Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er snertiskyn?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Snertiskyn telst til húðskyns eins og varmaskyn (hitaskyn og kuldaskyn). Snertiskynið er elsta, frumstæðasta og þaulsetnasta skyn okkar. Það er fyrsta skynið sem við upplifum í móðurkviði og það síðasta sem við missum áður en við deyjum.

Snerting er skynjuð þegar snertinemar í húðinni eða vefjum beint undir henni eru örvaðir. Í húð okkar eru um 50 snertiskynsnemar á hverjum fersentimetra og er samanlagður fjöldi þeirra í meðal manneskju því alls um 5 milljónir. Verði þessir nemar fyrir áreiti berast boð til heila sem vinnur úr þeim, ákveður hvort og hvernig skuli bregðast við og sendir boð um viðbrögð á viðeigandi stað í líkamanum.

Snertiskyni er stundum skipt í snertingu og þrýsting en sams konar skynfrumur, svokallaðir aflnemar (e. mechanoreceptors), greina hvort tveggja.

Skipa má snertingu í grófa eða ógreinanlega snertingu (e. crude touch) og greinanlega snertingu (e. discriminative). Gróf snerting er skilgreind sem sú skynjun að eitthvað snerti húðina án upplýsinga um nákvæma staðsetningu, stærð, lögun eða áferð þess sem snertingunni veldur. Greinanleg snerting er hins vegar skynjun sem felur í sér getu til að þekkja nákvæmlega hvar líkaminn er snertur og jafnvel eiginleika þess sem snertir húðina.

Snertinemar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru það hárrótarflækjur (e. hair root plexus) eða aflnemar í húð af gerð I. Þetta eru taugaþræðir sem vafðir eru utan um hárrætur djúpt í leðurhúðinni og áreitast þegar hárin eru snert eða þau hreyfast. Þessi gerð aflnema skynjar grófa snertingu.

Í öðru lagi eru snertiskífur (e. tactile disc eða Merkel’s disc) sem eru í tengslum við grunnlag húðþekjunnar. Þær eru sérstakar skynfrumur sem koma við sögu í greinanlegri snertingu.

Þriðja gerðin af snertinemum eru snertihnökrar (e. corpuscle of touch eða Meissner´s corpuscle). Þetta eru egglaga skynfrumur í leðurhúðartotum sem eiga þátt í skynjun greinanlegrar snertingar. Einkum er mikið af þessum snertinemum í húðinni á fingurbroddum, lófum og iljum, svo og í augnlokum, vörum, geirvörtum, sníp og reðurhúfu.



Þrýstingur er skynjaður dýpra í húðinni en létt snerting. Í samanburði við snertingu skynjast þrýstingur lengur, er minna breytilegur hvað styrkleika varðar og skynjast á stærra svæði. Segja má að þrýstingur sé í raun framlengd snerting.

Þrýstinemar eru tvenns konar. Annars vegar eru aflnemar í húð af gerð II sem einnig kallast endalíffæri Ruffinis. Þessir skynjarar eru staðsettir djúpt í leðurhúðinni og í djúplægari vefjum og skynja þunga samfellda snertingu. Hins vegar eru flöguhnökrar (e. Pacinian corpuscle) sem eru í undirhúð og í kringum liði, sinar og vöðva og líta út eins og margblaða laukar. Þeir eiga þátt í stöðu- og hreyfiskynjun þessara líffæra.

Snertiskyn er um margt mjög áhugavert og hafa til dæmis verið gerðar ýmsar rannsóknir á mikilvægi snertingar fyrir ungbörn. Sem dæmi má nefna að niðurstöður rannsókna benda til þess að fyrirburum, nýburum og ungbörnum sem eru snert og tekin upp reglulega gangi miklu betur en hinum sem fá litla snertingu. Þau sem eru tekin upp, knúsuð, föðmuð, ruggað, klappað og strokið vaxa hraðar og byrja fyrr að skríða, ganga og hrifsa. Þau eru einnig betur vakandi og virkari, sofa betur, þróa sterkara ónæmiskerfi og hafa hærri greindarvísitölu en þau sem eru skilin eftir í rúmum sínum langtímum saman.

Rannsóknir hafa sýnt að snerting sé jafnvel ámóta mikilvæg fyrir líkamlegan, félagslegan og andlegan þroska ungbarns og svefn og næring. Rannsakendur frá læknadeild Harvard háskóla komust að því að ungbörn á alltof fjölmennu munaðarleysingjahæli í Rúmeníu sem lágu klukkutímum saman án mannlegrar snertingar þjáðust af skertum vexti og óeðlilega háu magni af streituhormóninu kortisól.

Hugsanleg ástæða fyrir því að ungbörn vilja vera snert er sú að þau venjast stöðugri snertingu legvatnsins í móðurkviði. Þetta kann að skýra hvers vegna þau róast gjarnan við það að vera pakkað inn í hlý og mjúk teppi eða þegar þau eru sett í heitt bað.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

18.1.2005

Spyrjandi

Kristín M., f. 1988

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er snertiskyn?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4718.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2005, 18. janúar). Hvað er snertiskyn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4718

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er snertiskyn?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4718>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er snertiskyn?
Snertiskyn telst til húðskyns eins og varmaskyn (hitaskyn og kuldaskyn). Snertiskynið er elsta, frumstæðasta og þaulsetnasta skyn okkar. Það er fyrsta skynið sem við upplifum í móðurkviði og það síðasta sem við missum áður en við deyjum.

