Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Af hverju erum við í nærbuxum? Er það félagslegt eða vegna þæginda?

Ritstjórn Vísindavefsins

Nærbuxur hafa væntanlega þróast fyrst sem hlífðarfatnaður, en öðlast síðan táknræna merkingu með ýmsum hætti í tímans rás.

Mannfræðingar hafa í rannsóknum sínum fundið og sagt frá fjölmörgum þjóðflokkum víðs vegar um heim, sem ganga um án þess að fara í buxur eða skýlu. Því verður ekki sagt að nærbuxnanotkun mannkyns sé undantekningalaus eða algild.

Þegar svonefndir frumstæðir þjóðflokkar eru athugaðir sést að notkun þeirra á fatnaði, þar með töldum lendaskýlum, fer nokkuð eftir loftslagi. Því svalari sem heimkynnin eru, þeim mun líklegra er að menn hafi á sér nokkrar spjarir. Síðan er auðvitað greinilegt að fatnaður öðlast táknræna merkingu í samfélögum manna; forystumenn klæðast til dæmis og skreyta sig með öðrum hætti en þeir sem óbreyttir eru. Svipuðu máli gegnir um nærföt.

Af þessum almennu sannindum má geta sér nokkuð til um nærbuxnasögu mannkyns. Væntanlega hafa slíkar brækur fyrst þróast sem hluti af hlífðarfatnaði. Það ætti að vera gleðiefni að hið íslenska föðurland virðist þannig vera í beinu sambandi við upprunalegan tilgang þess konar klæða. Hagnýta hlutverkið hefur síðan fléttast við kröfur um hreinlæti og þægindi af ýmsum toga. En eins og annar fatnaður öðlast nærföt sums staðar táknrænt eða trúarlegt gildi. Notkun þeirra tengist víða kröfum goð- og helgisagna um að hylja beri þá staði á líkama mannfólksins sem eru aðsetur getnaðar. Það var til dæmis eitt fyrsta verk hinna fyrstu manna eftir að þeim var vísað úr eilífðarsælu Edengarðs að koma sér upp vísi að nærbuxum.

Enn hafa nærbuxur sums staðar greinilega táknræna merkingu; sumir hindúar nota til dæmis sérstaka gerð nærbuxna til að hemja ástríður sínar og mormónar klæðast þéttofnum bómullarsamfestingum innstum klæða til að minna sig stöðugt á ýmislegt sem lýtur að hreinlífi og trúfestu. Nútímakrafa um að menn gangi ekki um naktir eða lausgirtir er líka öðrum þræði siðræn og á sér aðra réttlætingu en heilbrigði eða hreinlæti. Og kannski má kenna óbilandi traust fjölda Íslendinga á síðum þéttprjónuðum ullarnærbrókum við trúarlega og táknræna upphafningu fremur en einbera sannfæringu um hagnýtt gildi.

Þetta svar er upphaflega samið í samstarfshópi félagsvísindadeildar um nærfatafræði. Hópurinn hefur verið leystur upp og hefur hvorki póstfang né lögpersónulega aðildarveru. Hins vegar tekur ritstjórn Vísindavefsins fulla og óskoraða ábyrgð á svarinu.

Útgáfudagur

15.6.2000

Spyrjandi

Sveinbjörn Geirsson

Efnisorð

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju erum við í nærbuxum? Er það félagslegt eða vegna þæginda?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2000. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=518.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2000, 15. júní). Af hverju erum við í nærbuxum? Er það félagslegt eða vegna þæginda? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=518

Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju erum við í nærbuxum? Er það félagslegt eða vegna þæginda?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2000. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=518>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju erum við í nærbuxum? Er það félagslegt eða vegna þæginda?
Nærbuxur hafa væntanlega þróast fyrst sem hlífðarfatnaður, en öðlast síðan táknræna merkingu með ýmsum hætti í tímans rás.

Mannfræðingar hafa í rannsóknum sínum fundið og sagt frá fjölmörgum þjóðflokkum víðs vegar um heim, sem ganga um án þess að fara í buxur eða skýlu. Því verður ekki sagt að nærbuxnanotkun mannkyns sé undantekningalaus eða algild.

Þegar svonefndir frumstæðir þjóðflokkar eru athugaðir sést að notkun þeirra á fatnaði, þar með töldum lendaskýlum, fer nokkuð eftir loftslagi. Því svalari sem heimkynnin eru, þeim mun líklegra er að menn hafi á sér nokkrar spjarir. Síðan er auðvitað greinilegt að fatnaður öðlast táknræna merkingu í samfélögum manna; forystumenn klæðast til dæmis og skreyta sig með öðrum hætti en þeir sem óbreyttir eru. Svipuðu máli gegnir um nærföt.

Af þessum almennu sannindum má geta sér nokkuð til um nærbuxnasögu mannkyns. Væntanlega hafa slíkar brækur fyrst þróast sem hluti af hlífðarfatnaði. Það ætti að vera gleðiefni að hið íslenska föðurland virðist þannig vera í beinu sambandi við upprunalegan tilgang þess konar klæða. Hagnýta hlutverkið hefur síðan fléttast við kröfur um hreinlæti og þægindi af ýmsum toga. En eins og annar fatnaður öðlast nærföt sums staðar táknrænt eða trúarlegt gildi. Notkun þeirra tengist víða kröfum goð- og helgisagna um að hylja beri þá staði á líkama mannfólksins sem eru aðsetur getnaðar. Það var til dæmis eitt fyrsta verk hinna fyrstu manna eftir að þeim var vísað úr eilífðarsælu Edengarðs að koma sér upp vísi að nærbuxum.

Enn hafa nærbuxur sums staðar greinilega táknræna merkingu; sumir hindúar nota til dæmis sérstaka gerð nærbuxna til að hemja ástríður sínar og mormónar klæðast þéttofnum bómullarsamfestingum innstum klæða til að minna sig stöðugt á ýmislegt sem lýtur að hreinlífi og trúfestu. Nútímakrafa um að menn gangi ekki um naktir eða lausgirtir er líka öðrum þræði siðræn og á sér aðra réttlætingu en heilbrigði eða hreinlæti. Og kannski má kenna óbilandi traust fjölda Íslendinga á síðum þéttprjónuðum ullarnærbrókum við trúarlega og táknræna upphafningu fremur en einbera sannfæringu um hagnýtt gildi.

Þetta svar er upphaflega samið í samstarfshópi félagsvísindadeildar um nærfatafræði. Hópurinn hefur verið leystur upp og hefur hvorki póstfang né lögpersónulega aðildarveru. Hins vegar tekur ritstjórn Vísindavefsins fulla og óskoraða ábyrgð á svarinu.

...