Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru efnatengi?

Efnatengi (e. chemical bond) nefnist samtenging tveggja atóma í sameind.

Sameindir eru samsafn atóma (frumeinda) sem tengd eru saman með efnatengjum. Efnatengi milli atóma geta myndast ef orka samtengingarinnar er lægri en orka ótengdra atóma, það er ef samtengingin er orkustöðugra form en orka stakra atómanna.

Þegar tvö atóm nálgast gætir í senn fráhrindi- og aðdráttarkrafta milli hlaðinna einda (atómkjarna og rafeinda) atómanna. Ef aðdráttarkrafturinn vegur meira en fráhrindikrafturinn, lækkar heildarorkan vegna kraftvirkninnar milli atómanna, þau dragast hvort að öðru og efnatengi getur myndast (sjá mynd hér fyrir neðan). Þegar nálægð atómanna verður mjög lítil eykst hins vegar vægi fráhrindikrafta umfram aðdráttarkrafta, einkum vegna skörunar neikvætt hlaðinna rafeinda atómanna. Þar sem fráhrindi- og aðdráttarkraftar eru jafnir er enginn nettókraftur og orkan nær lágmarki. Tilsvarandi fjarlægð milli atómanna nefnist tengjalengd efnatengisins og viðkomandi orkuminnkun kallast tengiorka (sjá mynd).
Rafeindaskipan gildisrafeinda atóma getur umbreyst við ofangreindan samruna.
  1. Þegar atóm sömu gerðar tengjast og mynda tvíatóma sameindir geta gildisrafeindir dreifst jafnt milli beggja atóma. Slík efnatengi nefnast samgild tengi (e. covalent bond) og dæmi um þau er til dæmis tengi milli súrefnisatóma í súrefnissameind (O2).
  2. Ef atóm eða sameindahópar ólíkrar gerðar tengjast efnatengi geta gildisrafeindir dreifst ójafnt milli atóma í efnatenginu. Þá myndast skautuð tengi (e. polar bonds). Dæmi um slíkt er vetnisflúoríð-sameindin (HF). Táknmynd á forminu:

    vísar til þess að efnatengið sé skautað vegna misdreifingar hleðslu (δ+ og δ-) á viðkomandi atómum.
  3. Einnig geta rafeindir færst milli atóma og myndað jónir og jónatengi. Dæmi um slíkt er matarsalt (NaCl), sem einnig má tákna á forminu {Na+Cl-}.  4. Loks má nefna efnatengi í málmum og málmblöndum þar sem gildisrafeindir dreifast milli fjölda atóma í kristal og mynda málmtengi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Útgáfudagur

30.12.2004

Spyrjandi

Kolfinna María

Höfundur

Ágúst Kvaran

prófessor í eðlisefnafræði við HÍ

Tilvísun

Ágúst Kvaran. „Hvað eru efnatengi?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2004. Sótt 27. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=4689.

Ágúst Kvaran. (2004, 30. desember). Hvað eru efnatengi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4689

Ágúst Kvaran. „Hvað eru efnatengi?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2004. Vefsíða. 27. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4689>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Jón Gunnar Bernburg

1973

Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir Jóns Gunnars spanna fjölmörg svið félagsfræðinnar. Núverandi rannsóknarefni hans eru fjöldamótmæli í samtímanum, en hann hefur einnig fengist við rannsóknir sem tengjast vandamálum ungmenna og afbrotum, svo dæmi séu tekin.