Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Víða á Mars eru greinileg merki um mikla eldvirkni frá ýmsum tímabilum í sögu reikistjörnunnar. Eldfjallagrjót þekur stærstan hluta yfirborðsins, meðal annars þar sem Pathfinder lenti árið 1997 og nú þar sem Spirit-jeppinn lenti á þessu ári.
Eldvirkni á Mars er frekar ólík þeirri eldvirkni sem fyrirfinnst á jörðinni. Mars hefur nefnilega engar flekahreyfingar sem gætu fært eldfjöll út úr heitum reitum. Þannig hefur Ólympsfjall, stærsta eldfjall Mars og sólkerfisins, myndast við síendurtekin gos á sama stað. Ólympsfjall liggur við Þarsis-svæðið ásamt þremur öðrum risadyngjum.
Samanborið við jörðina hefur Mars kólnað mun hraðar vegna þess að hann er smærri, aðeins um helmingur af þvermáli jarðar og einn tíundi af massanum. Þar af leiðandi er varmaflæðið úr innviðunum, sem veldur eld- og jarðhitavirkni, svo lítið að engin virk eldfjöll eru þekkt.
Hægt er að áætla aldur eldfjallanna og yfirborðsins í heild út frá fjölda árekstrargíga á yfirborðinu. Þannig má til dæmis áætla að eldfjöllin á Þarsis hafi myndast fyrir um 2500 milljónum til 100 milljónum ára. Í þessum tölum er þó mikil óvissa og er líklega ekki hægt að fá betri aldursgreiningu fyrr en geimför verða send á svæðið í sýnatökuleiðangur. Nýleg gögn frá Mars Global Surveyor benda til þess að risaskjan í Arsia Mons dyngjunni sé ekki eldri en 40-100 milljón ára, en það mat er byggt á því hve fáir gígar virðast vera í öskjunni.
Talið er að hámark eldvirkninnar hafi verið fyrir 3000-3500 milljónum ára og síðan hafi smám saman dregið úr henni. Í dag eru engin sjáanleg merki um virk eldfjöll. Engu að síður eru vísbendingar um að jarðhitavirkni sé ekki algjörlega horfin. Talið er að undanfarin nokkur hundruð milljón ár hafi þrýst út hraunflóð einhvers staðar á Mars með 10 þúsund ára millibili.
Nýlega fundu þrír sjálfstæðir rannsóknarhópar merki um metan í lofthjúpi Mars. Magnið er lítið en engu að síður óvenju mikið á mælikvarða Mars (einn tíundi af hverjum milljarði sameinda lofthjúpsins). Metan er hvarfgjarnt svo ef það endurnýjast ekki myndi gasið hverfa á nokkur hundruð árum. Því hlýtur eitthvert óþekkt ferli stöðugt að endurnýja gasið.
Fjöldi tilgáta hefur verið settur fram til að útskýra þessi ferli en einfaldasta skýringin er sú að endurnýjunin sé vegna eldvirkni eða jarðhita. Geimför hafa hins vegar ekki fundið nein merki um slíkt á síðustu árum. Önnur tilgáta snýr að lífi á reikistjörnunni, en hún er mun ólíklegri.
Mjög áhugavert væri að finna heita reiti á Mars, ef einhverjir eru, því þar gæti hugsanlega fljótandi vatn og jafnvel vottur af lífi verið við yfirborðið. Ef einhver eldfjöll eru enn virk er ómögulegt að segja til um hvenær þau byrji aftur að gjósa.
Heimildir:
Vefsíða NASA um sólkerfið.
Stjörnufræðivefurinn.
Sævar Helgi Bragason. „Hvað hafa eldfjöllin á Mars verið lengi í dvala og hvenær má búast við því að þau byrji aftur að gjósa?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2004, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4301.
Sævar Helgi Bragason. (2004, 28. maí). Hvað hafa eldfjöllin á Mars verið lengi í dvala og hvenær má búast við því að þau byrji aftur að gjósa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4301
Sævar Helgi Bragason. „Hvað hafa eldfjöllin á Mars verið lengi í dvala og hvenær má búast við því að þau byrji aftur að gjósa?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2004. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4301>.