Sólin Sólin Rís 08:37 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:24 • Sest 08:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:12 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um lungun og hvað öndum við mörgum lítrum af lofti að okkur á sólarhring?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Lungun eru tveir svampkenndir, loftfylltir pokar sitt hvorum megin í brjóstholinu. Þau eru helstu öndunarfæri líkamans. Barkinn leiðir innöndunarloft ofan í lungun en hann klofnar í tvær berkjur sem síðan greinast í sífellt minni berklur í hvoru lunga. Á endum minnstu berklnanna eru klasar af blöðrum, svokölluðum lungnablöðrum. Hver lungnablaðra er 200-300 µm í þvermáli.

Það er hlutverk lungna að koma súrefni innöndunarloftsins í blóðrásina og losa koltvíildi (koltvíoxíð) úr blóðinu. Þetta fer fram með flæði á þessum lofttegundum milli blóðs í háræðum og lofts í lungnablöðrunum. Súrefni og koltvíildi flæða þá úr meiri styrk í minni, það er súrefni úr lungnablöðrum í blóðið og koltvíildið öfuga leið. Það eru aðeins tvö frumulög sem skilja þessi tvö hólf að. Veggur háræðanna er aðeins eitt frumulag á þykkt og veggur lungnablaðranna sömuleiðis.

Til þess að flæði gangi sem best er yfirborð lungnablaðranna gífurlega stórt eða samtals um 75 m2. Súrefnið berst síðan með blóðinu til frumna líkamans sem nota það við bruna en þá er orka losuð úr orkugjöfum eins og sykri og fitu til að reka starfsemi líkamans. Við bruna og aðra frumustarfsemi myndast koltvíildi sem er úrgangsefni og líkaminn þarf að losa sig við. Koltvíildi berst út í blóðið sem flytur það til lungnanna þaðan sem það fer út úr líkamanum með útöndun.


Yfirborð lungnablaðra í lungunum er á við meðalstóra íbúð eða samtals um 75 m2. Á hverjum sólarhring öndum við að okkur um 12.500 lítrum af lofti.

Utan um lungun er himna, brjósthimna eða fleiðra. Önnur slík himna þekur brjóstholið að innan. Milli þessara tveggja himna er vökvi sem gerir hreyfingar lungnanna við inn- og útöndun þjálar og auðveldar. Brjósthimna lungnanna er tengd vöðvum í brjóstholinu, þindinni og rifjavöðvum. Þessir vöðvar eru oft kallaðir öndunarvöðvar. Þegar þeir dragast saman toga þeir í lungun sem þenjast þá út og rúmmál lungnanna eykst. Það hefur í för með sér að loftþrýstingur í þeim fellur. Loft dregst þá inn í lungun úr andrúmsloftinu þar sem þrýstingurinn er meiri. Við öndum sem sagt inn. Það öfuga gerist þegar öndunarvöðvarnir slakna. Þá þrýsta þeir á lungun, rúmmál lungna minnkar og loftþrýstingur eykst. Loft streymir þá út úr lungunum í andrúmsloftið þar sem þrýstingur er nú minni; við öndum sem sagt út.

Við þurfum ekki að hugsa um að anda. Öndun er stjórnað af öndunarstöðinni, sem er sjálfvirk miðstöð í mænukylfu heilans. Hún fær boð um súrefnis- og koltvíildisstyrk í blóði frá efnanemum í ósæð og hálsslagæðum og um koltvíildisstyrk í heila- og mænuvökva frá efnanema í mænukylfu. Ef styrkur koltvíildis eykst er öndunin aukin, bæði tíðni og dýpt. Efnanemarnir eru einnig næmir á sýrustig blóðs og heila- og mænuvökva og auka öndun ef þessir vökvar verða súrari en það gerist ef koltvíildisstyrkur eykst. Þannemar í lungnavegg og brjóstholi senda boð til öndunarstöðvar ef lungun þenjast of mikið út. Það stöðvar innöndun og kemur af stað útöndun. Þetta viðbragð kemur í veg fyrir skemmdir á lungunum. Koltvíildisstyrkur er sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir stjórnun öndunar. Súrefnisskortur kemur mun sjaldnar inn í myndina þar sem áhrif koltvíildis á öndun leiða til þess að hann kemur yfirleitt ekki fyrir.

Við öndum 15 til 25 sinnum á mínútu um það bil hálfum lítra af lofti í hvert sinn. Þetta samsvarar um 25.000 sinnum á sólarhring og 12.500 lítrum. Við áreynslu eykst öndunartíðnin og einnig öndunarloftið í hverjum andardrætti. Lungun eru gífurlega mikilvæg líffæri og vinna mjög náið með blóðrásinni. Það eru margir sjúkdómar sem geta herjað á lungun en við getum verndað þau með því að reykja ekki og forðast reyk frá öðrum og aðra mengun.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað er mikilvægt að vita um lungun í okkur, hvert er hlutverk þeirra?

