Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Er sjálfsfróun hættuleg?

Sóley S. Bender

Hér er einnig svarað spurningunum:
 • Hvort eru það fleiri karlmenn eða konur sem fróa sér?
 • Af hverju finnst sumum stelpum ógeðslegt að fróa sér?
 • Af hverju stunda flestir unglingar sjálfsfróun?

Með sjálfsfróun er átt við örvun kynfæra sem leiðir til kynferðislegrar ánægju (Greenberg, Bruess og Haffner, 2004). Hugtakið sjálfsfróun gefur til kynna einspil en þýðir þó ekki endilega að aðeins einn einstaklingur komi þar að verki. Sjálfsfróun getur verið hluti af kynferðislegum athöfnum í samböndum fólks hvort sem um gagn-, sam- eða tvíkynhneigt par er að ræða. Sumir eiga jafnvel auðveldara með að fá fullnægingu með sjálfsfróun heldur en með kynmökum.

Lengi vel var því haldið fram að sjálfsfróun væri skaðleg heilsu manna og slík viðhorf búa ennþá meðal fólks. Kaþólska kirkjan hefur til að mynda lengi haft neikvæð viðhorf til sjálfsfróunar. Árið 1976 fullyrti páfagarður í ritinu Declaration of Sexual Ethics að sjálfsfróun væri „ trufluð hegðun“ og árið 1993 staðfesti páfinn að sjálfsfróun væri ósiðlegt athæfi (Greenberg, Bruess og Haffner, 2004).

Í eldri ritum, sem gefin voru út hér á landi um miðja síðustu öld, komu fram margvíslegir fordómar gagnvart sjálfsfróun eins og að nota hugtakið „sjálfsflekkun“ yfir þessa hegðun (Fishbein, 1943). Í bókinni Heilsurækt og mannamein frá árinu 1943 er þess getið að börn geti tekið „upp á þeim ósið að fitla við kynfæri sín“ (Fishbein, 1943, bls. 82). Ráðlagt er að segja við börnin að þetta sé „ruddalegur ósiður“ og það ætti að vara þau við því vegna þess að þetta gæti orðið að „ljótum ávana“. Í umfjöllun um unglinga í sama riti er fjallað um sjálfsflekkun sem ósið sem „enginn getur verið hreykinn af“. Þó er komið inn á að líklega hafi þetta ekki slæmar afleiðingar. Sagt er að best sé að vekja áhuga unglinga á öðrum málefnum svo að þetta „gleymist“ (bls. 90).

Í ritinu Kynlíf er fjallað um sjálfsfróun sem „sjálfsþægingu“ (Kahn, 1948, bls. 335). Þar er sett fram sú skilgreining á sjálfsfróun að hún sé „fullnæging sem einstaklingurinn framkallar sjálfur með ertingu utan samfara“ (Kahn, 1948, bls. 335). Í sama riti er fjallað um margvíslegar tegundir og ástæður sjálfsþægingar. Þar er minnst á að meirihluti unglingsstráka stundi sjálfsþægingu og að þeir leiðist þá oft út í að stunda þessa iðju vegna þess að þá vanti tækifæri til að hafa samfarir. Í bókinni er sjálfsþæging í raun talin óæðri samförunum. Þess er til dæmis getið að sjálfsþæging sé ekki heilsuspillandi en þó nefnt að hún geti leitt til óeðlis, óhamingju og þunglyndis.

Í ritinu kemur fram hörð gagnrýni á kenningar svissneska læknisins Samuel-August Tissot, sem árið 1780 gaf út L’Onanisme, um slæmar afleiðingar sjálfsfróunar (Kahn, 1948; Wikipedia, e.d.). Þar var því haldið fram að sjálfsfróun leiddi til glötunar og gæti valdið margvíslegum vandamálum eins og fávitahætti og svefntregðu sem endað gæti með ævilangri geðveiki (Kahn, 1948). Það má því ljóst vera af þessari umfjöllun að ekki hefur alltaf verið litið á sjálfsfróun sem jákvæða kynhegðun.

Með auknum rannsóknum á kynlífi upp úr 1960 var farið að endurskoða fyrri viðhorf til sjálfsfróunar. Farið var að líta á sjálfsfróun sem eðlilegan hluta af kynhegðun mannsins sem væri mikilvæg og gagnleg fyrir einstaklinginn (Haavio-Mannila og Kontula, 2003). Nú er hún talin stuðla að kynlífsheilbrigði (sexual health) mannsins. Í nýlegri ritum um kynlíf er fjallað um kynlífsþroska barna og unglinga sem eðlilegt fyrirbæri og það útskýrt hvernig barnið finnur notakennd við snertingu kynfæra og að unglingurinn þurfi að átta sig á kynferðislegum löngunum og finna kynferðislegum tilfinningum sínum farveg (Hyde og DeLamater, 2000).

