Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:31 • Sest 02:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:23 • Síðdegis: 24:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:08 • Síðdegis: 18:28 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí?

Skúli Sæland

Í byrjun árs 1944 var orðið ljóst að Þjóðverjar væru að tapa heimsstyrjöldinni. Þeir höfðu borið lægri hlut í baráttunni um Atlantshafið og Sovétmenn höfðu snúið vörn í sókn á austurvígstöðvunum. Við Miðjarðarhaf höfðu bandamenn náð að hrekja Þjóðverja úr Afríku og ráðast inn í bæði Sikiley og Ítalíu. Þjóðverjar höfðu þó náð að stöðva sókn bandamanna upp Ítalíuskaga og ljóst var að það gátu liðið mörg ár þar til þeir gæfust upp. Bandamenn töldu sig því þurfa að ráðast inn í Vestur-Evrópu til þess að hægt væri að sækja að Þjóðverjum úr tveimur áttum samtímis og hraða þannig hruni ríkis þeirra. Þetta krafðist mikils og nákvæms undirbúnings því ef innrásin mistækist myndi líða langur tími þar til unnt væri að reyna á ný.

Undirbúningur

Jósef Stalín, leiðtogi Sovétmanna, byrjaði strax árið 1942 að þrýsta á þá Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, og Franklin Delano Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, að ráðast inn í Vestur-Evrópu til að létta á þrýstingnum af sókn Þjóðverja í Sovétríkjunum. Framan af var þetta þó óhugsandi því herir Breta og Bandaríkjamanna voru of vanmáttugir, en hafist var handa við undirbúning innrásar.

Bandaríkjamenn vildu gera árás sem allra fyrst og beint inn í Evrópu á meðan Bretar töldu hentugra að sækja að Þjóðverjum frá Miðjarðarhafinu og gegn veikburða Ítölum. Þjóðirnar náðu samkomulagi um að ráðast fyrst gegn Þjóðverjum við Miðjarðarhafið en það var ekki fyrr en á sameiginlegum fundi leiðtoga bandamanna í Teheran í nóvember og desember árið 1943 að leiðtogarnir urðu ásáttir um að gera innrás í Vestur-Evrópu í maí 1944.

Dwight D. Eisenhower hershöfðingi var útnefndur æðsti yfirmaður herafla bandamanna en Bernhard Law Montgomery hershöfðingi var skipaður yfirmaður innrásarherjanna og látinn leggja lokahönd á undirbúning innrásarinnar sem fékk viðurnefnið aðgerð Lénsherra (e. Overlord).

Ákveðið var að á fyrsta degi innrásar skyldu tvær bandarískar, tvær breskar og ein kanadísk herdeild lenda á innrásarsvæðum sem fengu dulnefnin: Utah, Omaha, Gold, Juno og Sword og náðu frá Cotentin skaga í Normandí allt til borgarinnar Caen. Sömuleiðis skyldu tvær bandarískar og ein bresk fallhlífaherdeild lenda að baki varnarliðinu þá um morguninn. Bandaríska heraflanum, 1. hernum, var stjórnað af Omar N. Bradley undirhershöfðingja en Bretum og Kanadamönnum var stjórnað af Miles Dempsey hershöfðingja.Sögusvið innrásarinnar í Normandí í Frakklandi. Til einföldunar eru eingöngu merktir inn þeir staðir og þau svæði sem koma við sögu í þessu svari.

Í kjölfar innrásarinnar þurfti gríðarlega birgðaflutninga því gert var ráð fyrir að flytja nærri 600 þúsund tonn birgða og 200 þúsund farartæki á land af 6.500 skipum á fyrstu þremur vikunum eftir innrásina. Bandamenn notuðu 13 þúsund flugvélar á innrásardaginn og í aðdraganda árásarinnar voru gerðar heiftarlegar loftárásir þar sem aðallega var ráðist á samgöngukerfi Frakklands, lestar, lestarteina og brýr en einnig á önnur hernaðarleg mannvirki. Að auki var viðamiklum blekkingum beitt undir dulnefninu FORTITUDE þar sem yfirstjórn þýska hersins og Hitler var talin trú um að ráðist yrði inn í Norður-Frakkland í grennd við Pas de Calais af óvígum her bandamanna sem raunar var einungis til á pappírnum.

