Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:01 • Sest 02:01 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:44 • Síðdegis: 13:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:39 í Reykjavík

Hvað er æxlisbæligen?

Helga Ögmundsdóttir

Byrjum á að rifja stuttlega upp svar við spurningunni Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? en þar sagði meðal annars um aðdraganda þess að frumur fari að hegða sér sem krabbameinsfrumur:
Til grundvallar liggja alltaf breytingar í stjórnstöð frumunnar og forritum, það er í erfðaefninu (DNA). Þegar frumur eru orðnar illkynja hafa yfirleitt safnast fyrir í þeim allnokkrar breytingar á erfðaefni, því að sem betur fer hafa frumur ýmsar leiðir til að bæta fyrir galla í einu og einu geni. Fjöldamargar slíkar breytingar eru nú þekktar og eru annars vegar flokkaðar undir ofstarfsemi í svokölluðum æxlisgenum og hins vegar undir vanstarf í æxlisbæligenum.

Æxlisgen eru til dæmis gen sem stýra frumufjölgun (sjá svar Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra?) og í rauninni eru slík gen auðvitað að uppruna fullkomlega eðlileg en stökkbreyting verður til þess að þau verða ofvirk og fá þá æxlismyndandi verkun. Æxlisbæligen eru gjarnan gen sem hafa hemil á frumufjölgun og hafa eftirlit með því að frumur sem hafa orðið fyrir skemmdum, til dæmis af geislun, fjölgi sér ekki. Þannig gefur auga leið að frumur sem hafa breytingar bæði í æxlisgenum og æxlisbæligenum ráða sér sjálfar og eru ónæmar fyrir öllu eftirliti. Tap á starfsemi æxlisbæligena getur því verið lykilatburður í þróun æxlisins. Þess ber að geta að langflestar þær genabreytingar sem hér um ræðir eru áunnar, það er að segja að þær verða eingöngu í æxlinu en eru hvergi annars staðar í líkama sjúklingsins og erfast ekki.

Lítum þá ögn nánar á eiginleika æxlisbæligena. Afurðir æxlisbæligena geta til dæmis haft hamlandi áhrif á frumufjölgun, stuðlað að viðgerð erfðaefnisins ef það verður fyrir skemmdum, komið í veg fyrir skiptingar frumna með skemmt erfðaefni (ef ekki hefur tekist að gera við það) eða flýtt fyrir frumudauða (og komið þannig veg fyrir að frumur lifi lengur en þörf er á). Það er almennt einkenni á æxlisbæligenum að það nægir að annað eintakið (frá föður eða móður) sé virkt. Til þess að afleiðingar af bilun í æxlisbæligeni segi til sín þurfa því bæði eintökin að skemmast eða tapast. Þegar verið er að rannsaka breytingar á erfðaefni í krabbameinum vekur því tap á litningasvæði grun um að þar geti verið æxlisbæligen, en mögnun á litningasvæði myndi hins vegar benda til þess að þar gæti verið æxlisgen (sjá hér að ofan).

Fyrsta æxlisbæligenið sem uppgötvaðist var RB genið. Afurð þessa gens gegnir þýðingarmiklu hlutverki við stjórn á frumuskiptingum. Til eru arfgengar stökkbreytingar í þessu geni. Börn sem hafa erft slíka stökkbreytingu eru í mikilli áhættu að fá krabbamein í auga, svokallað retinoblastoma. Í ljós hefur komið að í æxlunum hefur heilbrigða eintak gensins tapast með úrfellingu úr litningnum eða orðið fyrir annarri stökkbreytingu.

Annað vel þekkt dæmi er APC genið en skammstöfunin stendur fyrir „adenomatous polyposis coli“. Þetta gen kemur við sögu við stjórn á frumufjölgun. Fólk sem hefur erft stökkbreytingu í þessu geni fær á unga aldri fjöldann allan af sepaæxlum í ristli. Eins og í fyrra dæminu um retinoblastoma hefur heilbrigða eintakið af APC geninu tapast í þessum æxlum, en þau eru enn góðkynja. Þarna hefur þó verið stigið fyrsta skrefið í átt til illkynja æxlismyndunar og í þeirri óeðlilegu frumufjölgun sem þar á sér stað eru verulega auknar líkur á fleiri breytingum á erfðaefninu. Þar koma við sögu virkjandi stökkbreytingar á æxlisgenum og tap á fleiri æxlisbæligenum, þeirra á meðal p53.

p53 gegnir mjög mikilvægu hlutverki við eftirlit með því að gert sé við skemmdir í erfðaefninu og að frumur með skemmt erfðaefni séu látnar deyja. Því hefur p53 verið nefnt vörður erfðaefnisins. Stökkbreytingar á p53 eru algengustu áunnu breytingarnar í krabbameinsæxlum yfirleitt enda auðséð að tap á starfsemi svo mikilvægs gens bjóði heim hættunni á því að frumur með allskyns brenglanir fái að lifa og fjölga sér. Rétt er að geta þess að arfgengar stökkbreytingar á p53 eru til en sárasjaldgæfar.

Eins og áður var sagt eru langflestar genabreytingar í krabbameinsæxlum áunnar og þegar um er að ræða æxlisbæligen verður oft fyrst stökkbreyting og síðan verður tap á viðkomandi svæði á hinum litningnum til þess að heilbrigða eintakið glatast.

Höfundur

Helga Ögmundsdóttir

prófessor í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.6.2004

Spyrjandi

Sigríður Guðnadóttir
Margret Andreasen

Tilvísun

Helga Ögmundsdóttir. „Hvað er æxlisbæligen?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2004. Sótt 15. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4321.

