Sólin Sólin Rís 03:55 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:59 • Sest 03:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:27 • Síðdegis: 16:57 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 23:06 í Reykjavík

Hvers vegna dó sverðkötturinn út?

Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Hér er einnig að finna svar við spurningunum:
  • Getið þið sagt mér sem flest um sverðköttinn og sýnt mér mynd?
  • Hvað voru tennurnar í sverðkettinum stórar?

Sverðkettir (Smilodon, e. sabertooth cat) eru meðal best þekktu ísaldardýranna og hafa steingerðar leifar þeirra fundist bæði í Ameríku og Evrópu. Í La Brea í Los Angeles í Kaliforníufylki er vel þekktur fundarstaður en þar hafa fundist leifar þúsunda sverðkatta.

Sverðkettir draga nafn sitt af ógurlegri stærð vígtanna en rannsóknir hafa leitt í ljós að þær voru allt að 18 cm langar. Fræðimenn eru nokkuð sammála um að þessar miklu tennur hafi verið notaðar við veiðar en þá greinir á um hvernig þeim hafi verið beitt. Sumir steingervingafræðingar eru þeirrar skoðunar að tennurnar hafi verið notaðar til þess að grípa bráðina og halda henni fastri en fleiri hallast að því að tennurnar hafi verið notaðar til þess að skera bráðina á háls eða rista gat á kviðinn.

Sverðkettir voru svipaðir á stærð og ljón en helmingi þyngri. Þeir höfðu stutta fætur og gátu þess vegna ekki hlaupið hratt eða langt á eftir bráð sinni. Því er talið líklegt að þeir hafi setið fyrir bráðinni og ráðist á hana úr launsátri í stað þess að elta hana uppi.

Ýmislegt bendir til þess að sverðkettir hafi lifað í hópum líkt og ljón (sjá svar Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Getið þið sagt mér allt um ljón?) en ekki verið einfarar eins og aðrar tegundir stórra kattardýra. Meðal annars hafa fundist bein sem bera þess merki að dýr hafi hlotið áverka en lifað það lengi að beinin náðu að gróa. Það bendir til þess að særð dýr hafi fengið að éta bráð sem hraust dýr veiddu. Dýr sem veiða ein síns liðs eiga litla möguleika á að lifa af verði þau fyrir áverkum sem takmarka veiðigetu þeirra.

Sverðkettir voru komnir fram á sjónarsviðið fyrir um tveimur milljónum ára en dóu að öllum líkindum út við lok síðustu ísaldar fyrir um 10-12 þúsund árum síðan eins og svo mörg önnur stór spendýr. Lesa má meira um ísöld í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er ísöld og hvenær myndast hún?

Á síðustu ísöld var svokölluð megafána Norður-Ameríku afar blómleg og hafa steingervingafræðingar greint um 48 tegundir stórra spendýra sem lifðu á þessu tiltekna svæði á þeim tíma. Auk sverðkattarins má nefna annan stórvaxinn kött, bjúgköttinn (Homotherium serum, e. scimitar cat) sem uppi var á svipuðum tíma, ógnarúlfinn (Canis dirus, e. dire wolf) sem líktist mjög gráúlfinum í útliti en var að jafnaði talsvert stærri og bjarndýr sem á ensku nefnist short-faced bear (Arctodus simus) og var mun stærri en brúnbirnir (skógarbirnir), núlifandi frændur þess í Norður-Ameríku. Þá má nefna risaletidýr (Megatherium americanum), mammúta (Mammuthus spp.), mastódona (Mammut americanum) og ameríska hellaljónið (Panthera leo atrox) sem öll lifðu í Norður-Ameríku á þessum tíma. Nánar má lesa um nokkur þessara dýra í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hvernig var dýralífið á ísöldunum?

Samkvæmt bestu þekkingu innan steingervingafræðinnar hurfu þessi dýr við lok síðasta jökulskeiðs. Sennilegt er talið að um 75% af öllum spendýrum í Norður-Ameríku sem vógu yfir 50 kg hafi dáið út á þessu tímabili. Fræðimenn hafa löngum deilt um það hvað olli hinni miklu útrýmingaröldu sem reið yfir jörðina við lok ísaldar. Tveimur kenningum hefur einkum verið haldið á lofti um ástæðuna fyrir því að ameríska megafánan hvarf af yfirborði jarðar, annars vegar að veðurfarsbreytingarnar sem urðu á þessu tímabili eigi þar sök að máli og hins vegar ofveiði hinna nýju landnema álfunnar, það er manna.