Það auðveldaði verkefni bandamanna að með aðstoð Ultra (háleynilegum hópi kóðabrjóta, sjá svar við spurningunni Hvað er Enigma og hvaða þátt átti hún í seinni heimsstyrjöldinni?) gátu þeir lesið dulmál yfirstjórnar Þjóðverja og vissu því nákvæma staðsetningu varnarsveita og hver viðbrögð þeirra yrðu við væntanlegri innrás. Alls myndu 39 herdeildir bandamanna ganga á land í Normandí, þar af voru 20 bandarískar, 14 breskar, þrjár kanadískar, ein frönsk og ein pólsk.

Atlantshafsmúrinn, eins og varnir Þjóðverja við Atlantshafsströndina voru kallaðar, var að mestu mannaður annars flokks hermönnum. Styrking varnanna hafði verið vanrækt um nokkurt skeið en í nóvember árið 1943 útnefndi Adolf Hitler, leiðtogi Þjóðverja, Erwin Rommel marskálk yfirmann hersafnaðar B er skyldi sjá um varnirnar meðfram ströndinni.

Rommel hófst þegar handa við að styrkja varnirnar en lenti upp á kant við yfirmann sinn Gerd von Rundstedt marskálk stjórnanda alls herafla Þjóðverja í Frakklandi. Rundstedt vildi beita öflugum bryndeildum sem varaliði fjarri ströndinni og senda þær til gagnárásar þegar óvinurinn gengi á land. Með því móti væri hægt að ná hnitmiðuðu höggi á innrásarliðið við ströndina. Rommel hafði hins vegar barist í Norður-Afríku þar sem bandamenn höfðu haft nærri óskoruð yfirráð í lofti og vissi hve erfitt það gat verið að flytja lið og birgðir til vígstöðvanna undir stöðugum loftárásum. Hann taldi því nauðsynlegt að koma bryndeildunum eins nálægt ströndinni og unnt væri svo yfirburðir andstæðinganna í lofti nýttust sem minnst. Þetta hafði þó þann ókost að hreyfanleiki brynsveitanna yrði takmarkaður og að fáar varasveitir yrðu til taks ef fyrstu gagnsóknirnar rynnu út í sandinn.

Hitler varð að skera úr um þessa deilu en gerði illt verra með því að deila varaliðinu upp á milli Rommels og Rundsteds og fyrirskipa að hluti varasveitanna mætti ekki hreyfa sig án sérstaks leyfis síns.

Innrás

Innrás bandamanna frestaðist til 6. júní vegna slæms veðurs og erfiðleika við að ná nægum fjölda landgöngupramma, en 5. júní sáu veðurfræðingar fyrir að veðrið myndi lægja og því var loks haldið af stað. Þjóðverjar áttu á hinn bóginn erfitt með að spá fyrir um veðurskilyrði því þeir gátu ekki fengið nauðsynleg veðurskeyti frá Íslandi sem veittu mikilvægar upplýsingar um lægðakerfi við Atlantshafið. Alls voru 500 herskip, 3.000 landgönguprammar og 2.500 önnur aðstoðarskip í þessum stærsta innrásarflota sögunnar.Hermenn bandamanna urðu sums staðar að dvelja tímunum saman í flæðarmálinu á meðan reynt var að eyða varnarvirkjum Þjóðverja.

Bresku og bandarísku fallhlífaherdeildirnar náðu markmiðum sínum nokkuð auðveldlega um nóttina. Landgangan sjálf hófst svo kl. 6:30 og gekk bresku og kanadísku sveitunum vel að komast á land á svæðum sínum líkt og Bandaríkjamönnum á Utah-ströndinni. Hins vegar varðist 352. fótgönguliðssveit Þjóðverja vel á Omaha ströndinni og litlu munaði að landgangan þar rynni út í sandinn.

Óvissa og fát einkenndi fyrstu viðbrögð yfirmanna þýska hersins. Rommel var fjarverandi því hann vissi ekki að veðrið myndi lægja og hafði farið heim til að halda upp á afmæli konu sinnar. Þegar undirmenn Hitlers báru Hitler loks fréttirnar af innrásinni var hann ófús til að senda bryndeildir til Normandí því hann taldi að þetta væri blekkingarinnrás og að megininnrásin kæmi síðar við Pas de Calais. Gagnsókn Þjóðverja skall á Kanadamönnum og Bretum á mótum Sword og Juno innrásarsvæðanna og náði að skapa töluverðan usla en með hraðri andspyrnu breskra bryndrekabana við Périers-sur-le-Dan tókst að stöðva hana.

Meginmarkmið bandamanna eftir að hafa komist á land var að víkka út innrásarsvæðin og sameina þau, hertaka síðan borgirnar Caen og Cherbourg og sækja því næst til Bretagneskaga og til austurs. Þjóðverjar gerðu harðar atlögur að herjum Samveldisríkjanna en urðu undan að láta. Bandamenn náðu að sameina innrásarsvæðin 12. júní, þegar bandarísku 5. og 7. stórdeildirnar náðu borginni Carentan við rætur Cotentins skagans, en sókn Breta og Kanadamanna í átt til Caen stöðvaðist gersamlega vegna harðrar mótspyrnu Þjóðverja.

Bandamenn drógu með sér tvær sérhannaðar flothafnir, Mulberries, til Normandí þar sem þeir gætu affermt skip og keyrt svo varninginn í land. Þetta voru gríðarlega stór mannvirki og tæknilegt afrek. En á meðan þeir voru að koma höfnunum upp gerði slæmt veður 19. júní og hafnirnar sködduðust svo mikið að einungis önnur þeirra varð nothæf. Bandamenn urðu því að notast við þá aðferð að flytja birgðir á land með landgönguprömmum sem gátu einungis flutt brot af því sem varð að flytja á land.Nægar birgðir og aðstreymi fleiri liðssveita voru bandamönnum lífsnauðsynlegar. Flutningur birgða frá Bretlandi hafði verið tímasettur nákvæmlega fyrir innrásina og þegar ekki tókst að sækja nægilega hratt upp frá ströndinni skapaðist öngþveiti birgða og tækja þar.

Viðbrögð Þjóðverja

Yfirforingjar Þjóðverja vildu hörfa frá Normandí til að komast undan skothríð herskipa bandamanna en Hitler krafðist þess að ekki yrði hörfað skref aftur á bak. Varnir Þjóðverja hörðnuðu nú auk þess sem landslagið á svæðinu hentaði sérstaklega vel til varnar. Þarna var mikið af limgerðum sem gáfu varnarliðinu gott skjól og gerðu því auðvelt að sitja fyrir liðssveitum andstæðingsins. Bretar og Kanadamenn sóttu hart í nágrenni Caen í von um að ná borginni en gagnárásir Þjóðverja hröktu þá jafnan til baka.

Vonleysi ríkti í höfuðstöðvum beggja því bandamenn sáu fram á kyrrstöðu og skotgrafarhernað sem myndi binda herafla þeirra niður um ófyrirsjáanlega framtíð á meðan þýska herstjórnin fylgdist skelfd með mannfalli og tjóni á vígvélum sem henni var nánast ógerlegt að bæta nægilega hratt. Baráttuandi hermanna bandamanna var lítill um þetta leyti og fjöldi herforingja fékk að taka pokann sinn. Það var ekki til að bæta það að vopn þýska landhersins voru að jafnaði fullkomnari og bar sérstaklega á yfirburðum Panter- og Tígris-skriðdrekanna.

Árásir herja Samveldisríkjanna í grennd víð Caen sóttust seint en tjóðruðu allt tiltækt varalið Þjóðverja. Þar með losnaði um bandarísku hersveitirnar við Cotentin-skaga svo að þær gátu hertekið skagann og hafnarborgina Cherbourg þann 28. júní. Varnarliðið þar eyðilagði þó höfnina gersamlega svo að hún varð ekki nothæf fyrr en undir lok septembers. Montgomery hélt áfram án árangurs að berja á vörnum Þjóðverja í nágrenni Caen um leið og Bandaríkjamenn sóttu hart fram við St.-Lo.

