Ég er að velta því fyrir mér hvernig faðernispróf fer fram, hvað það kostar og hvað það hefur í för með sér.Ferlið sem fylgir faðernisprófi hefst oft á meðgöngu þar sem hin verðandi móðir getur fyllt út umsókn þess efnis að hún vilji að tekið verði blóð úr naflastreng barnsins við fæðingu sem síðar er notað til þess að ganga úr skugga um faðerni. Liggi slík ósk fyrir er tekið blóð við fæðinguna, það greint og flokkað og hluti þess geymdur fyrir DNA rannsókn. Eftir að barnið er fætt fyllir móðirin út yfirlýsingu um hver faðirinn er og er það gert hjá sýslumanni. Sýslumaður sendir síðan meintum föður pappíra til undirritunar sé hann samþykkur. Neiti maðurinn að vera faðir barnsins þarf hann að fara í blóðprufu til að gera á honum DNA erfðaefnisrannsókn sem síðan er borin saman við erfðaefnið úr blóði barnsins. Sú rannsókn getur tekið allt að 3 mánuði. Reynist viðkomandi maður vera faðir barnsins þarf hann að borga rannsóknina sem kostar 200.000 krónur (maí 2016). Reynist hann hins vegar ekki vera faðirinn er kostnaður við rannsóknina greiddur úr ríkissjóði eins og kveðið er á um í barnalögum frá 2003. Svar þetta er byggt á svari Dagnýjar Zoega ljósmóður við sambærilegri spurningu á Doktor.is og upplýsingum frá Önnur Rós Jóhannesdóttur yfirfélagsráðgjafa og Sigurlaugu Eyjólfsdóttur félagsráðgjafa á Barna- og kvennasviði LSH en þar geta konur fengið aðstoð og leiðbeiningar í sambandi við faðernismál.
Hvert er ferlið við faðernispróf?
Útgáfudagur
5.11.2004
Spyrjandi
Sunnna Guðmundsdóttir
Tilvísun
EDS. „Hvert er ferlið við faðernispróf?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2004, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4597.
EDS. (2004, 5. nóvember). Hvert er ferlið við faðernispróf? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4597
EDS. „Hvert er ferlið við faðernispróf?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2004. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4597>.