Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Er hætta á að mengandi efni myndist þegar dagblöð eru brennd í kamínu innanhúss?

Hermann Þórðarson

Við þessari spurningu væri hægt að gefa einfalt svar: Já, það er óhjákvæmilegt. Skoðum það aðeins nánar.

Við alla brennslu myndast mengandi efni í nokkrum mæli. Við brennsluna myndast fínt ryk eða sót og gastegundir eins og koltvíoxíð, kolmónoxíð, nituroxíð og brennisteinstvíoxíð. Reykurinn frá eldi af þessu tagi getur auk þess innihaldið fjölmörg lífræn mengunar- og eiturefni í einhverjum mæli, svo sem rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC), fjölarómatísk kolvatnsefni (PAH), fjölklórabífenýl (PCB), díoxín og fúrön.

Fína rykið eða sótið sem myndast er hættulegt vegna þess hve smáar agnirnar eru, þær eru gjarnan 10µm eða minni og eiga greiða leið niður í lungu, ef við öndum reyknum að okkur. Þetta fína ryk inniheldur eða er samsett úr hluta þeirra mengunarefna sem talin voru hér á undan og eru sum hver með eitruðustu efnum sem þekkjast og staðfestir krabbameinsvaldar.

Við vitum þó að það er alls ekki bráðdrepandi að eiga kamínu eða að umgangast eldstæði, því yfirleitt er vel hugsað fyrir afsogi frá eldinum. En staðreyndin er samt, að miðað við hita og nýtanlegt afl sem við fáum úr brennslu af þessu tagi, þá er þetta með óhagkvæmustu og mest mengandi upphitunaraðferðum sem þekkjast. Þannig er til dæmis vitað að konur í þróunarlöndum sem elda við opinn eld eru í meiri hættu að fá krabbamein en aðrir í meðlimir í fjölskyldu þeirra.

Til að mengunin verði sem minnst er rétt að hafa eftirfarandi í huga: Því fullkomnari og betri sem bruninn er, þeim mun minni er mengunin. Aðstreymi lofts (súrefnis) og afsog þarf að vera gott. Eldur við takmarkað súrefnisstreymi verður gulur og sótar mikið og hitastigið lækkar í brunanum. Mengunin er meiri og hættulegri eftir því sem hitinn er lægri. Kjörskilyrði fyrir myndun díoxína og fúrana við bruna er til dæmis við 250-450°C. Því er rétt að nota ekki rakt eldsneyti, því þá fer hluti af varmanum í að eima burt vatnið og hitastigið í brunanum verður lægra.

Það er gjarnan svo að mest af mengunarefnunum myndast við uppkveikjuna og þegar eldurinn er að deyja út. Með tilliti til þess er því best að hraða uppkveikjunni og nota til þess auðbrennanlegt efni og ná hratt upp góðum loga. Til þess eru dagblöð ágæt og þjóna því hlutverki gjarnan þegar kveikt er upp. Hins vegar eru þau ekki gott eldsneyti að öllu leyti og fyrir því eru einkum tvær ástæður. Frá þeim kemur nokkurt sót, því pappírinn er þunnur og við brunann losna flygsur auðveldlega upp úr logunum. Þá geta sum efni í prentblekinu verið mengandi þegar þeim er brennt, sérstaklega ef dagblöðin eru prentuð í lit, en litarefnin geta tildæmis innihaldið þungmálma þó í litlum mæli sé. Prentsvertan sjálf er oftast olía með kolsvertu (e. carbon black) sem litarefni og brennur því vel og er sem slík ekki frekar mengandi en pappírinn.

Til að menga sem minnst er því rétt að ná eldinum upp á skömmum tíma, til dæmis með því að nota dagblöð til uppkveikju, nota góðan þurran við sem eldsmat, halda eldinum vel við og hæfilega og láta hann loga og deyja út með góðu aðstreymi lofts (ekki kæfa hann).

Ekki skal brenna í kamínu eða opnu eldstæði aðskiljanlegu rusli, sem getur innihaldið raka, salt eða klór, né plastefnum eða tregbrennanlegum efnum. Með þess konar eldsmat margfaldast mengunar- og eiturefnin sem frá eldinum koma.

Mynd: Hat and Donna's Nature Preserve

Höfundur

efnaverkfræðingur og forstöðumaður Efnagreininga hjá Iðntæknistofnun

Útgáfudagur

5.7.2004

Spyrjandi

Edda Magnúsdóttir

Tilvísun

Hermann Þórðarson. „Er hætta á að mengandi efni myndist þegar dagblöð eru brennd í kamínu innanhúss?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2004. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4387.

