Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því?

Valur Freyr Steinarsson

Margar spurningar hafa borist Vísindavefnum um kalda stríðið og vígbúnaðarkapphlaupið sem því fylgdi. Hér er reynt að svara þeim Kristborgu Ágústsdóttur, Davíð Sigurðarsyni, Thelmu Hrönn Sigurdórsdóttur, Einari Hafliðasyni, Ernu Valdísi Jónsdóttur, Söndru Guðmundsdóttur, Berglindi Þorsteinsdóttur, Jarþrúði Hólmdísi Júlíusdóttur, Tryggva Rafnssyni og Hafdísi Huld Björnsdóttur.Inngangur
Í stuttu máli er hægt að segja að kalda stríðið hafði byrjað þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945. Valdakerfinu sem mótaðist í Napoleónstyrjöldunum hafði hnignað mjög á fyrri helmingi 20. aldar og eftir gjörsigur bandamanna á Öxulveldunum var ljóst að það var nú endanlega hrunið. Mörg ríki sem höfðu haft sterka stöðu í valdakerfinu, voru nú næsta valdalaus, eins og Þýskaland og Japan.

Þó svo að Bandaríkin og Sovétríkin yrðu öflugustu ríki heims eftir síðari heimsstyrjöld, var mikill styrkleikamunur á þeim. Bandaríkin stóðu uppi sem langvoldugasta ríki heims. Þau stóðu undir helmingi heimsframleiðslunnar efnahagslega, höfðu misst hlutfallslega fáa hermenn í stríðinu og ekki hafði verið barist á meginlandi Norður-Ameríku. Auk þess bjuggu Bandaríkjamenn einir þjóða yfir kjarnorkusprengjunni.

Sovétríkin áttu fjölmennasta her heimsins, sem taldi 12 milljónir manna, og þeir höfðu hertekið megnið af Austur-Evrópu. En Sovétmenn höfðu einnig þjáðst þjóða mest í stríðinu, misst varlega áætlað um 27 milljónir manna, auk þess sem efnahagslíf landsins var í rúst. Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, vildi fá háar stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum og yfirráð yfir stórum landsvæðum í Austur-Evrópu. Risaveldin tvö höfðu í sameiningu unnið sigur á Þýskalandi Hitlers, en samvinna þeirra í stríðinu var tilkomin af nauðsyn. Hugmyndafræðilega voru Bandaríkin og Sovétríkin andstæður og hvort ríki um sig taldi sig í raun hafa fram að færa rétta hugmyndafræði, rétta leið til lífshamingju og rétt þjóðfélagsskipulag.


Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Jósef Stalín

á Jaltaráðstefnunni í febrúar 1945.


Jaltaráðstefnan
Fyrsta vísbending þess að risaveldin tvö myndu í framtíðinni takast á, frekar en að vinna saman, kom fram á Jaltaráðstefnunni sem fram fór í byrjun febrúar 1945 í höll Nikulásar fyrrverandi Rússakeisara á Krímskaga við Svartahaf. Stríðinu var enn ekki lokið en ljóst var að því myndi ljúka innan tíðar og því nauðsynlegt fyrir leiðtoga bandamanna að ræða örlög Þýskalands og í raun allrar Evrópu. Í Jaltaborg samþykktu Bretar og Bandaríkjamenn að Sovétríkin fengju hluta af Póllandi og að Þjóðverjar yrðu að greiða stríðsskaðabætur, en upphæðin var óákveðin. Auk þess var samið um stofnun Sameinuðu þjóðanna.

Margir töldu að á Jaltaráðstefnunni hefðu Bandaríkjamenn og Bretar gefið Sovétmönnum yfirráð yfir allri Austur-Evrópu. Staðreyndin var hins vegar sú að þegar ráðstefnan fór fram, var sovéski herinn búinn að hertaka stóran hluta af Austur-Evrópu. Segja má að á Jalta hafi þjóðirnar samþykkt yfirráð hverrar annarrar á því landssvæði sem þær höfðu hertekið og skiptingu Þýskalands upp í fjögur hernámssvæði. „Járntjaldið“ svokallaða reis síðan nokkurn veginn eftir þeirri skiptingu.

Eitt mesta deilumál milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna strax eftir stríð var hver örlög Þýskalands skyldu verða. Stalín vildi að þýsku þjóðinni yrði gert að greiða háar stríðsskaðabætur og þannig bundið um hnútana að Þjóðverjar gætu aldrei aftur ógnað Sovétríkjunum. Bandaríkjamenn vildu hins vegar koma hjólum atvinnulífsins af stað í Þýskalandi, því þeir töldu að öflugt efnahagslíf í Þýskalandi væri nauðsyn fyrir endurreisn efnahagslífsins í Evrópu allri.

Járntjaldið

Þegar Harry S. Truman tók við forsetaembættinu eftir andlát Franklins D. Roosevelts 12. apríl 1945, varð stefna bandarískra stjórnvalda í garð Sovétríkjanna mun harðari. Winston Churchill, sem hafði misst völdin í Bretlandi árið 1945 eftir að hafa sameinað bresku þjóðina gegn nasismanum í seinni heimsstyrjöldinni, talaði í mars 1946 fyrstur manna um járntjaldið og nauðsyn þess að veita kommúnisma viðnám. Truman neitaði Sovétmönnum um leyfi til þess að taka niður þýskar verksmiðjur í Vestur-Þýskalandi og flytja til Sovétríkjanna sem hluta af stríðsskaðabótum Þjóðverja. Á sama tíma studdu Bandaríkjamenn og Bretar ríkisstjórn Grikklands í baráttu sinni við kommúnista í grísku borgarastyrjöldinni 1946-1949.

Hin nýja hugmyndafræði Bandaríkjamanna grundvallaðist á Truman-kenningunni um harða andstöðu við ágangi kommúnista, hvar sem þeir sóttust eftir áhrifum. Truman-kenningin byggði á hugmyndum sem George Kennan, fræðimaður og starfsmaður bandarísku utanríkisþjónustunnar, hafði varpað fram um að Bandaríkjunum bæri að viðhalda stöðugri baráttu gegn kommúnisma með því að „halda honum í skefjum“ (e. contain) með öllum ráðum, hvar sem hann bærði á sér í heiminum. En Sovétmenn höfðu stutt kommúnista til valda á sínum áhrifasvæðum í Austur-Evrópu og óttuðust Bandaríkjamenn að þeir myndu reyna að komast til áhrifa í Vestur-Evrópu og víðar.

Hvort sá ótti, að Sovétmenn myndu sækjast eftir áhrifum annars staðar en í Austur-Evrópu var á rökum reistur, hefur verið álitamál meðal fræðimanna. Margir hafa bent á að Sovétmenn hafi dregið herlið sitt til baka frá stöðum sem þeir töldu ekki vera hernaðarlega mikilvægir fyrir öryggi landsins, til dæmis í Norður-Íran, og þeir sættu sig við borgaralega stjórn í Finnlandi, en finnska stjórnin hélt vinalegu sambandi við Sovétríkin með því að vera hlutlaus á alþjóðavettvangi.Hans Conrad Schumann, austur-þýskur landamæravörður, flýr yfir til Vestur-Berlínar árið 1961. Stuttu síðar er Berlínarmúrinn reistur.

En Bandaríkjamenn ætluðu sér ekki bara að stöðva framrás kommúnisma, heldur einnig að hraða uppbyggingu Evrópu. Í því skyni stóðu þeir fyrir Marshallaðstoðinni sem hófst árið 1947, en henni var ætlað að styrkja efnahag álfunnar. Margir fræðimenn hafa kallað Marshallaðstoðina efnahagshluta „containment” stefnunnar, og telja að hún hafi aukið mjög andúð Sovétmanna á Bandaríkjunum og hafi haft þau áhrif að kalda stríðið hafi magnast.

Sovétmenn svöruðu með því að koma á stalínískum stjórnarháttum í Austur-Evrópu. Ríkisstjórn Ungverjalands var þannig til dæmis „hreinsuð“ og þar komið fyrir mönnum sem hallir voru undir Sovétríkin, og í febrúar 1948 stóðu kommúnistar í Tékkóslóvakíu fyrir valdráni með hjálp sovéska hersins. Nú voru öll ríki Austur-Evrópu undir járnhæl Sovétríkjanna, ef frá er talin Júgóslavía sem kommúnistinn Títo stjórnaði eftir sínum vilja, óháður Moskvu.

