Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heimsstyrjöldin síðari er stærsti einstaki atburður mannkynssögunnar. Í henni áttust við Bandamenn (Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin eftir 1941) og Öxulveldin (Þýskaland, Japan og Ítalía) og lauk stríðinu með fullnaðarsigri Bandamanna. Orsakir stríðsins eru margvíslegar, en einna helst má nefna öfgaþjóðernishyggju í Þýskalandi undir forystu nasista og Adolfs Hitlers.
Styrjöldin hófst 1. september 1939 þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Nokkrum dögum fyrr höfðu einræðisherrarnir Hitler og Stalín gert með sér griðasamning, það er loforð um að ráðast ekki hvor á annan. Í þessum samningi var leyniákvæði sem skipti Austur-Evrópu í raun í tvennt milli Þýskalands og Sovétríkjanna. Bretar og Frakkar höfðu lofað því að ábyrgjast landamæri Póllands, og sögðu því Þjóðverjum stríð á hendur 3. september 1939.
Pólskir hermenn í september 1939.
Minna varð hins vegar úr aðstoð Breta og Frakka en Pólverjar höfðu vonast eftir. Allt var með kyrrum kjörum á Vesturvígstöðvunum á meðan Pólverjar börðust fyrir lífi sínu. Bardagaaðferð Þjóðverja, leifturstríð (þ. Blitzkrieg), þótti nýstárleg en hún fól í sér öflugt samspil á milli skriðdrekahernaðar og sprengjuflugvéla, sem fáir snerust snúning. Örlög Póllands voru innsigluð þegar Stalín ákvað að hirða sinn hluta af landinu um miðjan september.
Lítið gerðist í hinni eiginlegu styrjöld á milli Vesturveldanna og Þýskalands veturinn 1939-1940. Sovétríkin vildu hins vegar tryggja sér betra landsvæði og réðust því á Finna, en sú átök hafa fengið nafnið Vetrarstríðið. Vakti þetta almenna reiði fólks á Vesturlöndum en Finnar fengu þó litla aðstoð. Þeir urðu að lokum að gefast upp eftir hetjulega baráttu við Rauða herinn.
Þegar voraði tóku Þjóðverjar aftur við sér og réðust inn í Danmörku og Noreg 9. apríl 1940. Bretar og Frakkar brugðust við með því að senda herlið til Noregs, en það varð frá að hverfa. Þjóðverjar réðust á Benelux-löndin (Belgíu, Holland og Lúxemborg) og Frakkland hinn 10. maí 1940. Sá dagur er sögulegur um margt, ekki síst vegna þess að Winston Churchill tók þá við embætti forsætisráðherra í Bretlandi. Þessa dags er helst minnst á Íslandi fyrir að þá hernámu Bretar landið.
Breskt herlið flýr frá Dunkirk í Frakklandi 1940.
Þjóðverjum veitti betur í stríðinu á Vesturvígstöðvunum. Þeir náðu yfirhöndinni með því að lokka meginheri Breta og Frakka inn í Holland og Belgíu, en hefja svo leiftursókn í gegnum Ardennafjöll til Ermarsunds. Voru þá herir Bandamanna innikróaðir, en þó náðist að bjarga um 338.000 hermönnum við Dunkirk í Frakklandi yfir sundið til Bretlands. Frakkland féll svo í júní 1940 og stóð þá Adolf Hitler á hátindi valda sinna. Ítalir, undir stjórn Benitos Mussolinis, ákváðu á sama tíma að segja Vesturveldunum stríð á hendur.
Það sem eftir lifði sumars reyndi þýski loftherinn Luftwaffe árangurslaust að tryggja yfirráð Þjóðverja yfir lofti á Ermarsundi, en án slíkra yfirburða myndi Þjóðverjum reynast erfitt að ráðast inn í Bretland til þess að ljúka stríðinu. Útlitið var dökkt fyrir Breta á þessum tíma, enda máttu þeir búast við innrás á hverri stundu. Á endanum voru innrásaráætlanir Þjóðverja þó lagðar á hilluna.
Henkel He 111 sprengjuflugvél flýgur yfir London 7. september 1940.
Yfir veturinn 1940-1941 kom í ljós að samvinna Hitlers og Stalíns var orðin stirð, enda vildu þeir báðir sinn hlut meiri í Austur-Evrópu. Afréð Hitler þá að uppfylla gamlan draum um að ráðast á Sovétríkin til þess að kveða niður kommúnisma. Af ýmsum ástæðum tafðist innrás Þjóðverja fram á sumarið 1941, meðal annars sökum þess að hjálpa þurfti Ítölum að berjast við Breta bæði í Grikklandi, Júgóslavíu og Norður-Afríku. Endanlegur innrásardagur var valinn 22. júní 1941. Þann dag var áætluninni Barbarossa (ísl. Rauðskeggur) hrundið í framkvæmd, en í henni fólst víðfeðm leiftursókn inn í Sovétríkin.
