Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sæland

Leníngrad var glæsilegasta borg Sovétríkjanna og ein sú fjölmennasta fyrir seinni heimsstyrjöldina, en talið er að borgarbúar hafi þá verið tæpar 3,2 milljónir. Í stríðinu sátu herir Þjóðverja og Finna um borgina í nærri 900 daga. Fyrstu mánuði umsátursins sultu borgarbúar heilu hungri og ef Sovétmönnum hefði ekki tekist að flytja þangað vistir um ísi lagt Ladógavatnið hefðu íbúunum verið allar bjargir bannaðar. Sennilega varð um 1,1 milljón borgarbúa hungurmorða á meðan umsátrinu stóð.

Ágrip af sögu borgarinnar

Borgin heitir nú St. Pétursborg líkt og hún hét upphaflega en hefur einnig gengið undir nöfnunum Petrograd (Pétursborg) (1914-1924) og Leníngrad (1924-1991). Hún er staðsett á Kirjálaeiðinu í norðvesturhluta Rússlands við ósa árinnar Nevu við Kirjálabotn. Hún var stofnuð af Pétri mikla árið 1703 og var höfuðborg ríkisins allt til 1918. Bylting Bolsévíka hófst þar 1918 en eftir að Moskva var gerð að höfuðborg sama ár þá fækkaði íbúum Petrograd, eins og borgin var þá nefnd, snarlega. Afleiðingin varð sú að árið 1920 bjó þar einungis um þriðjungur af þeim fjölda sem búið hafði í borginni fimm árum áður.

St. Pétursborg hefur oft verið nefnd Feneyjar norðursins vegna glæsileika síns og fjölda síkja sem liggja um borgina. Miðborgin er friðuð og á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin sjálf er fjórða stærsta borg Evrópu og í dag búa þar um 4,7 milljónir manna. Hún er nyrst allra borga sem hafa meira en eina milljón íbúa.

Þjóðverjar hefja umsátur um borgina

Innrás Þjóðverja inn í Sovétríkin sumarið 1941 náði til Leníngrad í lok ágúst og 8. september höfðu þeir náð að umkringja borgina. Þjóðverjar gerðu í fyrstu áhlaup að borginni en Sovétmönnum tókst að verjast því undir stjórn Georgy K. Zhukovs eins færasta herforinga síns. Eftir það voru bryndeildir Þjóðverja sendar suðaustur á bóginn til að reyna að umkringja og vinna höfuðborgina Moskvu. Þetta var að mörgu leyti skynsamleg ákvörðun frá hernaðarlegu sjónarmiði því bryndrekar henta illa til bardaga innan borga og Þjóðverjar þurftu að sameina krafta herja sinna til að gerlegt væri fyrir þá að sigra sovésku herina við Moskvu.

Hitler hét því hins vegar að svelta Leníngrad til uppgjafar og eyða borginni. Hvort hann hefði gert alvöru úr hótun sinni ef Þjóðverjar hefðu náð borginni á sitt vald er óvíst því Leníngrad var miðstöð samgangna og framleiðslu fyrir norðurhluta vígstöðvanna og því mjög mikilvægur fengur fyrir Þriðja ríkið. Hitler var hins vegar trúandi til að láta verða af hótun sinni af hugmyndafræðilegum ástæðum auk þess sem Sovétmenn voru reiðubúnir að eyðileggja allt sem gæti komið Þjóðverjum að notum þegar þeir hörfuðu undan. Því er ljóst að gríðarlegar hörmungar hefðu einnig beðið borgarbúa ef Leníngrad hefði fallið Hitler í skaut.


