Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Adolf Hitler varð æfur þegar hann frétti að Bretar hefðu hernumið Íslandi þann 10. maí 1940 og gaf í kjölfarið foringjum sínum í þýska flotanum fyrirskipun um að undirbúa innrás. Skömmu síðar kynntu þeir fyrir honum hernaðaráætlunina Íkarus (þ. Fall Ikarus) sem byggðist á því að innrásarfloti myndi laumast framhjá herskipum Konunglega breska flotans (e. Royal Navy) á Norður-Atlantshafi til að koma innrásarliði á land á vesturströnd Íslands.
Yfirmenn bæði flota (þ. Kriegsmarine) og flughers (þ. Luftwaffe) Þjóðverja lögðust hins vegar eindregið gegn öllum hugmyndum um innrás. Ástæðan var meðal annars sú að þótt þokkalegar líkur væru á að innrás myndi heppnast væri illmögulegt að flytja birgðir til herliðsins á Íslandi vegna yfirráða breska flotans á höfunum, auk þess sem engir flugvellir voru á eyjunni og því gæti flugherinn ekki veitt innrásarliðinu neina vernd. Rök herforingjanna, ásamt því að hugsanlega ætluðu Þjóðverjar sér að ráðast inn í Bretland, en það hefði krafist alls liðsstyrks flota og flughers þeirra, virðist hafa orðið til þess að Hitler lét allar vangaveltur um hernám Íslands niður falla.
Innrásarkrafan
Hitler og flotaráð þýska flotans töldu yfirráð yfir Íslandi afskaplega mikilvæg fyrir framtíð þýska ríkisins og óhindraðan aðgang að Atlantshafinu. Fljótlega eftir að stríðið hófst virðist Hitler hafa látið í ljós áhuga á að hernema Ísland. Walther Warlimont ofursti og aðgerðaforingi yfirherráðs þýska ríkisins (þ. Ober Kommando der Wehrmacht, skammstafað OKW) greindi frá þessu við yfirheyrslur eftir stríðið. Enn fremur sagði hann að það hefði ráðið mestu að annars vegar var eyjan varnarlaus, og að Hitler virðist hafa viljað ná henni á undan bandamönnum, og hins vegar að hann sá fyrir sér að frá Íslandi gætu flugvélar flughersins veitt kafbátum þýska flotans vernd. Karl Jesko von Puttkamer, sem var þá sjóliðsforingi í yfirherráðinu, minnist þess líka að Hitler hefði látið í ljós áhuga á að hernema Ísland vorið 1940. Hins vegar hafi allt tiltækt herlið ríkisins verið upptekið vegna innrásarinnar í Noreg og undirbúnings áhlaupsins gegn bandamönnum í Vestur-Evrópu.
Sem fyrr segir brást Hitler reiður við þegar honum bárust fréttir af hernámi Breta 10. maí. Réð hér nokkru að hugsanleg innrás Þjóðverja yrði erfiðari með veru erlends herliðs á Íslandi en einnig að eftir að sýnt þótti að Þjóðverjum væri að takast að leggja Noreg undir sig og ná þannig óheftum aðgangi að Atlantshafinu höfðu Bretar nú náð að leggja stein í götu þeirra með því að hernema Ísland og varna þeim þannig leiðar út á Atlantshafið.
Í lok maí 1940 var byrjað að breyta farþegaskipunum Europa og Bremen þannig að þau gætu sinnt liðsflutningum til aðþrengds herliðs Þjóðverja í Narvík en þegar til kom þurfti ekki að nota skipin til þessa. Á þessum tíma gældi Hitler enn við drauma um yfirráð yfir Íslandi þrátt fyrir veru Breta hérlendis. Þar sem vinna við breytingar skipanna var komin í gang greip hann tækifærið og fyrirskipaði í byrjun júní að hafinn skyldi undirbúningur að innrás í landið.
Hér gefur að líta farþega- og systurskipin Bremen og Europa sem settu mörg hraðamet á siglingum sínum yfir Atlantshafið fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þjóðverjar ætluðu sér að nýta hraða þeirra til að snúa á gæsluskip breska flotans á Norður-Atlantshafi.
Undirbúningur innrásar
Það kom flotaráði þýska flotans mjög á óvart þegar því barst tilkynning þann 12. júní um að breyta fjórum skipum til innrásar og þegar þeim var tilkynnt daginn eftir að ætlunin væri að ráðast inn í Ísland var þeim brugðið. Sjóliðsforingjanum Hans-Jürgen Reinicke var falið að leggja drög að innrás og fjórum dögum síðar skilaði hann af sér afar neikvæðri skýrslu um aðgerð Íkarus. Flotaráðið setti einnig í gang vinnu við að breyta sex skipum sem ætluð voru til liðsflutninga.
