Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kobbi kviðrista, eða Jack the Ripper, er einn þekktasti raðmorðingi allra tíma. Frá 7. ágúst til 10. nóvember árið 1888 myrti Kobbi að minnsta kosti fimm manns, allt vændiskonur. Raunar er nafn hans aðeins uppspuni. Enginn veit hvað hann hét í raun, því morðmálið var aldrei upplýst.
Kobbi kviðrista framdi öll morðin með því að skera fórnarlömbin á háls. Í flestum tilvikum var líkami þeirra einnig afmyndaður eða limlestur. Þetta var gert með þeim hætti að líklegt þykir að morðinginn hafi haft einhverja þekkingu á líffærafræði, kannski læknir eða jafnvel slátrari. Til að mynda fékk lögreglan eitt sinn hluta af mannsnýra sent í pósti, líklega úr einu fórnarlambanna.
Rannsóknin á morðunum var gífurlega umfangsmikil. Lögreglan fór hús úr húsi, dreifði 80.000 auglýsingamiðum og yfirheyrði mörg þúsund manns, þar á meðal 76 slátrara. Kobbi kviðrista, eða að minnsta kosti einhver sem sagðist vera hann, hafði reglulega samband við lögregluna og egndi hana til að ná sér. Margar tilraunir voru gerðar til að handsama hann, en án árangurs. Almenningur varð ævareiður yfir endurteknum mistökum lögreglunnar og að lokum neyddist yfirmaður hennar til að segja af sér vegna málsins.
Ýmsir menn hafa verið grunaðir um morðin. Fyrstan ber að nefna Montague Druitt, breskan lögfræðing og kennara. Hann var áhugamaður um skurðaðgerðir og sagður veikur á geði. Druitt hvarf eftir síðasta morðið og fannst síðar dauður. Annar grunaður maður var Michael Ostrog, rússneskur sakamaður og læknir. Hann var vistaður á geðveikrahæli sökum þess að hann reyndi að fremja sjálfsmorð. Að lokum má nefna Aaron Kosminski, pólskan gyðing, sem bar mikið hatur til vændiskvenna. Hann var einnig settur á geðveikrahæli nokkrum mánuðum eftir morðin.
Frá tímum morðanna hafa ýmsar samsæriskenningar og sögusagnir komist á kreik. Þar má nefna að glæpirnir hafi verið hluti af miklu samsæri frímúrarareglunnar, og að lögreglan hafi hylmt yfir með sökudólgnum vegna þess að hann var háttsettur eða jafnvel konungborinn. Morðin hafa einnig veitt ýmsum tónlistarmönnum, rithöfundum og kvikmyndagerðarmönnum innblástur. Meðal þeirra eru Nick Cave and the Bad Seeds, sem sömdu lagið Jack the Ripper, White Stripes með lagið sitt Astro og Alan Moore sem skrifaði teiknimyndasöguna From Hell. Samnefnd kvikmynd var gerð eftir sögunni með þeim Johnny Depp og Heather Graham í aðalhlutverkum. Myndin sem fylgir þessari grein er einmitt úr kvikmyndinni From Hell.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað gerði Kobbi kviðrista (Jack the Ripper)?“ Vísindavefurinn, 9. júní 2005, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5045.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 9. júní). Hvað gerði Kobbi kviðrista (Jack the Ripper)? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5045
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað gerði Kobbi kviðrista (Jack the Ripper)?“ Vísindavefurinn. 9. jún. 2005. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5045>.