Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekkert ákvæði í hegningar- eða lögreglulögum leggur blátt bann við nekt á almannafæri. Í 209. grein hegningarlaga er að vísu að finna bann við því að særa blygðunarkennd manna með lostugu athæfi en sennilega þyrfti meira til en bara nekt á almannafæri til þess að brotið yrði fellt undir þetta ákvæði. Hins vegar er í lögreglusamþykktum margra sveitarfélaga að finna ákvæði sem fela í sér bann við ósæmilegri háttsemi eða hegðun og getur nekt á almannafæri fallið þar undir.
Nekt á almannafæri getur birst með ýmsum hætti og skoða verður hvert tilvik fyrir sig. Ef nektin er til þess fallin að ögra fólki eða valda ónæði, til dæmis ef við ímyndum okkar að maður gangi nakinn niður Laugaveginn án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, er líklegt að hún bryti gegn ákvæðum lögreglusamþykktar. Ef hún birtist hins vegar með saklausari hætti, til dæmis með því að kona í sólbaði felli niður bikinitopp í sundlaug á heitum sumardegi, er ólíklegra að það brjóti gegn lögreglusamþykkt. Sá sem kvartaði til lögreglu af þeim sökum yrði líklegast að eiga það við sjálfan sig að geta ekki verið innan um fáklæddar konur.
Bandaríski listamaðurinn Spencer Tunick hefur nokkrum sinnum fengið hóp manna til að fækka fötum. Hér sést í nokkra af 160 berrössuðum mönnum í London árið 2003.
Þetta byggir því á mati í hvert skipti. Nokkur skemmtileg dæmi um nekt hafa komið á borð lögreglu.
Í dagbók lögreglu er stundum minnst á tilvik þar sem lögregla þarf að hafa afskipti af nöktu fólki. Eitt sinn þurfti lögregla í bæ á landsbyggðinni að hafa afskipti af manni sem gekk um allsnakinn í líkamsræktarstöð og neitaði að klæða sig. Þegar lögregla kom á staðinn hafði maðurinn hins vegar klætt sig.
Í önnur skipti virðist yfirleitt ölvun vera orsök uppátækisins. Eitt sinn fékk lögregla tilkynningu frá konu um að hún hefði fundið ókunnugan nakinn mann í rúminu sínu þegar hún kom heim. Hún sagðist hafa fleygt manninum út og fötunum hans á eftir en hann hafi viljað komast aftur inn. Er lögregla kom á staðinn náði hún tali af fáklæddum manni sem hafði aðra sögu að segja. Hann sagðist hafa sofið hjá konunni og hún síðan lokið samverunni með því að kasta honum út.
Lögregla rakst á nakinn mann á hlaupum í Öskjuhlíðinni um hálfþrjú nótt eina. Lögreglumennirnir hlupu manninn uppi og gaf hann þá skýringu á ferðum sínum að hann væri að koma af stefnumóti. Honum var sleppt að loknu tiltali.
Svo virðist sem tiltölulega fá tilvik hafi komið upp og að úr þeim hafi verið leyst í hvert skipti án frekari eftirmála.
Eins og áður sagði þarf sennilega öllu meira til svo að nekt á almannafæri verði felld undir 209. grein hegningarlaga um að særa blygðunarkennd manna. Á þetta reyndi í dómi Hæstaréttar frá árinu 1984 en þar kom fyrir dóminn mál sem komið hafði upp í Vestmannaeyjum.
Málavextir voru þeir að laugardaginn 12. febrúar 1983 hafði ónafngreind kona hringt í lögreglu og greint frá því að farþegar í bifreiðinni V-1648 „væru að reka bera þjóhnappa sína út um glugga bifreiðarinnar.“
Lögregla fór á stúfana og fann mennina eftir nokkra leit. Útskýrði einn mannanna mál sitt með þeim hætti að þeir hefðu verið að heilsa vegfarendum með þessum hætti. „Ákærði kvað ökumann bifreiðarinnar hafa beðið þá að láta af þessum fíflalátum, en þá hefðu þeir verið hættir, þar eð ekkert gaman hefði verið af þessu lengur,“ segir í dómnum.
Málið fór fyrir dómstóla og var niðurstaða héraðsdóms á þá leið að dæma mennina til sektar með þessum orðum:
Telja verður, að með háttalagi sínu hafi tilgangur ákærðu verið sá að vekja á sér athygli á stað, þar sem almennt mátti búast við mannaferðum, en háttsemi sem þessi er almennt til þess fallin að valda opinberu hneyksli og misbjóða almennu velsæmi. Á hinn bóginn þykir mega fallast á það með verjanda ákærðu, að hér hafi enginn kynferðislegur þáttur verið í.
Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm og taldi mennina hafa brotið gegn lögreglusamþykkt og áfengislögum, en þeir voru ölvaðir við athæfið. Hins vegar þótti brotið ekki eiga undir 209. grein hegningarlaga.
Mynd:Guardian
Árni Helgason. „Er nekt á almannafæri bönnuð með lögum?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2005, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4859.
Árni Helgason. (2005, 30. mars). Er nekt á almannafæri bönnuð með lögum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4859
Árni Helgason. „Er nekt á almannafæri bönnuð með lögum?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2005. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4859>.