Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD?

Heiða María Sigurðardóttir

Hér er svarað eftirtöldum tveimur spurningum:

 1. Hvernig framkalla ofskynjunarlyf á borð við LSD ofskynjanir? Þ.e.a.s. hvernig verka þau á heilann?(spyrjandi: Hálfdán Pétursson)
 2. Hvað er ofskynjun? (spyrjandi: Ágústa Arnardóttir)

Ofskynjun (hallucination) er þegar fólk skynjar eitthvað sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum, það er þegar skynjunin er ekki af völdum utanaðkomandi áreita. Ofskynjun er ekki það sama og skynvilla, sem er mistúlkun á einhverju raunverulegu.

Ofskynjanir geta verið með ýmsum hætti. Fólk getur til að mynda fundið fyrir guðlegri návist, séð litríkar sýnir (ofsjónir) og heyrt raddir án þess að neinn tali í raun og veru (ofheyrnir). Ofskynjanir tengjast hvaða skynfæri sem er, og geta því komið fram í sjón, heyrn, bragði, lykt eða snertingu. Þessar skynjanir eru stundum ánægjulegar en geta líka verið óþægilegar eða jafnvel hræðilegar.

Ofskynjanir geta átt sér ýmsar orsakir. Sum efni geta kallað fram ofskynjanir og kallast þá ofskynjunarefni eða ofskynjunarlyf en það orð á í rauninni ekki við. Ofskynjanir eru einnig fylgifiskar ýmissa geðsjúkdóma, svo sem geðklofa (schizophrenia) og tvískautaröskunar (bipolar disorder). Ofskynjanir fylgja oft óráði, sem aftur getur orsakast af háum hita, höfuðhöggi, hjartabilun eða ofneyslu áfengis. Einnig er hægt að framkalla ofskynjanir með rafertingu heilans, það er að örva tilteknar heilastöðvar með rafmagni, sömuleiðis með því að koma í veg fyrir að utanaðkomandi áreiti berist skynfærum eða með því að dáleiða fólk. Ofskynjanir þurfa þó ekki að vera óeðlilegar. Margir kannast til að mynda við þá óþægilegu ofskynjun að finnast þeir vera að detta þegar þeir eru á milli svefns og vöku. Einnig mætti segja að draumar séu að sumu leyti nokkurs konar ofskynjanir en um þá má finna önnur svör á Vísindavefnum með því að smella hér.Svona gætu ofsjónir litið út.

Ofskynjunarefni valda breytingum á skynjun fólks, hugsunum þess og tilfinningum. Helstu efnin af þessu tagi eru LSD, meskalín, psýlósýbín og tetrahýdrókannabínól (THC). Mörg þeirra er að finna í náttúrunni, svo sem í plöntum, dýrum og sveppum. Til að mynda er meskalín unnið úr blómum meskalínkaktusins (Lophophora williamsii), psýlósýbín finnst í ákveðnum tegundum sveppa og THC er unnið úr hampplöntunni. Önnur ofskynjunarefni, svo sem LSD, eru sérstaklega búin til af mönnum með efnasmíð (synthesis).

Notkun ofskynjunarefna á sér langa sögu, og var oft tengd einhvers konar trúarsiðum. Astekar töldu til að mynda að ofskynjunarsveppir væru heilagir og kölluðu þá „hold guðs“. Á 19. öld söfnuðu apatsjar (Apache), indíánaþjóðflokkur í Norður-Ameríku, meskalínkaktusum og var slík söfnun talin til helgiathafna. Indíánar bjuggu einnig til seyði sem kallaðist ayahuasca og innihélt virk efni sem ollu ofskynjunum. Kannabisefni, sem innihalda THC, hafa einnig frá fornu fari verið notuð sem vímugjafi í Austurlöndum fjær. Ef farið er nær nútímanum eru ofskynjunarefni oft tengd 68-kynslóðinni, en sumir hippar notuðu slík efni til að komast á svokallað æðra meðvitundarstig og víkka sjóndeildarhringinn. Nú á dögum eru flest ofskynjunarefni flokkuð sem ólögleg vímuefni, en ólíkt mörgum öðrum vímuefnum eru þau ekki ávanabindandi.

