Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað merkir aðventa?

Aðventa er annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio 'ég kem til' sem leidd er af latnesku sögninni venio 'ég kem' með forskeytinu ad-.Nú á tímum eru sjálfsagt fleiri sem gera aðventukrans en fasta á aðventunni.

Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir:
Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. (1992:31)

Árni Björnsson hefur fjallað rækilega um aðventuna og jólaföstu í bókinni Saga daganna og vísum við þangað um frekari fræðslu. Þar kemur meðal annars fram að aðventukransar sjást lítið fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og algengir urðu þeir ekki fyrr en milli 1960 og 1970 (1993:334).

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Ritmálsskrá OH.
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. 1992. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.

Mynd: Mark D. Roberts: Advent Calendar 2004


Þetta svar er fengið af vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og birt með góðfúslegu leyfi.

Útgáfudagur

5.12.2008

Spyrjandi

Ritstjórn

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvað merkir aðventa?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2008. Sótt 21. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=50582.

Guðrún Kvaran. (2008, 5. desember). Hvað merkir aðventa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=50582

Guðrún Kvaran. „Hvað merkir aðventa?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2008. Vefsíða. 21. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=50582>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Elsa Eiríksdóttir

1975

Elsa Eiríksdóttir er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif.