- Hvað gerist ef maður gleypir tyggjó, er það hættulegt eða getur maður fengið garnaflækju?
- Er hættulegt að kyngja tyggjói, þá sérstaklega ef börn eiga í hlut?
- Af hverju er óhollt að kyngja tyggigúmmíi?
- Hvað tekur það langan tíma fyrir líkamann að melta tyggjó ef það er gleypt?
- Hvað er tyggjó lengi í líkamanum eða fer það bara í gegn? Er óhollt að gleypa það?
Þó að hver tyggjóframleiðandi hafi sína sérstöku uppskrift er allt tyggigúmmí að grunninum til úr náttúrulegu eða tilbúnu gúmmíi sem gefur því seigluna og teygjanleikann sem menn sækjast eftir. Auk þess er í tyggjóinu einhvers konar mýkingarefni, til dæmis jurtaolíu, sykur eða sætuefni, önnur bragðefni og litarefni. Þessi efni leysast upp í munninum á meðan við tyggjum tyggjóið. Gúmmíið sjálft leysist hins vegar ekki upp, hvorki í munni né í meltingarvegi. Ef því er kyngt fer það sína leið gegnum meltingarveginn og skilar sér út með hægðum á nokkrum dögum eins og annar ómeltanlegur úrgangur.
Þess vegna er ekki óhollt að kyngja tyggjói þar sem það gerir okkur ekkert mein. Hins vegar nýtir líkaminn það ekki á neinn hátt og því er alveg eins gott að tyggjóið endi í ruslinu eins og gert er ráð fyrir, frekar en að við kyngjum því og það fari síðan sína leið með hægðum.
Lesa má meira um tyggjó í svari Elínar Carstensdóttur við spurningunni Hvernig var fyrsta tyggjóið og hver fann það upp? og um ferð fæðu í gegnum meltingarveginn og hlutverk hinna ýmsu líffæra í því ferli í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram?
Heimildir og mynd: