Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík

Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

Spurningin er gildishlaðin og svarar sér eiginlega sjálf. Það er útilokað að sjá í loftárásinni einhvern tilgang.

Þegar loftárásin var gerð vorið 1945 var Þýskaland í reynd gjörsigrað. Sovéskar hersveitir nálguðust Dresden og augljóst var að þær næðu borginni á vald sitt eftir nokkra daga.

Opinbera skýringin á loftárásinni (sem breskar og bandarískar flugvélar áttu mestan þátt í) var sú að hún ætti að auðvelda sovéska hernum sóknina og yfirtöku borgarinnar. Um þessa skýringu voru allir Bandamenn sáttir framan af.

Þegar kalda stríðið var gengið í garð breyttu Sovétmenn en þó einkum þýskir kommúnistar skýringunni og sögðu loftárásina hafa verið svívirðilegt athæfi breskra og bandarískra stjórnvalda. Með henni hefðu fyrst og fremst verkamannahverfi Dresdenar verið lögð í rúst; árásin hefði ekkert hjálpað Rauða hernum heldur eyðilagt borg sem vitað var að lenti á hernámssvæði Sovétríkjanna, með öðrum orðum að með loftárásinni væri verið að veikja stöðu Sovétríkjanna og framtíðarstyrk þýskra kommúnista í Þýskalandi.


Svona leit Dresden út eftir loftárás Bandamanna.

En öll rök virðast hafa verið leyfileg í kalda stríðinu. Sennilega var loftárásin á Dresden þáttur í algengu og sígildu stríðsbrjálæði. Loftárásir eru „hentugar“ fyrir þann sem árásina gerir; flugvélarnar geta gert mikinn skaða án þess að flugmennirnir séu í mjög mikilli hættu, allavega miðað við þá hættu er hermenn sem berjast á jörðu niðri mega búa við. Oftast er loftárásum fyrst og fremst beint gegn eigum óbreyttra borgara og öðrum borgaralegum skotmörkum og beinn hernaðartilgangur þeirra er því lítill. Það virðist hins vegar vera trú stjórnvalda, svo og fjölmiðla og þar með almennings, að loftárásir veiki siðferðisþrek andstæðingsins og traust hans á eigin stjórnvöldum. En þetta er gagnstætt allri reynslu. Miklar loftárásir Þjóðverja á England 1940 styrktu samstöðu Englendinga gegn Þjóðverjum og ýttu undir hefndarhug. Stöðugar loftárásir enskra flugvéla á þýskar íbúðabyggðir síðar í heimsstyrjöldinni virðast raunar hafa verið dulbúin hefnd að miklu leyti. En sennilega hefur ekkert styrkt stöðu nasista meðal þýsku þjóðarinnar eins mikið og loftárásir þessar.

Leyfi hafði verið gefið fyrr í stríðinu til ótakmarkaðra loftárása á Þýskaland og þýsk hernaðaryfirvöld gáfu út svipað leyfi.

Brjálæði loftárása í styrjöld má vel lýsa með eftirfarandi sögu sem skjalaverðir í Hamborg sögðu mér. Ég var þá að leita að skjölum um ákveðna verslun Altonumanna á Íslandi á seinni hluta 18. aldar en engin skjöl fundust. Saga þessi hefur hvergi verið skrifuð því að saga loftárásanna er enn þá eiginlega bannhelg í Þýskalandi.

Um svipað leyti og Dresden var lögð í rúst var bresk herflugvél á sveimi yfir Altona, sem var orðinn hluti Hamborgar. Allar loftvarnabyssur voru horfnar því að þýskar hersveitir voru svo til flúnar frá borginni en breskar hersveitir voru skammt undan og vitað að þær myndu innan skamms hertaka borgina. Herflugmaðurinn horfði yfir borgina og við blasti fögur sjón frá sjónarhóli sprengjuflugmanns; öll sjáanleg hús voru sundurskotin. Nema við eina götu stóð eitt hús með öllu óskemmt. Af einskærri fullkomnunaráráttu sá flugmaðurinn að við svo búið mátti ekki standa. Hann sprengdi þetta eina hús sundur og saman. Þar sprakk skjalasafn Altonaborgar með skjölum allt frá 17. öld.

Það er auðvitað ekki hægt að finna neinn hernaðartilgang í slíkri athöfn fremur en í lofthernaði yfirleitt. Hér er á ferðinni afvegaleidd tæknihyggja í bland við hefndarhug. Sennilega má með slíkri sálfræði skýra loftárásina á Dresden vorið 1945 þegar hundruð þúsunda óbreyttra borgara létu lífið.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.9.2000

Spyrjandi

Þorvaldur S. Björnsson

Tilvísun

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?“ Vísindavefurinn, 18. september 2000. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=918.

