Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rykmaurar eru áttfætlumaurar sem taldir eru útbreiddir um allan heim og í mörgum löndum eru þeir ein meginorsök fyrir astma og ofnæmisbólgum í nefi. Þeir eiga einnig þátt í ofnæmisexemi (barnaexemi), sem er mjög algengt fyrstu tíu ár ævinnar. Oftast er talað um tvær tegundir rykmaura: Dermatophagoides pteronyssinus, sem er einkum útbreiddur í Evrópu, og Dermatophagoides farinae, sem er útbreiddari í Ameríku.
Rykmaurar eru um 0,3 mm á lengd. Kvendýrið lifir allt að 10 vikum en ævi karldýrsins er nokkuð styttri. Þeir lifa góðu lífi við venjulegan húshita (20°C) en þurfa nokkuð hátt rakastig til að tímgast (45%). Því er yfirleitt lítið um rykmaura hátt upp til fjalla og þar sem mjög kalt er á veturna og lágt rakastig í híbýlum manna. Þannig er lítið um rykmaura í nyrstu héruðum Svíþjóðar þótt töluvert finnist af þeim í suðurhluta landsins. Rykmaurar hafa fundist á Grænlandi og upp með ströndum Noregs, töluvert norðar en Reykjavík.
Rykmaurar af tegundinni Dermatophagoides pteronyssinus.
Rykmaurar geta þrifist í rúmdýnum, koddum, sængum, teppum og tauklæddum húsgögnum. Þeir lifa á húðflygsum af mönnum og dýrum og öðru lífrænu ryki sem til fellur. Saur mauranna mynda rykagnir, sem eru á stærð við frjókorn, og í honum eru prótínsameindir sem reynst öflugir ofnæmisvaldar. Dauðir rykmaurar, sem brotna niður og blandast öðru húsryki, eru einnig ofnæmisvaldar, þótt í minna mæli sé.
Heymaurar og mjölmaurar eru skyldir rykmaurum og geta einnig valdið ofnæmi. Síðastliðin 25 ár hafa heymaurar töluvert verið rannsakaðir hér á landi og hefur 19 tegundum maura verið lýst í íslensku heyi, í sumum tilfellum í mjög miklu magni. Áður en nútímaheyskaparhættir komu til sögunnar var mjög algengt að þeir sem fengust við gegningar fengu einkenni um bráðaofnæmi af heyrykinu svo sem bólgur í nefi og augum og astma. Rannsókn á bændum sem gerð var árið 1983 sýndi að heymaurar voru langþýðingarmestu ofnæmisvakarnir í sveitum landsins og kvað þar mest að maur sem heitir Lepidoglyphus destructor.
Árin 1990-1991 var ofnæmi kannað meðal ungra Reykvíkinga og fólks í nágrannabyggðum Reykjavíkur. Þessi rannsókn, sem kölluð er Evrópukönnunin lungu og heilsa, var liður í fjölþjóðlegri rannsókn, sem einkum náði til Evrópu en þátttakendur voru þó frá heimsálfunum öllum. Meðal annars voru mæld ofnæmismótefni fyrir rykmaurnum D. pteronyssinus. Voru 9% þátttakenda hér á landi með þessi mótefni. Þetta var lægra en hjá hinum þátttökuþjóðunum, en ekki langt frá niðurstöðum í Svíþjóð og Noregi. Það mátti því ætla að rykmaurar ættu mikilvægan þátt í ofnæmi á Íslandi.
Þegar Evrópukönnunin lungu og heilsa var endurtekin um síðustu aldamót var gerð umfangsmikil rannsókn á útbreiðslu rykmaura á Reykjavíkursvæðinu. Hún fór þannig fram, að ryksýnum var safnað úr rúmum þátttakenda og síðan voru ofnæmisvakar frá D. pteronyssinus og D. farinae mældir í sýnunum. Í aðeins einu sýni af 194 fannst örlítið magn af ofnæmisvökum frá D farinae. Að þessu leyti skáru sýnin frá Íslandi sig alveg úr. Aukalega voru rykmaurar skoðaðir og taldir í sýnum frá 210 heimilum. Í þessum sýnum, þar sem hefði mátt búast við þúsundum rykmaura, fundust aðeins tveir; báðir af tegundinni D. pteronyssinus. Aukalega fundust 11 maurar sem tilheyrðu öðrum tegundum.
Talið er að þurfi um 100 maura í hverju grammi af ryki til þess að vekja upp ofnæmi. Þegar haft er hugfast að 9% einstaklinga á Reykjavíkursvæðinu höfðu ofnæmismótefni fyrir rykmaurum vantar eitthvað til að skýra þá niðurstöðu. Þrjár tilgátur hafa verið nefndar:
Að rykmaurar hafi fundist í Reykjavík þegar næming átti sér stað en dáið síðan út.
Að viðkomandi einstaklingar hafi orðið næmir fyrir rykmaurum á ferðalögum erlendis eða innanlands.
Að ekki sé um raunverulegt ofnæmi fyrir rykmaurum að ræða heldur fyrir öðrum lífverum, sem myndi svo kallað krossnæmi við rykmaura.
Fyrsta tilgátan, að rykmaurar hafi fundist í Reykjavík og dáið út fyrir svo sem einum til tveimur áratugum áður en rannsóknin var gerð, er heldur ólíkleg. Ef svo hefði verið hefði eitthvað fundist af ofnæmisvökum í gömlum rúmdýnum sem rannsakaðar voru.
Til að rannsaka tilgátu númer tvö var kannað hvað einkenndi þá einstaklinga sem voru jákvæðir fyrir D. pteronyssinus borið saman við þá sem ekki voru jákvæðir. Þeir jákvæðu voru oftar karlmenn sem sendir höfðu verið í sveit sem börn. Meðal hinna neikvæðu voru oftar konur sem farið höfðu til útlanda í æsku. Þær höfðu líka oftar ofnæmi fyrir grasfrjóum. Þannig var enginn munur á tíðni ofnæmis milli hópanna. Hinir jákvæðu höfðu oftar mótefni fyrir heymaurum og öðrum skordýrum sem mynda krossnæmi við rykmaura. Tilgáta 2) og 3) gátu því staðist og líklegast er að þessir einstaklingar hafi myndað ofnæmi meðan á sveitadvölinni stóð. Í framhaldi af því fór fram athugun á 42 sveitabýlum á Suður- og Vesturlandi þar sem ryksýni voru tekin úr rúmdýnum og af stofugólfum og þau rannsökuð með tilliti til tegunda og fjölda rykmaura. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið birtar enn þá, en í grófum dráttum voru þær þannig að maurar fundust á 62% heimilanna og rykmaurar á 25% heimilanna, þó hvergi í því magni sem talið er þurfa til að vekja upp ofnæmi.
Svarið við spurningu fyrirspyrjanda er því nei, það er ekki mýta að rykmaurar séu á Íslandi. Stór búsetusvæði eru hins vegar ókönnuð og enn er því ósvarað hvers vegna rykmaurar eru í hverfandi magni í Reykjavík.
Mynd:
Davíð Gíslason. „Er það bara mýta að rykmaurar séu á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2008, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48030.
Davíð Gíslason. (2008, 17. júlí). Er það bara mýta að rykmaurar séu á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48030
Davíð Gíslason. „Er það bara mýta að rykmaurar séu á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2008. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48030>.