Höfundur

Útgáfudagur

8.3.2011

Spyrjandi

Ásthildur Ólöf Ríkarðsdóttir, Sævar Einarsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað getur þú sagt mér um lungun og hvað öndum við mörgum lítrum af lofti að okkur á sólarhring?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2011. Sótt 29. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=57622.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2011, 8. mars). Hvað getur þú sagt mér um lungun og hvað öndum við mörgum lítrum af lofti að okkur á sólarhring? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57622

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað getur þú sagt mér um lungun og hvað öndum við mörgum lítrum af lofti að okkur á sólarhring?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2011. Vefsíða. 29. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57622>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um lungun og hvað öndum við mörgum lítrum af lofti að okkur á sólarhring?
Lungun eru tveir svampkenndir, loftfylltir pokar sitt hvorum megin í brjóstholinu. Þau eru helstu öndunarfæri líkamans. Barkinn leiðir innöndunarloft ofan í lungun en hann klofnar í tvær berkjur sem síðan greinast í sífellt minni berklur í hvoru lunga. Á endum minnstu berklnanna eru klasar af blöðrum, svokölluðum lungnablöðrum. Hver lungnablaðra er 200-300 µm í þvermáli.

Það er hlutverk lungna að koma súrefni innöndunarloftsins í blóðrásina og losa koltvíildi (koltvíoxíð) úr blóðinu. Þetta fer fram með flæði á þessum lofttegundum milli blóðs í háræðum og lofts í lungnablöðrunum. Súrefni og koltvíildi flæða þá úr meiri styrk í minni, það er súrefni úr lungnablöðrum í blóðið og koltvíildið öfuga leið. Það eru aðeins tvö frumulög sem skilja þessi tvö hólf að. Veggur háræðanna er aðeins eitt frumulag á þykkt og veggur lungnablaðranna sömuleiðis.

Til þess að flæði gangi sem best er yfirborð lungnablaðranna gífurlega stórt eða samtals um 75 m2. Súrefnið berst síðan með blóðinu til frumna líkamans sem nota það við bruna en þá er orka losuð úr orkugjöfum eins og sykri og fitu til að reka starfsemi líkamans. Við bruna og aðra frumustarfsemi myndast koltvíildi sem er úrgangsefni og líkaminn þarf að losa sig við. Koltvíildi berst út í blóðið sem flytur það til lungnanna þaðan sem það fer út úr líkamanum með útöndun.


Yfirborð lungnablaðra í lungunum er á við meðalstóra íbúð eða samtals um 75 m2. Á hverjum sólarhring öndum við að okkur um 12.500 lítrum af lofti.

Utan um lungun er himna, brjósthimna eða fleiðra. Önnur slík himna þekur brjóstholið að innan. Milli þessara tveggja himna er vökvi sem gerir hreyfingar lungnanna við inn- og útöndun þjálar og auðveldar. Brjósthimna lungnanna er tengd vöðvum í brjóstholinu, þindinni og rifjavöðvum. Þessir vöðvar eru oft kallaðir öndunarvöðvar. Þegar þeir dragast saman toga þeir í lungun sem þenjast þá út og rúmmál lungnanna eykst. Það hefur í för með sér að loftþrýstingur í þeim fellur. Loft dregst þá inn í lungun úr andrúmsloftinu þar sem þrýstingurinn er meiri. Við öndum sem sagt inn. Það öfuga gerist þegar öndunarvöðvarnir slakna. Þá þrýsta þeir á lungun, rúmmál lungna minnkar og loftþrýstingur eykst. Loft streymir þá út úr lungunum í andrúmsloftið þar sem þrýstingur er nú minni; við öndum sem sagt út.

Við þurfum ekki að hugsa um að anda. Öndun er stjórnað af öndunarstöðinni, sem er sjálfvirk miðstöð í mænukylfu heilans. Hún fær boð um súrefnis- og koltvíildisstyrk í blóði frá efnanemum í ósæð og hálsslagæðum og um koltvíildisstyrk í heila- og mænuvökva frá efnanema í mænukylfu. Ef styrkur koltvíildis eykst er öndunin aukin, bæði tíðni og dýpt. Efnanemarnir eru einnig næmir á sýrustig blóðs og heila- og mænuvökva og auka öndun ef þessir vökvar verða súrari en það gerist ef koltvíildisstyrkur eykst. Þannemar í lungnavegg og brjóstholi senda boð til öndunarstöðvar ef lungun þenjast of mikið út. Það stöðvar innöndun og kemur af stað útöndun. Þetta viðbragð kemur í veg fyrir skemmdir á lungunum. Koltvíildisstyrkur er sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir stjórnun öndunar. Súrefnisskortur kemur mun sjaldnar inn í myndina þar sem áhrif koltvíildis á öndun leiða til þess að hann kemur yfirleitt ekki fyrir.

Við öndum 15 til 25 sinnum á mínútu um það bil hálfum lítra af lofti í hvert sinn. Þetta samsvarar um 25.000 sinnum á sólarhring og 12.500 lítrum. Við áreynslu eykst öndunartíðnin og einnig öndunarloftið í hverjum andardrætti. Lungun eru gífurlega mikilvæg líffæri og vinna mjög náið með blóðrásinni. Það eru margir sjúkdómar sem geta herjað á lungun en við getum verndað þau með því að reykja ekki og forðast reyk frá öðrum og aðra mengun.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað er mikilvægt að vita um lungun í okkur, hvert er hlutverk þeirra?

...