Snerting er skynjuð þegar snertinemar í húðinni eða vefjum beint undir henni eru örvaðir. Í húð okkar eru um 50 snertiskynsnemar á hverjum fersentimetra og er samanlagður fjöldi þeirra í meðal manneskju því alls um 5 milljónir. Verði þessir nemar fyrir áreiti berast boð til heila sem vinnur úr þeim, ákveður hvort og hvernig skuli bregðast við og sendir boð um viðbrögð á viðeigandi stað í líkamanum.

Snertiskyni er stundum skipt í snertingu og þrýsting en sams konar skynfrumur, svokallaðir aflnemar (e. mechanoreceptors), greina hvort tveggja.

Skipa má snertingu í grófa eða ógreinanlega snertingu (e. crude touch) og greinanlega snertingu (e. discriminative). Gróf snerting er skilgreind sem sú skynjun að eitthvað snerti húðina án upplýsinga um nákvæma staðsetningu, stærð, lögun eða áferð þess sem snertingunni veldur. Greinanleg snerting er hins vegar skynjun sem felur í sér getu til að þekkja nákvæmlega hvar líkaminn er snertur og jafnvel eiginleika þess sem snertir húðina.

Snertinemar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru það hárrótarflækjur (e. hair root plexus) eða aflnemar í húð af gerð I. Þetta eru taugaþræðir sem vafðir eru utan um hárrætur djúpt í leðurhúðinni og áreitast þegar hárin eru snert eða þau hreyfast. Þessi gerð aflnema skynjar grófa snertingu.

Í öðru lagi eru snertiskífur (e. tactile disc eða Merkel’s disc) sem eru í tengslum við grunnlag húðþekjunnar. Þær eru sérstakar skynfrumur sem koma við sögu í greinanlegri snertingu.

Þriðja gerðin af snertinemum eru snertihnökrar (e. corpuscle of touch eða Meissner´s corpuscle). Þetta eru egglaga skynfrumur í leðurhúðartotum sem eiga þátt í skynjun greinanlegrar snertingar. Einkum er mikið af þessum snertinemum í húðinni á fingurbroddum, lófum og iljum, svo og í augnlokum, vörum, geirvörtum, sníp og reðurhúfu.



Þrýstingur er skynjaður dýpra í húðinni en létt snerting. Í samanburði við snertingu skynjast þrýstingur lengur, er minna breytilegur hvað styrkleika varðar og skynjast á stærra svæði. Segja má að þrýstingur sé í raun framlengd snerting.

Þrýstinemar eru tvenns konar. Annars vegar eru aflnemar í húð af gerð II sem einnig kallast endalíffæri Ruffinis. Þessir skynjarar eru staðsettir djúpt í leðurhúðinni og í djúplægari vefjum og skynja þunga samfellda snertingu. Hins vegar eru flöguhnökrar (e. Pacinian corpuscle) sem eru í undirhúð og í kringum liði, sinar og vöðva og líta út eins og margblaða laukar. Þeir eiga þátt í stöðu- og hreyfiskynjun þessara líffæra.

Snertiskyn er um margt mjög áhugavert og hafa til dæmis verið gerðar ýmsar rannsóknir á mikilvægi snertingar fyrir ungbörn. Sem dæmi má nefna að niðurstöður rannsókna benda til þess að fyrirburum, nýburum og ungbörnum sem eru snert og tekin upp reglulega gangi miklu betur en hinum sem fá litla snertingu. Þau sem eru tekin upp, knúsuð, föðmuð, ruggað, klappað og strokið vaxa hraðar og byrja fyrr að skríða, ganga og hrifsa. Þau eru einnig betur vakandi og virkari, sofa betur, þróa sterkara ónæmiskerfi og hafa hærri greindarvísitölu en þau sem eru skilin eftir í rúmum sínum langtímum saman.

Rannsóknir hafa sýnt að snerting sé jafnvel ámóta mikilvæg fyrir líkamlegan, félagslegan og andlegan þroska ungbarns og svefn og næring. Rannsakendur frá læknadeild Harvard háskóla komust að því að ungbörn á alltof fjölmennu munaðarleysingjahæli í Rúmeníu sem lágu klukkutímum saman án mannlegrar snertingar þjáðust af skertum vexti og óeðlilega háu magni af streituhormóninu kortisól.

Hugsanleg ástæða fyrir því að ungbörn vilja vera snert er sú að þau venjast stöðugri snertingu legvatnsins í móðurkviði. Þetta kann að skýra hvers vegna þau róast gjarnan við það að vera pakkað inn í hlý og mjúk teppi eða þegar þau eru sett í heitt bað.

Heimildir og mynd:...