tekið á sig mynd slits í húðinni. Slík ör myndast þegar teygist á húðinni mjög hratt, til dæmis á meðgöngu eða þegar unglingur tekur mikinn vaxtarkipp. Einnig myndast slit þegar húðin grær undir miklu álagi, til dæmis nálægt liðamótum. Slit í húð skánar oftast í útliti á nokkrum árum.

Heimild og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

8.3.2004

Spyrjandi

Þórey Rúnarsdóttir, f. 1986

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju skilja sár eftir sig ör?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2004. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4043.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2004, 8. mars). Af hverju skilja sár eftir sig ör? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4043

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju skilja sár eftir sig ör?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2004. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4043>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju skilja sár eftir sig ör?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Af hverju koma ör á húðina, af hverju nær hún ekki að endurnýja sig og af hverju er sagt að ör komi ef maður kroppar í sár?

Myndun öra er eðlilegur þáttur í því líffræðilega ferli sem á sér stað þegar sár í húð og öðrum vefjum líkamans gróa. Allir áverkar eftir slys, sjúkdóma eða skurðaðgerðir, fyrir utan mjög lítil sár, skilja eftir sig stærri eða minni ör. Áverki breytist ekki í ör fyrr en sárið hefur gróið að fullu. Ef kroppað er í sár á meðan það er að gróa grær það hægar og getur örið sem myndast legið dýpra fyrir vikið.

Ör í húð myndast þegar skemmdir verða á leðurhúðinni (e. dermis) sem er þykk og liggur djúpt í húðinni. Nánar má lesa um gerð húðarinnar í svari Stefáns B. Sigurðssonar við spurningunni Er húðin líffæri?

Til þess að græða skemmd verður líkaminn að leggja til nýja kollagenþræði en kollagen er eitt algengasta prótín líkamans. Líkaminn getur ekki myndað nákvæma eftirmynd skemmda vefsins heldur verður nýi vefurinn (örvefurinn) með aðra áferð og eiginleika en óskemmda húðin í kring. Ör í húð hafa til dæmis minna viðnám gegn útfjólublárri geislun og svitakirtlar og hársekkir endurnýjast ekki í örvef. Hjartadrep skilur eftir sig ör í hjartavöðvanum og leiðir til missis vöðvakrafts (samdráttarkrafts) og jafnvel hjartabilunar. Aftur á móti gróa sumir vefir, þar með talinn beinvefur, án nokkurrar hrörnunar í gerð eða starfsemi.

Flest ör í húð eru flöt og föl á lit og skilja aðeins eftir örlítið brot af áverkanum sem olli myndun þeirra. Í sumum tilfellum myndar líkaminn þó of mikið af kollageni og verður afleiðingin svokölluð ofholdgun eða örbrigsli (e. hypertrophic scars, keloid scars). Slík ör (hypertrophic scars) eru upphleyptari og rauðleitari en húðin í kring en ná þó ekki út fyrir mörk upphaflega sársins. Þau lagast oft í útliti með tímanum. Ofholdgunarör eru alvarlegri en venjuleg ör því að þau geta tekið upp á því að vaxa stjórnlaust (keloid scars) en slík ör geta breyst í krabbamein. Þegar um ofholdgun er að ræða veit líkaminn ekki hvenær hann á að hætta myndun kollagens.

Ofholdgun er algengari hjá ungu fólki og einnig hjá einstaklingum með dökka húð. Hún getur þó komið fram hjá hverjum sem er en sumir virðast hafa arfgenga tilhneigingu til ofholdgunar. Hún getur komið fram í kjölfar skurðaðgerða, slysa eða unglingabólna.

Á hinn bóginn geta ör tekið á sig mynd dældar í húðinni. Slík ör myndast þegar stoðvefir undir húðinni hafa tapast, til dæmis fituvefur eða vöðvavefur. Þannig ör eru algeng í kjölfar unglingabólna en koma einnig í kjölfar hlaupabólu, skurðaðgerða eða slysa.

Ör í húð geta enn fremur tekið á sig mynd slits í húðinni. Slík ör myndast þegar teygist á húðinni mjög hratt, til dæmis á meðgöngu eða þegar unglingur tekur mikinn vaxtarkipp. Einnig myndast slit þegar húðin grær undir miklu álagi, til dæmis nálægt liðamótum. Slit í húð skánar oftast í útliti á nokkrum árum.

Heimild og mynd:

...