Næstu daga var mikið fundað um væntanlega innrás. Fulltrúar flotaráðsins hittu Warlimont aðgerðaforingja yfirherráðs þýska ríkisins þann 17. júní og fulltrúar herráða flota og flughers hittust sérstaklega degi síðar til að ræða Íkarus. Þar kom fram að flugherinn undir stjórn Hermanns Görings setti sig eindregið á móti slíkum innrásarhugmyndum því engar lendingarbrautir væru til staðar fyrir orrustu- og sprengjuflugvélar. Erich Raeder yfiraðmíráll og flotaforingi þýska flotans hitti loks Hitler 20. júní og kynnti fyrir honum undirbúning vegna innrásarhugmynda flotans og þau vandkvæði sem flotaráðið sá á framkvæmd innrásar.
Sama dag og Hitler og Raeder funduðu var sjóliðsforingjunum von Puttkamer og Wolf Junge falið að fullvinna innrásaráætlunina eftir forvinnu Reinickes en þeir virðast aldrei hafa lagt mikla vinnu í það. Fræðimenn hafa almennt dregið þá ályktun að eftir fund þeirra Hitlers og Raeders hafi foringinn áttað sig á því að það væri óðs manns æði að reyna innrás. Raeder var algerlega andsnúinn innrásarhugmyndum Hitlers og virðist hafa reynt að sannfæra hann um að hætta við fyrirætlanir sínar. Auk þess bendir ýmislegt til þess að ókunnir ráðgjafar Foringjans hafi talið honum trú um að ekki væri hægt að leggja flugvelli á Íslandi. Hefur Þór Whitehead sagnfræðingur leitt að því líkum að hugmyndir yfirherráðs Hitlers um gerð flugvalla á Íslandi kunni að hafa stafað af því að þeir hafi stuðst við gamlar og úreltar upplýsingar frá því um 1930.
Aðgerð Íkarus
Marvísleg vandkvæði steðjuðu að skipuleggjendum Íkarusar. Konunglegi breski flotinn hafði margfalda yfirburði á við þann þýska á úthöfunum, þýski flotinn hafði beðið mikið afhroð í innrásinni í Noreg, innrásin og siglingar flotans yrðu að gerast án flugverndar og til að forðast eftirlitsskip Breta yrði að ráðast á Ísland um haust eða vetur til að nýta skammdegið og slæmt haustveðrið til skjóls. Ef heppnaðist að koma innrásarliðinu á land tæki ekki betra við því stöðug gæsla breska flotans gerði birgðaflutninga sérlega erfiða og sennilega yrði að treysta á að stök birgðaskip gætu laumast framhjá eftirlitsskipum Breta í skjóli veðurs og myrkurs. Mögulegt var að flytja innrásarlið loftleiðis en vegalengdin var slík að flugvélarnar ættu ekki afturkvæmt og sömuleiðis væri ekki unnt að flytja birgðir með flugvélum þó hægt væri að koma upp lendingarvöllum.
Þær hugmyndir sem voru mótaðar gerðu ráð fyrir að undirbúningur innrásarinnar yrði dulinn sem best og síðan yrði hinn geysimikli hraði farþegaskipanna Europa og Bremen nýttur. Átti því að leggja af stað frá þremur mismunandi höfnum og á mismunandi tímum til þess að Breta grunaði ekki hvað væri í aðsigi. Sigla átti í stóran sveig norður fyrir Ísland og koma saman við landgöngustaðinn sem allt bendir til að hafi verið á suðvesturlandi.
Innrásarfloti Íkarusar
Innrásarskip
Tegund
Stærð í lestum
Hraði í hnútum
Brottfararstaður
Gneisenau
Orrustubeitiskip
31.800
31
Við Þrándheima, Noregi
Scharnhorst1)
Orrustubeitiskip
31.800
31,5
Við Þrándheima, Noregi
S/S Bremen
Farþegaskip
52.000
28
Helgolandsflói, Þýskalandi
S/S Europa
Farþegaskip
50.000
28
Helgolandsflói, Þýskalandi
S/S Potsdam
Farþegaskip
18.000
20
Við Þrándheima, Noregi
S/S Gneisenau
Farþegaskip
18.000
20
Við Þrándheima, Noregi
S/S Neidenfels
Kaupskip
8.000
15
Smáhafnir nyrst í Noregi svo sem Andalsnes og Molde
S/S Moltkefels
Kaupskip
8.000
15
Smáhafnir nyrst í Noregi svo sem Andalsnes og Molde
1)Þrátt fyrir að systurskipin Gneisenau og Scharnhorst væru bæði með í Íkarusáætluninni þá var staðreyndin sú að Scharnhorst var ekki til taks þar sem skipið hafði orðið fyrir tundurskeyti 8. júní í átökum við breska flotann og var úr leik í marga mánuði.
