Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:25 • sest 16:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:55 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar?

Jón Már Halldórsson

Orðatiltækið „lengi tekur sjórinn við“ er vel þekkt en það var almenn trú manna að hafið, þetta gríðarlega flæmi sem þekur um 70% af yfirborði jarðar, gæti endalaust tekið við úrgangi okkar mannfólksins. Nú þegar mannkynið er komið yfir 6,3 milljarða og óhugnanlegt magn af úrgangi og spilliefnum berst á hverjum degi í hafið eru að koma í ljós ýmsar óæskilegar breytingar á vistkerfi sjávar af völdum manna.

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál ekki síður en mengun lofthjúps jarðar þar sem umferð skipa er óháð landamærum og losun mengandi efna á einum stað hefur oftar en ekki áhrif fjarri losunarstaðnum.

Fjölmargir mengunarvaldar af mannavöldum ógna hreinleika og heilbrigði hafsins og eru afleiðingar aukinnar mengunar margs konar. Stundum koma áhrif mengunar fljótt fram eins og við olíuslys á borð við Exxon Valdex-slysið sem varð undan strönd Alaska árið 1989 og Prestige-slysið undan norðvesturströnd Spánar árið 2002. Í báðum þessum tilfellum fóru þúsundir tonna af þrávirkri hráolíu í sjóinn nálægt ströndum og ollu gífurlegum umhverfisskaða.



Strand olíuskipsins Presige olli miklum skaða á lífríkinu. Talið er að helmingi meiri olía hafa losnað við strand Prestige en Exxon Valdex.

Í öðrum tilfellum koma afleiðingarnar fram síðar. Það á til dæmis við um mengun vegna efna sem safnast fyrir í lífverum en slík mengun hefur stórlega dregið úr gæðum hafsins á stórum svæðum. Sem dæmi má nefna næringarefni, svo sem fosfór og nitursambönd, sem berast til sjávar frá landbúnaðarsvæðum og valda ofauðgi (e. eutrophication) sem síðan leiðir til óhófleglegs þörungablóma. Einnig má nefna skaðleg efni í botnmálningu skipa sem orsaka ófrjósemi sjávardýra og uppsöfnun á þrávirkum lífrænum efnum í vefjum dýra sem getur í nánustu framtíð haft alvarlegar afleiðingar fyrir mörg langlífari sjávardýr og dýr sem eru efst í fæðukeðjunni, svo sem hvali, seli og sjávarfugla.

Hér á eftir er fjallað nánar um þrjá af helstu mengunarvöldum hafsins, það er olíu, næringarefni og þrávirk efni, en listinn yfir allt það sem stofnar lífríki hafsins í hættu er mikið lengri en hægt er að gera grein fyrir á þessum vettvangi.

Olía
Talið er að meira en 2,5 milljarðar lítra af olíu eða 2,5 milljónir tonna fari í hafið árlega. Það fyrsta sem mörgum dettur sjálfsagt í hug þegar olíumengun í hafi er nefnd eru slys þar sem reglulega berast fréttir af því að olíuflutningaskip hafa misst mikið magn af olíu í hafið. Staðreyndin er þó sú að minnstur hluti af þeir olíu sem sleppur í hafið, líklega aðeins um 5%, er vegna slíkra stórslysa. Helsta uppspretta olíumengunar í hafi er dagleg iðja samfélagsins en sérfræðingar telja að um helmingur allrar olíu sem endar í hafinu sé notuð mótorolíu frá borgum og af iðnaðarsvæðum sem berst með frárennslisvatni til sjávar.

Þó aðeins lítill hluti olíumengunar komi frá olíuskipum vekja olíuslys á hafi alltaf mikið meiri athygli en olíumengun sem á sér stað jafnt og þétt allan ársins hring. Eitt frægasta olíuslys sögunnar er eflaust strand Exxon Valdez undan ströndum Alaska snemma vors 1989. Talið er að um 38.800 tonn af hráolíu hafi farið í sjóinn og valdið gríðarlegu umhverfistjóni á stóru svæði. Talið er að um 250 þúsund sjófuglar, 2.800 sæotrar, 300 selir, 250 skallaernir og rúmlega 20 háhyrninga auk fjölda annarra hvala, milljarða fiska og óteljandi hryggleysingja hafi drepist af völdum olíunnar sem lagðist eins og nálak yfir lífverurnar og kæfði, eitraði eða olli ofkólnun (hjá fuglum).

Eins og þetta ber með sér voru áhrif á lífríkið mjög mikil. Hins vegar nær Exxon Valdez slysið ekki inn á lista yfir 50 mestu olíuslys sögunnar ef einungis er litið til þess magns olíu sem slapp út í umhverfið.

Næringarefni frá landbúnaði
Árlega berast til sjávar milljónir tonna af svokölluðum næringarefnum eða næringarsöltum sem notuð eru í landbúnaði. Þessi efni eru nauðsynleg fyrir frumframleiðslu í hafinu en ekki í nálægt því eins miklu magni og berst til sjávar. Þar sem mikið af næringarsöltum berst í hafið geta þau valdið gríðarlegum þörungavexti sem líffræðingar nefna ofauðgi. Mörg innhöf hafa skaðast vegna þess. Sem dæmi má nefna Eystrsaltið sem er umlukið miklum landbúnaðarsvæðum í Skandinavíu, Þýskalandi og svæðum sem áður tilheyrðu gömlu Sovétríkjunum.

Ein af afleiðingum slíks þörungablóma er sú að þegar þörungarnir drepast fellur gríðarlegt magn þeirra til botns og rotnar þar. Súrefnisinnihald í neðstu lögum sjávar fellur og þar verður vart lífvænlegt fyrir ýmis dýr sem þar lifa þannig að þau hverfa.



Afleiðingar mengunar frá landbúnaði hafa verið augljósastar í Eystrasalti en eru einnig greinilegar í innhöfum víða annars staðar svo sem í Mexíkóflóa við Bandaríkin og Mexíkó.

Þrávirk lífræn efni og þungmálmar
Helstu flokkar lífrænna efna sem ógna vistkerfi sjávar eru DDT, PCP og díoxínefni. Þessi efni eru framleidd í iðnaði og hafa tilhneigingu til að berast með loft- og hafstraumum frá upprunasvæðum til kaldari svæða jarðar og setjast þar fyrir í lífkeðjunni. Vitað er að þessi efni hafa ýmsar alvarlegar afleiðingar fyrir lífverur. Áhrif þrávirkra efna á menn og aðrar lífverur eru meðal annars fósturskaði og ótímabær kynþroski hjá kvendýrum þar sem DDT líkir eftir verkan kvennkynshormóns (estrógen). Þessi efni safnast fyrir í fituvef svo sem í taugafrumum og valda ýmsum eituráhrifum þegar magnið er komið yfir ákveðin mörk. Einnig aukast líkurnar á krabbameini og lifrarskemmdum ásamt því sem þau valda ófrjósemi í karldýrum.

Því miður eru þessi efni þaulsetin í vistkerfinu. Helmingunartíminn er langur og þau eru fituleysanleg og setjast fyrir í fituvef dýra. Rannsóknir hafa sýnt að magn þeirra í nokkrum tegundum efst í fæðukeðjunni hefur aukist og hafa vísindamenn vaxandi áhyggjur af minnkandi heilbrigði dýra svo sem sela, hvala, sjófugla og ísbjarna. Mælingar hafa sýnt að magn í fituvefjum nokkurra dýra er komið að þeim mörkum sem menn telja að einstaka dýr geti þolað. Sænsk rannsókn staðfesti þessar áhyggjur þar sem tíðni krabbameins, ónæmisbæklunar og ófrjósemi var óvenju há í selastofnum í Eystrasalti. Sunnar á hnettinum hafa rannsóknir einnig sýnt aukna uppsöfnun þessara efna í sæskjaldbökum. Síðast en ekki síst benda niðurstöður rannsókna til þess að magn þrávirkra efna hafi aukist undanfarna áratugi hjá fólki í þeim samfélögum sem lifa aðallega á sjávarfangi.



Ísbirnir eru meðal þeirra dýra sem eru í hættu vegna þrávirkra efna.

Þungmálmar hafa svipaða þrávirka eiginleika og þrávirk lífræn efni. Þessi efni eru ekki manngerð og finnast í vistkerfinu en í of miklu magni fara ýmis eitrunaráhrif að koma í ljós. Hér er aðallega verið að tala um þungmálma eins og sink, járn, kopar og mangan en einnig aðra þungmálma sem hafa ekkert líffræðilegt hlutverk eins og blý, arsenik, kadmíum, úran og kvikasilfur. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, til dæmis áhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.

Þessir málmar koma mikið við sögu í iðnaði til dæmis sem úrgangur í lyfjaiðnaði. Því miður hefur það verið vaxandi vandamál að mörg alþjóðafyrirtæki hafa fært starfsemi sína til vanþróaðra svæða, ekki aðeins vegna þess að þar er ódýrara vinnuafl, heldur eru umhverfisreglur rýmri og eftirlit lélegt þannig að þau geta losað sig við þessi efni á ódýrari hátt en þar sem reglur eru harðari og eftirlit meira.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um mengun, til dæmis:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

14.1.2005

Spyrjandi

Helga Lillian, f. 1986

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2005, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4715.

Jón Már Halldórsson. (2005, 14. janúar). Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4715

Jón Már Halldórsson. „Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2005. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4715>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar?
Orðatiltækið „lengi tekur sjórinn við“ er vel þekkt en það var almenn trú manna að hafið, þetta gríðarlega flæmi sem þekur um 70% af yfirborði jarðar, gæti endalaust tekið við úrgangi okkar mannfólksins. Nú þegar mannkynið er komið yfir 6,3 milljarða og óhugnanlegt magn af úrgangi og spilliefnum berst á hverjum degi í hafið eru að koma í ljós ýmsar óæskilegar breytingar á vistkerfi sjávar af völdum manna.

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál ekki síður en mengun lofthjúps jarðar þar sem umferð skipa er óháð landamærum og losun mengandi efna á einum stað hefur oftar en ekki áhrif fjarri losunarstaðnum.

Fjölmargir mengunarvaldar af mannavöldum ógna hreinleika og heilbrigði hafsins og eru afleiðingar aukinnar mengunar margs konar. Stundum koma áhrif mengunar fljótt fram eins og við olíuslys á borð við Exxon Valdex-slysið sem varð undan strönd Alaska árið 1989 og Prestige-slysið undan norðvesturströnd Spánar árið 2002. Í báðum þessum tilfellum fóru þúsundir tonna af þrávirkri hráolíu í sjóinn nálægt ströndum og ollu gífurlegum umhverfisskaða.



Strand olíuskipsins Presige olli miklum skaða á lífríkinu. Talið er að helmingi meiri olía hafa losnað við strand Prestige en Exxon Valdex.

Í öðrum tilfellum koma afleiðingarnar fram síðar. Það á til dæmis við um mengun vegna efna sem safnast fyrir í lífverum en slík mengun hefur stórlega dregið úr gæðum hafsins á stórum svæðum. Sem dæmi má nefna næringarefni, svo sem fosfór og nitursambönd, sem berast til sjávar frá landbúnaðarsvæðum og valda ofauðgi (e. eutrophication) sem síðan leiðir til óhófleglegs þörungablóma. Einnig má nefna skaðleg efni í botnmálningu skipa sem orsaka ófrjósemi sjávardýra og uppsöfnun á þrávirkum lífrænum efnum í vefjum dýra sem getur í nánustu framtíð haft alvarlegar afleiðingar fyrir mörg langlífari sjávardýr og dýr sem eru efst í fæðukeðjunni, svo sem hvali, seli og sjávarfugla.

Hér á eftir er fjallað nánar um þrjá af helstu mengunarvöldum hafsins, það er olíu, næringarefni og þrávirk efni, en listinn yfir allt það sem stofnar lífríki hafsins í hættu er mikið lengri en hægt er að gera grein fyrir á þessum vettvangi.

Olía
Talið er að meira en 2,5 milljarðar lítra af olíu eða 2,5 milljónir tonna fari í hafið árlega. Það fyrsta sem mörgum dettur sjálfsagt í hug þegar olíumengun í hafi er nefnd eru slys þar sem reglulega berast fréttir af því að olíuflutningaskip hafa misst mikið magn af olíu í hafið. Staðreyndin er þó sú að minnstur hluti af þeir olíu sem sleppur í hafið, líklega aðeins um 5%, er vegna slíkra stórslysa. Helsta uppspretta olíumengunar í hafi er dagleg iðja samfélagsins en sérfræðingar telja að um helmingur allrar olíu sem endar í hafinu sé notuð mótorolíu frá borgum og af iðnaðarsvæðum sem berst með frárennslisvatni til sjávar.

Þó aðeins lítill hluti olíumengunar komi frá olíuskipum vekja olíuslys á hafi alltaf mikið meiri athygli en olíumengun sem á sér stað jafnt og þétt allan ársins hring. Eitt frægasta olíuslys sögunnar er eflaust strand Exxon Valdez undan ströndum Alaska snemma vors 1989. Talið er að um 38.800 tonn af hráolíu hafi farið í sjóinn og valdið gríðarlegu umhverfistjóni á stóru svæði. Talið er að um 250 þúsund sjófuglar, 2.800 sæotrar, 300 selir, 250 skallaernir og rúmlega 20 háhyrninga auk fjölda annarra hvala, milljarða fiska og óteljandi hryggleysingja hafi drepist af völdum olíunnar sem lagðist eins og nálak yfir lífverurnar og kæfði, eitraði eða olli ofkólnun (hjá fuglum).

Eins og þetta ber með sér voru áhrif á lífríkið mjög mikil. Hins vegar nær Exxon Valdez slysið ekki inn á lista yfir 50 mestu olíuslys sögunnar ef einungis er litið til þess magns olíu sem slapp út í umhverfið.