Innrásin í Sovétríkin breytti allri umgjörð styrjaldarinnar, þar sem Bretar fengu þá loksins sterkan bandamann á meginlandi Evrópu sem gat barist við Þjóðverja. Til að byrja með leit þó út fyrir að Þjóðverjar myndu vinna enn einn frækinn sigur í styrjöldinni. Hins vegar náðu Sovétmenn, með aðstoð kaldasta vetrar síðan mælingar hófust, að stöðva sókn Þjóðverja við borgarmörk Moskvu, en tæpara mátti það vart standa.
Sovéskir hermenn í vetrarkuldanum.
Allt árið 1941 höfðu Bandaríkin færst nær því að ganga með Bretum í lið í styrjöldinni, en almenn andstaða var þó vestra við slíkt styrjaldarbrölt. Sóttust Bandaríkjamenn frekar eftir því að veita Bretum aðstoð í formi tækja og tóla heldur en að berjast sjálfir. Roosevelt Bandaríkjaforseti veitti þó Bretum alla þá aðstoð sem hann treysti sér til, og varð það meðal annars til þess að Bandaríkjamenn tóku að sér hervernd Íslands í júlí 1941. Lengra gat hann ekki gengið sökum hlutleysisstefnu Bandaríkjamanna.
Þetta breyttist þegar Japanir gerðu óvænta árás á Pearl Harbor flotastöðina í Hawaii í desember 1941 (sjá Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland). Stuttu síðar sögðu Þjóðverjar og Ítalir Bandaríkjamönnum stríð á hendur. Má segja að þá hafi í raun úrslit stríðsins þegar verið útkljáð; framleiðslugeta Bandaríkjanna var á þessum tíma meiri en Öxulveldanna þriggja til samans, að ekki sé minnst á þegar framleiðslugeta Breta og Sovétmanna er tekin með í spilið. Hins vegar átti enn eftir að framleiða næg vopn og vígtól til þess að vinna bug á herstyrk Öxulveldanna, sem þá stóðu á hátindi sínum, og það tók sinn tíma.
Skipið USS California sekkur við Pearl Harbor 1941.
Í kjölfar Pearl Harbor léku Japanir lausum hala á Kyrrahafi fram í júní 1942 en þá unnu Bandaríkjamenn sigur á þeim við Midway (sjá Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway? eftir Skúla Sæland). Þar sökktu Bandaríkjamenn meðal annars fjórum japönskum flugmóðurskipum, en slík skip voru gríðarlega mikilvæg í þeirri styrjöld sem fór fram á Kyrrahafi. Um svipað leyti unnu Bretar Þjóðverja og Ítali við El Alamein í tveimur orrustum, í júlí og nóvember (sjá Getið þið sagt mér frá baráttunni um El Alamein? eftir Skúla Sæland). Þessir sigrar ásamt innrás Bandaríkjamanna í Túnis, sem þá var undir stjórn Öxulveldanna, tryggðu Bandamönnum yfirburðastöðu í Miðjarðarhafsstríðinu.
Fræknasti sigur Bandamanna 1942 féll hins vegar í skaut Sovétmanna. Árið hafði verið erfitt á Austurvígstöðvunum með miklu mannfalli á báða bóga. Við árslok áttust Þjóðverjar og Sovétmenn við í borginni Stalíngrad (í dag Volgograd) og lauk þeim vopnaviðskiptum með því að Þjóðverjar misstu stóran hluta af her sínum í austri (sjá Hvað vitið þið um innrásina í Stalíngrad? eftir Skúla Sæland). Voru Bandamenn þá búnir að ná yfirhöndinni á öllum vígstöðvum.
Áfram var barist af mikilli hörku árið 1943, þó sérstaklega í Sovétríkjunum, þar sem grimmdarlegum aðferðum var beitt á báða bóga. Bandaríkjamenn og Bretar náðu að bola Öxulveldunum burt úr Norður-Afríku og gengu á lagið með því að ráðast á Sikiley og síðar meginland Ítalíu. Urðu þar harðir bardagar og illa gekk fyrir Bandamenn að fara upp Ítalíuskagann.
Innrásin í Normandí í Frakklandi 6. júní 1944.
Sovétmenn heimtuðu að Vesturveldin gerðu innrás í Frakkland til þess að opna nýjar Vesturvígstöðvar. Vegna ágreinings milli Bandaríkjamanna og Breta um hvernig best væri að standa að slíkri innrás tafðist hún fram í júní 1944 (sjá Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí? eftir Skúla Sæland). Hins vegar gekk Bandaríkjamönnum og Bretum betur samvinnan á sviði lofthernaðar, en um þetta leyti fóru sprengjuvélar að fljúga bæði dag og nótt yfir Þýskaland í þeim tilgangi að gera að engu framleiðslu- og bardagagetu Þjóðverja.