Ofskynjunarefni eiga það öll sameiginlegt að hafa víðtæk áhrif á miðtaugakerfi fólks. Uppbygging LSD, psýlósýbíns og margra annarra slíkra efna er um margt lík taugaboðefninu serótóníni. Þessi efni virðast valda ofskynjunum með því að herma eftir virkni þessa boðefnis, það er með því að virkja serótónínviðtaka í heilanum. Þetta veldur bæði ofvirkni í ennisblaði (frontal lobe) og hnakkablaði (occipital lobe) heilans. Ennisblaðið er talið sjá um hreyfistjórn, rökhugsun og hvatastjórn en hnakkablaðið hefur mest með sjónskynjun að gera. Ofvirkni í hnakkablaði endurspeglar því líklega ofsjónir fólks. Meskalín veldur svo að öllum líkindum ofskynjunum með því að líkja eftir taugaboðefnunum adrenalíni og noradrenalíni.

Að lokum má nefna að maðurinn virðist vera eina dýrategundin þar sem einhverjir eintaklingar sækjast eftir áhrifum ofskynjunarefna. Eftir að hafa prófað þau einu sinni virðast önnur dýr forðast þau eins og heitan eldinn. Áhugavert er að velta fyrir sér hvers vegna mannskepnan sækist eftir því sem breytir allri hugsun hennar og hegðun á þann hátt sem hér hefur verið lýst.

Heimildir og frekara lesefni:

 • Hallucination. Encyclopaedia Brittanica.
 • Hallucinogen. Encyclopaedia Brittanica.
 • Íslenska alfræðiorðabókin (1990). Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (Ritstj.). Reykjavík: Örn og Örlygur.
 • Lyvers, M. (2003). The neurochemistry of psychedelic experiences. Science and Consciousness Review, 1, 1-4.
 • Nolen-Hoeksema, S. (2004). Abnormal psychology (3. útgáfa). New York: McGraw-Hill.
 • Fleira áhugavert lesefni má finna á Brittanica Online.
 • Myndina er að finna á Toronto.com.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

2.6.2005

Spyrjandi

Hálfdán Pétursson
Ágústa Arnardóttir

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD?“ Vísindavefurinn, 2. júní 2005. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5028.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 2. júní). Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5028

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD?“ Vísindavefurinn. 2. jún. 2005. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5028>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD?
Hér er svarað eftirtöldum tveimur spurningum:

 1. Hvernig framkalla ofskynjunarlyf á borð við LSD ofskynjanir? Þ.e.a.s. hvernig verka þau á heilann?(spyrjandi: Hálfdán Pétursson)
 2. Hvað er ofskynjun? (spyrjandi: Ágústa Arnardóttir)

Ofskynjun (hallucination) er þegar fólk skynjar eitthvað sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum, það er þegar skynjunin er ekki af völdum utanaðkomandi áreita. Ofskynjun er ekki það sama og skynvilla, sem er mistúlkun á einhverju raunverulegu.

Ofskynjanir geta verið með ýmsum hætti. Fólk getur til að mynda fundið fyrir guðlegri návist, séð litríkar sýnir (ofsjónir) og heyrt raddir án þess að neinn tali í raun og veru (ofheyrnir). Ofskynjanir tengjast hvaða skynfæri sem er, og geta því komið fram í sjón, heyrn, bragði, lykt eða snertingu. Þessar skynjanir eru stundum ánægjulegar en geta líka verið óþægilegar eða jafnvel hræðilegar.

Ofskynjanir geta átt sér ýmsar orsakir. Sum efni geta kallað fram ofskynjanir og kallast þá ofskynjunarefni eða ofskynjunarlyf en það orð á í rauninni ekki við. Ofskynjanir eru einnig fylgifiskar ýmissa geðsjúkdóma, svo sem geðklofa (schizophrenia) og tvískautaröskunar (bipolar disorder). Ofskynjanir fylgja oft óráði, sem aftur getur orsakast af háum hita, höfuðhöggi, hjartabilun eða ofneyslu áfengis. Einnig er hægt að framkalla ofskynjanir með rafertingu heilans, það er að örva tilteknar heilastöðvar með rafmagni, sömuleiðis með því að koma í veg fyrir að utanaðkomandi áreiti berist skynfærum eða með því að dáleiða fólk. Ofskynjanir þurfa þó ekki að vera óeðlilegar. Margir kannast til að mynda við þá óþægilegu ofskynjun að finnast þeir vera að detta þegar þeir eru á milli svefns og vöku. Einnig mætti segja að draumar séu að sumu leyti nokkurs konar ofskynjanir en um þá má finna önnur svör á Vísindavefnum með því að smella hér.Svona gætu ofsjónir litið út.

