Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Hvað eru stjórnmál?

Indriði Haukur Indriðason

Til eru ýmsar skilgreiningar á stjórnmálum, en samkvæmt flestum þeirra fjalla stjórnmál um ákvarðanatöku. Þó eru ekki allar ákvarðanir stjórnmál. Ákvarðanir einstaklinga sem fyrst og fremst varða þá sjálfa eru til dæmis ekki stjórnmál. Því er iðulega bætt við skilgreininguna að ákvörðunartakan varði tiltekinn hóp, hvort sem um er að ræða lítinn klúbb eða heilt samfélag eða þjóðríki.

Ákvarðanir sem slíkar hafa ekki mikil áhrif nema þeim sé framfylgt. Þannig gerum við enn fremur ráð fyrir að um sé að ræða bindandi ákvarðanir sem ákveðið vald þurfi til þess að framfylgja. Slíkt vald getur jafnt verið fólgið í lögreglu- og dómsvaldi sem og þrýstingi frá viðkomandi hóp ef ákvörðunum er ekki fylgt eftir. Valdið getur enn fremur verið lögmætt eða ólögmætt. Lögreglu- og dómsvald felur ekki endilega í sér lögmæti því beita má þess konar valdi jafnt í einræðisríkjum sem lýðræðisríkjum. Þrýstingur frá almenningi getur sömuleiðis falið í sér ákveðið lögmæti. Almennt séð má segja að ákvarðanir séu lögmætar ef almenn sátt ríkir um það ferli sem notað er við ákvarðanatökuna.

Að lokum er oft gerður greinarmunur á ákvörðunum sem varða einkalíf fólks og opinbert líf þess. Þannig er yfirleitt litið svo á að ákvarðanir teknar innan fjölskyldna, til að mynda um hvert skuli fara í sumarfrí, séu ekki stjórnmál þrátt fyrir að þar sé um vel skilgreindan hóp að ræða, ákvarðanir séu bindandi, og að valdi sé dreift milli fjölskyldumeðlima. Í reynd má hins vegar segja að skilin á milli opinbers lífs og einkalífs séu ekki alltaf skýr.


Starf stjórnmálaleiðtoga felst að miklu leyti í því að taka ákvarðanir.

Víðtæk áhrif stjórnmála

Draga má skilgreiningu á stjórnmálum saman á þann hátt að stjórnmál fjalli um bindandi ákvarðanir sem varða hópa. Í ljósi þessarar skilgreiningar má okkur vera ljóst að stjórnmál snerta líf okkar á nánast óendanlega marga vegu. Ákvarðanirnar um það hvort við göngum í skóla, hversu lengi, hvað við lærum þar, hvaða kröfur eru gerðar, hvað við eða samfélagið borgum fyrir skólagönguna (með skólagjöldum eða sköttum), hvaða réttindi námið veitir, og hvort við eigum færi á að taka hluta námsins erlendis eru allt ákvarðanir sem eru stjórnmálalegs eðlis.

Utan veggja skóla eða vinnustaða móta stjórnmálaákvarðanir líf okkar áfram. Þær geta varðað frelsi okkar til að taka þátt í stjórnmálum, hvort við getum ferðast erlendis, hvort við keyrum hægra eða vinstra megin á götunni, hvort við eigum færi á að horfa á sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum, og svo mætti lengi telja.

Flestar þessara ákvarðana eru teknar af ríkisvaldinu. Svo eru mörg okkar félagar í ýmsum félagasamtökum, til dæmis verkalýðsfélögum eða íþróttafélögum, sem taka ýmsar ákvarðanir sem snerta okkur. Félagsgjöld eru augljóst dæmi en sama máli gegnir til að mynda um rangstöðuregluna í fótbolta.

Aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar eru teknar í samskiptum ríkja. Slíkar ákvarðanir geta til dæmis haft áhrif á neysluvenjur okkar (með samningum um niðurfellingu tolla og innflutningstakmarkana) og möguleika okkur til búsetu í öðrum ríkjum. Margar slíkar ákvarðanir eru teknar í alþjóðlegum stofnunum, til að mynda hjá Evrópusambandinu (ESB) eða með samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Af þessari stuttu upptalningu má sjá að stjórnmál snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt þó að vissulega megi líta svo á að ákvarðanirnar séu mismikilvægar.

Hvað er stjórnmálafræði?

