Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvernig kom bærinn Dunkerque við sögu í seinni heimstyrjöldinni?

G. Jökull Gíslason

Dunkerque (franska, Dunkirk á ensku) er hafnarbær í Norður-Frakklandi, rétt sunnan við landamærin við Belgíu. Í lok maí og byrjun júní 1940 var borgin sögusvið atburða sem reyndust afdrifaríkir fyrir framgang seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland í byrjun september 1939 lýstu Frakkar og Bretar (hér eftir nefndir bandamenn) yfir stríði gegn Þjóðverjum. Það leiddi til minniháttar átaka á landamærum Þýskalands en ekki til allsherjar hernaðar. Þess í stað notuðu bandamenn og Þjóðverjar veturinni 1939 til 1940 til þess að vígbúast fyrir komandi átök. Hermenn bandamanna gerðu sér sumir hverjir vonir um að það yrði ekkert stríð enda var harmleikur fyrri heimsstyrjaldar enn í fersku minni. Frakkar og Bretar reyndu að byggja upp heri sína en ekki af sömu ákefð og Þjóðverjar sem nýttu tíma sinn betur. Her þeirra var vígreifur en þurfti að bæta upp skaða á mönnum og vélbúnaði eftir innrásina í Pólland. Allan þennan vetur var yfirlýst stríð án átaka og var orðið gervistríð (á ensku Phoney War en á frönsku drôle de guerre sem merkir brandarastríðið) notað um þetta skeið í sögu stríðsins.

Í þeim atburðum sem þá tóku við, vorið 1940, munaði mestu að þýski herinn hafði lært mikið af óförum sínum í fyrri heimsstyrjöldinni og hafði innleitt nýjar aðferðir og tileinkað sér framfarir í allri tækni. Til að mynda var talstöð í öllum þýskum skriðdrekum en aðeins í litlum hluta þeirra frönsku. Þá var Gamelin yfirhershöfðingi bandamanna með aðsetur sitt í höll sem hafði ekki símsamband og reiddi sig á sendiboða á mótorhjólum. Þannig var öll yfirstjórn herja bandamanna svifasein og íhaldssöm á meðan Þjóðverjar byggðu á frumkvæði hershöfðingja sem voru nærri átökunum.

Panzer eða þýskir skriðdrekar léku lykilhlutverki í innrásinni í Frakkland og Benelúxlöndin.

Yfirstjórn bandamanna var nokkuð viss um að þegar kæmi til innrásar í nágrannalöndin mundu Þjóðverjar beita afbrigði af Schlieffen-áætluninni sem þeir höfðu beitt í fyrri heimsstyrjöldinni og að aðalsókn þeirra kæmi í gegnum Holland og Belgíu. Bandamenn gerðu áætlanir um að flytja sterkustu herdeildirnar í landher sínum til að mæta Þjóðverjum í þessum löndum en það var Frökkum kappsmál að átökin yrðu sem minnst á franskri grund.

Þjóðverjar voru með aðra áætlun sem gekk út á að senda af stað sæmilega sterkt herlið eins og þeir væru að hrinda Schlieffen-áætluninni af stað. Meginþunginn yrði hins vegar lagður á að brjótast í gegn sunnan við borgina Sedan í Frakklandi, við norður enda Maginot-víglínunnar, öfluga varnarlínu sem Frakkar höfðu komið upp á landamærum Þýskalands og Frakklands. Eftir að hafa brotist þar í gegn átti þýski herinn síðan að sækja norður aftan við megin víglínu bandamanna og loka þannig af bestu herdeildir þeirra.

