Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samkynhneigðir á Íslandi hafa ekki heimild að lögum til svokallaðrar frumættleiðingar barna. Samkynhneigður aðili í staðfestri samvist má hins vegar ættleiða stjúpbarn sitt, það er barn sem maki hans á fyrir. Þetta kemur fram í 2. gr. laga 130/1999 um ættleiðingar og 1. mgr. 6. gr. laga 87/1996 um staðfesta samvist.
Nýlega var gefin út skýrsla nefndar sem fór yfir réttarstöðu samkynhneigðra og setti fram tillögur til úrbóta. Nefndin lagði meðal annars til að samkynhneigðir fái að frumættleiða íslensk börn, en klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hvort samkynhneigðir ættu að fá að ættleiða erlend börn. Þrír nefndarmenn töldu að svo ætti að vera en þrír voru á móti. Rökin fyrir því að takmarka heimildina við ættleiðingar íslenskra barna eru þau að annars gæti samstarf við erlend ríki spillst. Var þar einkum átt við þau ríki sem Íslendingar hafa ættleitt börn frá, það er Kína, Indland og Kólumbíu. Talið var að slíkt gæti minnkað möguleika gagnkynhneigðra para á að ættleiða börn frá þessum löndum. Þess má geta að Svíþjóð er eina landið í heiminum í dag sem heimilar samkynhneigðum að ættleiða erlend börn.
Sá misskilningur skal hér einnig leiðréttur, sem stundum heyrist, að samkynhneigðir megi gifta sig á Íslandi. Samkynhneigðum er ekki heimilt að gifta sig, en þeir mega ganga í staðfesta samvist. Þetta tvennt er ólíkt, þó réttindi fólks í staðfestri samvist séu um margt þau sömu og hjóna. Kirkjuleg gifting fer fram í kirkju eða annars staðar þar sem prestur vígir saman hjón. Borgaraleg gifting fer fram hjá sýslumanni eða á hans vegum og sýslumenn einir framkvæma staðfestingu samvistar. Þess má einnig geta að í áðurnefndri skýrslu var þjóðkirkjan hvött til þess að breyta afstöðu sinni til giftinga samkynhneigðra þannig að þeir geti fengið kirkjulega vígslu.
Forsætisráðuneytið lét vinna skýrsluna sem hér hefur verið vísað til og er ekki ósennilegt að skýrslan verði grundvöllur lagasetningar um málefni samkynhneigðra í framtíðinni. Skýrsluna má nálgast hér. Þess má geta að norska þingið hafnaði nýverið frumvarpi um breytingar á lögum sem hefðu veitt samkynhneigðum rétt til þess að ganga í hjónaband og ættleiða börn.
Hægt er að lesa fleiri svör um ættleiðingar á Vísindavefnum:
Árni Helgason. „Mega samkynhneigðir á Íslandi ekki ættleiða börn?“ Vísindavefurinn, 29. nóvember 2004, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4633.
Árni Helgason. (2004, 29. nóvember). Mega samkynhneigðir á Íslandi ekki ættleiða börn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4633
Árni Helgason. „Mega samkynhneigðir á Íslandi ekki ættleiða börn?“ Vísindavefurinn. 29. nóv. 2004. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4633>.