Eins og áður er getið er algengt að unglingar stundi sjálfsfróun og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að hún er mun algengari meðal stráka en stúlkna (Haavio-Mannila og Kontula, 2003). Talið er að það stafi meðal annars af því að kynfæri stráka eru meira áberandi. Jafnframt má telja það líklegt að þættir í uppeldi geti gert það að verkum að þeir viðurkenni frekar kynferðislegar tilfinningar sínar. Í uppeldi virðast stúlkur, fremur en strákar, fá skilaboð um að kynlíf og kynhegðun fólks sé eitthvað hættulegt og ljótt. Margir hafa því sektarkennd gagnvart því að stunda kynlíf hvort sem það er með öðrum eða sjálfum sér. Sumum getur jafnvel fundist ógeðslegt að fróa sér. Fram kom í bandarískri rannsókn að sektarkennd eftir sjálfsfróun væri algeng meðal allra aldurshópa (Laumann, Gagnon, Michael og Michaels, 1994). Getur það meðal annars stafað af þeim skilaboðum sem einstaklingurinn hefur fengið um kynlíf í gegnum uppvöxtinn, hvernig hann lítur á kynlíf og hvað sé eðlileg kynhegðun.

Oft eru strákar búnir að stunda sjálfsfróun í einhvern tíma áður en þeir byrja í kynferðislegu sambandi. Sjálfsfróun verður leið til þess að kynnast eigin líkama og getur reynst gagnleg við að mynda gott kynferðislegt samband við annan einstakling síðar meir (Hyde og DeLamater, 2000). Það hefur löngum þótt mikilvægt í lífinu að þekkja sjálfan sig og gildir það um kynhegðun sem aðra hegðun. Sjálfsfróun er í raun þekking sem einstaklingurinn öðlast við það að kynnast og læra inn á eigin líkama og finna næmnissvæði hans. Með sjálfsfróun prófar einstaklingurinn sig áfram og finnur það út smám saman hvers konar snerting og örvun veitir góðar tilfinningar. Hann getur þá síðar meir leiðbeint kynlífsfélaga með hvað honum finnist gott.

Með nútímalegum augum kynfræðinnar er því litið á sjálfsfróun sem góða leið til að kynnast sjálfum sér, eigin tilfinningum og líkama og hefur hún jafnframt verið ráðlögð fólki sem á við vandamál að stríða í kynlífi (LoPiccolo og Lobitz, 1973; Kaplan, 1981; Haavio-Mannila og Kontula, 2003).

Heimildir:
 • Fishbein, M. (1943). Heilsurækt og mannamein (Niels Dungal annaðist útgáfuna). Reykjavík: Bókaútgáfan Dagrenning.
 • Greenberg, J.S., Bruess, C.E. og Haffner, D.W. (2004). Exploring the dimensions of human sexuality (2. útg.). Boston: Jones and Bartlett Publishers.
 • Haavio-Mannila, E. og Kontula, O. (2003). Sexual trends in the Baltic Sea Area. Publications of the Population Research Institute, Series D 41/2003. Helsinki: The Population Research Institute, Västöliitto.
 • Hyde, S.J. og DeLamater, J.D. (2000). Understanding human sexuality (6. útg.). New York: Mc Graw Hill.
 • Kahn, F. (1948). Kynlíf (Jón G. Nikulásson gaf út). Reykjavík: Helgafell.
 • Kaplan, H.S. (1981). The new sex therapy. New York: Brunner/Mazel, Inc.
 • Laumann, E.O., Gagnon, J.H., Michael, R.T. og Michaels, S. (1994). The social organization of sexuality. Sexual practices in the United States. Chicago: The University of Chicago Press.
 • LoPiccolo, J. og Lobitz, W.C. (1973). The role of masturbation in the treatment of orgasmic dysfunction. Archives of Sexual Behavior, 2(2), 163-171.
 • Wikipedia (e.d.). Masturbation. Sótt 30. maí 2005.

Höfundur

Sóley S. Bender

prófessor og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við HÍ

Útgáfudagur

22.6.2005

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Sóley S. Bender. „Er sjálfsfróun hættuleg?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2005. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5071.