Þessi áform Þjóðverja gengu nákvæmlega eftir. Þann 10. maí 1940 hófu þeir innrás í Benelúxlöndin og Frakkland og tókst að króa af bestu bresku og frönsku herina á aðeins 10 dögum. Þarna hafði sitt að segja hertækni Þjóðverja og framsýni í notkun á nýrri tækni og ekki síður þunglamaleg stjórnun herja bandamanna. Bretar, sem sögulega höfðu lítinn og vel þjálfaðan landher, stóðu frammi fyrir því að vera umkringdir og eiga á hættu að missa nær allan fastaher sinn í Frakklandi og Hollandi. Þeirra eina von var að hörfa til strandar og reyna að bjarga sem flestum á sjó til Englands. Eini staðurinn sem þetta var mögulegt var hafnarbærinn Dunkerque í Norður-Frakklandi.

Þjóðverjar sóttu hart að herjum bandamanna í lok maí 1940.

Yfirmaður breska hersins fyrirskipaði tafarlausa herflutninga frá Frakklandi og án þess að láta Frakka vita hóf breski flotinn að skipuleggja björgun bresku hermannanna sem gekk undir heitinu „Aðgerð Dynamo“. Við tóku spennuþrungnir níu dagar í lok maí og byrjun júní, en á þeim tíma tókst breska flotanum að bjarga 338.226 breskum og frönskum hermönnum undan ströndum Dunkerque. Flotinn gaf einnig út allsherjarskipun um að allir sem gátu gert út báta mundu taka þátt í aðgerðum. Við skip flotans bættust hundruð smábáta, lítilla fiskveiðibáta, kaupskipa og skemmtiskipa sem tóku þátt í að koma hermönnunum heim. Aðstæður voru mjög erfiðar, stór skip komust ekki nægilega nálægt landi til að hægt væri að bjarga mönnum beint um borð heldur þurftu litlir bátar að ferja menn út í stærri skip og eins óðu menn á móti skipum undir skothríð óvinarins.

Breskir hermenn flýja af ströndinni í Dunkerque undir mikilli skothríð.

Óaðvitandi gerðu Þjóðverjar tvennt á þessum tíma sem hjálpaði Bretum mikið. Það fyrsta var að Hitler gaf út skipum um að þýski herinn stoppaði framrás sína til þess að fótgöngulið gæti tryggt þau svæði sem véladeildirnar höfðu tekið. Eftir á að hyggja var þetta slæm skipun en á þeim tíma voru vélaherdeildirnar langt komnar og áttu erfitt með aðföng, auk þess sem Þjóðverjar vissu ekki hversu hætt komnir herir bandamanna voru. Hitt var að Göring, yfirmaður þýska flughersins Luftwaffe, var viss um að þýski flugherinn gæti komið í veg fyrir að breski herinn slyppi án aðstoðar landhersins, sem svo reyndist ekki rétt.

Breski herinn missti nær allan þungabúnað sinn í þessu undanhaldi. Fallbyssur, skriðdrekar, vörubílar og vistir urðu eftir í Frakklandi en hermönnunum var bjargað og á þeim grunni var hægt að byggja upp herinn á ný. Forsætisráðherra Breta Winston Churchill talaði um kraftaverkið við Dunkerque og þótt að Bretar hafi klárlega tapað í orrustunni um Frakkland þá varð Dunkerque að varnarsigri í hugum bresks almennings.

Breskum hermönnum bjargað í skip við Dunkerque.

Það hafa verið leiddar líkur að því að ef breska hernum hefði verið tortímt við Dunkerque þá hefðu Bretar verið knúnir til uppgjafar. Það er vel mögulegt en því er samt erfitt að slá alveg á föstu þar sem ekki er hægt að sjá allt fyrir. En björgunarafrekið við Dunkerque styrkti Churchill í sessi og hann átti eftir að leiða Breta af festu næsta árið á meðan England stóð eitt í stríði við Þjóðverja, eða þar til að þýski herinn réðist gegn Sovétríkjunum.

Myndir:

Höfundur

G. Jökull Gíslason

rithöfundur og stundakennari hjá Endurmenntun HÍ

Útgáfudagur

27.8.2015

Spyrjandi

Benedikt Hallgrímsson

Tilvísun

G. Jökull Gíslason. „Hvernig kom bærinn Dunkerque við sögu í seinni heimstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 27. ágúst 2015. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=8669.