Hluti af uppbyggingu Vestur-Evrópu var að efla efnahagslíf Þýskalands og þegar Bandaríkjamenn beittu sér fyrir því að gefa út nýjan gjaldmiðil fyrir hernumdu svæðin í Vestur-Þýskalandi, brugðust Sovétríkin við með því að loka fyrir alla umferð bíla og lesta til Vestur-Berlínar. Berlín var staðsett innan sovéska hernámssvæðisins, en borginni sjálfri var skipt upp í fjögur hernámssvæði og höfðu Vesturlöndin yfirráð yfir tæpum helmingi borgarinnar.

Lokun Berlínar (e. The Berlin Blockade) hófst 24. júní 1948 og stóð í tæpt ár og sáu Vesturveldin íbúum Vestur-Berlínar fyrir nauðsynjum með flugi („loftbrúin“ fræga). Þegar mest lét var mál manna að ein flugvél lenti í Vestur-Berlín á hverri mínútu með vistir. Að lokum opnuðu Sovétmenn aftur fyrir flutninga til Berlínar en augljóst var að Þýskalandi eða Berlín yrði ekki stjórnað sameiginlega af gömlu bandalagsþjóðunum. Í maí 1949 var síðan Sambandslýðveldið Þýskaland (Vestur-Þýskaland) formlega stofnað og ári seinna varð Þýska alþýðulýðveldið (Austur-Þýskaland) að veruleika og þar með skipting Evrópu með járntjaldinu fyrrnefnda.

Þriðji heimurinn

Þótt Evrópa hafi í upphafi skipt mestu máli í augum risaveldanna, má segja að þriðji heimurinn hafi orðið að vígvelli kalda stríðsins, enda ríkti friður og stöðugleiki að mestu leyti í Evrópu frá stríðslokum og fram að falli Sovétríkjanna. Hins vegar sóttust risaveldin eftir áhrifum í þriðja heiminum og studdu þær oftast gagnstæðar fylkingar, vopnuðu byltingahópa og stóðu fyrir valdaránum. Þriðji heimurinn varð því að leikvelli stórveldanna, enda var það þar sem þau gátu sóst eftir nýjum áhrifum.

Mörg ríki áttuðu sig á þessum leik og tóku þátt í honum með því að biðla til stórveldanna um aðstoð. Kalda stríðið gerði mörgum ríkisstjórnum kleift að afla sér fjármagns og nýrrar tækni, en fyrst og fremst vopna, til þess að berjast gegn óvinum sínum bæði innanlands sem utan. Á meðan uppbygging Evrópu fór fram beggja vegna járntjaldsins, stóðu risaveldin bakvið fjölmörg átök og styrjaldir í þriðja heiminum.

Fólk vandist því fljótt að hugsa um alþjóðastjórnmál út frá hugmyndinni um að kalt stríð væri í gangi milli risaveldanna. En sú hlið kalda stríðsins sem vakti mestan ótta hjá meginþorra almennings, var hið svonefnda vígbúnaðarkapphlaup. Öllum var ljóst eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945, að hið nýja vopn gæti umbreytt öllum hernaði og allri hernaðarhugsun.Mynd tekin á vegum bandaríska hersins af miðborg Hiroshima í október 1945, þremur mánuðum eftir að kjarnorkusprengju var varpað á borgina.

Vígbúnaðarkapphlaupið og sagnfræðin
Bandaríkjamenn höfðu í raun yfirburðastöðu hernaðarlega, eins lengi og þeir einir réðu yfir kjarnorkusprengjum. Það breyttist í júlí 1949 þegar Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju og kjarnorkukapphlaupið milli risaveldanna hófst. Hugmyndafræði kapphlaupsins byggði á því að hræða andstæðinginn frá því að gera árás með því að hóta honum algerri eyðingu í gagnárás þar sem notaðar yrðu kjarnorkusprengjur (fælingarstefnan). Þessi hugsun fékk það kaldhæðnislega heiti MAD, sem er skammstöfun á enska heitinu „Mutal Assured Destruction“ („gagnkvæm gereyðilegging“). Því lögðu risaveldin mikla áherslu á að framleiða eins mikið af kjarnorkusprengjum og við var komið, og þar með tryggja að þau gætu brugðist við árás. Aðrar þjóðir þróuðu einnig kjarnorkuvopn, svo sem Bretar, Frakkar og Kínverjar en risaveldin tvö báru höfuð og herðar yfir öll önnur ríki á sviði kjarnorkuvopnaframleiðslu.

