Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ímyndum okkur plánetu í fjarlægum hluta alheimsins þar sem búa viti bornar geimverur. Þær eru ekki alls ósvipaðar okkur mönnunum en það er eitt sem greinir þær frá okkur: Þær eru heyrnarlausar. Hvernig ætli þeirra heimur sé? Þar sem verurnar eru viti bornar hljóta þær að tjá sig með einhverjum hætti. Það gæti verið með handahreyfingum eins og táknmáli heyrnarlausra á jörðinni. Það gæti líka verið eitthvað nýstárlegt eins og að senda hver annarri skilaboð með mislitum ljósmerkjum frá litlum fálmurum sem standa út úr enninu á þeim.
Geimverurnar eru, eins og mannfólkið flest, sannfærðar um að heimurinn sem þær skynja sé heimurinn eins og hann er. Hvað myndi þá gerast ef geimverurnar hittu jarðarbúa? Það má örugglega gera ráð fyrir að öll þeirra heimsmynd breyttist gjörsamlega. Geimverurnar myndu standa frammi fyrir vali; Annað hvort myndu þær telja að við hefðum samskipti á einhvern yfirnáttúrlegan hátt eða að þær þyrftu að endurskoða þá hugmynd sína að heimurinn sé eins og þær skynji hann.
Ef geimverur og manneskjur skynjuðu heiminn á ólíkan hátt, hvernig myndu hugmyndir beggja hópa um heiminn breytast við það að hittast? Myndin er úr kvikmyndinni „Close encounters of the third kind”.
Þannig leiðir upphaflega spurningin til vangaveltna um muninn á heiminum eins og hann er fyrir okkur og heiminum sem er óháður okkur. Tengslin þar á milli og er ein elsta og dularfyllsta gáta heimspekinnar, vísinda og lista. Breytist heimurinn við það að skynja hann öðruvísi? Ef svo væri gætum við og geimverunnar ekki tilheyrt sama heiminum. Við myndum lifa í tveimur ólíkum heimum sem þó myndu skarast að ákveðnu leyti. Er þá eitthvað sameiginlegt í öllum hugsanlegum heimum – eitthvað sem verður að vera til staðar – svo viti bornir skepnur geti tjáð sig? Stærðfræði? Rökfræði? Skynjun á tíma og rúmi? Innlifun? Ímyndun?
Hvað sem líður þessum flóknu spurningum þá er á hreinu að heimurinn horfði allt öðruvísi við ef allir væru heyrnarlausir – eins og hjá geimverunum. Það er svo spurning hvort að hægt væri að útskýra þá upplifun. Gætu geimverurnar útskýrt fyrir okkur hvernig það er að sjá liti sem tungumál? Gætum við tjáð heyrnarlausum hvernig það er að vera með heyrn? Vísindin gefa okkur von um að slíkt verði mögulegt í framtíðinni. Nú er til að mynda vitað að hunangsflugur nema útfjólublátt ljós sem hjálpar þeim að finna næringarrík blóm. Áður en við réðum yfir þeirri tækni að geta mælt útfjólubláa geisla höfðum við ekki hugmynd um hvernig hunangsflugurnar litu heiminn. Við munum kannski aldrei geta skynjað heiminn eins og hunangsflugur og séð útfjólubláu liti, en við getum mælt og greint hvenær þær nýta sér þá skynjun til að ná ákveðnum markmiðum. Vilji menn lesa meira þessu tengt er þeim bent á svarið Hvernig vita menn að flugur sjá allt í bláu? eftir Gísla Má Gíslason.
Á fyrri myndinni má sjá blóm undir útfjólubláu ljósi en á þeirri seinni sjást þau með venjulegu ljósi. Með útfjólubláa ljósinu verður lendingarstaður hunangsflugnanna mun greinilegri, enda geta þær nýtt sér útfjólublátt ljós til að stýra sér að nektarnum.
Margir hafa gaman af því að velta fyrir sér þessari spurningu: Ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? Við getum svarað henni í tengslum við þá spurningu sem við höfum skoðað. Ef orðið „hljóð” vísar til hljóðbylgna sem væri hægt að mæla ef einhver væri með tæki til þess, þá væri einnig hægt að mæla hvort fallandi tré gefi alltaf frá sér slík hljóð. Ef „hljóð“ vísar hins vegar fyrst og fremst til þeirrar upplifunar að heyra, eitthvað sem heyrnarlausir hafa ekki möguleika á, verður öllu snúnara að svara spurningunni. Það myndi líka gera okkur jarðarbúum og geimverum mjög erfitt fyrir að ákveða hvað sé satt um heiminn og hvað ekki, þar sem heimurinn væri háður þeim sem skynjar hann.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Valur Brynjar Antonsson. „Hvernig væri heimurinn ef allir væru heyrnarlausir?“ Vísindavefurinn, 23. ágúst 2005, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5215.
Valur Brynjar Antonsson. (2005, 23. ágúst). Hvernig væri heimurinn ef allir væru heyrnarlausir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5215
Valur Brynjar Antonsson. „Hvernig væri heimurinn ef allir væru heyrnarlausir?“ Vísindavefurinn. 23. ágú. 2005. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5215>.