Herstjórn þýsku herdeildanna við Normandí varð um þetta leyti fyrir nokkrum skakkaföllum þegar Rundstedt lýsti því yfir við Hitler að stríðið væri tapað og var rekinn fyrir vikið 2. júlí. Rommel særðist 17. júlí og varð ásamt eftirmanni sínum Günther von Kluge að fremja sjálfsmorð eftir að þeir voru bendlaðir við tilræði við Hitler 20. júlí. Eftir þetta blandaði Hitler sér meira inn í beina herstjórn við Normandí.

Sókn inn í Frakkland

Helstu bryndeildir Þjóðverja voru nú í átökum við Caen og einungis þunnskipað varnarlið andspænis Bandaríkjamönnum. Þrátt fyrir að stöðugt gengi á vígvélar og hersveitir Þjóðverja við Normandí trúðu Hitler og yfirherstjórnin því enn að megininnrásin ætti eftir að koma við Pas de Calais og héldu öflugum hersveitum þar til varnar.

Bandaríkjamenn gerðu því öfluga útrás með aðgerð Kóbra (e. Cobra). Beitt var háfleygum sprengiflugvélum sem gátu borið óhemjusprengjumagn til árása á víglínu andstæðingsins. Þrátt fyrir að hluti bandarísku hermannanna yrði fyrir sprengjuregninu þá heppnuðust loftárásirnar vel og þurrkuðu varnir Þjóðverja nánast út.

Sennilega lifðu flestir hermennirnir sprengjuregnið af en voru ringlaðir og í losti auk þess sem öll samskipti milli þeirra voru úr lagi gengin. Fáliðaðir og án stórs hluta af öflugasta vígbúnaði sínum gátu þeir vart borið hönd fyrir höfuð sér þegar 1. her Bandaríkjamanna ruddist fram til Avranches og tók borgina 30. júlí. Nú gátu Bandaríkjamenn sótt bæði til suðurs til Bretagneskaga og hafnarborganna þar eða til norðurs og umkringt hersveitir Þjóðverja sem börðust við Caen.

Hitler sendi öflugan liðsauka og fyrirskipaði gagnárás við Avranches í von um að umkringja sóknarbrodd Bandaríkjamanna og eyða honum. En bandamenn komust á snoðir um gagnsóknina með hjálp Ultra og stöðvuðu hana við mikið mannfall þýsku sveitanna. Nú voru engar varasveitir til að verjast sókn 1. hersins undir stjórn Bradleys og 3. hersins undir stjórn Georges S. Pattons sem geystust áfram og komust aftur fyrir víglínu Þjóðverja samtímis því sem gengið var á land í suður Frakklandi. Varnir Þjóðverja við Normandí voru nú endanlega hrundar og við tók flótti þvert yfir allt Frakkland undan bandamönnum.

Heimildir og myndir:
 • Green, Michel og Gladys: Patton: Operation Cobra and beyond. (MBI Publishing Company, Osceola, WI, 1998).
 • Hastings, Max:
  • Overlord. D-Day and the Battle for Normandy. Fyrst gefið út 1984. (Pan books, London, 1985).
  • Das Reich. Resistance and the march of the 2nd SS Panzer Division through France, June 1944. Fyrst gefin út 1981. (Pan Books, Bungay Suffolk, 1983).
 • Heimsstyrjöldin 1939-1945. Innrásin mikla. Ritstjóri Örnólfur Thorlacius. (Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1981).
 • Masterman, J.C.: The Double-Cross System in the War of 1939 to 1945. Fyrst gefin út 1972. (First Sphere Books, London, 1973).
 • Vefsíðan Normandy 1944. Sótt 28. apríl 2005.
 • Wikipedia. The Free Encyclopedia. „Battle of Normandy“ Sótt 28. apríl 2005.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvenær var innrásin í Normandí og hvaða þjóðir áttu þátt í henni?

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

9.5.2005

Spyrjandi

Andri Stefánsson
Davíð Þórólfsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2005. Sótt 14. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4989.