Leníngrad umsetin. Kortið sýnir framlínu Þjóðverja og Finna þann 6. desember 1941 skömmu áður en Rússar náðu aftur borginni Tikhvin (sjá síðar í svarinu). Til þess að átta sig betur á staðsetningu Leníngrad er hægt að skoða kort af stærra svæði með því að smella hér

Þegar talað er um umsátrið um Leníngrad er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að borgin var aldrei gersamlega umkringd óvinaherjum. Þetta stafaði af staðsetningu hennar á Kirjálaeiðinu milli Kirjálabotns og stöðuvatnsins Ladóga. Herir Þjóðverja sátu um borgina að sunnan og höfðu lengi vel á sínu valdi allt land milli Ladógavatns og Kirjálabotns. Fyrir norðan borgina var landleiðin sömuleiðis lokuð því Finnar gerðust bandamenn Þjóðverja og sóttu suður á bóginn að ánni Svir um 160 km norðaustan Leníngrad. Finnar áttu harma að hefna eftir að Sovétmenn réðust gegn þeim í Vetrarstríðinu 1939-40 og tóku af þeim stór og fjölmenn landsvæði. Þeir gripu nú aftur til vopna í Framhaldsstríðinu (e. Continuation war), eins og þeir kölluðu ófrið sinn við Sovétríkin, til að endurheimta glötuð landsvæði en þverneituðu Þjóðverjum um að sækja yfir landamærin sem verið höfðu í gildi fyrir Vetrarstríðið. Þetta létti nokkuð varnir Leníngrad og bjargaði jafnvel borginni þó vissulega hafi sókn Finna rofið landleiðina norður fyrir Ladógavatn.

Hörmungar borgarbúa

Umsátrið átti eftir að vara frá 8. september 1941 til 27. janúar 1944 eða tæplega 900 daga. Um tvær og hálf milljón manna lokaðist inni í borginni. Varabirgðir matar og eldsneytis voru sáralitlar, engin upphitun né lýsing, rennandi vatn né frárennsli. Um leið og sulturinn og sprengjuregn Þjóðverja hjuggu djúp skörð í raðir borgarbúa þurftu þeir að þola einn harðasta vetur í manna minnum.

Hungurvofan fór hræðilega með íbúa Leníngrad. Vegna lítilla matarbirgða var tekin upp ströng skömmtun matvæla sem náði lágmarki 20. nóvember 1941 þegar fólk í erfiðisvinnu fékk 250 gr af brauði á dag sem er um það bil helmingur af daglegri næringarþörf fullorðins manns. Aðrir fengu helmingi minna. Allt sem innihélt næringu var étið; dýrafóður, heimilisdýr, fuglar, rottur, mýs, lím og matarolía svo eitthvað sé nefnt. Í mörgum tilvikum var lagst á mannslík og jafnvel voru dæmi um að menn myrtu aðra sér til matar. Miklar sögusagnir (sem sennilega voru orðum auknar) gengu um stríðaldar mannætur innan borgarinnar og juku á skelfingu borgarbúa. Foreldrar þorðu því varla að líta af börnum sínum og hermenn, sem fengu stærsta matarskammtinn, gengu um vopnaðir í hópum til að verjast hugsanlegum árásum.



Mynd af blöðum minnisbókarinnar með mynd af Tönyu frá því fyrir stríð.

Nafn 11 ára stúlku, Tanyu Savichevu, er samofið umsáturssögu Leníngradborgar. Hún lokaðist inni í borginni ásamt fjórum af fimm systkinum. Móðir hennar, ekkjan Mariya Savicheva, gaf Tanyu minnisbók systur hennar Ninu eftir að sú síðarnefnda hafði verið flutt óvænt á brott úr borginni og fjölskyldan hélt hana látna. Á níu blaðsíðum minnisbókarinnar má sjá eftirfarandi:
Zhenya dó kl. 12:30 í nótt 28. desember 1941.

Babushka dó kl. 3, 25. janúar 1942.

Leka dó klukkan 5 að morgni 17. mars 1942.

Dedya Vasya dó klukkan tvö að nóttu 13. apríl 1942.

Dedya Lesa dó klukkan 4 síðdegis 10. maí 1942.

Mamma 7:30 f.h. [13. maí] 1942. Öll dóu. Tanya er ein eftir. Heimsstyrjöldin 1939-1945. Innrás í Sovétríkin, bls. 108.