Gísli Gunnarsson (1938-2020). (2000, 18. september). Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=918

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?“ Vísindavefurinn. 18. sep. 2000. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=918>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?
Spurningin er gildishlaðin og svarar sér eiginlega sjálf. Það er útilokað að sjá í loftárásinni einhvern tilgang.

Þegar loftárásin var gerð vorið 1945 var Þýskaland í reynd gjörsigrað. Sovéskar hersveitir nálguðust Dresden og augljóst var að þær næðu borginni á vald sitt eftir nokkra daga.

Opinbera skýringin á loftárásinni (sem breskar og bandarískar flugvélar áttu mestan þátt í) var sú að hún ætti að auðvelda sovéska hernum sóknina og yfirtöku borgarinnar. Um þessa skýringu voru allir Bandamenn sáttir framan af.

Þegar kalda stríðið var gengið í garð breyttu Sovétmenn en þó einkum þýskir kommúnistar skýringunni og sögðu loftárásina hafa verið svívirðilegt athæfi breskra og bandarískra stjórnvalda. Með henni hefðu fyrst og fremst verkamannahverfi Dresdenar verið lögð í rúst; árásin hefði ekkert hjálpað Rauða hernum heldur eyðilagt borg sem vitað var að lenti á hernámssvæði Sovétríkjanna, með öðrum orðum að með loftárásinni væri verið að veikja stöðu Sovétríkjanna og framtíðarstyrk þýskra kommúnista í Þýskalandi.


Svona leit Dresden út eftir loftárás Bandamanna.

En öll rök virðast hafa verið leyfileg í kalda stríðinu. Sennilega var loftárásin á Dresden þáttur í algengu og sígildu stríðsbrjálæði. Loftárásir eru „hentugar“ fyrir þann sem árásina gerir; flugvélarnar geta gert mikinn skaða án þess að flugmennirnir séu í mjög mikilli hættu, allavega miðað við þá hættu er hermenn sem berjast á jörðu niðri mega búa við. Oftast er loftárásum fyrst og fremst beint gegn eigum óbreyttra borgara og öðrum borgaralegum skotmörkum og beinn hernaðartilgangur þeirra er því lítill. Það virðist hins vegar vera trú stjórnvalda, svo og fjölmiðla og þar með almennings, að loftárásir veiki siðferðisþrek andstæðingsins og traust hans á eigin stjórnvöldum. En þetta er gagnstætt allri reynslu. Miklar loftárásir Þjóðverja á England 1940 styrktu samstöðu Englendinga gegn Þjóðverjum og ýttu undir hefndarhug. Stöðugar loftárásir enskra flugvéla á þýskar íbúðabyggðir síðar í heimsstyrjöldinni virðast raunar hafa verið dulbúin hefnd að miklu leyti. En sennilega hefur ekkert styrkt stöðu nasista meðal þýsku þjóðarinnar eins mikið og loftárásir þessar.

Leyfi hafði verið gefið fyrr í stríðinu til ótakmarkaðra loftárása á Þýskaland og þýsk hernaðaryfirvöld gáfu út svipað leyfi.

Brjálæði loftárása í styrjöld má vel lýsa með eftirfarandi sögu sem skjalaverðir í Hamborg sögðu mér. Ég var þá að leita að skjölum um ákveðna verslun Altonumanna á Íslandi á seinni hluta 18. aldar en engin skjöl fundust. Saga þessi hefur hvergi verið skrifuð því að saga loftárásanna er enn þá eiginlega bannhelg í Þýskalandi.

Um svipað leyti og Dresden var lögð í rúst var bresk herflugvél á sveimi yfir Altona, sem var orðinn hluti Hamborgar. Allar loftvarnabyssur voru horfnar því að þýskar hersveitir voru svo til flúnar frá borginni en breskar hersveitir voru skammt undan og vitað að þær myndu innan skamms hertaka borgina. Herflugmaðurinn horfði yfir borgina og við blasti fögur sjón frá sjónarhóli sprengjuflugmanns; öll sjáanleg hús voru sundurskotin. Nema við eina götu stóð eitt hús með öllu óskemmt. Af einskærri fullkomnunaráráttu sá flugmaðurinn að við svo búið mátti ekki standa. Hann sprengdi þetta eina hús sundur og saman. Þar sprakk skjalasafn Altonaborgar með skjölum allt frá 17. öld.

Það er auðvitað ekki hægt að finna neinn hernaðartilgang í slíkri athöfn fremur en í lofthernaði yfirleitt. Hér er á ferðinni afvegaleidd tæknihyggja í bland við hefndarhug. Sennilega má með slíkri sálfræði skýra loftárásina á Dresden vorið 1945 þegar hundruð þúsunda óbreyttra borgara létu lífið.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...