Sóley S. Bender. (2005, 22. júní). Er sjálfsfróun hættuleg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5071

Sóley S. Bender. „Er sjálfsfróun hættuleg?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2005. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5071>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er sjálfsfróun hættuleg?
Hér er einnig svarað spurningunum:

 • Hvort eru það fleiri karlmenn eða konur sem fróa sér?
 • Af hverju finnst sumum stelpum ógeðslegt að fróa sér?
 • Af hverju stunda flestir unglingar sjálfsfróun?

Með sjálfsfróun er átt við örvun kynfæra sem leiðir til kynferðislegrar ánægju (Greenberg, Bruess og Haffner, 2004). Hugtakið sjálfsfróun gefur til kynna einspil en þýðir þó ekki endilega að aðeins einn einstaklingur komi þar að verki. Sjálfsfróun getur verið hluti af kynferðislegum athöfnum í samböndum fólks hvort sem um gagn-, sam- eða tvíkynhneigt par er að ræða. Sumir eiga jafnvel auðveldara með að fá fullnægingu með sjálfsfróun heldur en með kynmökum.

Lengi vel var því haldið fram að sjálfsfróun væri skaðleg heilsu manna og slík viðhorf búa ennþá meðal fólks. Kaþólska kirkjan hefur til að mynda lengi haft neikvæð viðhorf til sjálfsfróunar. Árið 1976 fullyrti páfagarður í ritinu Declaration of Sexual Ethics að sjálfsfróun væri „ trufluð hegðun“ og árið 1993 staðfesti páfinn að sjálfsfróun væri ósiðlegt athæfi (Greenberg, Bruess og Haffner, 2004).

Í eldri ritum, sem gefin voru út hér á landi um miðja síðustu öld, komu fram margvíslegir fordómar gagnvart sjálfsfróun eins og að nota hugtakið „sjálfsflekkun“ yfir þessa hegðun (Fishbein, 1943). Í bókinni Heilsurækt og mannamein frá árinu 1943 er þess getið að börn geti tekið „upp á þeim ósið að fitla við kynfæri sín“ (Fishbein, 1943, bls. 82). Ráðlagt er að segja við börnin að þetta sé „ruddalegur ósiður“ og það ætti að vara þau við því vegna þess að þetta gæti orðið að „ljótum ávana“. Í umfjöllun um unglinga í sama riti er fjallað um sjálfsflekkun sem ósið sem „enginn getur verið hreykinn af“. Þó er komið inn á að líklega hafi þetta ekki slæmar afleiðingar. Sagt er að best sé að vekja áhuga unglinga á öðrum málefnum svo að þetta „gleymist“ (bls. 90).

Í ritinu Kynlíf er fjallað um sjálfsfróun sem „sjálfsþægingu“ (Kahn, 1948, bls. 335). Þar er sett fram sú skilgreining á sjálfsfróun að hún sé „fullnæging sem einstaklingurinn framkallar sjálfur með ertingu utan samfara“ (Kahn, 1948, bls. 335). Í sama riti er fjallað um margvíslegar tegundir og ástæður sjálfsþægingar. Þar er minnst á að meirihluti unglingsstráka stundi sjálfsþægingu og að þeir leiðist þá oft út í að stunda þessa iðju vegna þess að þá vanti tækifæri til að hafa samfarir. Í bókinni er sjálfsþæging í raun talin óæðri samförunum. Þess er til dæmis getið að sjálfsþæging sé ekki heilsuspillandi en þó nefnt að hún geti leitt til óeðlis, óhamingju og þunglyndis.

Í ritinu kemur fram hörð gagnrýni á kenningar svissneska læknisins Samuel-August Tissot, sem árið 1780 gaf út L’Onanisme, um slæmar afleiðingar sjálfsfróunar (Kahn, 1948; Wikipedia, e.d.). Þar var því haldið fram að sjálfsfróun leiddi til glötunar og gæti valdið margvíslegum vandamálum eins og fávitahætti og svefntregðu sem endað gæti með ævilangri geðveiki (Kahn, 1948). Það má því ljóst vera af þessari umfjöllun að ekki hefur alltaf verið litið á sjálfsfróun sem jákvæða kynhegðun.