Lengi vel var talið að Tanya hefði látist í Leníngrad en nú hefur komið í ljós að hún var flutt úr borginni haustið 1942 ásamt hópi annarra barna. Veikburða líkami hennar þoldi þó ekki afleiðingar umsátursins og hún lést ári síðar vegna þrálátrar blóðkreppusóttar sem hún hafði fengið á meðan á umsátrinu stóð. Minnisbókin fannst síðar og var lögð fram við stríðsglæparéttarhöldin í Nürnberg eftir stríðið. Hana er nú að finna á Söguminjasafni Leníngrads.

Vegur lífsins

Skæður veturinn reyndist þó líka bjargvættur því fyrir vikið lagði Ladógavatn fyrr en ella. Hægt var að flytja vistir til borgarinnar og borgarbúa á brott, um 300 km leið yfir ísi lagt vatnið og hófust þessir flutningar 20. nóvember 1941. Þessi flutningaleið hlaut nafngiftina „Vegur lífsins“ (r. Doroga zhizni) og áður en ísa leysti 24. apríl 1942 höfðu um 514 þúsund íbúar og 35 þúsund særðir hermenn auk iðnaðartækja verið flutt á brott úr borginni. Þegar mest lét fóru 400 þriggja tonna vörubílar yfir ísinn á dag. Þeir sættu hins vegar stöðugum loft- og stórskotaliðsárásum og oft komst einungis þriðjungur farartækjanna á áfangastað.

Þrátt fyrir mikil afföll flutningatækja gerði þetta þó gæfumuninn. Matur barst aðþrengdum borgarbúum og það, ásamt mannfellinum sem orðið hafði og brottflutningi fólks frá borginni, gerð það að verkum að lífið varð bærilegt fyrir þá sem eftir voru. Um sumarið 1942 var birgðum fleytt yfir vatnið á bátum og prömmum en ísleiðin opnaðist aftur 20. desember og þann vetur var einnig lögð 30 km löng lestarlína á ísnum.

Ísleiðin yfir Ladógavatn hefði þó dugað skammt ef Sovétmönnum hefði ekki tekist að ná borginni Tikhvin, sem er skammt suðaustan Ladógavatns, úr höndum Þjóðverja 9. desember. Hún var miðstöð samgangna á svæðinu og án hennar gátu Sovétmenn ekki flutt birgðir að vatninu.


Flutningabílar á Vegi lífsins eins og leiðin yfir ísi lagt Ladógavatnið var kölluð. Eftirlifendur minnast þó með biturleik hve berskjaldaðir þeir voru fyrir árásum Þjóðverja og viðurnefnið Vegur dauðans festist líka við leiðina.


Hugrekki umsetinna borgarbúanna vakti heimsathygli og varð táknrænt fyrir andspyrnu sovésku alþýðunnar gegn nasistum. Úthald verjenda Leníngrad varð mikilvægt áróðurstákn og má sérstaklega nefna sjöundu sinfóníu Dimitrís D. Shostakovítsj sem einnig er þekkt sem Leníngrad-sinfónían því hún var að miklu leyti samin í umsetinni borginni árið 1941 og frumflutt þar sumarið eftir.

Um þriðjungur borgarbúa lét lífið á meðan á umsátrinu stóð en annar þriðjungur íbúa var fluttur á brott. Nákvæmar tölur um látna eru óljósar en sovésk yfirvöld segja 670 þúsund hafa orðið hungurmorða. Aðrar óháðar rannsóknir telja flestar að 1,1 milljón manna hafi látist í Leníngrad á meðan umsátrinu stóð. Til samanburðar má nefna að samanlagt mannfall Breta og Bandaríkjamanna var tæplega 800 þúsund manns í öllu stríðinu.