Í sagnaritun á Vesturlöndum má finna ákveðna þróun í umræðunni um hverjum kalda stríðið hafi verið að kenna. Í upphafi litu margir vestrænir fræðimenn svo á að Bandaríkjamenn hefðu í raun einungis verið að bregðast við útþenslustefnu Sovétríkjanna og því hafi kalda stríðið verið Sovétríkjunum að kenna. Þessi kenning hefur fengið nafnið rétttrúnaðarkenningin (e. orthodoxy) og byggir á því að hin svokallaða „containment“ hugmyndafræði hafi verið höfð að leiðarljósi í Bandaríkjum, það er að Bandaríkjamenn hafi eingöngu verið að bregðast við áróðri og útþenslu sovéskra hugmynda en ekki sjálfir seilst til áhrifa að fyrra bragði í heiminum.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fóru margir fræðimenn að gagnrýna rétttrúnaðarkenninguna og töldu að efnahagslegur og hernaðarlegur máttur Bandaríkjanna hefði ógnað Sovétríkjunum svo mikið að þau hefðu ekki bara viljað ná völdum í Austur-Evrópu, heldur einnig í þriðja heimum, með það að markmiði að verja sig og hagsmuni sína. Því væri kalda stríðið afleiðing heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, sem Sovétríkin voru að reyna að verjast. Þessi kenning hefur hlotið nafnið endurskoðunarhyggja (e. revisionism).

Segja má að þessar tvær kenningar séu öfgarnar í báðar áttir þegar kemur að orsökum kalda stríðsins, og á áttunda áratug síðustu aldar kom fram ný kenning, svokölluð nýmyndunarhyggja (e. post-revisionism) sem reyndi að brúa bilið milli rétttrúnaðarsinna og endurskoðunarsinna.

Nýmyndunarsinnar vilja ekki einblína á sekt eins aðila, það þarf jú tvo til þess að heyja stríð. Þeir leggja hins vegar mikla áherslu á að Stalín hafi nýtt sér stöðu sína eftir stríð til þess að öðlast áhrif í Austur-Evrópu. Vestur-Evrópa hafi hins vegar beðið Bandaríkjamenn um að koma að uppbyggingu efnahagslífs álfunnar. Þeir taka hins vegar undir það sjónarmið, að Bandaríkjamenn hafi verið mun virkari í utanríkisstefnu sinni, en réttrúnaðarsinnar héldu fram.

Í raun er því enn þá óljóst hvor aðilinn, Bandaríkin eða Sovétríkin, hafi átt meiri þátt í kalda stríðinu. Fræðimenn hafa um það deilt allar götur síðan í lok 5. áratugar síðustu aldar. Bent hefur verið á að kalda stríðið, sem sumir fræðimenn hafa nefnt „langa friðinn” eða „langa vopnahléið”, hafi í raun komið í veg fyrir að hið andlega stríðsástand sem virtist vera til staðar hjá risaveldunum, yrði að heitu stríði. Um sögulega nauðsyn þess að fara í stríð, hvort sem það er kalt eða heit stríð, verður aftur á móti alltaf deilt.

Heimildir, frekara lesefni og myndir:
 • Crockatt, Richard: The Fifty Years War. The United States and the Soviet Union in World Politics, 1941-1991. London, 1996.
 • Gaddis, John Lewis: The Long Peace. Inquiries into the History of the Cold War. Oxford 1987.
 • Leffler, Melvyn: A Preponderance of Power. Stanford, 1992.
 • Lundestad, Geir: East, West, North, South. Major Developments in International Politics since 1945. Oxford, 1999.
 • The Origins of the Cold War. An International History. Ritstj. Melvyn P. Leffler og David S. Painter. London, 1994.
 • Painter, David S.: The Cold War. An International History. London, 1999.
 • Thomas, Hugh: Armed Truce. The Beginnings of the Cold War 1945-1946. New York, 1986.
 • Wikipedia.com - Jaltaráðstefnan
 • Ludgerusschule Heiden
 • Hiroshima Peace Site. Sótt 4.3.2004.

Höfundur

Útgáfudagur

4.3.2004

Spyrjandi

Kristborg Ágústsdóttir, f. 1987
Davíð Sigurðarson
Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, f. 1984

Tilvísun

Valur Freyr Steinarsson. „Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því?“ Vísindavefurinn, 4. mars 2004, sótt 23. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4038.