Stjórnmálafræði er sú fræðigrein sem leitast við að auka þekkingu okkar á stjórnmálum, það er að segja að öðlast skilning á því hvers vegna tilteknar ákvarðanir eru teknar. Í þeim tilgangi rannsaka stjórnmálafræðingar hverjir koma að ákvörðunartökuferlinu og hverjir hafa möguleika á að hafa áhrif á niðurstöðurnar.

Stjórnmálalegar ákvarðanir eru afurð tveggja þátta: einstaklinganna sem koma að ákvarðanatökunni og þeirra stofnana sem móta samskipti þeirra. Forsetaræði og þingræði eru dæmi um stofnanir sem hafa áhrif á samskipti þeirra sem að ákvarðanatökunni koma og hvernig valdi er dreift þeirra á milli. Í þingræðisríkjum er framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) háð stuðningi þingsins og getur ekki setið í óþökk þess. Í ríkjum með forsetaræði eru skilin á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins hins vegar skarpari. Þar getur þing ekki nema í undantekningartilfellum vikið forseta frá völdum. Skipting valdsins gerir það svo að verkum að þing slíkra ríkja eru að öðru jöfnu ekki jafnháð framkvæmdarvaldinu og þing í þingræðisríkjum. Innan forsetaríkja eru síðan ýmsar stofnanir sem aukið geta áhrif forseta á löggjöf, til dæmis neitunarvald og heimild til að gefa út tilskipanir.Í stjórnmálafræði er meðal annars skoðað hvaða áhrif stofnanir og þingræði hafa á ákvarðanatöku og samfélagið í heild.

Stjórnmálafræðin leitast við á skýra hvaða áhrif stofnanir sem þessar hafa á þær ákvarðanir sem teknar eru og hvaða áhrif þær hafa á samfélagið. Tilgangurinn er að skapa forsendur fyrir skynsamlegri ákvarðanatöku. Ef raunin er til að mynda sú, að þingræði auki jafnræði í samfélaginu eða að forsetaræði leiði til aukins hagvaxtar, þá er rétt að ný lýðræðisríki notfæri sér þá vitneskju þegar þau velja sér stjórnarskrá. Sömuleiðis geta gömul ríki nýtt sér slíkar upplýsingar þegar þau endurskoða sínar stjórnarskrár. Það sama á að sjálfsögðu við um ákvarðanatöku annarra en ríkisvaldsins. Hópar hljóta að vilja velja sér reglur sem eru líklegar til að vera gagnlegar við að ná markmiðum meðlima sinna, þótt vissulega geti ríkt ágreiningur um hver þau markmið eigi að vera.

Þótt stjórnmálafræði fjalli að miklu leyti um ákvarðanatöku þá eru viðfangsefni hennar margslungin. Dæmi um nokkrar spurningar sem stjórnmálafræðingar hafa skoðað eru:

 • Hvaða þættir hafa áhrif á hvort ríki heyja stríð?
 • Hvaða stjórnmálastofnanir eru líklegastar til að tryggja stöðugleika í ríkjum sem eru samansett úr mörgum þjóðarbrotum?
 • Eru þjóðaratkvæðagreiðslur farsæl leið til að setja lög?
 • Hafa mismunandi kosningakerfi áhrif á möguleika kvenna til að komast á þing?
 • Hvers vegna eru sum ríki viljugri en önnur til að taka þátt í alþjóðasamstarfi?
 • Eru tengsl milli lýðræðisþróunar og hagvaxtar?
 • Hvaða þættir hafa áhrif á lengd og tíðni verkfalla?
 • Hvers vegna halda menn „kosningar“ í einræðisríkjum?
 • Hefur byssueign áhrif á tíðni glæpa?
 • Hver eru áhrif ávísanakerfa á gæði skóla?
 • Hvers vegna eru fyrirgreiðslustjórnmál og spilling algengari sums staðar en annars staðar?
 • Ganga stjórnmálaskoðanir í erfðir?
 • Hvers vegna fremja menn hryðjuverk?
 • Leiða vinstrisinnaðar stjórnir til aukinna ríkisútgjalda og hærri skatta?
 • Eru áherslur kvenna í stjórnmálum ólíkar áherslum karla?

Myndir:

 • Mynd af stjórnmálamönnum er af heimasíðu teiknarans Raouls Pascal. Sótt 8.7.2005
 • Mynd af þingi er af Wikipedia.com. Sótt 4.6.2010

Höfundur

lektor í stjórnmálafræði við HÍ

Útgáfudagur

8.7.2005

Spyrjandi

Brynhildur Bolladóttir, f. 1989
Ástríður Rán Erlendsdóttir, f. 1992

Tilvísun

Indriði Haukur Indriðason. „Hvað eru stjórnmál?“ Vísindavefurinn, 8. júlí 2005. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5121.

