
Rykmaurar geta þrifist í rúmdýnum, koddum, sængum, teppum og tauklæddum húsgögnum. Þeir lifa á húðflygsum af mönnum og dýrum og öðru lífrænu ryki sem til fellur. Saur mauranna mynda rykagnir, sem eru á stærð við frjókorn, og í honum eru prótínsameindir sem reynst öflugir ofnæmisvaldar. Dauðir rykmaurar, sem brotna niður og blandast öðru húsryki, eru einnig ofnæmisvaldar, þótt í minna mæli sé. Heymaurar og mjölmaurar eru skyldir rykmaurum og geta einnig valdið ofnæmi. Síðastliðin 25 ár hafa heymaurar töluvert verið rannsakaðir hér á landi og hefur 19 tegundum maura verið lýst í íslensku heyi, í sumum tilfellum í mjög miklu magni. Áður en nútímaheyskaparhættir komu til sögunnar var mjög algengt að þeir sem fengust við gegningar fengu einkenni um bráðaofnæmi af heyrykinu svo sem bólgur í nefi og augum og astma. Rannsókn á bændum sem gerð var árið 1983 sýndi að heymaurar voru langþýðingarmestu ofnæmisvakarnir í sveitum landsins og kvað þar mest að maur sem heitir Lepidoglyphus destructor. Árin 1990-1991 var ofnæmi kannað meðal ungra Reykvíkinga og fólks í nágrannabyggðum Reykjavíkur. Þessi rannsókn, sem kölluð er Evrópukönnunin lungu og heilsa, var liður í fjölþjóðlegri rannsókn, sem einkum náði til Evrópu en þátttakendur voru þó frá heimsálfunum öllum. Meðal annars voru mæld ofnæmismótefni fyrir rykmaurnum D. pteronyssinus. Voru 9% þátttakenda hér á landi með þessi mótefni. Þetta var lægra en hjá hinum þátttökuþjóðunum, en ekki langt frá niðurstöðum í Svíþjóð og Noregi. Það mátti því ætla að rykmaurar ættu mikilvægan þátt í ofnæmi á Íslandi. Þegar Evrópukönnunin lungu og heilsa var endurtekin um síðustu aldamót var gerð umfangsmikil rannsókn á útbreiðslu rykmaura á Reykjavíkursvæðinu. Hún fór þannig fram, að ryksýnum var safnað úr rúmum þátttakenda og síðan voru ofnæmisvakar frá D. pteronyssinus og D. farinae mældir í sýnunum. Í aðeins einu sýni af 194 fannst örlítið magn af ofnæmisvökum frá D farinae. Að þessu leyti skáru sýnin frá Íslandi sig alveg úr. Aukalega voru rykmaurar skoðaðir og taldir í sýnum frá 210 heimilum. Í þessum sýnum, þar sem hefði mátt búast við þúsundum rykmaura, fundust aðeins tveir; báðir af tegundinni D. pteronyssinus. Aukalega fundust 11 maurar sem tilheyrðu öðrum tegundum. Talið er að þurfi um 100 maura í hverju grammi af ryki til þess að vekja upp ofnæmi. Þegar haft er hugfast að 9% einstaklinga á Reykjavíkursvæðinu höfðu ofnæmismótefni fyrir rykmaurum vantar eitthvað til að skýra þá niðurstöðu. Þrjár tilgátur hafa verið nefndar:
- Að rykmaurar hafi fundist í Reykjavík þegar næming átti sér stað en dáið síðan út.
- Að viðkomandi einstaklingar hafi orðið næmir fyrir rykmaurum á ferðalögum erlendis eða innanlands.
- Að ekki sé um raunverulegt ofnæmi fyrir rykmaurum að ræða heldur fyrir öðrum lífverum, sem myndi svo kallað krossnæmi við rykmaura.
- Eru rykmaurar hættulegir? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvaða dýr leynast í rúmum og teppum landsmanna? eftir Karl Skírnisson
- Af hverju er maður með astma? eftir Unni Steinu Björnsdóttur
- Af hverju fær maður ofnæmi? eftir Helgu Ögmundsdóttur