Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Væri hægt að knýja geimskip með kjarnorkusprengjum?

Þó það hljómi frekar ólíklega í fyrstu, þá væri hægt að nota kjarnorkusprengjur til að fljúga geimskipi á milli pláneta og fjarlægra stjarna. Þar að auki eru til ítarlegar teikingar og áætlanir um hvernig ætti að smíða slíkt geimskip með þeirri tækni og verkfræðikunnáttu sem við búum yfir í dag.

Árið 1958 hóf rannsóknarlið undir forystu eðlisfræðingsins Ted Taylor að skoða hugmynd stærðfræðingsins Stanislaw Ulam um geimfar sem væri knúið áfram af kjarnorkusprengjum. Verkefnið gekk undir nafninu Óríón og skilaði ítarlegum niðurstöðum um hvernig mætti smíða þrjár tegundir slíkra geimfara, einu til prófunar, öðru til að ferðast á milli pláneta og þriðja til að komast til annarra stjarna á skikkanlegum tíma. Árið 1963 undirrituðu Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin samning sem bannaði allar kjarnorkusprengingar ofanjarðar og í geimnum og þar með var bundinn endi á verkefnið.Hluti af teikningum af Óríón-geimfari.

Hugmyndin á bakvið geimförin var einföld. Hvert þeirra var langur sívalningur, þar sem áhöfnin sat fremst ofan á risastórum höggdempara. Til að keyra farið áfram átti að sleppa kjarnorkusprengjum aftan úr því, sprengja þær nokkra metra frá geimfarinu og fleyta farinu áfram á orkunni úr sprengingunni. Fyrir hverja ferð innan sólkerfisins þyrfti á bilinu 500 til 1000 kjarnorkusprengjur. Til að koma farinu af stað átti að sprengja eina sprengju á sekúndu fresti, en þegar því væri lokið myndi farið sigla áfram í tóminu án mótstöðu.

Óríon-geimförin voru talsvert hraðskreiðari og stærri en öll önnur geimför sem hefur þótt raunhæft að smíða hingað til. Þau áttu að geta komist til Mars á um fjórum vikum, sem er ferðalag sem að tekur hálft ár í dag, og þau áttu að geta farið hringferð til Satúrnusar á þrem árum. Stærsta skipið átti að geta ferðast á um 10% af ljóshraða, sem myndi gera því kleift að komast til næsta sólkerfis á rúmum 40 árum. Samkvæmt teikningunum átti þetta stærsta skip að vera 400 metra langt, vega átta milljón tonn og geta borið 1.300 tonna farm á áfangastað sinn.

Þó þessar hugmyndir hljómi eins og hreinasti vísindaskáldskapur, þá eru Óríon-geimförin raunhæf, þau eru hagkvæmasta leiðin sem við þekkjum til að koma mönnum hratt til annarra pláneta, og þau eru enn sem komið er eina leiðin sem vísindamönnum hefur dottið í hug til að koma mönnum til annarra sólkerfa á tiltölulega stuttum tíma. Allar aðrar slíkar hugmyndir byggja á tækni sem ennþá er ekki til, eins og til dæmis samrunakjarnaofnum, en ef að vilji væri fyrir hendi mætti smíða Óríon-förin með þeirri tækni sem er til í dag.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Útgáfudagur

24.7.2009

Spyrjandi

Stefán Hjalti Garðarsson

Höfundur

Gunnar Þór Magnússon

stærðfræðingur

Tilvísun

Gunnar Þór Magnússon. „Væri hægt að knýja geimskip með kjarnorkusprengjum?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2009. Sótt 17. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=50372.

Gunnar Þór Magnússon. (2009, 24. júlí). Væri hægt að knýja geimskip með kjarnorkusprengjum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=50372

Gunnar Þór Magnússon. „Væri hægt að knýja geimskip með kjarnorkusprengjum?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2009. Vefsíða. 17. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=50372>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Halldór G. Svavarsson

1966

Halldór G. Svavarsson er dósent við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Rannsóknaviðfangsefni Halldórs hafa spannað vítt svið, frá steinsteypu og keramik til smáþörunga og örtækni. Halldór hefur þar að auki æft karate í 35 ár og var um tíma landsliðsþjálfari í greininni.