Það er ávallt áhætta að senda flutningaskip yfir úthaf þar sem herskip og kafbátar óvinarins eru líkleg til að vera á ferli. Nauðsynlegt er að veita þeim einhverja vernd og er þá til að mynda yfirleitt hópur tundurspilla með flutningaskipunum til að verja þau fyrir kafbátum, og stærri herskip til varnar öðrum herskipum. Eftir áföllin í Noregi gat þýski flotinn ekki séð af neinum léttari fylgdarskipum með innrásarflotanum og einungis Gneisenau var til reiðu gegn flotamætti breska flotans.
Sennilegt þykir að innrásarlið Þjóðverja hefði verið skipað þrautþjálfuðum austurrískum fjallahermönnum sem höfðu átt að berjast í Norður-Noregi. Hefðu þeir komist á land hefði þeim reynst létt verk að vinna á vörnum vanbúins og illa þjálfaðs herliðs Breta á suðvesturhorninu. Þá hefði komið til bresks hafnbanns þar sem breski flotinn hefði lokað á alla aðdrætti. Það er hugsanlegt að liðssveitir Breta annars staðar á landinu hefðu tórt áfram vegna slæmra samgangna innanlands og með því að fá vistir frá breska flotanum. Innrásarher Þjóðverja hefði hins vegar þurft að lifa af landinu, með öðrum orðum að ræna sér til viðurværis.
Þó breski flotinn stjórnaði hafinu umhverfis Ísland voru Bretar önnum kafnir á öðrum vígstöðvum, meðal annars vegna þess að þeir óttuðust innrás heima fyrir. Því hefði sennilega liðið nokkur tími þar til þeir hefðu getað sótt gegn Þjóðverjum hér á landi auk þess sem búnaður flotans til innrása af sjó var afar bágborinn um þetta leyti. Sennilega hefði sultur því sorfið að á meðan beðið væri eftir aðstoð frá Bretlandi auk þess sem eyðilegging hefði orðið mikil, sérstaklega á suðvesturhorninu og á samgöngumannvirkjum.
Seinni innrásarhugmyndir
Brátt beindist athygli Hitlers að undirbúningi innrásar í Stóra-Bretland og síðar í Sovétríkin jafnframt því sem hann áttaði sig á því að þýski flotinn væri of máttvana til þess að taka þátt í hernámi Íslands. Það er til marks um dvínandi áhuga Hitlers og yfirherráðsins á Íkarusi að í ágúst voru mótaðar tillögur sem gerðu ráð fyrir að farþegaskipunum, sem nota átti í Íkarusi, yrði beitt á öðrum vettvangi og má gera ráð fyrir að þá hafi áætlanir um Íkarus endanlega verið lagðar til hliðar. Við undirbúning innrásar í Bretlandseyjar, sem gekk undir dulnefninu Sæljón (þ. Seelöwe), var gert ráð fyrir að beitiskipið Hipper gerði atlögu í átt til Íslands til að draga að sér bresk herskip auk þess sem farþegaskipin áttu að taka þátt í innrásaratlögu í blekkingarskyni að austurströnd Englands undir dulnefninu Haustferð (þ. Herbstreise).
Hitler nefndi aftur hugmyndir um að ráðast inn í Ísland árið 1942. Hafði hann reiðst þegar hann frétti að bandamenn hefðu komið upp flugvöllum á landinu eftir að ráðgjafar hans höfðu fullyrt við hann að slíkt væri ekki gerlegt og var honum efst í huga að koma upp flugstöðvum hérlendis. Vildi hann láta flytja sérsveitarhermenn með stórum kafbátum til landsins en hann virðist ekki hafa fengið nokkurn stuðning við hugmynd sína og féll málið niður.
Aðrar árásarhugmyndir voru ekki orðaðar því yfirmönnum flota og flughers fannst mögulegur ávinningur innrásar ekki vera í samræmi við þá fyrirhöfn og áhættu sem henni fylgdi.
Heimildir og mynd:
Bittner, Donald F.: The Lion and the White Falcon. Britain and Iceland in the World War II Era. (Archon Books, Hamden, Conn., 1983).
Wheatley, Ronald: Operation Sea Lion. German Plans for the invasion of England 1939-1942. Fyrsta prentun 1958. (Oxford University Press, Oxford, 1962).
Þór Whitehead:
„Á vaxvængjum Íkarusar. Ísland, nasistar og Atlantshaf.“ Lesbók Morgunblaðsins 34. tbl. 46. árg. 3. október 1971.
Ísland í hers höndum. (Vaka-Helgafell, Rvk, 2002).
Bretarnir koma. Ísland í síðari heimsstyrjöld. (Vaka-Helgafell, Rvk, 1999).
Skúli Sæland. „Hverjar voru áætlanir Þjóðverja um að ráðast inn í Ísland í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 30. júní 2005, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5103.
Skúli Sæland. (2005, 30. júní). Hverjar voru áætlanir Þjóðverja um að ráðast inn í Ísland í seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5103
Skúli Sæland. „Hverjar voru áætlanir Þjóðverja um að ráðast inn í Ísland í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 30. jún. 2005. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5103>.