Kjörbúsvæði flóðhesta eru djúp vötn með góðum aðgangi að vatnagróðri eða beitilandi. Áður fyrr lifðu flóðhestar um gjörvalla Afríku sunnan Sahara en undanfarna áratugi hefur þeim verið kerfisbundið útrýmt á stærstum hluta þessara svæða. Útbreiðsla þeirra er sýnd á kortinu hér til hliðar. Eini stóri stofninn sem eftir lifir finnst á syðsta hluta vatnasviðs Nílar í austurhluta álfunnar.
Flóðhestar halda sig oft í hópum, allt upp í 30 dýr, en stundum eru þeir einir og sér. Kjarninn í hópnum eru kýr og kálfar þeirra. Oftast er eitt karldýr sem heldur utan um hópinn, makast við kýrnar og heldur öðrum karldýrum frá. Bardagar tarfanna geta verið ofsafengnir og oftast eru þeir alsettir örum eftir stórvaxnar skögultennur andstæðinga sem þeir hafa lent í átökum við.
Flóðhestar æxlast árið um kring. Rannsóknir hafa þó sýnt að algengasti æxlunartíminn er í febrúar og ágúst og er meðgöngutíminn um 227 til 240 dagar. Kálfarnir fæðast því þegar um mánuður er liðinn af regntímanum í október og apríl þegar gróðurinn er kominn vel á veg. Kýrin er frjó í þrjá daga og æxlast með karldýrinu sem heldur utan um kvennabúr sitt. Í meira en 95% tilvika er kálfurinn aðeins einn og vegur hann um 27-50 kg við burð. Kálfurinn getur sogið spena í kafi en oft heldur hann til á baki móður sinnar og hvílist þar.

- H.a. amphibius eða svokölluð flaggdeilitegund. Söguleg útbreiðsla hennar var eftir Níl frá Egyptalandi og suður til Tansaníu og Mósambik. Hún hefur nú horfið af langstærstum hluta þessa svæðis.
- H.a. kiboko sem lifir í Kenía og Sómalíu.
- H.a. capensis sem lifir í Sambíu og suður til Suður-Afríku. Helsta einkenni þessarar deilitegundar er flatari hauskúpa.
- H.a. tscahdensis sem finnst víða í Vestur-Afríku og er kennd við Afríkuríkið Tsjad. Þessi deilitegund hefur fækkað svo að hún er nú í mikilli útrýmingarhættu.
- H.a. constrctus sem lifi í Kongó, Namibíu og Angóla.

Dvergflóðhestar lifa eingöngu í vesturhluta Afríku og eru greindir niður í tvær deilitegundir. Annars vegar er það H.l. liberiensis sem eins og nafnið gefur til kynna finnst í Líberíu auk þess sem smáir stofnar finnast í Síerra Leóne, Gíneu og Fílabeinsströndinni. Þessi deilitegund hefur mátt líða fyrir áralangar borgarastyrjaldir í þremur þessara ríkja auk þess sem búsvæðaröskun og veiðiþjófnaður hefur höggvið stór skörð í þessa stofna. Áætlað er að deilitegundin telji á bilinu 1.800 – 3.000 dýr og er hún í hættu (e. endangered) að mati alþjóðlegu verndunarsamtakanna IUCN. Hin deilitegundin sem nefnist H.l. heslopi átti heimkynni í árósum Níger fljótsins. Tegundin er kennd við breskan ofursta Heslop að nafni sem var á þessum slóðum á 5. áratug síðustu aldar. Hann veiddi nokkur dýr og áleit að stofninn væri ekki stærri en um 30 dýr. Allt bendir til þess að þessi deilitegund sé nú útdauð. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Eru flóðhestar hættulegir?
- Geta flóðhestar lifað á Íslandi?
- Af hverju líkar flóðhestum svona vel að vera í vatni?
- Lewison, R. og W. Oliver, 2008. Choeropsis liberiensis á IUCN Red List of Threatened Species. Skoðað 11 apríl 2009
- Nowak, R.M. og J.L. Paradiso. 1983. Walker's Mammals of the World, 4. útgáfa. John Hopkins University Press. Baltimore and London.
- Kort af útbreiðslu flóðhesta: Hippopotamus á National Geographic. Sótt 22. 4. 2009.
- Mynd af flóðhesti með kálf: East African Wildlife Safaris. Sótt 22. 4. 2009.
- Mynd af dvergflóðhestum: Pygmy Hippopotamus á Wikipedia. Sótt 22. 4. 2009.