Sovétmönnum tekst að aflétta umsátrinu

Fram til vetursins 1942-43 átti Rauði herinn undir högg að sækja gegn herjum Þjóðverja og bandamanna þeirra. Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, lét því þarfir hersins ganga fyrir og nýtti flutningatæki og flugvélar í hans þágu. Eftir að ísleiðin um Ladógavatn opnaðist voru mestu hörmungar íbúanna afstaðnar og þegar tókst að opna landleiðina til þeirra í janúar 1943 þótti öruggt að nægar vistir næðu til borgarinnar til að tryggja að hún héldi velli. Eftir það náðu Sovétmenn frumkvæðinu á vígstöðvunum en einbeittu sér meira að því að vinna hernaðarlega mikilvægari landsvæði og brjóta á bak aftur þýska herinn.

Rauði herinn reyndi þó allan tímann ítrekað að aflétta umsátrinu um borgina en það tókst ekki fyrr en með aðgerð Neista sem hófst 12. janúar 1943. Þá sóttu hersafnaðir Sovétmanna til móts við hver annan meðfram suðurströnd Ladógavatns og tókst að rjúfa kirfilega víggirtar víglínur Þjóðverja. Herir Sovétmanna náðu saman 18. janúar og opnuðu þannig landleiðina til borgarinnar. Umsátrinu var þó ekki fyllilega aflétt því landræman til Leníngrad var mjó og birgðaleiðin til borgarinnar þurfti að hlykkjast um víglínuna sjálfa. Íbúar Leníngrad sátu enn undir stöðugum stórskotaliðsárásum Þjóðverja og það var ekki fyrr en ári síðar, í janúar 1944, sem Sovétmönnum tókst að hrekja Þjóðverja endanlega frá borgarmörkunum og aflétta umsátrinu.

Eftir stríðið var Leníngrad fyrst borga til að hljóta sovésku heiðursviðurkenninguna Hetjuborg fyrir afrek íbúa hennar í stríðinu.

Ákvarðanir Stalíns

Margir fræðimenn telja að Stalín hafi vísvitandi tafið fyrir björgun borgarinnar og komið í veg fyrir að íbúar hennar væru fluttir á brott. Hann hafi í raun verið feginn því að andstæðingarnir dræpu intelligentsiu (menntastétt) borgarinnar, sem var honum óþægur lár í þúfu. Margir íbúar Leníngrad sem komust á brott voru fluttir til fjarlægra hluta Sovétríkjanna og áttu aldrei afturkvæmt.

Því verður ekki neitað að brottflutningur borgarbúa hófst allt of seint, litlar sem engar tilraunir voru gerðar til að flytja matvæli loftleiðis og allar frásagnir af hörmungum borgarinnar voru þaggaðar niður. Ábyrgðin er að einhverju leyti einræðisherrans en hann á líka heiðurinn að því að sovéskum yfirvöldum tókst að lokum að koma birgðum til umsetinnar borgarinnar, flytja íbúa á brott, efla baráttuandann og að lokum bjarga Leníngrad. Vissulega hefði hann getað ákveðið að koma borgarbúum til hjálpar fyrr en hann gerði en Stalín verður víst seint sakaður um góðmennsku.

Dapurlegur lokaþáttur umsátursins um Leníngrad voru hreinsanir Stalíns í æðstu stjórn borgarinnar og Kommúnistaflokksins þar um 1950. Þeir höfðu notið töluverðs frjálsræðis við stjórnun borgarinnar á meðan hún var umsetin og eftir stríðið var þeim fagnað sem hetjum. Hinn aldraði einræðisherra leit þó á þá sem ógn og eftir að Andrei Zhdanov, valdamesti fulltrúi þeirra og næstur Stalín að völdum, lést lét Stalín til skarar skríða. Á meðal fórnarlambanna voru A. A. Kuznetsov, ritari miðstjórnar Kommúnistaflokksins, N. A. Voznesensky, varaformaður ráðherraráðsins, og M. I. Rodionov, forsætisráðherra Rússlands. Þetta voru valdamestu einstaklingar Sovétríkjanna sem einræðisherrann lét ryðja úr vegi í þessum síðustu hreinsunum sínum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni og hve margir bjuggu þar fyrir stríð?

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

19.8.2005

Spyrjandi

Kamilla Baldursdóttir, f. 1990
Ingibjörg María, f. 1990

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2005, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5209.