Með auknum rannsóknum á kynlífi upp úr 1960 var farið að endurskoða fyrri viðhorf til sjálfsfróunar. Farið var að líta á sjálfsfróun sem eðlilegan hluta af kynhegðun mannsins sem væri mikilvæg og gagnleg fyrir einstaklinginn (Haavio-Mannila og Kontula, 2003). Nú er hún talin stuðla að kynlífsheilbrigði (sexual health) mannsins. Í nýlegri ritum um kynlíf er fjallað um kynlífsþroska barna og unglinga sem eðlilegt fyrirbæri og það útskýrt hvernig barnið finnur notakennd við snertingu kynfæra og að unglingurinn þurfi að átta sig á kynferðislegum löngunum og finna kynferðislegum tilfinningum sínum farveg (Hyde og DeLamater, 2000).

Eins og áður er getið er algengt að unglingar stundi sjálfsfróun og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að hún er mun algengari meðal stráka en stúlkna (Haavio-Mannila og Kontula, 2003). Talið er að það stafi meðal annars af því að kynfæri stráka eru meira áberandi. Jafnframt má telja það líklegt að þættir í uppeldi geti gert það að verkum að þeir viðurkenni frekar kynferðislegar tilfinningar sínar. Í uppeldi virðast stúlkur, fremur en strákar, fá skilaboð um að kynlíf og kynhegðun fólks sé eitthvað hættulegt og ljótt. Margir hafa því sektarkennd gagnvart því að stunda kynlíf hvort sem það er með öðrum eða sjálfum sér. Sumum getur jafnvel fundist ógeðslegt að fróa sér. Fram kom í bandarískri rannsókn að sektarkennd eftir sjálfsfróun væri algeng meðal allra aldurshópa (Laumann, Gagnon, Michael og Michaels, 1994). Getur það meðal annars stafað af þeim skilaboðum sem einstaklingurinn hefur fengið um kynlíf í gegnum uppvöxtinn, hvernig hann lítur á kynlíf og hvað sé eðlileg kynhegðun.

Oft eru strákar búnir að stunda sjálfsfróun í einhvern tíma áður en þeir byrja í kynferðislegu sambandi. Sjálfsfróun verður leið til þess að kynnast eigin líkama og getur reynst gagnleg við að mynda gott kynferðislegt samband við annan einstakling síðar meir (Hyde og DeLamater, 2000). Það hefur löngum þótt mikilvægt í lífinu að þekkja sjálfan sig og gildir það um kynhegðun sem aðra hegðun. Sjálfsfróun er í raun þekking sem einstaklingurinn öðlast við það að kynnast og læra inn á eigin líkama og finna næmnissvæði hans. Með sjálfsfróun prófar einstaklingurinn sig áfram og finnur það út smám saman hvers konar snerting og örvun veitir góðar tilfinningar. Hann getur þá síðar meir leiðbeint kynlífsfélaga með hvað honum finnist gott.

Með nútímalegum augum kynfræðinnar er því litið á sjálfsfróun sem góða leið til að kynnast sjálfum sér, eigin tilfinningum og líkama og hefur hún jafnframt verið ráðlögð fólki sem á við vandamál að stríða í kynlífi (LoPiccolo og Lobitz, 1973; Kaplan, 1981; Haavio-Mannila og Kontula, 2003).

Heimildir:
 • Fishbein, M. (1943). Heilsurækt og mannamein (Niels Dungal annaðist útgáfuna). Reykjavík: Bókaútgáfan Dagrenning.
 • Greenberg, J.S., Bruess, C.E. og Haffner, D.W. (2004). Exploring the dimensions of human sexuality (2. útg.). Boston: Jones and Bartlett Publishers.
 • Haavio-Mannila, E. og Kontula, O. (2003). Sexual trends in the Baltic Sea Area. Publications of the Population Research Institute, Series D 41/2003. Helsinki: The Population Research Institute, Västöliitto.
 • Hyde, S.J. og DeLamater, J.D. (2000). Understanding human sexuality (6. útg.). New York: Mc Graw Hill.
 • Kahn, F. (1948). Kynlíf (Jón G. Nikulásson gaf út). Reykjavík: Helgafell.
 • Kaplan, H.S. (1981). The new sex therapy. New York: Brunner/Mazel, Inc.
 • Laumann, E.O., Gagnon, J.H., Michael, R.T. og Michaels, S. (1994). The social organization of sexuality. Sexual practices in the United States. Chicago: The University of Chicago Press.
 • LoPiccolo, J. og Lobitz, W.C. (1973). The role of masturbation in the treatment of orgasmic dysfunction. Archives of Sexual Behavior, 2(2), 163-171.
 • Wikipedia (e.d.). Masturbation. Sótt 30. maí 2005....