Helga Ögmundsdóttir. (2004, 7. júní). Hvað er æxlisbæligen? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4321

Helga Ögmundsdóttir. „Hvað er æxlisbæligen?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2004. Vefsíða. 15. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4321>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er æxlisbæligen?
Byrjum á að rifja stuttlega upp svar við spurningunni Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? en þar sagði meðal annars um aðdraganda þess að frumur fari að hegða sér sem krabbameinsfrumur:

Til grundvallar liggja alltaf breytingar í stjórnstöð frumunnar og forritum, það er í erfðaefninu (DNA). Þegar frumur eru orðnar illkynja hafa yfirleitt safnast fyrir í þeim allnokkrar breytingar á erfðaefni, því að sem betur fer hafa frumur ýmsar leiðir til að bæta fyrir galla í einu og einu geni. Fjöldamargar slíkar breytingar eru nú þekktar og eru annars vegar flokkaðar undir ofstarfsemi í svokölluðum æxlisgenum og hins vegar undir vanstarf í æxlisbæligenum.

Æxlisgen eru til dæmis gen sem stýra frumufjölgun (sjá svar Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað eru stýrigen og hvert er hlutverk þeirra?) og í rauninni eru slík gen auðvitað að uppruna fullkomlega eðlileg en stökkbreyting verður til þess að þau verða ofvirk og fá þá æxlismyndandi verkun. Æxlisbæligen eru gjarnan gen sem hafa hemil á frumufjölgun og hafa eftirlit með því að frumur sem hafa orðið fyrir skemmdum, til dæmis af geislun, fjölgi sér ekki. Þannig gefur auga leið að frumur sem hafa breytingar bæði í æxlisgenum og æxlisbæligenum ráða sér sjálfar og eru ónæmar fyrir öllu eftirliti. Tap á starfsemi æxlisbæligena getur því verið lykilatburður í þróun æxlisins. Þess ber að geta að langflestar þær genabreytingar sem hér um ræðir eru áunnar, það er að segja að þær verða eingöngu í æxlinu en eru hvergi annars staðar í líkama sjúklingsins og erfast ekki.

Lítum þá ögn nánar á eiginleika æxlisbæligena. Afurðir æxlisbæligena geta til dæmis haft hamlandi áhrif á frumufjölgun, stuðlað að viðgerð erfðaefnisins ef það verður fyrir skemmdum, komið í veg fyrir skiptingar frumna með skemmt erfðaefni (ef ekki hefur tekist að gera við það) eða flýtt fyrir frumudauða (og komið þannig veg fyrir að frumur lifi lengur en þörf er á). Það er almennt einkenni á æxlisbæligenum að það nægir að annað eintakið (frá föður eða móður) sé virkt. Til þess að afleiðingar af bilun í æxlisbæligeni segi til sín þurfa því bæði eintökin að skemmast eða tapast. Þegar verið er að rannsaka breytingar á erfðaefni í krabbameinum vekur því tap á litningasvæði grun um að þar geti verið æxlisbæligen, en mögnun á litningasvæði myndi hins vegar benda til þess að þar gæti verið æxlisgen (sjá hér að ofan).

Fyrsta æxlisbæligenið sem uppgötvaðist var RB genið. Afurð þessa gens gegnir þýðingarmiklu hlutverki við stjórn á frumuskiptingum. Til eru arfgengar stökkbreytingar í þessu geni. Börn sem hafa erft slíka stökkbreytingu eru í mikilli áhættu að fá krabbamein í auga, svokallað retinoblastoma. Í ljós hefur komið að í æxlunum hefur heilbrigða eintak gensins tapast með úrfellingu úr litningnum eða orðið fyrir annarri stökkbreytingu.

Annað vel þekkt dæmi er APC genið en skammstöfunin stendur fyrir „adenomatous polyposis coli“. Þetta gen kemur við sögu við stjórn á frumufjölgun. Fólk sem hefur erft stökkbreytingu í þessu geni fær á unga aldri fjöldann allan af sepaæxlum í ristli. Eins og í fyrra dæminu um retinoblastoma hefur heilbrigða eintakið af APC geninu tapast í þessum æxlum, en þau eru enn góðkynja. Þarna hefur þó verið stigið fyrsta skrefið í átt til illkynja æxlismyndunar og í þeirri óeðlilegu frumufjölgun sem þar á sér stað eru verulega auknar líkur á fleiri breytingum á erfðaefninu. Þar koma við sögu virkjandi stökkbreytingar á æxlisgenum og tap á fleiri æxlisbæligenum, þeirra á meðal p53.

p53 gegnir mjög mikilvægu hlutverki við eftirlit með því að gert sé við skemmdir í erfðaefninu og að frumur með skemmt erfðaefni séu látnar deyja. Því hefur p53 verið nefnt vörður erfðaefnisins. Stökkbreytingar á p53 eru algengustu áunnu breytingarnar í krabbameinsæxlum yfirleitt enda auðséð að tap á starfsemi svo mikilvægs gens bjóði heim hættunni á því að frumur með allskyns brenglanir fái að lifa og fjölga sér. Rétt er að geta þess að arfgengar stökkbreytingar á p53 eru til en sárasjaldgæfar.

Eins og áður var sagt eru langflestar genabreytingar í krabbameinsæxlum áunnar og þegar um er að ræða æxlisbæligen verður oft fyrst stökkbreyting og síðan verður tap á viðkomandi svæði á hinum litningnum til þess að heilbrigða eintakið glatast. ...