Skúli Sæland. (2005, 9. maí). Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4989

Skúli Sæland. „Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2005. Vefsíða. 14. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4989>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér innrásina í Normandí?
Í byrjun árs 1944 var orðið ljóst að Þjóðverjar væru að tapa heimsstyrjöldinni. Þeir höfðu borið lægri hlut í baráttunni um Atlantshafið og Sovétmenn höfðu snúið vörn í sókn á austurvígstöðvunum. Við Miðjarðarhaf höfðu bandamenn náð að hrekja Þjóðverja úr Afríku og ráðast inn í bæði Sikiley og Ítalíu. Þjóðverjar höfðu þó náð að stöðva sókn bandamanna upp Ítalíuskaga og ljóst var að það gátu liðið mörg ár þar til þeir gæfust upp. Bandamenn töldu sig því þurfa að ráðast inn í Vestur-Evrópu til þess að hægt væri að sækja að Þjóðverjum úr tveimur áttum samtímis og hraða þannig hruni ríkis þeirra. Þetta krafðist mikils og nákvæms undirbúnings því ef innrásin mistækist myndi líða langur tími þar til unnt væri að reyna á ný.

Undirbúningur

Jósef Stalín, leiðtogi Sovétmanna, byrjaði strax árið 1942 að þrýsta á þá Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, og Franklin Delano Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, að ráðast inn í Vestur-Evrópu til að létta á þrýstingnum af sókn Þjóðverja í Sovétríkjunum. Framan af var þetta þó óhugsandi því herir Breta og Bandaríkjamanna voru of vanmáttugir, en hafist var handa við undirbúning innrásar.

Bandaríkjamenn vildu gera árás sem allra fyrst og beint inn í Evrópu á meðan Bretar töldu hentugra að sækja að Þjóðverjum frá Miðjarðarhafinu og gegn veikburða Ítölum. Þjóðirnar náðu samkomulagi um að ráðast fyrst gegn Þjóðverjum við Miðjarðarhafið en það var ekki fyrr en á sameiginlegum fundi leiðtoga bandamanna í Teheran í nóvember og desember árið 1943 að leiðtogarnir urðu ásáttir um að gera innrás í Vestur-Evrópu í maí 1944.

Dwight D. Eisenhower hershöfðingi var útnefndur æðsti yfirmaður herafla bandamanna en Bernhard Law Montgomery hershöfðingi var skipaður yfirmaður innrásarherjanna og látinn leggja lokahönd á undirbúning innrásarinnar sem fékk viðurnefnið aðgerð Lénsherra (e. Overlord).

Ákveðið var að á fyrsta degi innrásar skyldu tvær bandarískar, tvær breskar og ein kanadísk herdeild lenda á innrásarsvæðum sem fengu dulnefnin: Utah, Omaha, Gold, Juno og Sword og náðu frá Cotentin skaga í Normandí allt til borgarinnar Caen. Sömuleiðis skyldu tvær bandarískar og ein bresk fallhlífaherdeild lenda að baki varnarliðinu þá um morguninn. Bandaríska heraflanum, 1. hernum, var stjórnað af Omar N. Bradley undirhershöfðingja en Bretum og Kanadamönnum var stjórnað af Miles Dempsey hershöfðingja.Sögusvið innrásarinnar í Normandí í Frakklandi. Til einföldunar eru eingöngu merktir inn þeir staðir og þau svæði sem koma við sögu í þessu svari.

Í kjölfar innrásarinnar þurfti gríðarlega birgðaflutninga því gert var ráð fyrir að flytja nærri 600 þúsund tonn birgða og 200 þúsund farartæki á land af 6.500 skipum á fyrstu þremur vikunum eftir innrásina. Bandamenn notuðu 13 þúsund flugvélar á innrásardaginn og í aðdraganda árásarinnar voru gerðar heiftarlegar loftárásir þar sem aðallega var ráðist á samgöngukerfi Frakklands, lestar, lestarteina og brýr en einnig á önnur hernaðarleg mannvirki. Að auki var viðamiklum blekkingum beitt undir dulnefninu FORTITUDE þar sem yfirstjórn þýska hersins og Hitler var talin trú um að ráðist yrði inn í Norður-Frakkland í grennd við Pas de Calais af óvígum her bandamanna sem raunar var einungis til á pappírnum.

