Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á þriðja áratug 20. aldar skrapp heimurinn óðfluga saman með bættum samgöngum. Farþegaflugið var þegar orðið að veruleika árið 1925, og áður voru það skemmtisiglingar á lúxusskipum sem heldra fólkið stundaði. Eftir að Henry Ford fór að fjöldaframleiða fólksbíla gátu sumir leyft sér að eignast fjölskyldubíl, og fyrstu umferðarljósin voru sett upp árið 1928.
Þó var ekki allt sem sýndist. Samfélagslegt óréttlæti viðgekkst og bilið milli fátækra og ríkra breikkaði. Atvinnuleysi var mikið vandamál og áfengisbannárin þrúgandi. Spennuástandið náði hámarki með kreppunni miklu sem hófst þegar hlutabréfamarkaðurinn féll á Wall Street árið 1929. Kreppan gerði að engu þá bjartsýni sem ríkt hafði. Skuggi lá yfir og brátt var seinni heimsstyrjöldin í sjónmáli. Það voru helst áhrifin frá fatatískunni, tónlistinni og tækniframförunum sem lífguðu upp á tíðarandann.
Heimskreppan náði hápunkti árið 1932 og henni fylgdi gífurlegt atvinnuleysi. Nú þurftu konur að stíga eitt skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni, víkja í samkeppninni um atvinnu og hugsa þess í stað um húsverkin og eignast börn. Útlitið fór að skipta meira máli. Kvenlegu formin, fegurð og glæsileiki voru nú undirstrikuð í stað strákslega útlitsins sem áður hafði ríkt á þriðja áratugnum. Línan var ekki stutt, bein eða ferköntuð heldur bylgjandi og straumlínulöguð. Bilið milli hversdags- og samkvæmisfatnaðar breikkaði aftur og síðu kvöldkjólarnir komu aftur inn í samkvæmislífið.
Samkvæmiskjólarnir voru afar glæsilegir með kynþokkafullu yfirbragði, efnin skásniðin og sniðið aðskorið. Þeir lögðust vel að líkamanum, jafnvel án axlabanda eða hlýra, þannig að allar línur líkamans voru vel sýnilegar. Ekki var hikað við að hafa hálsmálið flegið og sömuleiðis vel opið að aftan þannig að vel sæist í bert bakið. Samkvæmiskjólar á fjórða áratugnum eru oft taldir þeir allra fallegustu á 20. öldinni, sérlega glæsilegir eins og listaverk.
Frægar kvenlegar kvikmyndastjörnur höfðu mikil áhrif á fatatískuna á þessum áratug. Þetta voru leikkonur eins og Greta Garbo, Joan Crawford og Jean Harlow. Helstu kvenfyrirmyndirnar á fjórða áratugnum fyrir utan kvikmyndastjörnurnar voru Wallis Simpson, ástkona og síðar eiginkona hertogans af Windsor. Hún hafði sinn persónulega stíl og var mjóslegin, háfætt, flatbrjósta, mjaðmagrönn, vel greidd og kynþokkafull. Einnig hafði hönnuðurinn Coco Chanel mótandi áhrif á tísku; klædd sínum þrönga, síðerma prjónatoppi, víðum, eilítið krumpuðum síðbuxum með mjóu belti, tvílitum efnisskóm, stuttklippt með liðað hár, langar ekta og óekta perlufestar, mikinn andlitsfarða og blóðrauðar varir – þannig leit hún út sumarið 1934. Karlfyrirmyndirnar voru prinsinn af Wales og kvikmyndastjörnurnar Clark Gable, Cary Grant og Fred Astaire. Herrafatnaður varð frjálsari í sniðinu en áður hafði verið.
Fred Astaire og Joan Crawford höfðu mótandi áhrif á tískuna fyrir seinna stríð.
Á þessum tíma varð tennis að mikilli tískuíþrótt hjá bæði konum og körlum. Á sumrin notuðu herrarnir stutterma tennisboli úr bómull, öðru nafni pólótreyjur í staðinn fyrir skyrtur. Árið 1934 kynnti franski tennismeistarinn René LaCoste stutterma tennisbol með litlu krókódílsmerki. Lacoste-bolurinn hefur allt fram á þennan dag verið vinsæl tískuvara.
Nærtreyjan var nú orðin ermalaus og sokkaböndin hurfu. Í staðinn var teygja komin í efri brún á sokkum og á undirbuxum. Rafmagnsrakvélin var orðin að veruleika og voru menn því vel rakaðir, en leyfðu sér í mesta lagi lítið yfirvaraskegg. Í stað vesta voru einnig notaðar prjónaðar peysur. Um leið og meira var notað af litríkum peysum, skyrtum, sokkum, náttfötum, bað- og morgunsloppum minnkaði notkunin á skrautlegum bindum, en í staðinn varð einlitur hálsklútur vinsæll.
Með kreppunni kom sérstakur amerískur herrastíll með yfirbragði valds og peninga. Þetta voru breiðröndótt og tvíhneppt gangsterföt, stórköflóttir og sérlega axlabreiðir jakkar, dökk og breið bindi, gular og bleikar skyrtur, hvítir filthattar með svörtu hattbandi og tvílitir, reimaðir skór. Þessa tísku mátti rekja til valdabaráttu mafíunnar sem græddi mikið á áfengissölu á svörtum markaði á bannárunum.
Orðið kokteill er upprunnið frá áfengisbanninu á bannárunum. Kokteilpartí þar sem fólk stóð með drykk í hendi voru það nýjasta. Fyrir konurnar þýddi þetta nýja tegund af fatnaði, skrýtna hatta og flegna kjóla; „litli svarti“ kjóllinn lék þar stórt hlutverk.
Frekari umfjöllun um tísku fyrri hluta 20. aldar er að finna í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig var tískan á stríðsárunum? Einnig má benda á svar Elínar Elísabetar Einarsdóttur og Nökkva G. Gylfasonar við spurningunni Hvað er tíska?Heimild og myndir:
Ásdís Jóelsdóttir (2005). Tíska aldanna: Fatnaður og textíll, byggingar, húsgögn og myndlist. Reykjavík: Dreifingarmiðstöðin.
Ásdís Jóelsdóttir. „Hvernig var tískan á millistríðsárunum?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2005, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5094.
Ásdís Jóelsdóttir. (2005, 28. júní). Hvernig var tískan á millistríðsárunum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5094
Ásdís Jóelsdóttir. „Hvernig var tískan á millistríðsárunum?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2005. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5094>.