Indriði Haukur Indriðason. (2005, 8. júlí). Hvað eru stjórnmál? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5121

Indriði Haukur Indriðason. „Hvað eru stjórnmál?“ Vísindavefurinn. 8. júl. 2005. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5121>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru stjórnmál?
Til eru ýmsar skilgreiningar á stjórnmálum, en samkvæmt flestum þeirra fjalla stjórnmál um ákvarðanatöku. Þó eru ekki allar ákvarðanir stjórnmál. Ákvarðanir einstaklinga sem fyrst og fremst varða þá sjálfa eru til dæmis ekki stjórnmál. Því er iðulega bætt við skilgreininguna að ákvörðunartakan varði tiltekinn hóp, hvort sem um er að ræða lítinn klúbb eða heilt samfélag eða þjóðríki.

Ákvarðanir sem slíkar hafa ekki mikil áhrif nema þeim sé framfylgt. Þannig gerum við enn fremur ráð fyrir að um sé að ræða bindandi ákvarðanir sem ákveðið vald þurfi til þess að framfylgja. Slíkt vald getur jafnt verið fólgið í lögreglu- og dómsvaldi sem og þrýstingi frá viðkomandi hóp ef ákvörðunum er ekki fylgt eftir. Valdið getur enn fremur verið lögmætt eða ólögmætt. Lögreglu- og dómsvald felur ekki endilega í sér lögmæti því beita má þess konar valdi jafnt í einræðisríkjum sem lýðræðisríkjum. Þrýstingur frá almenningi getur sömuleiðis falið í sér ákveðið lögmæti. Almennt séð má segja að ákvarðanir séu lögmætar ef almenn sátt ríkir um það ferli sem notað er við ákvarðanatökuna.

Að lokum er oft gerður greinarmunur á ákvörðunum sem varða einkalíf fólks og opinbert líf þess. Þannig er yfirleitt litið svo á að ákvarðanir teknar innan fjölskyldna, til að mynda um hvert skuli fara í sumarfrí, séu ekki stjórnmál þrátt fyrir að þar sé um vel skilgreindan hóp að ræða, ákvarðanir séu bindandi, og að valdi sé dreift milli fjölskyldumeðlima. Í reynd má hins vegar segja að skilin á milli opinbers lífs og einkalífs séu ekki alltaf skýr.


Starf stjórnmálaleiðtoga felst að miklu leyti í því að taka ákvarðanir.

Víðtæk áhrif stjórnmála

Draga má skilgreiningu á stjórnmálum saman á þann hátt að stjórnmál fjalli um bindandi ákvarðanir sem varða hópa. Í ljósi þessarar skilgreiningar má okkur vera ljóst að stjórnmál snerta líf okkar á nánast óendanlega marga vegu. Ákvarðanirnar um það hvort við göngum í skóla, hversu lengi, hvað við lærum þar, hvaða kröfur eru gerðar, hvað við eða samfélagið borgum fyrir skólagönguna (með skólagjöldum eða sköttum), hvaða réttindi námið veitir, og hvort við eigum færi á að taka hluta námsins erlendis eru allt ákvarðanir sem eru stjórnmálalegs eðlis.

Utan veggja skóla eða vinnustaða móta stjórnmálaákvarðanir líf okkar áfram. Þær geta varðað frelsi okkar til að taka þátt í stjórnmálum, hvort við getum ferðast erlendis, hvort við keyrum hægra eða vinstra megin á götunni, hvort við eigum færi á að horfa á sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum, og svo mætti lengi telja.

Flestar þessara ákvarðana eru teknar af ríkisvaldinu. Svo eru mörg okkar félagar í ýmsum félagasamtökum, til dæmis verkalýðsfélögum eða íþróttafélögum, sem taka ýmsar ákvarðanir sem snerta okkur. Félagsgjöld eru augljóst dæmi en sama máli gegnir til að mynda um rangstöðuregluna í fótbolta.

Aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar eru teknar í samskiptum ríkja. Slíkar ákvarðanir geta til dæmis haft áhrif á neysluvenjur okkar (með samningum um niðurfellingu tolla og innflutningstakmarkana) og möguleika okkur til búsetu í öðrum ríkjum. Margar slíkar ákvarðanir eru teknar í alþjóðlegum stofnunum, til að mynda hjá Evrópusambandinu (ESB) eða með samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Af þessari stuttu upptalningu má sjá að stjórnmál snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt þó að vissulega megi líta svo á að ákvarðanirnar séu mismikilvægar.