Valur Freyr Steinarsson. (2004, 4. mars). Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4038

Valur Freyr Steinarsson. „Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því?“ Vísindavefurinn. 4. mar. 2004. Vefsíða. 23. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4038>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því?
Margar spurningar hafa borist Vísindavefnum um kalda stríðið og vígbúnaðarkapphlaupið sem því fylgdi. Hér er reynt að svara þeim Kristborgu Ágústsdóttur, Davíð Sigurðarsyni, Thelmu Hrönn Sigurdórsdóttur, Einari Hafliðasyni, Ernu Valdísi Jónsdóttur, Söndru Guðmundsdóttur, Berglindi Þorsteinsdóttur, Jarþrúði Hólmdísi Júlíusdóttur, Tryggva Rafnssyni og Hafdísi Huld Björnsdóttur.Inngangur
Í stuttu máli er hægt að segja að kalda stríðið hafði byrjað þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945. Valdakerfinu sem mótaðist í Napoleónstyrjöldunum hafði hnignað mjög á fyrri helmingi 20. aldar og eftir gjörsigur bandamanna á Öxulveldunum var ljóst að það var nú endanlega hrunið. Mörg ríki sem höfðu haft sterka stöðu í valdakerfinu, voru nú næsta valdalaus, eins og Þýskaland og Japan.

Þó svo að Bandaríkin og Sovétríkin yrðu öflugustu ríki heims eftir síðari heimsstyrjöld, var mikill styrkleikamunur á þeim. Bandaríkin stóðu uppi sem langvoldugasta ríki heims. Þau stóðu undir helmingi heimsframleiðslunnar efnahagslega, höfðu misst hlutfallslega fáa hermenn í stríðinu og ekki hafði verið barist á meginlandi Norður-Ameríku. Auk þess bjuggu Bandaríkjamenn einir þjóða yfir kjarnorkusprengjunni.

Sovétríkin áttu fjölmennasta her heimsins, sem taldi 12 milljónir manna, og þeir höfðu hertekið megnið af Austur-Evrópu. En Sovétmenn höfðu einnig þjáðst þjóða mest í stríðinu, misst varlega áætlað um 27 milljónir manna, auk þess sem efnahagslíf landsins var í rúst. Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, vildi fá háar stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum og yfirráð yfir stórum landsvæðum í Austur-Evrópu. Risaveldin tvö höfðu í sameiningu unnið sigur á Þýskalandi Hitlers, en samvinna þeirra í stríðinu var tilkomin af nauðsyn. Hugmyndafræðilega voru Bandaríkin og Sovétríkin andstæður og hvort ríki um sig taldi sig í raun hafa fram að færa rétta hugmyndafræði, rétta leið til lífshamingju og rétt þjóðfélagsskipulag.


Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Jósef Stalín

á Jaltaráðstefnunni í febrúar 1945.


Jaltaráðstefnan
Fyrsta vísbending þess að risaveldin tvö myndu í framtíðinni takast á, frekar en að vinna saman, kom fram á Jaltaráðstefnunni sem fram fór í byrjun febrúar 1945 í höll Nikulásar fyrrverandi Rússakeisara á Krímskaga við Svartahaf. Stríðinu var enn ekki lokið en ljóst var að því myndi ljúka innan tíðar og því nauðsynlegt fyrir leiðtoga bandamanna að ræða örlög Þýskalands og í raun allrar Evrópu. Í Jaltaborg samþykktu Bretar og Bandaríkjamenn að Sovétríkin fengju hluta af Póllandi og að Þjóðverjar yrðu að greiða stríðsskaðabætur, en upphæðin var óákveðin. Auk þess var samið um stofnun Sameinuðu þjóðanna.

Margir töldu að á Jaltaráðstefnunni hefðu Bandaríkjamenn og Bretar gefið Sovétmönnum yfirráð yfir allri Austur-Evrópu. Staðreyndin var hins vegar sú að þegar ráðstefnan fór fram, var sovéski herinn búinn að hertaka stóran hluta af Austur-Evrópu. Segja má að á Jalta hafi þjóðirnar samþykkt yfirráð hverrar annarrar á því landssvæði sem þær höfðu hertekið og skiptingu Þýskalands upp í fjögur hernámssvæði. „Járntjaldið“ svokallaða reis síðan nokkurn veginn eftir þeirri skiptingu.

