Utan um lungun er himna, brjósthimna eða fleiðra. Önnur slík himna þekur brjóstholið að innan. Milli þessara tveggja himna er vökvi sem gerir hreyfingar lungnanna við inn- og útöndun þjálar og auðveldar. Brjósthimna lungnanna er tengd vöðvum í brjóstholinu, þindinni og rifjavöðvum. Þessir vöðvar eru oft kallaðir öndunarvöðvar. Þegar þeir dragast saman toga þeir í lungun sem þenjast þá út og rúmmál lungnanna eykst. Það hefur í för með sér að loftþrýstingur í þeim fellur. Loft dregst þá inn í lungun úr andrúmsloftinu þar sem þrýstingurinn er meiri. Við öndum sem sagt inn. Það öfuga gerist þegar öndunarvöðvarnir slakna. Þá þrýsta þeir á lungun, rúmmál lungna minnkar og loftþrýstingur eykst. Loft streymir þá út úr lungunum í andrúmsloftið þar sem þrýstingur er nú minni; við öndum sem sagt út. Við þurfum ekki að hugsa um að anda. Öndun er stjórnað af öndunarstöðinni, sem er sjálfvirk miðstöð í mænukylfu heilans. Hún fær boð um súrefnis- og koltvíildisstyrk í blóði frá efnanemum í ósæð og hálsslagæðum og um koltvíildisstyrk í heila- og mænuvökva frá efnanema í mænukylfu. Ef styrkur koltvíildis eykst er öndunin aukin, bæði tíðni og dýpt. Efnanemarnir eru einnig næmir á sýrustig blóðs og heila- og mænuvökva og auka öndun ef þessir vökvar verða súrari en það gerist ef koltvíildisstyrkur eykst. Þannemar í lungnavegg og brjóstholi senda boð til öndunarstöðvar ef lungun þenjast of mikið út. Það stöðvar innöndun og kemur af stað útöndun. Þetta viðbragð kemur í veg fyrir skemmdir á lungunum. Koltvíildisstyrkur er sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir stjórnun öndunar. Súrefnisskortur kemur mun sjaldnar inn í myndina þar sem áhrif koltvíildis á öndun leiða til þess að hann kemur yfirleitt ekki fyrir. Við öndum 15 til 25 sinnum á mínútu um það bil hálfum lítra af lofti í hvert sinn. Þetta samsvarar um 25.000 sinnum á sólarhring og 12.500 lítrum. Við áreynslu eykst öndunartíðnin og einnig öndunarloftið í hverjum andardrætti. Lungun eru gífurlega mikilvæg líffæri og vinna mjög náið með blóðrásinni. Það eru margir sjúkdómar sem geta herjað á lungun en við getum verndað þau með því að reykja ekki og forðast reyk frá öðrum og aðra mengun. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig flyst koltvíoxíð frá vefjum til lungna? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Hvernig er hringrás blóðsins? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Hvað er berkjubólga? eftir Berglindi Júlíusdóttur.
- Hvað er lungnaþemba og hverjar eru afleiðingar hennar? eftir Magnús Jóhannsson.
- Hvernig myndast lungnakrabbamein? eftir Höllu Skúladóttur.
- WebMD.
- Mama's Health
- MedicineNet
- Discovery Health
- Mynd: Encyclopædia Britannica Online. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað er mikilvægt að vita um lungun í okkur, hvert er hlutverk þeirra?