Hermann Þórðarson. (2004, 5. júlí). Er hætta á að mengandi efni myndist þegar dagblöð eru brennd í kamínu innanhúss? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4387

Hermann Þórðarson. „Er hætta á að mengandi efni myndist þegar dagblöð eru brennd í kamínu innanhúss?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2004. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4387>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hætta á að mengandi efni myndist þegar dagblöð eru brennd í kamínu innanhúss?
Við þessari spurningu væri hægt að gefa einfalt svar: Já, það er óhjákvæmilegt. Skoðum það aðeins nánar.

Við alla brennslu myndast mengandi efni í nokkrum mæli. Við brennsluna myndast fínt ryk eða sót og gastegundir eins og koltvíoxíð, kolmónoxíð, nituroxíð og brennisteinstvíoxíð. Reykurinn frá eldi af þessu tagi getur auk þess innihaldið fjölmörg lífræn mengunar- og eiturefni í einhverjum mæli, svo sem rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC), fjölarómatísk kolvatnsefni (PAH), fjölklórabífenýl (PCB), díoxín og fúrön.

Fína rykið eða sótið sem myndast er hættulegt vegna þess hve smáar agnirnar eru, þær eru gjarnan 10µm eða minni og eiga greiða leið niður í lungu, ef við öndum reyknum að okkur. Þetta fína ryk inniheldur eða er samsett úr hluta þeirra mengunarefna sem talin voru hér á undan og eru sum hver með eitruðustu efnum sem þekkjast og staðfestir krabbameinsvaldar.

Við vitum þó að það er alls ekki bráðdrepandi að eiga kamínu eða að umgangast eldstæði, því yfirleitt er vel hugsað fyrir afsogi frá eldinum. En staðreyndin er samt, að miðað við hita og nýtanlegt afl sem við fáum úr brennslu af þessu tagi, þá er þetta með óhagkvæmustu og mest mengandi upphitunaraðferðum sem þekkjast. Þannig er til dæmis vitað að konur í þróunarlöndum sem elda við opinn eld eru í meiri hættu að fá krabbamein en aðrir í meðlimir í fjölskyldu þeirra.

Til að mengunin verði sem minnst er rétt að hafa eftirfarandi í huga: Því fullkomnari og betri sem bruninn er, þeim mun minni er mengunin. Aðstreymi lofts (súrefnis) og afsog þarf að vera gott. Eldur við takmarkað súrefnisstreymi verður gulur og sótar mikið og hitastigið lækkar í brunanum. Mengunin er meiri og hættulegri eftir því sem hitinn er lægri. Kjörskilyrði fyrir myndun díoxína og fúrana við bruna er til dæmis við 250-450°C. Því er rétt að nota ekki rakt eldsneyti, því þá fer hluti af varmanum í að eima burt vatnið og hitastigið í brunanum verður lægra.

Það er gjarnan svo að mest af mengunarefnunum myndast við uppkveikjuna og þegar eldurinn er að deyja út. Með tilliti til þess er því best að hraða uppkveikjunni og nota til þess auðbrennanlegt efni og ná hratt upp góðum loga. Til þess eru dagblöð ágæt og þjóna því hlutverki gjarnan þegar kveikt er upp. Hins vegar eru þau ekki gott eldsneyti að öllu leyti og fyrir því eru einkum tvær ástæður. Frá þeim kemur nokkurt sót, því pappírinn er þunnur og við brunann losna flygsur auðveldlega upp úr logunum. Þá geta sum efni í prentblekinu verið mengandi þegar þeim er brennt, sérstaklega ef dagblöðin eru prentuð í lit, en litarefnin geta tildæmis innihaldið þungmálma þó í litlum mæli sé. Prentsvertan sjálf er oftast olía með kolsvertu (e. carbon black) sem litarefni og brennur því vel og er sem slík ekki frekar mengandi en pappírinn.

Til að menga sem minnst er því rétt að ná eldinum upp á skömmum tíma, til dæmis með því að nota dagblöð til uppkveikju, nota góðan þurran við sem eldsmat, halda eldinum vel við og hæfilega og láta hann loga og deyja út með góðu aðstreymi lofts (ekki kæfa hann).

Ekki skal brenna í kamínu eða opnu eldstæði aðskiljanlegu rusli, sem getur innihaldið raka, salt eða klór, né plastefnum eða tregbrennanlegum efnum. Með þess konar eldsmat margfaldast mengunar- og eiturefnin sem frá eldinum koma.

Mynd: Hat and Donna's Nature Preserve...