Skúli Sæland. (2005, 19. ágúst). Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5209

Skúli Sæland. „Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2005. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5209>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni?
Leníngrad var glæsilegasta borg Sovétríkjanna og ein sú fjölmennasta fyrir seinni heimsstyrjöldina, en talið er að borgarbúar hafi þá verið tæpar 3,2 milljónir. Í stríðinu sátu herir Þjóðverja og Finna um borgina í nærri 900 daga. Fyrstu mánuði umsátursins sultu borgarbúar heilu hungri og ef Sovétmönnum hefði ekki tekist að flytja þangað vistir um ísi lagt Ladógavatnið hefðu íbúunum verið allar bjargir bannaðar. Sennilega varð um 1,1 milljón borgarbúa hungurmorða á meðan umsátrinu stóð.

Ágrip af sögu borgarinnar

Borgin heitir nú St. Pétursborg líkt og hún hét upphaflega en hefur einnig gengið undir nöfnunum Petrograd (Pétursborg) (1914-1924) og Leníngrad (1924-1991). Hún er staðsett á Kirjálaeiðinu í norðvesturhluta Rússlands við ósa árinnar Nevu við Kirjálabotn. Hún var stofnuð af Pétri mikla árið 1703 og var höfuðborg ríkisins allt til 1918. Bylting Bolsévíka hófst þar 1918 en eftir að Moskva var gerð að höfuðborg sama ár þá fækkaði íbúum Petrograd, eins og borgin var þá nefnd, snarlega. Afleiðingin varð sú að árið 1920 bjó þar einungis um þriðjungur af þeim fjölda sem búið hafði í borginni fimm árum áður.

St. Pétursborg hefur oft verið nefnd Feneyjar norðursins vegna glæsileika síns og fjölda síkja sem liggja um borgina. Miðborgin er friðuð og á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin sjálf er fjórða stærsta borg Evrópu og í dag búa þar um 4,7 milljónir manna. Hún er nyrst allra borga sem hafa meira en eina milljón íbúa.

Þjóðverjar hefja umsátur um borgina

Innrás Þjóðverja inn í Sovétríkin sumarið 1941 náði til Leníngrad í lok ágúst og 8. september höfðu þeir náð að umkringja borgina. Þjóðverjar gerðu í fyrstu áhlaup að borginni en Sovétmönnum tókst að verjast því undir stjórn Georgy K. Zhukovs eins færasta herforinga síns. Eftir það voru bryndeildir Þjóðverja sendar suðaustur á bóginn til að reyna að umkringja og vinna höfuðborgina Moskvu. Þetta var að mörgu leyti skynsamleg ákvörðun frá hernaðarlegu sjónarmiði því bryndrekar henta illa til bardaga innan borga og Þjóðverjar þurftu að sameina krafta herja sinna til að gerlegt væri fyrir þá að sigra sovésku herina við Moskvu.

Hitler hét því hins vegar að svelta Leníngrad til uppgjafar og eyða borginni. Hvort hann hefði gert alvöru úr hótun sinni ef Þjóðverjar hefðu náð borginni á sitt vald er óvíst því Leníngrad var miðstöð samgangna og framleiðslu fyrir norðurhluta vígstöðvanna og því mjög mikilvægur fengur fyrir Þriðja ríkið. Hitler var hins vegar trúandi til að láta verða af hótun sinni af hugmyndafræðilegum ástæðum auk þess sem Sovétmenn voru reiðubúnir að eyðileggja allt sem gæti komið Þjóðverjum að notum þegar þeir hörfuðu undan. Því er ljóst að gríðarlegar hörmungar hefðu einnig beðið borgarbúa ef Leníngrad hefði fallið Hitler í skaut.