Það er vel þekkt staðreynd að eyðing búsvæða getur stuðlað að útdauða tiltekinnar tegundar. Fyrir 10-15 þúsund árum hlýnaði verulega á jörðinni með tilheyrandi breytingum á vistkerfi meginlandanna. Því fylgdu breytingar á gróðurfari þegar opin svæði og gresjur viku fyrir þéttum skógum. Stóru grasbítunum tókst ekki að aðlagast þessum snöggu gróðurfarsbreytingum en það leiddi til þess að þau dóu út. Þar með var helsta fæða sverðkattanna og annarra sérhæfðra afræningja horfin og fótunum kippt undar tilveru þeirra.

Hin kenningin um útdauða tegundanna við lok ísaldar gerir ráð fyrir að ofveiði manna hafi þar spilað stórt hlutverk. Samkvæmt fornum mannvistarleifum komu menn yfir landbrúna frá Síberíu til Ameríku um það leyti sem megafánan leið undir lok. Fræðimenn hafa bent á að dýr eins og mammútar og mastódonar, sem menn virðast hafa veitt í miklum mæli, hafi ekki lifað jafndreift um álfuna, heldur á afmörkuðum svæðum. Vísbendingar eru um að þar hafi menn sest að og tekið til við að veiða þessi dýr þar til þau dóu út.

Fræðimenn eiga sjálfsagt eftir að deila um það enn um sinn hvort loftslagsbreytingar, ofveiði manna eða samblanda af hvoru tveggja hafi valdið aldauða stóru grasbítanna. Staðreyndin er hins vegar sú að sverðkettir voru afar sérhæfðir afræningjar og ásamt áðurnefndum bjarndýrum (short-faced bears) eru þeir einu þekktu afræningjar mastódona og mammúta fyrir utan manninn. Örlög þessara rándýra hafa því ráðist þegar mammútar og mastódonar hurfu á braut.

Heimildir og myndir:

Höfundar

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

22.6.2004

Spyrjandi

Ingunn Hreinberg
Jóhann Bjarki Arnarsson Hall, f. 1992
Helgi Jónsson, f. 1993

Tilvísun

Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers vegna dó sverðkötturinn út?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2004. Sótt 20. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4364.

Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2004, 22. júní). Hvers vegna dó sverðkötturinn út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4364

Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvers vegna dó sverðkötturinn út?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2004. Vefsíða. 20. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4364>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna dó sverðkötturinn út?
Hér er einnig að finna svar við spurningunum:

  • Getið þið sagt mér sem flest um sverðköttinn og sýnt mér mynd?
  • Hvað voru tennurnar í sverðkettinum stórar?

Sverðkettir (Smilodon, e. sabertooth cat) eru meðal best þekktu ísaldardýranna og hafa steingerðar leifar þeirra fundist bæði í Ameríku og Evrópu. Í La Brea í Los Angeles í Kaliforníufylki er vel þekktur fundarstaður en þar hafa fundist leifar þúsunda sverðkatta.

Sverðkettir draga nafn sitt af ógurlegri stærð vígtanna en rannsóknir hafa leitt í ljós að þær voru allt að 18 cm langar. Fræðimenn eru nokkuð sammála um að þessar miklu tennur hafi verið notaðar við veiðar en þá greinir á um hvernig þeim hafi verið beitt. Sumir steingervingafræðingar eru þeirrar skoðunar að tennurnar hafi verið notaðar til þess að grípa bráðina og halda henni fastri en fleiri hallast að því að tennurnar hafi verið notaðar til þess að skera bráðina á háls eða rista gat á kviðinn.

Sverðkettir voru svipaðir á stærð og ljón en helmingi þyngri. Þeir höfðu stutta fætur og gátu þess vegna ekki hlaupið hratt eða langt á eftir bráð sinni. Því er talið líklegt að þeir hafi setið fyrir bráðinni og ráðist á hana úr launsátri í stað þess að elta hana uppi.

Ýmislegt bendir til þess að sverðkettir hafi lifað í hópum líkt og ljón (sjá svar Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Getið þið sagt mér allt um ljón?) en ekki verið einfarar eins og aðrar tegundir stórra kattardýra. Meðal annars hafa fundist bein sem bera þess merki að dýr hafi hlotið áverka en lifað það lengi að beinin náðu að gróa. Það bendir til þess að særð dýr hafi fengið að éta bráð sem hraust dýr veiddu. Dýr sem veiða ein síns liðs eiga litla möguleika á að lifa af verði þau fyrir áverkum sem takmarka veiðigetu þeirra.

