Sólin Sólin Rís 09:58 • sest 16:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:22 • Sest 09:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:27 • Síðdegis: 17:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:45 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:58 • sest 16:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:22 • Sest 09:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:27 • Síðdegis: 17:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:45 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu?

Eiríkur Bergmann



Kristjanía í Kaupmannahöfn er hluti af danska ríkinu og íbúar hennar lúta því dönskum lögum eins og aðrir þegnar Danmerkur. Kristjanía hefur samt nokkra sérstöðu og í framkvæmd hefur dönskum lögum á sumum sviðum verið beitt með öðrum hætti þar en annars staðar. Þetta á aðallega við um fíkniefnalöggjöfina og að einhverju leyti um skattalöggjöfina.

Kristjanía var stofnuð af fríþenkjurum og hippum sem tilraunasamfélag, nokkurs konar vettvangur fyrir annan lífstíl en danska borgarastéttin hafði tamið sér. Upphafið varð þegar borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn fóru að þrengja að hústökumönnum á Norðurbrú fyrir ríflega þrjátíu árum en þá réðst hópur þeirra inn á yfirgefið hersvæði í miðri Kaupmannahöfn og stofnaði fríríki þar sem aðrar reglur áttu að gilda en annars staðar í landinu.

Í Kristjaníu búa nú tæplega þúsund manns, þar af um 250 börn. Um er að ræða nokkuð stórt landssvæði þar sem ægir saman ýmiss konar húsum, kofum og hreysum sem íbúarnir hafa yfirtekið og byggt upp í gegnum tíðina. Sum eru ansi lúin en önnur fagurlega skreytt.

Flestir íbúar Kristjaníu starfa fyrir utan svæðið eða þiggja bætur frá danska ríkinu. Þar er þó allnokkuð um menningarrekstur, veitingahús og smáfyrirtæki, til að mynda rómuð reiðhjólagerð. Stærstur hluti tekna margra Kristjaníubúa hefur þó komið í gegnum sölu kannabisefna sem til skamms tíma fór fram fyrir opnum tjöldum. Allir íbúarnir greiða fast hóflegt gjald fyrir búsetu á svæðinu sem rennur til margs konar þjónustu, svo sem reksturs leikskóla.

Frá upphafi hafa staðið deilur um tilvist fríríkisins og yfirvöld í Danmörku hafa gert ítrekaðar tilraunir til að loka því. Oftsinnis hafa jarðýtur verið um það bil að ráðast til atlögu við að valta hús niður til grunna, en hafa hingað til alltaf verið stöðvaðar á síðustu stundu. Í gegnum tíðina hefur fríríkið líka öðlast eins konar hefðarrétt í hugum margra Dana. Um þessar mundir standa yfir aðgerðir danskra stjórnvalda sem vilja uppræta kannabissöluna í Kristjaníu og reisa nýtískulegri hús í stað þeirra gömlu.

Stjórnkerfi Kristjaníu er flatt og byggir á svokölluðu íbúalýðræði. Ekki er um eiginlega bæjarstjórn að ræða en íbúaráð Kristjaníu, þar sem allir íbúar hafa sama vægi, er æðsta ráð svæðisins. Það kemur reglulega saman og tekur fyrir ýmis mál er varðar Kristjaníu. Á íbúaráðsfundum er forðast að greiða atkvæði til að knýja mál til lykta heldur er leitast við að ná fram einhljóða samþykki allra. Sú aðferð getur verið æði tímafrek, svo til að ná fram skilvirkari stjórnun taka smærri einingar að sér að sjá um ýmiss konar minni málefni á sams konar grunni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

Höfundur

dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst

Útgáfudagur

25.8.2005

Spyrjandi

Marsibil Lillý

Tilvísun

Eiríkur Bergmann. „Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu?“ Vísindavefurinn, 25. ágúst 2005, sótt 15. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5223.

Eiríkur Bergmann. (2005, 25. ágúst). Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5223

Eiríkur Bergmann. „Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu?“ Vísindavefurinn. 25. ágú. 2005. Vefsíða. 15. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5223>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu?


Kristjanía í Kaupmannahöfn er hluti af danska ríkinu og íbúar hennar lúta því dönskum lögum eins og aðrir þegnar Danmerkur. Kristjanía hefur samt nokkra sérstöðu og í framkvæmd hefur dönskum lögum á sumum sviðum verið beitt með öðrum hætti þar en annars staðar. Þetta á aðallega við um fíkniefnalöggjöfina og að einhverju leyti um skattalöggjöfina.

Kristjanía var stofnuð af fríþenkjurum og hippum sem tilraunasamfélag, nokkurs konar vettvangur fyrir annan lífstíl en danska borgarastéttin hafði tamið sér. Upphafið varð þegar borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn fóru að þrengja að hústökumönnum á Norðurbrú fyrir ríflega þrjátíu árum en þá réðst hópur þeirra inn á yfirgefið hersvæði í miðri Kaupmannahöfn og stofnaði fríríki þar sem aðrar reglur áttu að gilda en annars staðar í landinu.

Í Kristjaníu búa nú tæplega þúsund manns, þar af um 250 börn. Um er að ræða nokkuð stórt landssvæði þar sem ægir saman ýmiss konar húsum, kofum og hreysum sem íbúarnir hafa yfirtekið og byggt upp í gegnum tíðina. Sum eru ansi lúin en önnur fagurlega skreytt.

Flestir íbúar Kristjaníu starfa fyrir utan svæðið eða þiggja bætur frá danska ríkinu. Þar er þó allnokkuð um menningarrekstur, veitingahús og smáfyrirtæki, til að mynda rómuð reiðhjólagerð. Stærstur hluti tekna margra Kristjaníubúa hefur þó komið í gegnum sölu kannabisefna sem til skamms tíma fór fram fyrir opnum tjöldum. Allir íbúarnir greiða fast hóflegt gjald fyrir búsetu á svæðinu sem rennur til margs konar þjónustu, svo sem reksturs leikskóla.

Frá upphafi hafa staðið deilur um tilvist fríríkisins og yfirvöld í Danmörku hafa gert ítrekaðar tilraunir til að loka því. Oftsinnis hafa jarðýtur verið um það bil að ráðast til atlögu við að valta hús niður til grunna, en hafa hingað til alltaf verið stöðvaðar á síðustu stundu. Í gegnum tíðina hefur fríríkið líka öðlast eins konar hefðarrétt í hugum margra Dana. Um þessar mundir standa yfir aðgerðir danskra stjórnvalda sem vilja uppræta kannabissöluna í Kristjaníu og reisa nýtískulegri hús í stað þeirra gömlu.

Stjórnkerfi Kristjaníu er flatt og byggir á svokölluðu íbúalýðræði. Ekki er um eiginlega bæjarstjórn að ræða en íbúaráð Kristjaníu, þar sem allir íbúar hafa sama vægi, er æðsta ráð svæðisins. Það kemur reglulega saman og tekur fyrir ýmis mál er varðar Kristjaníu. Á íbúaráðsfundum er forðast að greiða atkvæði til að knýja mál til lykta heldur er leitast við að ná fram einhljóða samþykki allra. Sú aðferð getur verið æði tímafrek, svo til að ná fram skilvirkari stjórnun taka smærri einingar að sér að sjá um ýmiss konar minni málefni á sams konar grunni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Myndir

...