Næringarefni frá landbúnaði
Árlega berast til sjávar milljónir tonna af svokölluðum næringarefnum eða næringarsöltum sem notuð eru í landbúnaði. Þessi efni eru nauðsynleg fyrir frumframleiðslu í hafinu en ekki í nálægt því eins miklu magni og berst til sjávar. Þar sem mikið af næringarsöltum berst í hafið geta þau valdið gríðarlegum þörungavexti sem líffræðingar nefna ofauðgi. Mörg innhöf hafa skaðast vegna þess. Sem dæmi má nefna Eystrsaltið sem er umlukið miklum landbúnaðarsvæðum í Skandinavíu, Þýskalandi og svæðum sem áður tilheyrðu gömlu Sovétríkjunum.

Ein af afleiðingum slíks þörungablóma er sú að þegar þörungarnir drepast fellur gríðarlegt magn þeirra til botns og rotnar þar. Súrefnisinnihald í neðstu lögum sjávar fellur og þar verður vart lífvænlegt fyrir ýmis dýr sem þar lifa þannig að þau hverfa.



Afleiðingar mengunar frá landbúnaði hafa verið augljósastar í Eystrasalti en eru einnig greinilegar í innhöfum víða annars staðar svo sem í Mexíkóflóa við Bandaríkin og Mexíkó.

Þrávirk lífræn efni og þungmálmar
Helstu flokkar lífrænna efna sem ógna vistkerfi sjávar eru DDT, PCP og díoxínefni. Þessi efni eru framleidd í iðnaði og hafa tilhneigingu til að berast með loft- og hafstraumum frá upprunasvæðum til kaldari svæða jarðar og setjast þar fyrir í lífkeðjunni. Vitað er að þessi efni hafa ýmsar alvarlegar afleiðingar fyrir lífverur. Áhrif þrávirkra efna á menn og aðrar lífverur eru meðal annars fósturskaði og ótímabær kynþroski hjá kvendýrum þar sem DDT líkir eftir verkan kvennkynshormóns (estrógen). Þessi efni safnast fyrir í fituvef svo sem í taugafrumum og valda ýmsum eituráhrifum þegar magnið er komið yfir ákveðin mörk. Einnig aukast líkurnar á krabbameini og lifrarskemmdum ásamt því sem þau valda ófrjósemi í karldýrum.

Því miður eru þessi efni þaulsetin í vistkerfinu. Helmingunartíminn er langur og þau eru fituleysanleg og setjast fyrir í fituvef dýra. Rannsóknir hafa sýnt að magn þeirra í nokkrum tegundum efst í fæðukeðjunni hefur aukist og hafa vísindamenn vaxandi áhyggjur af minnkandi heilbrigði dýra svo sem sela, hvala, sjófugla og ísbjarna. Mælingar hafa sýnt að magn í fituvefjum nokkurra dýra er komið að þeim mörkum sem menn telja að einstaka dýr geti þolað. Sænsk rannsókn staðfesti þessar áhyggjur þar sem tíðni krabbameins, ónæmisbæklunar og ófrjósemi var óvenju há í selastofnum í Eystrasalti. Sunnar á hnettinum hafa rannsóknir einnig sýnt aukna uppsöfnun þessara efna í sæskjaldbökum. Síðast en ekki síst benda niðurstöður rannsókna til þess að magn þrávirkra efna hafi aukist undanfarna áratugi hjá fólki í þeim samfélögum sem lifa aðallega á sjávarfangi.



Ísbirnir eru meðal þeirra dýra sem eru í hættu vegna þrávirkra efna.

Þungmálmar hafa svipaða þrávirka eiginleika og þrávirk lífræn efni. Þessi efni eru ekki manngerð og finnast í vistkerfinu en í of miklu magni fara ýmis eitrunaráhrif að koma í ljós. Hér er aðallega verið að tala um þungmálma eins og sink, járn, kopar og mangan en einnig aðra þungmálma sem hafa ekkert líffræðilegt hlutverk eins og blý, arsenik, kadmíum, úran og kvikasilfur. Þungmálmar þurfa ekki að safnast fyrir í miklu magni í lífverum til þess að eituráhrif komi fram, til dæmis áhrif blýs og kvikasilfurs á miðtaugakerfið.

Þessir málmar koma mikið við sögu í iðnaði til dæmis sem úrgangur í lyfjaiðnaði. Því miður hefur það verið vaxandi vandamál að mörg alþjóðafyrirtæki hafa fært starfsemi sína til vanþróaðra svæða, ekki aðeins vegna þess að þar er ódýrara vinnuafl, heldur eru umhverfisreglur rýmri og eftirlit lélegt þannig að þau geta losað sig við þessi efni á ódýrari hátt en þar sem reglur eru harðari og eftirlit meira.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um mengun, til dæmis:

Heimildir og myndir:...