Eitt mesta deilumál milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna strax eftir stríð var hver örlög Þýskalands skyldu verða. Stalín vildi að þýsku þjóðinni yrði gert að greiða háar stríðsskaðabætur og þannig bundið um hnútana að Þjóðverjar gætu aldrei aftur ógnað Sovétríkjunum. Bandaríkjamenn vildu hins vegar koma hjólum atvinnulífsins af stað í Þýskalandi, því þeir töldu að öflugt efnahagslíf í Þýskalandi væri nauðsyn fyrir endurreisn efnahagslífsins í Evrópu allri.

Járntjaldið

Þegar Harry S. Truman tók við forsetaembættinu eftir andlát Franklins D. Roosevelts 12. apríl 1945, varð stefna bandarískra stjórnvalda í garð Sovétríkjanna mun harðari. Winston Churchill, sem hafði misst völdin í Bretlandi árið 1945 eftir að hafa sameinað bresku þjóðina gegn nasismanum í seinni heimsstyrjöldinni, talaði í mars 1946 fyrstur manna um járntjaldið og nauðsyn þess að veita kommúnisma viðnám. Truman neitaði Sovétmönnum um leyfi til þess að taka niður þýskar verksmiðjur í Vestur-Þýskalandi og flytja til Sovétríkjanna sem hluta af stríðsskaðabótum Þjóðverja. Á sama tíma studdu Bandaríkjamenn og Bretar ríkisstjórn Grikklands í baráttu sinni við kommúnista í grísku borgarastyrjöldinni 1946-1949.

Hin nýja hugmyndafræði Bandaríkjamanna grundvallaðist á Truman-kenningunni um harða andstöðu við ágangi kommúnista, hvar sem þeir sóttust eftir áhrifum. Truman-kenningin byggði á hugmyndum sem George Kennan, fræðimaður og starfsmaður bandarísku utanríkisþjónustunnar, hafði varpað fram um að Bandaríkjunum bæri að viðhalda stöðugri baráttu gegn kommúnisma með því að „halda honum í skefjum“ (e. contain) með öllum ráðum, hvar sem hann bærði á sér í heiminum. En Sovétmenn höfðu stutt kommúnista til valda á sínum áhrifasvæðum í Austur-Evrópu og óttuðust Bandaríkjamenn að þeir myndu reyna að komast til áhrifa í Vestur-Evrópu og víðar.

Hvort sá ótti, að Sovétmenn myndu sækjast eftir áhrifum annars staðar en í Austur-Evrópu var á rökum reistur, hefur verið álitamál meðal fræðimanna. Margir hafa bent á að Sovétmenn hafi dregið herlið sitt til baka frá stöðum sem þeir töldu ekki vera hernaðarlega mikilvægir fyrir öryggi landsins, til dæmis í Norður-Íran, og þeir sættu sig við borgaralega stjórn í Finnlandi, en finnska stjórnin hélt vinalegu sambandi við Sovétríkin með því að vera hlutlaus á alþjóðavettvangi.Hans Conrad Schumann, austur-þýskur landamæravörður, flýr yfir til Vestur-Berlínar árið 1961. Stuttu síðar er Berlínarmúrinn reistur.

En Bandaríkjamenn ætluðu sér ekki bara að stöðva framrás kommúnisma, heldur einnig að hraða uppbyggingu Evrópu. Í því skyni stóðu þeir fyrir Marshallaðstoðinni sem hófst árið 1947, en henni var ætlað að styrkja efnahag álfunnar. Margir fræðimenn hafa kallað Marshallaðstoðina efnahagshluta „containment” stefnunnar, og telja að hún hafi aukið mjög andúð Sovétmanna á Bandaríkjunum og hafi haft þau áhrif að kalda stríðið hafi magnast.

Sovétmenn svöruðu með því að koma á stalínískum stjórnarháttum í Austur-Evrópu. Ríkisstjórn Ungverjalands var þannig til dæmis „hreinsuð“ og þar komið fyrir mönnum sem hallir voru undir Sovétríkin, og í febrúar 1948 stóðu kommúnistar í Tékkóslóvakíu fyrir valdráni með hjálp sovéska hersins. Nú voru öll ríki Austur-Evrópu undir járnhæl Sovétríkjanna, ef frá er talin Júgóslavía sem kommúnistinn Títo stjórnaði eftir sínum vilja, óháður Moskvu.