Það auðveldaði verkefni bandamanna að með aðstoð Ultra (háleynilegum hópi kóðabrjóta, sjá svar við spurningunni Hvað er Enigma og hvaða þátt átti hún í seinni heimsstyrjöldinni?) gátu þeir lesið dulmál yfirstjórnar Þjóðverja og vissu því nákvæma staðsetningu varnarsveita og hver viðbrögð þeirra yrðu við væntanlegri innrás. Alls myndu 39 herdeildir bandamanna ganga á land í Normandí, þar af voru 20 bandarískar, 14 breskar, þrjár kanadískar, ein frönsk og ein pólsk.

Atlantshafsmúrinn, eins og varnir Þjóðverja við Atlantshafsströndina voru kallaðar, var að mestu mannaður annars flokks hermönnum. Styrking varnanna hafði verið vanrækt um nokkurt skeið en í nóvember árið 1943 útnefndi Adolf Hitler, leiðtogi Þjóðverja, Erwin Rommel marskálk yfirmann hersafnaðar B er skyldi sjá um varnirnar meðfram ströndinni.

Rommel hófst þegar handa við að styrkja varnirnar en lenti upp á kant við yfirmann sinn Gerd von Rundstedt marskálk stjórnanda alls herafla Þjóðverja í Frakklandi. Rundstedt vildi beita öflugum bryndeildum sem varaliði fjarri ströndinni og senda þær til gagnárásar þegar óvinurinn gengi á land. Með því móti væri hægt að ná hnitmiðuðu höggi á innrásarliðið við ströndina. Rommel hafði hins vegar barist í Norður-Afríku þar sem bandamenn höfðu haft nærri óskoruð yfirráð í lofti og vissi hve erfitt það gat verið að flytja lið og birgðir til vígstöðvanna undir stöðugum loftárásum. Hann taldi því nauðsynlegt að koma bryndeildunum eins nálægt ströndinni og unnt væri svo yfirburðir andstæðinganna í lofti nýttust sem minnst. Þetta hafði þó þann ókost að hreyfanleiki brynsveitanna yrði takmarkaður og að fáar varasveitir yrðu til taks ef fyrstu gagnsóknirnar rynnu út í sandinn.

Hitler varð að skera úr um þessa deilu en gerði illt verra með því að deila varaliðinu upp á milli Rommels og Rundsteds og fyrirskipa að hluti varasveitanna mætti ekki hreyfa sig án sérstaks leyfis síns.

Innrás

Innrás bandamanna frestaðist til 6. júní vegna slæms veðurs og erfiðleika við að ná nægum fjölda landgöngupramma, en 5. júní sáu veðurfræðingar fyrir að veðrið myndi lægja og því var loks haldið af stað. Þjóðverjar áttu á hinn bóginn erfitt með að spá fyrir um veðurskilyrði því þeir gátu ekki fengið nauðsynleg veðurskeyti frá Íslandi sem veittu mikilvægar upplýsingar um lægðakerfi við Atlantshafið. Alls voru 500 herskip, 3.000 landgönguprammar og 2.500 önnur aðstoðarskip í þessum stærsta innrásarflota sögunnar.Hermenn bandamanna urðu sums staðar að dvelja tímunum saman í flæðarmálinu á meðan reynt var að eyða varnarvirkjum Þjóðverja.

Bresku og bandarísku fallhlífaherdeildirnar náðu markmiðum sínum nokkuð auðveldlega um nóttina. Landgangan sjálf hófst svo kl. 6:30 og gekk bresku og kanadísku sveitunum vel að komast á land á svæðum sínum líkt og Bandaríkjamönnum á Utah-ströndinni. Hins vegar varðist 352. fótgönguliðssveit Þjóðverja vel á Omaha ströndinni og litlu munaði að landgangan þar rynni út í sandinn.