Sverðkettir voru komnir fram á sjónarsviðið fyrir um tveimur milljónum ára en dóu að öllum líkindum út við lok síðustu ísaldar fyrir um 10-12 þúsund árum síðan eins og svo mörg önnur stór spendýr. Lesa má meira um ísöld í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er ísöld og hvenær myndast hún?

Á síðustu ísöld var svokölluð megafána Norður-Ameríku afar blómleg og hafa steingervingafræðingar greint um 48 tegundir stórra spendýra sem lifðu á þessu tiltekna svæði á þeim tíma. Auk sverðkattarins má nefna annan stórvaxinn kött, bjúgköttinn (Homotherium serum, e. scimitar cat) sem uppi var á svipuðum tíma, ógnarúlfinn (Canis dirus, e. dire wolf) sem líktist mjög gráúlfinum í útliti en var að jafnaði talsvert stærri og bjarndýr sem á ensku nefnist short-faced bear (Arctodus simus) og var mun stærri en brúnbirnir (skógarbirnir), núlifandi frændur þess í Norður-Ameríku. Þá má nefna risaletidýr (Megatherium americanum), mammúta (Mammuthus spp.), mastódona (Mammut americanum) og ameríska hellaljónið (Panthera leo atrox) sem öll lifðu í Norður-Ameríku á þessum tíma. Nánar má lesa um nokkur þessara dýra í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hvernig var dýralífið á ísöldunum?

Samkvæmt bestu þekkingu innan steingervingafræðinnar hurfu þessi dýr við lok síðasta jökulskeiðs. Sennilegt er talið að um 75% af öllum spendýrum í Norður-Ameríku sem vógu yfir 50 kg hafi dáið út á þessu tímabili. Fræðimenn hafa löngum deilt um það hvað olli hinni miklu útrýmingaröldu sem reið yfir jörðina við lok ísaldar. Tveimur kenningum hefur einkum verið haldið á lofti um ástæðuna fyrir því að ameríska megafánan hvarf af yfirborði jarðar, annars vegar að veðurfarsbreytingarnar sem urðu á þessu tímabili eigi þar sök að máli og hins vegar ofveiði hinna nýju landnema álfunnar, það er manna.

Það er vel þekkt staðreynd að eyðing búsvæða getur stuðlað að útdauða tiltekinnar tegundar. Fyrir 10-15 þúsund árum hlýnaði verulega á jörðinni með tilheyrandi breytingum á vistkerfi meginlandanna. Því fylgdu breytingar á gróðurfari þegar opin svæði og gresjur viku fyrir þéttum skógum. Stóru grasbítunum tókst ekki að aðlagast þessum snöggu gróðurfarsbreytingum en það leiddi til þess að þau dóu út. Þar með var helsta fæða sverðkattanna og annarra sérhæfðra afræningja horfin og fótunum kippt undar tilveru þeirra.

Hin kenningin um útdauða tegundanna við lok ísaldar gerir ráð fyrir að ofveiði manna hafi þar spilað stórt hlutverk. Samkvæmt fornum mannvistarleifum komu menn yfir landbrúna frá Síberíu til Ameríku um það leyti sem megafánan leið undir lok. Fræðimenn hafa bent á að dýr eins og mammútar og mastódonar, sem menn virðast hafa veitt í miklum mæli, hafi ekki lifað jafndreift um álfuna, heldur á afmörkuðum svæðum. Vísbendingar eru um að þar hafi menn sest að og tekið til við að veiða þessi dýr þar til þau dóu út.

Fræðimenn eiga sjálfsagt eftir að deila um það enn um sinn hvort loftslagsbreytingar, ofveiði manna eða samblanda af hvoru tveggja hafi valdið aldauða stóru grasbítanna. Staðreyndin er hins vegar sú að sverðkettir voru afar sérhæfðir afræningjar og ásamt áðurnefndum bjarndýrum (short-faced bears) eru þeir einu þekktu afræningjar mastódona og mammúta fyrir utan manninn. Örlög þessara rándýra hafa því ráðist þegar mammútar og mastódonar hurfu á braut.

Heimildir og myndir:...