Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Hvernig verka verkjatöflur?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Það fer eftir því hvaða virka efni er í verkjatöflunum hvernig þær vinna. Í grófum dráttum er verkjastillandi lyfjum skipt í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru svokölluð ópíöt en innan þeirra eru morfín og kódeín líklega þekktust. Í öðru lagi eru verkjalyf af öðrum uppruna en ópíöt, til dæmis magnýl og parasetamól, sem draga úr eða hamla myndun prostaglandína. Þriðji flokkurinn telur lyf sem hafa aðra verkun en verkjastillandi en eru oft gefin með verkjalyfjunum til þess að minnka megi skammtinn af þeim og þar með draga úr hættu á aukaverkunum. Hér er um að ræða lyf eins og stera, geðdeyfðarlyf og fleiri.

Ópíöt voru upprunalega unnin úr aldinsafa ópíumvalmúans en eru nú framleidd á efnafræðilegan hátt. Þau eru sterkustu verkjastillandi lyfin og oft besta og jafnvel eina leiðin til að meðhöndla verki sem fylgja miklum áverkum og krabbameini á lokastigum. Mörg ópíöt eru grundvölluð á morfíni sem er áhrifaríkasti verkjastillirinn sem völ er á. Sé það notað á réttan hátt eru aukaverkanir ekki miklar og mjög fáir hafa ofnæmi eða óþol gagnvart því. Morfíni fylgir þó mikil ávanahætta, og fráhvarfseinkenni koma fram þegar notkun er hætt.

Ópíöt verka þannig að þau herma eftir efnafræðilega skyldum efnum sem við myndum sjálf í heilanum og kallast endorfín, en þau eru verkjastillandi efni líkamans. Ópíötin tengjast endorfínviðtökum í heilanum og hindra flutning sársaukaboða þannig að þótt sársaukavaldurinn sé enn fyrir hendi skynjum við ekki sársaukann.Til eru bæði sterk ópíöt eins og morfín og veik, eins og kódeín. Þau eru til í mismunandi blöndum og geta verið bæði fljótvirk og seinvirk. Grundvallarverkun þeirra er þó í öllum tilfellum eins og lýst var hér að ofan.

Í öðrum flokki verkjastillandi lyfja eru parasetamól og bólgueyðandi efni. Til bólgueyðandi efna teljast magnýl (aspírín eða asetýlsalicýlsýra), íbúprófen, voltaról og celebrex. Nokkuð er liðið síðan uppgötvaðist hvernig bólgueyðandi lyfin virka, en stutt er síðan menn komust að því að parasetamól verkar á svipaðan hátt og hin lyfin.

Eitt af varnarviðbrögðum líkamans vegna sýkingar eða áverka er svokallað bólgusvar (e. inflammatory response, sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvað er bólga?). Við ertingu eða áfall myndar líkaminn flokk efna sem kallast prostaglandín. Verkun þeirra er fjölbreytt og hafa sum efnin andstæð áhrif við önnur. Helstu áhrif af verkun prostaglandína í bólgusvarinu eru þó þroti, bólgur og sársauki.

Til þess að mynda prostaglandín eru nokkur ensím nauðsynleg. Þau hafa verið nefnd COX-1 og COX-2 og finnast víða í líkamanum. Nýlega bættist COX-3 við þegar það fannst í heila og mænu. Vitað hefur verið um hríð að bólgueyðandi lyfin trufla virkni COX-1 og COX-2 og koma þannig í veg fyrir myndun prostaglandína. Þar með fékkst skýring á bólgueyðandi og verkjastillandi áhrifum þeirra. Ýmsar aukaverkanir geta fylgt töku þessara lyfja. Þekktust eru óæskileg áhrif á meltingarveginn, eins og bólgur og blæðingar en vitað er að þessar aukaverkanir stafa af hindrun á virkni COX-1.

Parasetamól hefur væg verkjastillandi og hitalækkandi áhrif, en aukaverkanir á meltingarveginn fylgja ekki töku þess. Skýringin er sú að parasetamól verkar með því að hindra starfsemi COX-3 í miðtaugakerfinu en ekki COX-1 og COX-2.

Lyfin í þriðja flokknum eru mjög fjölbreytt og þar af leiðandi er verkun þeira mjög breytileg. Þekktustu lyfin í þessum flokki eru án efa sterarnir. Þeir eru efni sem líkja eftir hormónum sem við myndum í líkamanum, einkum kortisóli. Sterar draga úr bólgum en með því að minnka bólgur minnkar þrýstingur á aum svæði og þar með sársauki.

Sem dæmi um önnur lyf í þessum þriðja flokki má nefna bífosfónöt (e. biphosphonates) en þau hafa verkjastillandi áhrif á bein og eru notuð til dæmis gegn beinþynningu og beinkrabbameini. Þau draga úr beinmyndun og beineyðingu. Geðdeyfðarlyf eru annað dæmi en þau eru oftast notuð gegn geðdeyfð, betur þekkt sem þunglyndi. Þau verka á taugasársauka sem bregst ekki við öðrum verkjastillandi lyfjum. Einnig verka þau gegn þunglyndi sem fylgir oft þrálátum verkjum. Krampalyf eru yfirleitt notuð gegn flogum en þau geta í mörgum tilfellum linað svíðandi eða seiðandi sársauka. Einnig eru staðdeyfðarlyf eru stundum notuð gegn sérstökum verkjum.

Að lokum má benda á umfjöllun um verkjalyf sem undirflokk tauga- og geðlyfja á vef Lyfju.