Hvað er stjórnmálafræði?

Stjórnmálafræði er sú fræðigrein sem leitast við að auka þekkingu okkar á stjórnmálum, það er að segja að öðlast skilning á því hvers vegna tilteknar ákvarðanir eru teknar. Í þeim tilgangi rannsaka stjórnmálafræðingar hverjir koma að ákvörðunartökuferlinu og hverjir hafa möguleika á að hafa áhrif á niðurstöðurnar.

Stjórnmálalegar ákvarðanir eru afurð tveggja þátta: einstaklinganna sem koma að ákvarðanatökunni og þeirra stofnana sem móta samskipti þeirra. Forsetaræði og þingræði eru dæmi um stofnanir sem hafa áhrif á samskipti þeirra sem að ákvarðanatökunni koma og hvernig valdi er dreift þeirra á milli. Í þingræðisríkjum er framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) háð stuðningi þingsins og getur ekki setið í óþökk þess. Í ríkjum með forsetaræði eru skilin á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins hins vegar skarpari. Þar getur þing ekki nema í undantekningartilfellum vikið forseta frá völdum. Skipting valdsins gerir það svo að verkum að þing slíkra ríkja eru að öðru jöfnu ekki jafnháð framkvæmdarvaldinu og þing í þingræðisríkjum. Innan forsetaríkja eru síðan ýmsar stofnanir sem aukið geta áhrif forseta á löggjöf, til dæmis neitunarvald og heimild til að gefa út tilskipanir.Í stjórnmálafræði er meðal annars skoðað hvaða áhrif stofnanir og þingræði hafa á ákvarðanatöku og samfélagið í heild.

Stjórnmálafræðin leitast við á skýra hvaða áhrif stofnanir sem þessar hafa á þær ákvarðanir sem teknar eru og hvaða áhrif þær hafa á samfélagið. Tilgangurinn er að skapa forsendur fyrir skynsamlegri ákvarðanatöku. Ef raunin er til að mynda sú, að þingræði auki jafnræði í samfélaginu eða að forsetaræði leiði til aukins hagvaxtar, þá er rétt að ný lýðræðisríki notfæri sér þá vitneskju þegar þau velja sér stjórnarskrá. Sömuleiðis geta gömul ríki nýtt sér slíkar upplýsingar þegar þau endurskoða sínar stjórnarskrár. Það sama á að sjálfsögðu við um ákvarðanatöku annarra en ríkisvaldsins. Hópar hljóta að vilja velja sér reglur sem eru líklegar til að vera gagnlegar við að ná markmiðum meðlima sinna, þótt vissulega geti ríkt ágreiningur um hver þau markmið eigi að vera.

Þótt stjórnmálafræði fjalli að miklu leyti um ákvarðanatöku þá eru viðfangsefni hennar margslungin. Dæmi um nokkrar spurningar sem stjórnmálafræðingar hafa skoðað eru:

 • Hvaða þættir hafa áhrif á hvort ríki heyja stríð?
 • Hvaða stjórnmálastofnanir eru líklegastar til að tryggja stöðugleika í ríkjum sem eru samansett úr mörgum þjóðarbrotum?
 • Eru þjóðaratkvæðagreiðslur farsæl leið til að setja lög?
 • Hafa mismunandi kosningakerfi áhrif á möguleika kvenna til að komast á þing?
 • Hvers vegna eru sum ríki viljugri en önnur til að taka þátt í alþjóðasamstarfi?
 • Eru tengsl milli lýðræðisþróunar og hagvaxtar?
 • Hvaða þættir hafa áhrif á lengd og tíðni verkfalla?
 • Hvers vegna halda menn „kosningar“ í einræðisríkjum?
 • Hefur byssueign áhrif á tíðni glæpa?
 • Hver eru áhrif ávísanakerfa á gæði skóla?
 • Hvers vegna eru fyrirgreiðslustjórnmál og spilling algengari sums staðar en annars staðar?
 • Ganga stjórnmálaskoðanir í erfðir?
 • Hvers vegna fremja menn hryðjuverk?
 • Leiða vinstrisinnaðar stjórnir til aukinna ríkisútgjalda og hærri skatta?
 • Eru áherslur kvenna í stjórnmálum ólíkar áherslum karla?

Myndir:

 • Mynd af stjórnmálamönnum er af heimasíðu teiknarans Raouls Pascal. Sótt 8.7.2005
 • Mynd af þingi er af Wikipedia.com. Sótt 4.6.2010
...