Leníngrad umsetin. Kortið sýnir framlínu Þjóðverja og Finna þann 6. desember 1941 skömmu áður en Rússar náðu aftur borginni Tikhvin (sjá síðar í svarinu). Til þess að átta sig betur á staðsetningu Leníngrad er hægt að skoða kort af stærra svæði með því að smella hér

Þegar talað er um umsátrið um Leníngrad er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að borgin var aldrei gersamlega umkringd óvinaherjum. Þetta stafaði af staðsetningu hennar á Kirjálaeiðinu milli Kirjálabotns og stöðuvatnsins Ladóga. Herir Þjóðverja sátu um borgina að sunnan og höfðu lengi vel á sínu valdi allt land milli Ladógavatns og Kirjálabotns. Fyrir norðan borgina var landleiðin sömuleiðis lokuð því Finnar gerðust bandamenn Þjóðverja og sóttu suður á bóginn að ánni Svir um 160 km norðaustan Leníngrad. Finnar áttu harma að hefna eftir að Sovétmenn réðust gegn þeim í Vetrarstríðinu 1939-40 og tóku af þeim stór og fjölmenn landsvæði. Þeir gripu nú aftur til vopna í Framhaldsstríðinu (e. Continuation war), eins og þeir kölluðu ófrið sinn við Sovétríkin, til að endurheimta glötuð landsvæði en þverneituðu Þjóðverjum um að sækja yfir landamærin sem verið höfðu í gildi fyrir Vetrarstríðið. Þetta létti nokkuð varnir Leníngrad og bjargaði jafnvel borginni þó vissulega hafi sókn Finna rofið landleiðina norður fyrir Ladógavatn.

Hörmungar borgarbúa

Umsátrið átti eftir að vara frá 8. september 1941 til 27. janúar 1944 eða tæplega 900 daga. Um tvær og hálf milljón manna lokaðist inni í borginni. Varabirgðir matar og eldsneytis voru sáralitlar, engin upphitun né lýsing, rennandi vatn né frárennsli. Um leið og sulturinn og sprengjuregn Þjóðverja hjuggu djúp skörð í raðir borgarbúa þurftu þeir að þola einn harðasta vetur í manna minnum.

Hungurvofan fór hræðilega með íbúa Leníngrad. Vegna lítilla matarbirgða var tekin upp ströng skömmtun matvæla sem náði lágmarki 20. nóvember 1941 þegar fólk í erfiðisvinnu fékk 250 gr af brauði á dag sem er um það bil helmingur af daglegri næringarþörf fullorðins manns. Aðrir fengu helmingi minna. Allt sem innihélt næringu var étið; dýrafóður, heimilisdýr, fuglar, rottur, mýs, lím og matarolía svo eitthvað sé nefnt. Í mörgum tilvikum var lagst á mannslík og jafnvel voru dæmi um að menn myrtu aðra sér til matar. Miklar sögusagnir (sem sennilega voru orðum auknar) gengu um stríðaldar mannætur innan borgarinnar og juku á skelfingu borgarbúa. Foreldrar þorðu því varla að líta af börnum sínum og hermenn, sem fengu stærsta matarskammtinn, gengu um vopnaðir í hópum til að verjast hugsanlegum árásum.



Mynd af blöðum minnisbókarinnar með mynd af Tönyu frá því fyrir stríð.

Nafn 11 ára stúlku, Tanyu Savichevu, er samofið umsáturssögu Leníngradborgar. Hún lokaðist inni í borginni ásamt fjórum af fimm systkinum. Móðir hennar, ekkjan Mariya Savicheva, gaf Tanyu minnisbók systur hennar Ninu eftir að sú síðarnefnda hafði verið flutt óvænt á brott úr borginni og fjölskyldan hélt hana látna. Á níu blaðsíðum minnisbókarinnar má sjá eftirfarandi:
Zhenya dó kl. 12:30 í nótt 28. desember 1941.

Babushka dó kl. 3, 25. janúar 1942.

Leka dó klukkan 5 að morgni 17. mars 1942.

Dedya Vasya dó klukkan tvö að nóttu 13. apríl 1942.

Dedya Lesa dó klukkan 4 síðdegis 10. maí 1942.

Mamma 7:30 f.h. [13. maí] 1942. Öll dóu. Tanya er ein eftir. Heimsstyrjöldin 1939-1945. Innrás í Sovétríkin, bls. 108.