Heimildir:

Höfundur

Útgáfudagur

10.3.2005

Spyrjandi

Magni Róbertsson, f. 1988

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verka verkjatöflur?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2005. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4827.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2005, 10. mars). Hvernig verka verkjatöflur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4827

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verka verkjatöflur?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2005. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4827>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig verka verkjatöflur?
Það fer eftir því hvaða virka efni er í verkjatöflunum hvernig þær vinna. Í grófum dráttum er verkjastillandi lyfjum skipt í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru svokölluð ópíöt en innan þeirra eru morfín og kódeín líklega þekktust. Í öðru lagi eru verkjalyf af öðrum uppruna en ópíöt, til dæmis magnýl og parasetamól, sem draga úr eða hamla myndun prostaglandína. Þriðji flokkurinn telur lyf sem hafa aðra verkun en verkjastillandi en eru oft gefin með verkjalyfjunum til þess að minnka megi skammtinn af þeim og þar með draga úr hættu á aukaverkunum. Hér er um að ræða lyf eins og stera, geðdeyfðarlyf og fleiri.

Ópíöt voru upprunalega unnin úr aldinsafa ópíumvalmúans en eru nú framleidd á efnafræðilegan hátt. Þau eru sterkustu verkjastillandi lyfin og oft besta og jafnvel eina leiðin til að meðhöndla verki sem fylgja miklum áverkum og krabbameini á lokastigum. Mörg ópíöt eru grundvölluð á morfíni sem er áhrifaríkasti verkjastillirinn sem völ er á. Sé það notað á réttan hátt eru aukaverkanir ekki miklar og mjög fáir hafa ofnæmi eða óþol gagnvart því. Morfíni fylgir þó mikil ávanahætta, og fráhvarfseinkenni koma fram þegar notkun er hætt.

Ópíöt verka þannig að þau herma eftir efnafræðilega skyldum efnum sem við myndum sjálf í heilanum og kallast endorfín, en þau eru verkjastillandi efni líkamans. Ópíötin tengjast endorfínviðtökum í heilanum og hindra flutning sársaukaboða þannig að þótt sársaukavaldurinn sé enn fyrir hendi skynjum við ekki sársaukann.Til eru bæði sterk ópíöt eins og morfín og veik, eins og kódeín. Þau eru til í mismunandi blöndum og geta verið bæði fljótvirk og seinvirk. Grundvallarverkun þeirra er þó í öllum tilfellum eins og lýst var hér að ofan.

Í öðrum flokki verkjastillandi lyfja eru parasetamól og bólgueyðandi efni. Til bólgueyðandi efna teljast magnýl (aspírín eða asetýlsalicýlsýra), íbúprófen, voltaról og celebrex. Nokkuð er liðið síðan uppgötvaðist hvernig bólgueyðandi lyfin virka, en stutt er síðan menn komust að því að parasetamól verkar á svipaðan hátt og hin lyfin.

Eitt af varnarviðbrögðum líkamans vegna sýkingar eða áverka er svokallað bólgusvar (e. inflammatory response, sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvað er bólga?). Við ertingu eða áfall myndar líkaminn flokk efna sem kallast prostaglandín. Verkun þeirra er fjölbreytt og hafa sum efnin andstæð áhrif við önnur. Helstu áhrif af verkun prostaglandína í bólgusvarinu eru þó þroti, bólgur og sársauki.

Til þess að mynda prostaglandín eru nokkur ensím nauðsynleg. Þau hafa verið nefnd COX-1 og COX-2 og finnast víða í líkamanum. Nýlega bættist COX-3 við þegar það fannst í heila og mænu. Vitað hefur verið um hríð að bólgueyðandi lyfin trufla virkni COX-1 og COX-2 og koma þannig í veg fyrir myndun prostaglandína. Þar með fékkst skýring á bólgueyðandi og verkjastillandi áhrifum þeirra. Ýmsar aukaverkanir geta fylgt töku þessara lyfja. Þekktust eru óæskileg áhrif á meltingarveginn, eins og bólgur og blæðingar en vitað er að þessar aukaverkanir stafa af hindrun á virkni COX-1.

Parasetamól hefur væg verkjastillandi og hitalækkandi áhrif, en aukaverkanir á meltingarveginn fylgja ekki töku þess. Skýringin er sú að parasetamól verkar með því að hindra starfsemi COX-3 í miðtaugakerfinu en ekki COX-1 og COX-2.

Lyfin í þriðja flokknum eru mjög fjölbreytt og þar af leiðandi er verkun þeira mjög breytileg. Þekktustu lyfin í þessum flokki eru án efa sterarnir. Þeir eru efni sem líkja eftir hormónum sem við myndum í líkamanum, einkum kortisóli. Sterar draga úr bólgum en með því að minnka bólgur minnkar þrýstingur á aum svæði og þar með sársauki.

Sem dæmi um önnur lyf í þessum þriðja flokki má nefna bífosfónöt (e. biphosphonates) en þau hafa verkjastillandi áhrif á bein og eru notuð til dæmis gegn beinþynningu og beinkrabbameini. Þau draga úr beinmyndun og beineyðingu. Geðdeyfðarlyf eru annað dæmi en þau eru oftast notuð gegn geðdeyfð, betur þekkt sem þunglyndi. Þau verka á taugasársauka sem bregst ekki við öðrum verkjastillandi lyfjum. Einnig verka þau gegn þunglyndi sem fylgir oft þrálátum verkjum. Krampalyf eru yfirleitt notuð gegn flogum en þau geta í mörgum tilfellum linað svíðandi eða seiðandi sársauka. Einnig eru staðdeyfðarlyf eru stundum notuð gegn sérstökum verkjum.

Að lokum má benda á umfjöllun um verkjalyf sem undirflokk tauga- og geðlyfja á vef Lyfju.

Heimildir: ...