Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:01 • Sest 02:01 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:44 • Síðdegis: 13:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:39 í Reykjavík

Hvað eru átröskunarsjúkdómar?

EDS

Átraskanir eru alvarlegir langvinnir geðsjúkdómar sem einkennast af miklum truflunum á mataræði. Þekktustu átraskanirnar eru lystarstol (anorexía) og lotugræðgi (búlemía), en í báðum þessum tilfellum eru sjúklingarnir mjög uppteknir af líkamsþyngd og hræðslu við að þyngjast. Átraskanir valda iðulega alvarlegum líkamlegum og andlegum einkennum sem geta í verstu tilfellum leitt til dauða.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins er að finna eftirfarandi skilgreiningu á átröskunum:

Átröskun er samspil líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta sem hafa innbyrðis áhrif hver á annan. Lystarstol (anorexia nervosa) og lotugræðgi (bulimia nervosa) eru sjúkdómar sem einkennast af sjúklegum ótta við að þyngjast og hræðslu við að missa stjórn á mataræði.Þeir sem þjást af átröskun hafa mjög brenglaða mynd af eigin útliti.

Á Vísindavefnum hefur bæði verið fjallað um lystarstol og lotugræði. Í svari við spurningunni Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg? segir:

Lystarstol einkennist af ýktum áhyggjum af offitu og áráttukenndri megrun sem verður að sjálfsvelti. Lystarstolssjúklingar eru haldnir stöðugum ótta um að verða feitir og reyna í sífellu að grenna sig, þrátt fyrir það að vera orðnir lífshættulega grannir. Þeir borða einungis hitaeiningasnauðan mat, ef þeir borða eitthvað yfir höfuð, og matarvenjur þeirra eru oft undarlegar. Til dæmis er algengt að fólk með lystarstol forðist að borða í návist annarra. Að auki stunda þeir oft mikla og erfiða líkamsþjálfun, kannski margar klukkustundir á dag. Það leiðir að sjálfsögðu til mikils þyngdartaps og stundum er líkamsþyngd fólks með lystarstol orðin undir 50% af eðlilegri þyngd þess.

Lotugræðgi er hins vegar lýst á eftirfarandi hátt í svari við spurningunni Hvað er lotugræðgi og hvað orsakar hana?:

Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af óhóflegu áti fólks í endurteknum lotum. Að lokinni hverri lotu er reynt að "hreinsa" burt hitaeiningarnar sem neytt var, til dæmis með því að framkalla uppköst eða nota hægðarlosandi lyf. Í lotuáti borða sjúklingar óeðlilega mikið magn af hitaeiningaauðugum mat á skömmum tíma, þegar líða tekur á daginn eða á kvöldin. Eftir átið fyllist fólkið þunglyndi og samviskubiti. Uppköstunum, eða hreinsuninni, er ætlað að draga úr þessum tilfinningum og áður en maturinn nær að meltast.

Nýlega hefur lotuofát (e. binge eating disorder) einnig verið skilgreint sem átröskunarsjúkdómur en í stað mikils þyngdartap getur sjúkdómurinn valdið offitu. Talið er að lotuofát sé orsök offitu hjá 15-50% offitusjúklinga. Einstaklingar með lotuofát fá átköst eins og sjúklingar með lotugræðgi og geta borðað mikið á stuttum tíma. Hins vegar losa þeir sig ekki við matinn áður en hann meltist.

Nánar er hægt að lesa um átraskanir í áðurnefndum svörum og í heimildunum hér fyrir neðan.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

24.2.2009

Spyrjandi

Alex Kári Ívarsson

Tilvísun

EDS. „Hvað eru átröskunarsjúkdómar?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2009. Sótt 15. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=50657.

EDS. (2009, 24. febrúar). Hvað eru átröskunarsjúkdómar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=50657

EDS. „Hvað eru átröskunarsjúkdómar?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2009. Vefsíða. 15. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=50657>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru átröskunarsjúkdómar?
Átraskanir eru alvarlegir langvinnir geðsjúkdómar sem einkennast af miklum truflunum á mataræði. Þekktustu átraskanirnar eru lystarstol (anorexía) og lotugræðgi (búlemía), en í báðum þessum tilfellum eru sjúklingarnir mjög uppteknir af líkamsþyngd og hræðslu við að þyngjast. Átraskanir valda iðulega alvarlegum líkamlegum og andlegum einkennum sem geta í verstu tilfellum leitt til dauða.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins er að finna eftirfarandi skilgreiningu á átröskunum:

Átröskun er samspil líkamlegra, sálrænna og félagslegra þátta sem hafa innbyrðis áhrif hver á annan. Lystarstol (anorexia nervosa) og lotugræðgi (bulimia nervosa) eru sjúkdómar sem einkennast af sjúklegum ótta við að þyngjast og hræðslu við að missa stjórn á mataræði.Þeir sem þjást af átröskun hafa mjög brenglaða mynd af eigin útliti.

Á Vísindavefnum hefur bæði verið fjallað um lystarstol og lotugræði. Í svari við spurningunni Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg? segir:

Lystarstol einkennist af ýktum áhyggjum af offitu og áráttukenndri megrun sem verður að sjálfsvelti. Lystarstolssjúklingar eru haldnir stöðugum ótta um að verða feitir og reyna í sífellu að grenna sig, þrátt fyrir það að vera orðnir lífshættulega grannir. Þeir borða einungis hitaeiningasnauðan mat, ef þeir borða eitthvað yfir höfuð, og matarvenjur þeirra eru oft undarlegar. Til dæmis er algengt að fólk með lystarstol forðist að borða í návist annarra. Að auki stunda þeir oft mikla og erfiða líkamsþjálfun, kannski margar klukkustundir á dag. Það leiðir að sjálfsögðu til mikils þyngdartaps og stundum er líkamsþyngd fólks með lystarstol orðin undir 50% af eðlilegri þyngd þess.

Lotugræðgi er hins vegar lýst á eftirfarandi hátt í svari við spurningunni Hvað er lotugræðgi og hvað orsakar hana?:

Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af óhóflegu áti fólks í endurteknum lotum. Að lokinni hverri lotu er reynt að "hreinsa" burt hitaeiningarnar sem neytt var, til dæmis með því að framkalla uppköst eða nota hægðarlosandi lyf. Í lotuáti borða sjúklingar óeðlilega mikið magn af hitaeiningaauðugum mat á skömmum tíma, þegar líða tekur á daginn eða á kvöldin. Eftir átið fyllist fólkið þunglyndi og samviskubiti. Uppköstunum, eða hreinsuninni, er ætlað að draga úr þessum tilfinningum og áður en maturinn nær að meltast.

Nýlega hefur lotuofát (e. binge eating disorder) einnig verið skilgreint sem átröskunarsjúkdómur en í stað mikils þyngdartap getur sjúkdómurinn valdið offitu. Talið er að lotuofát sé orsök offitu hjá 15-50% offitusjúklinga. Einstaklingar með lotuofát fá átköst eins og sjúklingar með lotugræðgi og geta borðað mikið á stuttum tíma. Hins vegar losa þeir sig ekki við matinn áður en hann meltist.

Nánar er hægt að lesa um átraskanir í áðurnefndum svörum og í heimildunum hér fyrir neðan.

Heimildir og mynd:

...