Lengi vel var talið að Tanya hefði látist í Leníngrad en nú hefur komið í ljós að hún var flutt úr borginni haustið 1942 ásamt hópi annarra barna. Veikburða líkami hennar þoldi þó ekki afleiðingar umsátursins og hún lést ári síðar vegna þrálátrar blóðkreppusóttar sem hún hafði fengið á meðan á umsátrinu stóð. Minnisbókin fannst síðar og var lögð fram við stríðsglæparéttarhöldin í Nürnberg eftir stríðið. Hana er nú að finna á Söguminjasafni Leníngrads.

Vegur lífsins

Skæður veturinn reyndist þó líka bjargvættur því fyrir vikið lagði Ladógavatn fyrr en ella. Hægt var að flytja vistir til borgarinnar og borgarbúa á brott, um 300 km leið yfir ísi lagt vatnið og hófust þessir flutningar 20. nóvember 1941. Þessi flutningaleið hlaut nafngiftina „Vegur lífsins“ (r. Doroga zhizni) og áður en ísa leysti 24. apríl 1942 höfðu um 514 þúsund íbúar og 35 þúsund særðir hermenn auk iðnaðartækja verið flutt á brott úr borginni. Þegar mest lét fóru 400 þriggja tonna vörubílar yfir ísinn á dag. Þeir sættu hins vegar stöðugum loft- og stórskotaliðsárásum og oft komst einungis þriðjungur farartækjanna á áfangastað.

Þrátt fyrir mikil afföll flutningatækja gerði þetta þó gæfumuninn. Matur barst aðþrengdum borgarbúum og það, ásamt mannfellinum sem orðið hafði og brottflutningi fólks frá borginni, gerð það að verkum að lífið varð bærilegt fyrir þá sem eftir voru. Um sumarið 1942 var birgðum fleytt yfir vatnið á bátum og prömmum en ísleiðin opnaðist aftur 20. desember og þann vetur var einnig lögð 30 km löng lestarlína á ísnum.

Ísleiðin yfir Ladógavatn hefði þó dugað skammt ef Sovétmönnum hefði ekki tekist að ná borginni Tikhvin, sem er skammt suðaustan Ladógavatns, úr höndum Þjóðverja 9. desember. Hún var miðstöð samgangna á svæðinu og án hennar gátu Sovétmenn ekki flutt birgðir að vatninu.


Flutningabílar á Vegi lífsins eins og leiðin yfir ísi lagt Ladógavatnið var kölluð. Eftirlifendur minnast þó með biturleik hve berskjaldaðir þeir voru fyrir árásum Þjóðverja og viðurnefnið Vegur dauðans festist líka við leiðina.


Hugrekki umsetinna borgarbúanna vakti heimsathygli og varð táknrænt fyrir andspyrnu sovésku alþýðunnar gegn nasistum. Úthald verjenda Leníngrad varð mikilvægt áróðurstákn og má sérstaklega nefna sjöundu sinfóníu Dimitrís D. Shostakovítsj sem einnig er þekkt sem Leníngrad-sinfónían því hún var að miklu leyti samin í umsetinni borginni árið 1941 og frumflutt þar sumarið eftir.

Um þriðjungur borgarbúa lét lífið á meðan á umsátrinu stóð en annar þriðjungur íbúa var fluttur á brott. Nákvæmar tölur um látna eru óljósar en sovésk yfirvöld segja 670 þúsund hafa orðið hungurmorða. Aðrar óháðar rannsóknir telja flestar að 1,1 milljón manna hafi látist í Leníngrad á meðan umsátrinu stóð. Til samanburðar má nefna að samanlagt mannfall Breta og Bandaríkjamanna var tæplega 800 þúsund manns í öllu stríðinu.

