Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu?

Oddur Sigurðsson

Drangajökull er fimmti stærsti jökull landsins, nú um 145 km2. Hann spannar hæðarbilið frá 140 m y.s. til 920 m y.s. og er miðja þess bils um 530 m y.s. Það er mun lægra en á nokkrum öðrum íslenskum jökli og nýtur Drangajökull vafalaust nálægðar við Grænlandsjökul á einhvern hátt.



Leirufjarðarjökull 8. september 2001. Á liðnum öldum hefur jökullinn skriðið langt niður á sléttlendið og skilið eftir garða sem ganga þvert yfir dalinn.

Þrír aðalskriðjöklar ganga út úr Drangajökli; í Kaldalón í Djúpi, Leirufjörð í Jökulfjörðum og Reykjarfjörð á Hornströndum. Staða þessara jökulsporða hefur verið mæld nær árlega síðan 1931, í upphafi að frumkvæði Jóns Eyþórssonar veðurfræðings en síðan á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands. Úr þessum mælingum má lesa merkilega sögu. Allir þessir skriðjöklar eru svokallaðir framhlaupsjöklar. Slíkir jöklar hlaupa fram á nokkurra áratuga fresti án tillits til veðurfarsbreytinga. Ástæða þessa er ekki ljós enn og verður ekki rædd frekar hér. Kaldalónsjökull hljóp fram síðast á árunum 1995-2000 en áður 1936-1940. Leirufjarðarjökull fór samskonar ferð 1939-1942 og 1995-2001 og Reykjarfjarðarjökull 1934-1939 og 2002-2006. Sagnir eru til um mikil framhlaup jökulsins fyrr á öldum og má þar nefna að væn slægja í Kaldalóni, Tólfkarlaengi, fór undir jökul á skömmum tíma á 18. öld.



Af ofangreindum ástæðum hafa helstu skriðjöklar Drangajökuls styst mun minna á undanförnum 12 árum en aðrir jöklar á landinu. Þar með er ekki öll sagan sögð. Síðan 2005 hefur afkoma jökulsins verið mæld í samstarfi Orkubús Vestfjarða og Vatnamælinga Orkustofnunar. Af þeim mælingum er ljóst að á þessum tíma rýrnaði Drangajökull ekki í sama mæli og aðrir jöklar landsins. Virðist það vera vegna mikillar úrkomu, einkum vetrarúrkomu, þar um slóðir. Sömuleiðis má nefna að árið 2001 juku Drangajökull og aðrir jöklar á norðan- og austanverðu landinu við sig þótt stóru jöklarnir allir rýrnuðu það ár.



Norðausturhlið Drangajökuls 8. september 2001. Reykjarfjarðarjökull er tungan sem gengur fram lengst til vinstri. Næstu 5 ár eftir að myndin var tekinn skreið jökulsporðurinn fram um rúma 200 m. Hrolleifsborg, Reyðarbunga og Hljóðabunga standa upp úr jöklinum. Lengst til hægri er Jökulbunga, hæsti hluti jökulsins 917 m y.s.

Talsverðu munar á loftslagi á norðanverðum Vestfjörðum og öðrum stöðum á landinu þar sem jöklar eru. Fyrir bragðið er Drangajökull um sumt ólíkur hinum stóru jöklunum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir og graf: Oddur Sigurðsson

Höfundur

jarðfræðingur hjá Orkustofnun

Útgáfudagur

18.11.2008

Spyrjandi

Íris Halldórsdóttir

Tilvísun

Oddur Sigurðsson. „Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2008. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=48610.

Oddur Sigurðsson. (2008, 18. nóvember). Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=48610

Oddur Sigurðsson. „Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2008. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=48610>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu?
Drangajökull er fimmti stærsti jökull landsins, nú um 145 km2. Hann spannar hæðarbilið frá 140 m y.s. til 920 m y.s. og er miðja þess bils um 530 m y.s. Það er mun lægra en á nokkrum öðrum íslenskum jökli og nýtur Drangajökull vafalaust nálægðar við Grænlandsjökul á einhvern hátt.



Leirufjarðarjökull 8. september 2001. Á liðnum öldum hefur jökullinn skriðið langt niður á sléttlendið og skilið eftir garða sem ganga þvert yfir dalinn.

Þrír aðalskriðjöklar ganga út úr Drangajökli; í Kaldalón í Djúpi, Leirufjörð í Jökulfjörðum og Reykjarfjörð á Hornströndum. Staða þessara jökulsporða hefur verið mæld nær árlega síðan 1931, í upphafi að frumkvæði Jóns Eyþórssonar veðurfræðings en síðan á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands. Úr þessum mælingum má lesa merkilega sögu. Allir þessir skriðjöklar eru svokallaðir framhlaupsjöklar. Slíkir jöklar hlaupa fram á nokkurra áratuga fresti án tillits til veðurfarsbreytinga. Ástæða þessa er ekki ljós enn og verður ekki rædd frekar hér. Kaldalónsjökull hljóp fram síðast á árunum 1995-2000 en áður 1936-1940. Leirufjarðarjökull fór samskonar ferð 1939-1942 og 1995-2001 og Reykjarfjarðarjökull 1934-1939 og 2002-2006. Sagnir eru til um mikil framhlaup jökulsins fyrr á öldum og má þar nefna að væn slægja í Kaldalóni, Tólfkarlaengi, fór undir jökul á skömmum tíma á 18. öld.



Af ofangreindum ástæðum hafa helstu skriðjöklar Drangajökuls styst mun minna á undanförnum 12 árum en aðrir jöklar á landinu. Þar með er ekki öll sagan sögð. Síðan 2005 hefur afkoma jökulsins verið mæld í samstarfi Orkubús Vestfjarða og Vatnamælinga Orkustofnunar. Af þeim mælingum er ljóst að á þessum tíma rýrnaði Drangajökull ekki í sama mæli og aðrir jöklar landsins. Virðist það vera vegna mikillar úrkomu, einkum vetrarúrkomu, þar um slóðir. Sömuleiðis má nefna að árið 2001 juku Drangajökull og aðrir jöklar á norðan- og austanverðu landinu við sig þótt stóru jöklarnir allir rýrnuðu það ár.



Norðausturhlið Drangajökuls 8. september 2001. Reykjarfjarðarjökull er tungan sem gengur fram lengst til vinstri. Næstu 5 ár eftir að myndin var tekinn skreið jökulsporðurinn fram um rúma 200 m. Hrolleifsborg, Reyðarbunga og Hljóðabunga standa upp úr jöklinum. Lengst til hægri er Jökulbunga, hæsti hluti jökulsins 917 m y.s.

Talsverðu munar á loftslagi á norðanverðum Vestfjörðum og öðrum stöðum á landinu þar sem jöklar eru. Fyrir bragðið er Drangajökull um sumt ólíkur hinum stóru jöklunum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir og graf: Oddur Sigurðsson...