Óvissa og fát einkenndi fyrstu viðbrögð yfirmanna þýska hersins. Rommel var fjarverandi því hann vissi ekki að veðrið myndi lægja og hafði farið heim til að halda upp á afmæli konu sinnar. Þegar undirmenn Hitlers báru Hitler loks fréttirnar af innrásinni var hann ófús til að senda bryndeildir til Normandí því hann taldi að þetta væri blekkingarinnrás og að megininnrásin kæmi síðar við Pas de Calais. Gagnsókn Þjóðverja skall á Kanadamönnum og Bretum á mótum Sword og Juno innrásarsvæðanna og náði að skapa töluverðan usla en með hraðri andspyrnu breskra bryndrekabana við Périers-sur-le-Dan tókst að stöðva hana.

Meginmarkmið bandamanna eftir að hafa komist á land var að víkka út innrásarsvæðin og sameina þau, hertaka síðan borgirnar Caen og Cherbourg og sækja því næst til Bretagneskaga og til austurs. Þjóðverjar gerðu harðar atlögur að herjum Samveldisríkjanna en urðu undan að láta. Bandamenn náðu að sameina innrásarsvæðin 12. júní, þegar bandarísku 5. og 7. stórdeildirnar náðu borginni Carentan við rætur Cotentins skagans, en sókn Breta og Kanadamanna í átt til Caen stöðvaðist gersamlega vegna harðrar mótspyrnu Þjóðverja.

Bandamenn drógu með sér tvær sérhannaðar flothafnir, Mulberries, til Normandí þar sem þeir gætu affermt skip og keyrt svo varninginn í land. Þetta voru gríðarlega stór mannvirki og tæknilegt afrek. En á meðan þeir voru að koma höfnunum upp gerði slæmt veður 19. júní og hafnirnar sködduðust svo mikið að einungis önnur þeirra varð nothæf. Bandamenn urðu því að notast við þá aðferð að flytja birgðir á land með landgönguprömmum sem gátu einungis flutt brot af því sem varð að flytja á land.Nægar birgðir og aðstreymi fleiri liðssveita voru bandamönnum lífsnauðsynlegar. Flutningur birgða frá Bretlandi hafði verið tímasettur nákvæmlega fyrir innrásina og þegar ekki tókst að sækja nægilega hratt upp frá ströndinni skapaðist öngþveiti birgða og tækja þar.

Viðbrögð Þjóðverja

Yfirforingjar Þjóðverja vildu hörfa frá Normandí til að komast undan skothríð herskipa bandamanna en Hitler krafðist þess að ekki yrði hörfað skref aftur á bak. Varnir Þjóðverja hörðnuðu nú auk þess sem landslagið á svæðinu hentaði sérstaklega vel til varnar. Þarna var mikið af limgerðum sem gáfu varnarliðinu gott skjól og gerðu því auðvelt að sitja fyrir liðssveitum andstæðingsins. Bretar og Kanadamenn sóttu hart í nágrenni Caen í von um að ná borginni en gagnárásir Þjóðverja hröktu þá jafnan til baka.

Vonleysi ríkti í höfuðstöðvum beggja því bandamenn sáu fram á kyrrstöðu og skotgrafarhernað sem myndi binda herafla þeirra niður um ófyrirsjáanlega framtíð á meðan þýska herstjórnin fylgdist skelfd með mannfalli og tjóni á vígvélum sem henni var nánast ógerlegt að bæta nægilega hratt. Baráttuandi hermanna bandamanna var lítill um þetta leyti og fjöldi herforingja fékk að taka pokann sinn. Það var ekki til að bæta það að vopn þýska landhersins voru að jafnaði fullkomnari og bar sérstaklega á yfirburðum Panter- og Tígris-skriðdrekanna.

Árásir herja Samveldisríkjanna í grennd víð Caen sóttust seint en tjóðruðu allt tiltækt varalið Þjóðverja. Þar með losnaði um bandarísku hersveitirnar við Cotentin-skaga svo að þær gátu hertekið skagann og hafnarborgina Cherbourg þann 28. júní. Varnarliðið þar eyðilagði þó höfnina gersamlega svo að hún varð ekki nothæf fyrr en undir lok septembers. Montgomery hélt áfram án árangurs að berja á vörnum Þjóðverja í nágrenni Caen um leið og Bandaríkjamenn sóttu hart fram við St.-Lo.