G. Jökull Gíslason. (2015, 27. ágúst). Hvernig kom bærinn Dunkerque við sögu í seinni heimstyrjöldinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=8669

G. Jökull Gíslason. „Hvernig kom bærinn Dunkerque við sögu í seinni heimstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 27. ágú. 2015. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=8669>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig kom bærinn Dunkerque við sögu í seinni heimstyrjöldinni?
Dunkerque (franska, Dunkirk á ensku) er hafnarbær í Norður-Frakklandi, rétt sunnan við landamærin við Belgíu. Í lok maí og byrjun júní 1940 var borgin sögusvið atburða sem reyndust afdrifaríkir fyrir framgang seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í kjölfar innrásar Þjóðverja í Pólland í byrjun september 1939 lýstu Frakkar og Bretar (hér eftir nefndir bandamenn) yfir stríði gegn Þjóðverjum. Það leiddi til minniháttar átaka á landamærum Þýskalands en ekki til allsherjar hernaðar. Þess í stað notuðu bandamenn og Þjóðverjar veturinni 1939 til 1940 til þess að vígbúast fyrir komandi átök. Hermenn bandamanna gerðu sér sumir hverjir vonir um að það yrði ekkert stríð enda var harmleikur fyrri heimsstyrjaldar enn í fersku minni. Frakkar og Bretar reyndu að byggja upp heri sína en ekki af sömu ákefð og Þjóðverjar sem nýttu tíma sinn betur. Her þeirra var vígreifur en þurfti að bæta upp skaða á mönnum og vélbúnaði eftir innrásina í Pólland. Allan þennan vetur var yfirlýst stríð án átaka og var orðið gervistríð (á ensku Phoney War en á frönsku drôle de guerre sem merkir brandarastríðið) notað um þetta skeið í sögu stríðsins.

Í þeim atburðum sem þá tóku við, vorið 1940, munaði mestu að þýski herinn hafði lært mikið af óförum sínum í fyrri heimsstyrjöldinni og hafði innleitt nýjar aðferðir og tileinkað sér framfarir í allri tækni. Til að mynda var talstöð í öllum þýskum skriðdrekum en aðeins í litlum hluta þeirra frönsku. Þá var Gamelin yfirhershöfðingi bandamanna með aðsetur sitt í höll sem hafði ekki símsamband og reiddi sig á sendiboða á mótorhjólum. Þannig var öll yfirstjórn herja bandamanna svifasein og íhaldssöm á meðan Þjóðverjar byggðu á frumkvæði hershöfðingja sem voru nærri átökunum.

Panzer eða þýskir skriðdrekar léku lykilhlutverki í innrásinni í Frakkland og Benelúxlöndin.

Yfirstjórn bandamanna var nokkuð viss um að þegar kæmi til innrásar í nágrannalöndin mundu Þjóðverjar beita afbrigði af Schlieffen-áætluninni sem þeir höfðu beitt í fyrri heimsstyrjöldinni og að aðalsókn þeirra kæmi í gegnum Holland og Belgíu. Bandamenn gerðu áætlanir um að flytja sterkustu herdeildirnar í landher sínum til að mæta Þjóðverjum í þessum löndum en það var Frökkum kappsmál að átökin yrðu sem minnst á franskri grund.

Þjóðverjar voru með aðra áætlun sem gekk út á að senda af stað sæmilega sterkt herlið eins og þeir væru að hrinda Schlieffen-áætluninni af stað. Meginþunginn yrði hins vegar lagður á að brjótast í gegn sunnan við borgina Sedan í Frakklandi, við norður enda Maginot-víglínunnar, öfluga varnarlínu sem Frakkar höfðu komið upp á landamærum Þýskalands og Frakklands. Eftir að hafa brotist þar í gegn átti þýski herinn síðan að sækja norður aftan við megin víglínu bandamanna og loka þannig af bestu herdeildir þeirra.