Hluti af uppbyggingu Vestur-Evrópu var að efla efnahagslíf Þýskalands og þegar Bandaríkjamenn beittu sér fyrir því að gefa út nýjan gjaldmiðil fyrir hernumdu svæðin í Vestur-Þýskalandi, brugðust Sovétríkin við með því að loka fyrir alla umferð bíla og lesta til Vestur-Berlínar. Berlín var staðsett innan sovéska hernámssvæðisins, en borginni sjálfri var skipt upp í fjögur hernámssvæði og höfðu Vesturlöndin yfirráð yfir tæpum helmingi borgarinnar.

Lokun Berlínar (e. The Berlin Blockade) hófst 24. júní 1948 og stóð í tæpt ár og sáu Vesturveldin íbúum Vestur-Berlínar fyrir nauðsynjum með flugi („loftbrúin“ fræga). Þegar mest lét var mál manna að ein flugvél lenti í Vestur-Berlín á hverri mínútu með vistir. Að lokum opnuðu Sovétmenn aftur fyrir flutninga til Berlínar en augljóst var að Þýskalandi eða Berlín yrði ekki stjórnað sameiginlega af gömlu bandalagsþjóðunum. Í maí 1949 var síðan Sambandslýðveldið Þýskaland (Vestur-Þýskaland) formlega stofnað og ári seinna varð Þýska alþýðulýðveldið (Austur-Þýskaland) að veruleika og þar með skipting Evrópu með járntjaldinu fyrrnefnda.

Þriðji heimurinn

Þótt Evrópa hafi í upphafi skipt mestu máli í augum risaveldanna, má segja að þriðji heimurinn hafi orðið að vígvelli kalda stríðsins, enda ríkti friður og stöðugleiki að mestu leyti í Evrópu frá stríðslokum og fram að falli Sovétríkjanna. Hins vegar sóttust risaveldin eftir áhrifum í þriðja heiminum og studdu þær oftast gagnstæðar fylkingar, vopnuðu byltingahópa og stóðu fyrir valdaránum. Þriðji heimurinn varð því að leikvelli stórveldanna, enda var það þar sem þau gátu sóst eftir nýjum áhrifum.

Mörg ríki áttuðu sig á þessum leik og tóku þátt í honum með því að biðla til stórveldanna um aðstoð. Kalda stríðið gerði mörgum ríkisstjórnum kleift að afla sér fjármagns og nýrrar tækni, en fyrst og fremst vopna, til þess að berjast gegn óvinum sínum bæði innanlands sem utan. Á meðan uppbygging Evrópu fór fram beggja vegna járntjaldsins, stóðu risaveldin bakvið fjölmörg átök og styrjaldir í þriðja heiminum.

Fólk vandist því fljótt að hugsa um alþjóðastjórnmál út frá hugmyndinni um að kalt stríð væri í gangi milli risaveldanna. En sú hlið kalda stríðsins sem vakti mestan ótta hjá meginþorra almennings, var hið svonefnda vígbúnaðarkapphlaup. Öllum var ljóst eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945, að hið nýja vopn gæti umbreytt öllum hernaði og allri hernaðarhugsun.Mynd tekin á vegum bandaríska hersins af miðborg Hiroshima í október 1945, þremur mánuðum eftir að kjarnorkusprengju var varpað á borgina.

Vígbúnaðarkapphlaupið og sagnfræðin
Bandaríkjamenn höfðu í raun yfirburðastöðu hernaðarlega, eins lengi og þeir einir réðu yfir kjarnorkusprengjum. Það breyttist í júlí 1949 þegar Sovétmenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju og kjarnorkukapphlaupið milli risaveldanna hófst. Hugmyndafræði kapphlaupsins byggði á því að hræða andstæðinginn frá því að gera árás með því að hóta honum algerri eyðingu í gagnárás þar sem notaðar yrðu kjarnorkusprengjur (fælingarstefnan). Þessi hugsun fékk það kaldhæðnislega heiti MAD, sem er skammstöfun á enska heitinu „Mutal Assured Destruction“ („gagnkvæm gereyðilegging“). Því lögðu risaveldin mikla áherslu á að framleiða eins mikið af kjarnorkusprengjum og við var komið, og þar með tryggja að þau gætu brugðist við árás. Aðrar þjóðir þróuðu einnig kjarnorkuvopn, svo sem Bretar, Frakkar og Kínverjar en risaveldin tvö báru höfuð og herðar yfir öll önnur ríki á sviði kjarnorkuvopnaframleiðslu.