Eftir velheppnaða innrás Vesturveldanna í Frakkland 6. júní 1944 var orðið nokkuð útséð um endalokin, enda var nú þjarmað að Þjóðverjum úr öllum áttum. Það féll í skaut Sovétmanna að taka höfuðborg Þýskalands, Berlín, í apríl og maí 1945. Hitler framdi sjálfsmorð ásamt ástkonu sinni Evu Braun og Þjóðverjar gáfust upp. Roosevelt Bandaríkjaforseti dó stuttu fyrir uppgjöf Þjóðverja, en hann var orðinn mjög heilsuveill. Eftirmaður hans á forsetastóli varð Harry S. Truman.
Sovéski fáninn reistur við hún í Berlín í maí 1945.
Um svipað leyti tók að bera á ósætti á milli Bandamanna, sérstaklega Vesturveldanna og Sovétríkjanna, en Stalín hafði aðrar hugmyndir um framtíðarskipan Evrópu en Truman og Churchill. Upp úr þessu ósætti skapaðist kalda stríðið, en Evrópa skiptist í Vestur- og Austurblokk næstum eftir því hvar herir Sovétmanna höfðu stöðvast (sjá Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því? eftir Val Frey Steinarsson). Enn átti þó eftir að sigrast á Japönum.
Kyrrahafsstríðið eftir orrustuna við Midway 1942 snerist um að ýta Japönum til baka eftir þá miklu hernaðarsigra sem þeir höfðu unnið fyrir þann tíma. Eftir ósigur Þjóðverja í maí 1945 var lítið orðið eftir af veldi Japana annað en heimaland þeirra. Bandaríkjamenn undirbjuggu innrás í Japan en reiknuðu með gríðarlegu mannfalli á báða bóga, enda börðust Japanir jafnan til síðasta manns.
Kirkjuturn eftir kjarnorkuárás í Nagasaki í Japan.
Í júlí 1945 gerðist hins vegar að vísindamönnum í Nýju Mexíkó tókst að sprengja fyrstu kjarnorkusprengjuna (sjá Hver fann upp kjarnorkusprengjuna? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur og Þorstein Vilhjálmsson). Þar var komið vopn sem gæti bundið skjótan enda á stríðið. Með notkun vopnsins mætti líka beita Sovétmenn þrýstingi. Því varð úr að tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Japan í ágúst 1945. Í kjölfar þess sá keisari Japana sitt óvænna og úr varð að her og floti Japana gáfust upp. Styrjöldinni lauk formlega hinn 1. september 1945 um borð í orrustuskipinu Missouri. Þá lágu 50 milljónir manna eftir í valnum.
Einn er sá þáttur styrjaldarinnar sem enn er ógetið, en það er helförin gegn gyðingum, sígaunum, slövum, samkynhneigðum, geðsjúkum og ýmsum öðrum þjóðfélagshópum. Helförin er einn grimmilegasti þáttur styrjaldarinnar, þar sem fólk var kerfisbundið myrt í gasklefum fyrir það eitt að tilheyra ákveðnum hópi manna. Þegar allt er talið saman er áætlað að um 6 milljónir gyðinga hafi látið lífið í helförinni (sjá Getur verið að færri Gyðingar hafi dáið í helförinni en talið hefur verið? eftir Gísla Gunnarsson). Helförin er dæmi um einhverja mestu mannfyrirlitningu sem mannkynssagan hefur að geyma og má hún aldrei gleymast.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Hrafnhildur Ólafsdóttir, f. 1992, Benedikt Hallgrímsson, Kristján Purkhús, f. 1990, Atli Þór, f. 1993, Andri Þór Gíslason, f. 1989, Aron Ólason, María Fredsdóttir, f. 1991, Daníel Örn Kristjánsson, Heiðar Þór Karlsson, f. 1985, Sif Pálsdóttir, Jón Rafn, f. 1989, Elísabet Bjarnadóttir, f. 1990, Elías Eyþórsson, f. 1989, Arney Einarsdóttir, f. 1991, Hlynur Haraldsson, f. 1992, Hrönn Jónsdóttir, Anna Sigríður, f. 1991, Sigurður Ágústsson, f. 1994, Björg Birgisdóttir, f. 1988 og Sigurður Ingi Ágústsson, f. 1994.
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2007, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6497.
Stefán Gunnar Sveinsson. (2007, 14. febrúar). Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6497
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2007. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6497>.