Þessi áform Þjóðverja gengu nákvæmlega eftir. Þann 10. maí 1940 hófu þeir innrás í Benelúxlöndin og Frakkland og tókst að króa af bestu bresku og frönsku herina á aðeins 10 dögum. Þarna hafði sitt að segja hertækni Þjóðverja og framsýni í notkun á nýrri tækni og ekki síður þunglamaleg stjórnun herja bandamanna. Bretar, sem sögulega höfðu lítinn og vel þjálfaðan landher, stóðu frammi fyrir því að vera umkringdir og eiga á hættu að missa nær allan fastaher sinn í Frakklandi og Hollandi. Þeirra eina von var að hörfa til strandar og reyna að bjarga sem flestum á sjó til Englands. Eini staðurinn sem þetta var mögulegt var hafnarbærinn Dunkerque í Norður-Frakklandi.

Þjóðverjar sóttu hart að herjum bandamanna í lok maí 1940.

Yfirmaður breska hersins fyrirskipaði tafarlausa herflutninga frá Frakklandi og án þess að láta Frakka vita hóf breski flotinn að skipuleggja björgun bresku hermannanna sem gekk undir heitinu „Aðgerð Dynamo“. Við tóku spennuþrungnir níu dagar í lok maí og byrjun júní, en á þeim tíma tókst breska flotanum að bjarga 338.226 breskum og frönskum hermönnum undan ströndum Dunkerque. Flotinn gaf einnig út allsherjarskipun um að allir sem gátu gert út báta mundu taka þátt í aðgerðum. Við skip flotans bættust hundruð smábáta, lítilla fiskveiðibáta, kaupskipa og skemmtiskipa sem tóku þátt í að koma hermönnunum heim. Aðstæður voru mjög erfiðar, stór skip komust ekki nægilega nálægt landi til að hægt væri að bjarga mönnum beint um borð heldur þurftu litlir bátar að ferja menn út í stærri skip og eins óðu menn á móti skipum undir skothríð óvinarins.

Breskir hermenn flýja af ströndinni í Dunkerque undir mikilli skothríð.

Óaðvitandi gerðu Þjóðverjar tvennt á þessum tíma sem hjálpaði Bretum mikið. Það fyrsta var að Hitler gaf út skipum um að þýski herinn stoppaði framrás sína til þess að fótgöngulið gæti tryggt þau svæði sem véladeildirnar höfðu tekið. Eftir á að hyggja var þetta slæm skipun en á þeim tíma voru vélaherdeildirnar langt komnar og áttu erfitt með aðföng, auk þess sem Þjóðverjar vissu ekki hversu hætt komnir herir bandamanna voru. Hitt var að Göring, yfirmaður þýska flughersins Luftwaffe, var viss um að þýski flugherinn gæti komið í veg fyrir að breski herinn slyppi án aðstoðar landhersins, sem svo reyndist ekki rétt.

Breski herinn missti nær allan þungabúnað sinn í þessu undanhaldi. Fallbyssur, skriðdrekar, vörubílar og vistir urðu eftir í Frakklandi en hermönnunum var bjargað og á þeim grunni var hægt að byggja upp herinn á ný. Forsætisráðherra Breta Winston Churchill talaði um kraftaverkið við Dunkerque og þótt að Bretar hafi klárlega tapað í orrustunni um Frakkland þá varð Dunkerque að varnarsigri í hugum bresks almennings.

Breskum hermönnum bjargað í skip við Dunkerque.

Það hafa verið leiddar líkur að því að ef breska hernum hefði verið tortímt við Dunkerque þá hefðu Bretar verið knúnir til uppgjafar. Það er vel mögulegt en því er samt erfitt að slá alveg á föstu þar sem ekki er hægt að sjá allt fyrir. En björgunarafrekið við Dunkerque styrkti Churchill í sessi og hann átti eftir að leiða Breta af festu næsta árið á meðan England stóð eitt í stríði við Þjóðverja, eða þar til að þýski herinn réðist gegn Sovétríkjunum.

Myndir:

...