Í sagnaritun á Vesturlöndum má finna ákveðna þróun í umræðunni um hverjum kalda stríðið hafi verið að kenna. Í upphafi litu margir vestrænir fræðimenn svo á að Bandaríkjamenn hefðu í raun einungis verið að bregðast við útþenslustefnu Sovétríkjanna og því hafi kalda stríðið verið Sovétríkjunum að kenna. Þessi kenning hefur fengið nafnið rétttrúnaðarkenningin (e. orthodoxy) og byggir á því að hin svokallaða „containment“ hugmyndafræði hafi verið höfð að leiðarljósi í Bandaríkjum, það er að Bandaríkjamenn hafi eingöngu verið að bregðast við áróðri og útþenslu sovéskra hugmynda en ekki sjálfir seilst til áhrifa að fyrra bragði í heiminum.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fóru margir fræðimenn að gagnrýna rétttrúnaðarkenninguna og töldu að efnahagslegur og hernaðarlegur máttur Bandaríkjanna hefði ógnað Sovétríkjunum svo mikið að þau hefðu ekki bara viljað ná völdum í Austur-Evrópu, heldur einnig í þriðja heimum, með það að markmiði að verja sig og hagsmuni sína. Því væri kalda stríðið afleiðing heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, sem Sovétríkin voru að reyna að verjast. Þessi kenning hefur hlotið nafnið endurskoðunarhyggja (e. revisionism).

Segja má að þessar tvær kenningar séu öfgarnar í báðar áttir þegar kemur að orsökum kalda stríðsins, og á áttunda áratug síðustu aldar kom fram ný kenning, svokölluð nýmyndunarhyggja (e. post-revisionism) sem reyndi að brúa bilið milli rétttrúnaðarsinna og endurskoðunarsinna.

Nýmyndunarsinnar vilja ekki einblína á sekt eins aðila, það þarf jú tvo til þess að heyja stríð. Þeir leggja hins vegar mikla áherslu á að Stalín hafi nýtt sér stöðu sína eftir stríð til þess að öðlast áhrif í Austur-Evrópu. Vestur-Evrópa hafi hins vegar beðið Bandaríkjamenn um að koma að uppbyggingu efnahagslífs álfunnar. Þeir taka hins vegar undir það sjónarmið, að Bandaríkjamenn hafi verið mun virkari í utanríkisstefnu sinni, en réttrúnaðarsinnar héldu fram.

Í raun er því enn þá óljóst hvor aðilinn, Bandaríkin eða Sovétríkin, hafi átt meiri þátt í kalda stríðinu. Fræðimenn hafa um það deilt allar götur síðan í lok 5. áratugar síðustu aldar. Bent hefur verið á að kalda stríðið, sem sumir fræðimenn hafa nefnt „langa friðinn” eða „langa vopnahléið”, hafi í raun komið í veg fyrir að hið andlega stríðsástand sem virtist vera til staðar hjá risaveldunum, yrði að heitu stríði. Um sögulega nauðsyn þess að fara í stríð, hvort sem það er kalt eða heit stríð, verður aftur á móti alltaf deilt.

Heimildir, frekara lesefni og myndir:
 • Crockatt, Richard: The Fifty Years War. The United States and the Soviet Union in World Politics, 1941-1991. London, 1996.
 • Gaddis, John Lewis: The Long Peace. Inquiries into the History of the Cold War. Oxford 1987.
 • Leffler, Melvyn: A Preponderance of Power. Stanford, 1992.
 • Lundestad, Geir: East, West, North, South. Major Developments in International Politics since 1945. Oxford, 1999.
 • The Origins of the Cold War. An International History. Ritstj. Melvyn P. Leffler og David S. Painter. London, 1994.
 • Painter, David S.: The Cold War. An International History. London, 1999.
 • Thomas, Hugh: Armed Truce. The Beginnings of the Cold War 1945-1946. New York, 1986.
 • Wikipedia.com - Jaltaráðstefnan
 • Ludgerusschule Heiden
 • Hiroshima Peace Site. Sótt 4.3.2004.
...