Rafstraumsskaði í vefjum verður með ýmsum tilbrigðum eftir kringumstæðum. Skaðinn ræðst einkum af straumstyrk, stærð snertiflatar, eðli straumsins (riðstraumur eða jafnstraumur), lengd tímans sem straumurinn varir og leið hans gegnum líkamann. Straumstyrkurinn ákvarðast síðan af spennunni milli staðanna þar sem straumurinn fer inn í líkamann og út úr honum. Ólíklegt er að spenna sem er minni en um það bil 20 volt valdi skemmdum en 220 voltin sem algeng eru í húsum geta valdið skaða. Ekki er þó alveg sama hver spennugjafinn er því að straumurinn verður mestur ef innra viðnám hans er lítið eins og yfirleitt er í spennugjöfum sem ætlað er að skila miklu afli eða afköstum. Einnig verður straumurinn meiri ef húðin er rök því að þá verður hann fyrir minna viðnámi á leið sinni inn í húðina og út úr henni. Tvær ástæður eru einkum til þess að riðstraumur er skaðlegri en jafnstraumur miðað við sömu spennu, og byggjast báðar á því að í riðstraumnum sveiflast rafhleðslan fram og aftur í stað þess að berast stöðugt í sömu átt. Í fyrsta lagi getur riðstraumurinn inni í líkamanum orðið meiri en ella af því að rafhleðslur myndast á víxl innan við húðina í stað þess að fara gegnum hana. Í öðru lagi hafa sveiflur riðstraumsins meiri truflandi áhrif á taugaboð og heilastarfsemi en jafnstraumur.

- Hvað er rafmagn?
- Hvernig framleiðir hrökkáll rafmagn?
- Hvers vegna fær maður straum þegar maður fer út úr bíl í frosti og hvernig kemur maður í veg fyrir það?