Að undanförnu hef ég spurst fyrir um þennan rugling á orðunum apótek og bakarí en engan hitt sem kannast við hann. Ekki rengi ég þó að hann sé til því að vel er þekkt að fólk segi eitt ósjálfrátt en hafi ætlað að segja annað. Sjálf segi ég mjög oft febrúar þegar ég ætla að segja nóvember og öfugt og hef enga skýringu á. Bæði orðin apótek og bakarí eru vel lifandi í málinu þótt mörg af gömlu apótekunum hafi runnið inn í keðjur og fengið ný nöfn. Þetta má meðal annars. sjá á gulu síðum símaskrárinnar undir orðunum apótek og bakarí.
Apótek og bakarí eru tökuorð sennilegast úr dönsku. Um fyrra orðið á Orðabók Háskólans elst dæmi frá því skömmu eftir miðja 17. öld en um bakarí frá síðari hluta 19. aldar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Af hverju ruglast fólk stundum á orðunum apótek og bakarí, segir til dæmis apótek í staðinn fyrir bakarí? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
Kæri vísindavefur, á undanförnum árum hef ég nokkrum sinnum heyrt mætasta fólk segja „apótek“ þegar til stóð að segja „bakarí“. Fyrst hélt ég að þetta væri bara tilviljun, en þegar um var að ræða fleiri en einn og fleiri en tvo sem rugluðust á sömu orðum fór ég að efast um það. Getur einhver frætt mig um það hvort þetta sé þekktur ruglingur og hvernig á þessu geti staðið.