Herstjórn þýsku herdeildanna við Normandí varð um þetta leyti fyrir nokkrum skakkaföllum þegar Rundstedt lýsti því yfir við Hitler að stríðið væri tapað og var rekinn fyrir vikið 2. júlí. Rommel særðist 17. júlí og varð ásamt eftirmanni sínum Günther von Kluge að fremja sjálfsmorð eftir að þeir voru bendlaðir við tilræði við Hitler 20. júlí. Eftir þetta blandaði Hitler sér meira inn í beina herstjórn við Normandí.

Sókn inn í Frakkland

Helstu bryndeildir Þjóðverja voru nú í átökum við Caen og einungis þunnskipað varnarlið andspænis Bandaríkjamönnum. Þrátt fyrir að stöðugt gengi á vígvélar og hersveitir Þjóðverja við Normandí trúðu Hitler og yfirherstjórnin því enn að megininnrásin ætti eftir að koma við Pas de Calais og héldu öflugum hersveitum þar til varnar.

Bandaríkjamenn gerðu því öfluga útrás með aðgerð Kóbra (e. Cobra). Beitt var háfleygum sprengiflugvélum sem gátu borið óhemjusprengjumagn til árása á víglínu andstæðingsins. Þrátt fyrir að hluti bandarísku hermannanna yrði fyrir sprengjuregninu þá heppnuðust loftárásirnar vel og þurrkuðu varnir Þjóðverja nánast út.

Sennilega lifðu flestir hermennirnir sprengjuregnið af en voru ringlaðir og í losti auk þess sem öll samskipti milli þeirra voru úr lagi gengin. Fáliðaðir og án stórs hluta af öflugasta vígbúnaði sínum gátu þeir vart borið hönd fyrir höfuð sér þegar 1. her Bandaríkjamanna ruddist fram til Avranches og tók borgina 30. júlí. Nú gátu Bandaríkjamenn sótt bæði til suðurs til Bretagneskaga og hafnarborganna þar eða til norðurs og umkringt hersveitir Þjóðverja sem börðust við Caen.

Hitler sendi öflugan liðsauka og fyrirskipaði gagnárás við Avranches í von um að umkringja sóknarbrodd Bandaríkjamanna og eyða honum. En bandamenn komust á snoðir um gagnsóknina með hjálp Ultra og stöðvuðu hana við mikið mannfall þýsku sveitanna. Nú voru engar varasveitir til að verjast sókn 1. hersins undir stjórn Bradleys og 3. hersins undir stjórn Georges S. Pattons sem geystust áfram og komust aftur fyrir víglínu Þjóðverja samtímis því sem gengið var á land í suður Frakklandi. Varnir Þjóðverja við Normandí voru nú endanlega hrundar og við tók flótti þvert yfir allt Frakkland undan bandamönnum.

Heimildir og myndir:
 • Green, Michel og Gladys: Patton: Operation Cobra and beyond. (MBI Publishing Company, Osceola, WI, 1998).
 • Hastings, Max:
  • Overlord. D-Day and the Battle for Normandy. Fyrst gefið út 1984. (Pan books, London, 1985).
  • Das Reich. Resistance and the march of the 2nd SS Panzer Division through France, June 1944. Fyrst gefin út 1981. (Pan Books, Bungay Suffolk, 1983).
 • Heimsstyrjöldin 1939-1945. Innrásin mikla. Ritstjóri Örnólfur Thorlacius. (Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1981).
 • Masterman, J.C.: The Double-Cross System in the War of 1939 to 1945. Fyrst gefin út 1972. (First Sphere Books, London, 1973).
 • Vefsíðan Normandy 1944. Sótt 28. apríl 2005.
 • Wikipedia. The Free Encyclopedia. „Battle of Normandy“ Sótt 28. apríl 2005.

Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvenær var innrásin í Normandí og hvaða þjóðir áttu þátt í henni?
...