Hvernig flyst koltvíoxíð með blóði til öndunarfæra?CO2 eða koltvíoxíð er lokaafurð í efnaskiptum vefja. Þetta efni myndast við bruna í frumum (sjá svar sama höfundar um innri öndun) og berst með einföldu flæði frá frumunum sem mynda það í blóðið í nálægum æðum, það er að segja frá svæðum með meiri styrk efnisins til svæða með minni styrk. Koltvíoxíð er úrgangsefni og því nauðsynlegt að það safnist ekki fyrir í líkamanum, hvorki í vefjum né blóði. Leið líkamans til þess að losa sig við koltvíoxíð er með blóðrásinni til lungna eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningu um hringrás blóðsins, og þaðan út um nef eða munn. Koltvíoxíð flyst með blóðinu á þrenns konar formi. Í fyrsta lagi flyst um 7% af því uppleyst í blóðvökvanum sem koltvíoxíð. Í öðru lagi flyst um 23% af því bundið við prótínhluta blóðrauðasameinda sem hafa flutt súrefni frá lungum til vefja. Slíkur blóðrauði er kallaður karbamínóblóðrauði. Megnið af koltvíoxíði, eða um 70%, flyst aftur á móti sem vetnisbíkarbónatjón (HCO3-) í blóðvökva. Myndun þessarar jónar fer fram í blóðvökva þegar koltvíoxíð hefur flætt þangað frá vefjum, gengið í samband við vatn (H2O) og myndað kolsýru (H2CO3) inni í rauðkornum. Sýran klofnar síðan í vetnisjón (H+) og vetnisbíkarbónatjón (HCO3-) sem flæða úr rauðkornunum í blóðvökvann. Þegar komið er til lungna snúast öll þessi hvörf við. Í fyrsta lagi flæðir uppleyst koltvíoxíð úr blóðvökva í lungnablöðrur. Í öðru lagi klofnar karbamínóblóðrauði í blóðrauða og koltvíoxíð sem flæðir í lungnablöðrur. Í þriðja og síðasta lagi tengjast vetnisjón og vetnisbíkarbónatjón í kolsýru sem klofnar nú í koltvíoxíð og vatn og þetta koltvíoxíð flæðir sömuleiðis úr blóðinu í lungnablöðrur. Þegar við öndum frá okkur berst allt þetta koltvíoxíð úr lungnablöðrunum, upp öndunarveginn, út um nefið eða munninn og í andrúmsloftið. Þar með höfum við losað okkur við úrgangsefnið sem myndaðist í vefjum okkar við efnaskipti frumnanna. Heimild: Gerard J. Tortora (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Hvernig flyst koltvíoxíð frá vefjum til lungna?
Útgáfudagur
3.4.2003
Spyrjandi
Fanney Grétarsdóttir
Berglind Magnúsdóttir
Tilvísun
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig flyst koltvíoxíð frá vefjum til lungna?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2003, sótt 10. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3307.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2003, 3. apríl). Hvernig flyst koltvíoxíð frá vefjum til lungna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3307
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig flyst koltvíoxíð frá vefjum til lungna?“ Vísindavefurinn. 3. apr. 2003. Vefsíða. 10. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3307>.