Sovétmönnum tekst að aflétta umsátrinu

Fram til vetursins 1942-43 átti Rauði herinn undir högg að sækja gegn herjum Þjóðverja og bandamanna þeirra. Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, lét því þarfir hersins ganga fyrir og nýtti flutningatæki og flugvélar í hans þágu. Eftir að ísleiðin um Ladógavatn opnaðist voru mestu hörmungar íbúanna afstaðnar og þegar tókst að opna landleiðina til þeirra í janúar 1943 þótti öruggt að nægar vistir næðu til borgarinnar til að tryggja að hún héldi velli. Eftir það náðu Sovétmenn frumkvæðinu á vígstöðvunum en einbeittu sér meira að því að vinna hernaðarlega mikilvægari landsvæði og brjóta á bak aftur þýska herinn.

Rauði herinn reyndi þó allan tímann ítrekað að aflétta umsátrinu um borgina en það tókst ekki fyrr en með aðgerð Neista sem hófst 12. janúar 1943. Þá sóttu hersafnaðir Sovétmanna til móts við hver annan meðfram suðurströnd Ladógavatns og tókst að rjúfa kirfilega víggirtar víglínur Þjóðverja. Herir Sovétmanna náðu saman 18. janúar og opnuðu þannig landleiðina til borgarinnar. Umsátrinu var þó ekki fyllilega aflétt því landræman til Leníngrad var mjó og birgðaleiðin til borgarinnar þurfti að hlykkjast um víglínuna sjálfa. Íbúar Leníngrad sátu enn undir stöðugum stórskotaliðsárásum Þjóðverja og það var ekki fyrr en ári síðar, í janúar 1944, sem Sovétmönnum tókst að hrekja Þjóðverja endanlega frá borgarmörkunum og aflétta umsátrinu.

Eftir stríðið var Leníngrad fyrst borga til að hljóta sovésku heiðursviðurkenninguna Hetjuborg fyrir afrek íbúa hennar í stríðinu.

Ákvarðanir Stalíns

Margir fræðimenn telja að Stalín hafi vísvitandi tafið fyrir björgun borgarinnar og komið í veg fyrir að íbúar hennar væru fluttir á brott. Hann hafi í raun verið feginn því að andstæðingarnir dræpu intelligentsiu (menntastétt) borgarinnar, sem var honum óþægur lár í þúfu. Margir íbúar Leníngrad sem komust á brott voru fluttir til fjarlægra hluta Sovétríkjanna og áttu aldrei afturkvæmt.

Því verður ekki neitað að brottflutningur borgarbúa hófst allt of seint, litlar sem engar tilraunir voru gerðar til að flytja matvæli loftleiðis og allar frásagnir af hörmungum borgarinnar voru þaggaðar niður. Ábyrgðin er að einhverju leyti einræðisherrans en hann á líka heiðurinn að því að sovéskum yfirvöldum tókst að lokum að koma birgðum til umsetinnar borgarinnar, flytja íbúa á brott, efla baráttuandann og að lokum bjarga Leníngrad. Vissulega hefði hann getað ákveðið að koma borgarbúum til hjálpar fyrr en hann gerði en Stalín verður víst seint sakaður um góðmennsku.

Dapurlegur lokaþáttur umsátursins um Leníngrad voru hreinsanir Stalíns í æðstu stjórn borgarinnar og Kommúnistaflokksins þar um 1950. Þeir höfðu notið töluverðs frjálsræðis við stjórnun borgarinnar á meðan hún var umsetin og eftir stríðið var þeim fagnað sem hetjum. Hinn aldraði einræðisherra leit þó á þá sem ógn og eftir að Andrei Zhdanov, valdamesti fulltrúi þeirra og næstur Stalín að völdum, lést lét Stalín til skarar skríða. Á meðal fórnarlambanna voru A. A. Kuznetsov, ritari miðstjórnar Kommúnistaflokksins, N. A. Voznesensky, varaformaður ráðherraráðsins, og M. I. Rodionov, forsætisráðherra Rússlands. Þetta voru valdamestu einstaklingar Sovétríkjanna sem einræðisherrann lét ryðja úr vegi í þessum síðustu hreinsunum sínum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvernig kom Leníngrad við sögu í seinni heimsstyrjöldinni og hve margir bjuggu þar fyrir stríð?
...