
Svona sá listamaðurinn Rafael fyrir sér skóla Platons. Platon er fyrir miðju með Aristóteles sér við hlið. Myndin er frá 1510-11.
Oftast þegar talað er um gríska heimspeki er átt við heimspeki fornaldar. Grísk heimspeki varð til í Jóníu í Litlu Asíu (þar sem nú er Tyrkland). Fyrsti gríski heimspekingurinn sem vitað er um var Þales frá Míletos (f. um 625 f.Kr., sjá mynd til hægri). Blómatími eða gullöld grískrar heimspeki hófst svo með Sókratesi í Aþenu á síðari hluta 5. aldar f.Kr. en óljóst er hvenær henni lauk. Merkustu fulltrúar gullaldarinnar voru Platon og Aristóteles.
Áður fyrr tíðkaðist að segja gullöld grískrar heimspeki lokið eftir dauða Aristótelesar, en grísk heimspeki blómstraði áfram á hellenískum tíma, einkum fram á miðja 2. öld f.Kr. Þá dró aðeins úr frumleikanum og heimspekin varð lærðari grein og meira fór að bera á túlkunum á og skýringum við texta eldri heimspekinga. Í dag myndu þess vegna langflestir telja helleníska heimspeki með í blómatíma grískrar heimspeki en segja að gullöldinni hafi lokið um miðja aðra öld f.Kr. þegar mesti blóminn var farinn af hellenískri heimspeki. Samt sem áður dafnaði grísk heimspeki enn.
Í síðfornöld varð svo til nýplatonisminn svonefndi en upphafsmaður hans, Plótínos (205 – 270 e.Kr., sjá mynd til vinstri), er af mörgum talinn einn merkasti hugsuður fornaldar og sennilega er hann einn áhrifamesti heimspekingur fornaldar á eftir Platoni og Aristótelesi. Þess vegna myndu sumir lengja gullöldina enn frekar svo að hún næði einnig yfir nýplatonismann og segja henni lokið eftir dag Jamblikkosar (250-325 e.Kr.).
Sögu fornaldarheimspeki er gerð ítarlegri skil í svari höfundar við spurningunni Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?Ábendingar um frekara lesefni Frumheimildir:
- Aristóteles, Umsagnir. Sigurjón Halldórsson (þýð.). (Akureyri: Ararit, 1992).
- Aristóteles, Frumspekin I. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
- Í þessu riti fjallar Aristóteles mikið um forvera sína, einkum frumherja grískrar heimspeki.
- Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1995).
- Siðfræði Níkomakkosar er meginrit Aristótelesar um siðfræði. Í ritinu er ítarlegur inngangur um ævi og störf Aristótelesar og siðfræði hans.
- Aristóteles, Um sálina. Sigurjón Björnsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1984).
- Í ritinu er góður inngangur um ævi og störf Aristótelesar og sálfræðikenningu hans.
- Aristóteles, Um skáldskaparlistina. Kristján Árnason (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2. útg. 1997).
- Eyjólfur Kjalar Emilsson og Patricia Kenig Curd, „Frumherjar grískrar heimspeki”, hjá Sigurði A. Magnússyni, Kristjáni Árnasyni, Þorsteini Þorsteinssyni og Guðmundi J. Guðmundssyni (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
- Í greininni er almennur inngangur um frumherja grískrar heimspeki og mörg mikilvægustu brot þeirra í íslenskri þýðingu.
- Platón, Gorgías. Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2. útg. 1993).
- Í greinargóðum inngangi rekur Eyjólfur Kjalar ævi og störf Platons.
- Platón, Menon. Sveinbjörn Egilsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985).
- Platon, Ríkið. Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
- Ríkið er eitt frægasta og mikilvægasta rit Platons. Í inngangi er fjallað um frægustu kenningu Platons, frummyndakenninguna, og um stjórnspeki Platons.
- Platon, Samdrykkjan. Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
- Platón, Síðustu dagar Sókratesar. Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.). (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).
- Í inngangi er fjallað um Sókrates, ævi hans og kenningar.
- Skirbekk, Gunnar og Nils Gilje, Heimspekisaga. Stefán Hjörleifsson (þýð.). (Reykjavik: Háskólaútgáfan, 1999).
- Heimspekisaga er ítarlegasta yfirlitsritið um sögu heimspekinnar sem fáanlegt er á íslensku.
- Furley, David, Routledge History of Philosophy. Volume 2: From Aristotle to Augustine (London: Routledge, 1997).
- Safn greina um helstu heimspekistefnur frá Aristótelesi til síðfornaldar. Inniheldur m.a. greinar um helleníska heimspeki og upphaf kristinnar heimspeki.
- Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy I-VI (Cambridge: Cambridge University Press, 1962-1981).
- Mjög ítarleg og góð umfjöllun um sögu grískrar heimspeki frá árdaga til Aristótelesar.
- Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 2. útg. 1986).
- Skýr og góður inngangur að hellenískri heimspeki.
- Sedley, David (ritstj.), The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
- Safn greina um öll helstu tímabil grískrar og rómverskrar heimspeki. Skýrt og auðlesið.
- Shields, Christopher (ritstj.), The Blackwell Guide to Ancient Philosophy (Oxford: Blackwell, 2003).
- Safn greina um öll helstu tímabil og stefnur fornaldarheimspeki frá árdaga til síðfornaldar.
- Taylor, C.C.W. (ritstj.), Routledge History of Philosophy. Volume 1: From the Beginning to Plato (London: Routledge, 1997).
- Safn greina um helstu tímabil og stefnur grískrar heimspeki frá árdaga til Platons.
- Mynd af skóla Platons er af Pythagoras & Music of the Spheres.
- Mynd af Þalesi er af heimasíðu Dr. Javier Martínez del Castillo.
- Mynd af Plótínusi er af People of Ideas during the Hellenistic and Roman Age (325 BC to 450 AD).