Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í ýmsum Íslendingasögum segir frá þeim sið manna að sverjast í fóstbræðralag. Af lýsingum má dæma að þetta hafi verið heiðinn siður en ekki stundaður á þeim tíma þegar sögurnar voru færðar í letur.
Í Gísla sögu Súrssonar er lýst hugmyndum 13. aldar manna um það hvernig slíkri athöfn hefði verið háttað í heiðnum sið:
[Þeir] ganga nú út í Eyrarhvolsodda og rista þar upp úr jörðu jarðarmen, svo að báðir endar voru fastir í jörðu, og settu þar undir málaspjót, það er maður mátti taka hendi sinni til geirnagla. Þeir skyldu þar fjórir undir ganga, Þorgrímur, Gísli, Þorkell og Vésteinn. Og nú vekja þeir sér blóð og láta renna saman dreyra sinn í þeirri moldu, er upp var skorin undir jarðarmeninu, og hræra saman allt, moldina og blóðið; en síðan féllu þeir allir á hné og sverja þann eið, að hver skal annars hefna sem bróður síns, og nefna öll goðin í vitni.
Svipuð lýsing er í Fóstbræðra sögu, sem er væntanlega einnig sett saman á 13. öld:
Því tóku þeir það ráð með fastmælum að sá þeirra skyldi hefna annars er lengur lifði. En þó að þá væri menn kristnir kallaðir þá var þó í þann tíð ung kristni og mjög vangjör svo að margir gneistar heiðninnar voru þó þá eftir og í óvenju lagðir. Hafði sú siðvenja verið höfð frægra manna þeirra er það lögmál settu sín í milli að sá skyldi annars hefna er lengur lifði, þá skyldu þeir ganga undir þrjú jarðarmen og var það eiður þeirra. Sá leikur þeirra var á þá lund að rista skyldi þrjár torfur úr jörðu langar; þeirra endar skyldu allir fastir í jörðu og heimta upp lykkjurnar, svo að menn mætti ganga undir. Þann leik frömdu þeir Þormóður og Þorgeir í sínum fastmælum.
Sjá má að frásögnum þessum ber ekki saman að öllu leyti, því að í Fóstbræðra sögu er ekki minnst á blóðblöndun. Á hinn bóginn er í báðum sögunum getið um þann sið að rista torf og ganga undir það.
Kjarni fóstbræðralagsins virðist hafa verið eiðurinn um að hver ætti að hefna annars og oft er ekki getið um annað í sögum. Í þætti Orms Stórólfssonar í Flateyjarbók eru þessu svo lýst:
Svo kom að þeir sórust í fóstbræðralag að fornum sið að hvor skyldi annars hefna sá er lengur lifði ef hinn yrði vopndauður.
Geta má sér þess til að í kristnum sið hafi eiðar komið í stað blóðblöndunar.
Í lögum er nokkrum sinnum fjallað um eiðbræður. Í Gulaþingslögum kemur fram að maður geti krafist bóta af þeim sem vegur eiðbróður hans.
Í evrópskum heimildum frá fyrri hluta miðalda er stundum getið um fóstbræðralag sem virðist hafa verið svipað því sem lýst er í íslenskum heimildum frá síðari tímum. Slíkt bandalag virðist þó einnig vera undir áhrifum frá rómversku hugmyndinni um „amicitia“ (pólitíska vináttu).
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Sverrir Jakobsson. „Hvað er fóstbræðralag og hvers vegna sórust menn í fóstbræðralag?“ Vísindavefurinn, 17. september 2004, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4515.
Sverrir Jakobsson. (2004, 17. september). Hvað er fóstbræðralag og hvers vegna sórust menn í fóstbræðralag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4515
Sverrir Jakobsson. „Hvað er fóstbræðralag og hvers vegna sórust menn í fóstbræðralag?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2004. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4515>.