Ofskynjunarefni valda breytingum á skynjun fólks, hugsunum þess og tilfinningum. Helstu efnin af þessu tagi eru LSD, meskalín, psýlósýbín og tetrahýdrókannabínól (THC). Mörg þeirra er að finna í náttúrunni, svo sem í plöntum, dýrum og sveppum. Til að mynda er meskalín unnið úr blómum meskalínkaktusins (Lophophora williamsii), psýlósýbín finnst í ákveðnum tegundum sveppa og THC er unnið úr hampplöntunni. Önnur ofskynjunarefni, svo sem LSD, eru sérstaklega búin til af mönnum með efnasmíð (synthesis).

Notkun ofskynjunarefna á sér langa sögu, og var oft tengd einhvers konar trúarsiðum. Astekar töldu til að mynda að ofskynjunarsveppir væru heilagir og kölluðu þá „hold guðs“. Á 19. öld söfnuðu apatsjar (Apache), indíánaþjóðflokkur í Norður-Ameríku, meskalínkaktusum og var slík söfnun talin til helgiathafna. Indíánar bjuggu einnig til seyði sem kallaðist ayahuasca og innihélt virk efni sem ollu ofskynjunum. Kannabisefni, sem innihalda THC, hafa einnig frá fornu fari verið notuð sem vímugjafi í Austurlöndum fjær. Ef farið er nær nútímanum eru ofskynjunarefni oft tengd 68-kynslóðinni, en sumir hippar notuðu slík efni til að komast á svokallað æðra meðvitundarstig og víkka sjóndeildarhringinn. Nú á dögum eru flest ofskynjunarefni flokkuð sem ólögleg vímuefni, en ólíkt mörgum öðrum vímuefnum eru þau ekki ávanabindandi.

Ofskynjunarefni eiga það öll sameiginlegt að hafa víðtæk áhrif á miðtaugakerfi fólks. Uppbygging LSD, psýlósýbíns og margra annarra slíkra efna er um margt lík taugaboðefninu serótóníni. Þessi efni virðast valda ofskynjunum með því að herma eftir virkni þessa boðefnis, það er með því að virkja serótónínviðtaka í heilanum. Þetta veldur bæði ofvirkni í ennisblaði (frontal lobe) og hnakkablaði (occipital lobe) heilans. Ennisblaðið er talið sjá um hreyfistjórn, rökhugsun og hvatastjórn en hnakkablaðið hefur mest með sjónskynjun að gera. Ofvirkni í hnakkablaði endurspeglar því líklega ofsjónir fólks. Meskalín veldur svo að öllum líkindum ofskynjunum með því að líkja eftir taugaboðefnunum adrenalíni og noradrenalíni.

Að lokum má nefna að maðurinn virðist vera eina dýrategundin þar sem einhverjir eintaklingar sækjast eftir áhrifum ofskynjunarefna. Eftir að hafa prófað þau einu sinni virðast önnur dýr forðast þau eins og heitan eldinn. Áhugavert er að velta fyrir sér hvers vegna mannskepnan sækist eftir því sem breytir allri hugsun hennar og hegðun á þann hátt sem hér hefur verið lýst.

Heimildir og frekara lesefni:

 • Hallucination. Encyclopaedia Brittanica.
 • Hallucinogen. Encyclopaedia Brittanica.
 • Íslenska alfræðiorðabókin (1990). Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (Ritstj.). Reykjavík: Örn og Örlygur.
 • Lyvers, M. (2003). The neurochemistry of psychedelic experiences. Science and Consciousness Review, 1, 1-4.
 • Nolen-Hoeksema, S. (2004). Abnormal psychology (3. útgáfa). New York: McGraw-Hill.
 • Fleira áhugavert lesefni má finna á Brittanica Online.
 • Myndina er að finna á Toronto.com.
...