Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugmyndin um andaglas er yfirnáttúrleg. Meginstef vísinda er hins vegar lögmál náttúru og samfélags og þess vegna geta vísindin lítið sagt um það sem sem er handan þeirra lögmála. Um þetta má lesa meira í svari við spurningunni Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson.
Í svari Sigurðar J. Grétarssonar við spurningunni Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda? kemur fram að sögur af draugum og öndum eru allar atvikasögur, það er segja sögur af einstökum tilvikum. Ekki er hægt að sýna fram á að slík fyrirbæri geri reglulega vart við sig í einhverju tilteknu orsakasamhengi. Engar vísindarannsóknir staðfesta þess vegna tilvist anda eða drauga. Að þessu gefnu ætti að vera nokkuð ljóst að vísindin telja ekki miklar líkur til þess að hægt sé að ná sambandi við anda í andaglasi.
Kannski mætti reyna að fara í andaglas á þessu sérstaka borði!
Í svari Heiðu Maríu Sigurðardóttur við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um andaglas? er fjallað um mælingar efna- og eðlisfræðingsins Michael Faradays (1791-1867) á svokölluðum borðsnúningi (e. table turning) sem er skyldur andaglasi. Yfirnáttúrlegar útskýringar á borðsnúningnum gerðu ráð fyrir því að andi hreyfði borð sem hópur fólks hafði lagt hendur á. Faraday setti aflnema undir hendur þátttakanda og komst að því að hreyfingar borðsins var að fullu hægt að útskýra með handahreyfingum fólksins.
Vel má ætla að í andaglasi sé hið sama uppi á teningnum og skilaboð "andans" séu í raun skilaboð frá þátttakendum í andaglasinu. Heiða María bendir fólki á að gera þessa tilraun:
Fyrst er hægt að fara í andaglas á hefðbundinn hátt, og oftar en ekki hreyfist andaglasið og myndar orð og setningar. Næsta skref er eins að öllu leyti nema að nú er bundið fyrir augu þátttakenda, og einhver utanaðkomandi er látinn skrifa niður skilaboð „andans“. Við þetta verða skilaboðin úr andaglasinu nær undantekningarlaust merkingarlaust blaður.
Við hvetjum lesendur til að reyna þetta og sjá hvort "andinn" segi ekki bara tóma vitleysu þegar búið er að binda fyrir augu þátttakanda! Eins bendum við lesendum á að kynna sér svörin sem vísað er á í þessu svari.
Mynd:
JGÞ. „Er það satt að maður komist í samband við anda í andaglasi?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2009, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51747.
JGÞ. (2009, 26. febrúar). Er það satt að maður komist í samband við anda í andaglasi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51747
JGÞ. „Er það satt að maður komist í samband við anda í andaglasi?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2009. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51747>.